13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (2615)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða efni þessarar till. að sinni, a.m.k. ekki neitt að ráði, — það gefst væntanlega tilefni til þess síðar, ef svo sýnist, — heldur vildi ég aðeins víkja að meðferð málsins nokkuð.

Að vísu skal ég játa það, að þegar ég las þessa till., kom mér í hug spurning, sem ég hef heyrt að einn embættismaður, yfirvald hér á Íslandi, hafi borið upp við aðstoðarmann sinn í vandasömu máli, en hún var svona: „Er þetta hægt, Matthías?“ Ég efa sem sé ofurlítið, þegar málið er nánar athugað, hversu æskilegt sem það kynni nú að vera, að þetta, sem hér er farið fram á, sé hægt, að svo stöddu að minnsta kosti.

Ég sé ekki, að það þýði að taka dæmi af Tryggva Þórhallssyni forsrh. í þessu efni. Það voru allt aðrir tímar, en nú eru, þegar Tryggvi Þórhallsson var forsrh., m.a. hafði Ísland þá ekki enn tekið utanríkismálin í sínar hendur, og það var miklu minna um opinberar heimsóknir þá, en nú er orðið. Og svo er annað, Ég efast alveg um, að Tryggvi Þórhallsson hafi nokkurn tíma haldið opinbera veizlu í þeim tilgangi, sem opinberar veizlur eru nú taldar að vera, nema þá ef telja skyldi, að hann var talinn að standa fyrir eða ríkisstj. var talin að standa fyrir einni máltíðinni á alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Ráðherrabústaðurinn var þá ráðherrabústaður, þegar Tryggvi Þórhallsson var forsrh.

Forsætisráðherrarnir og ráðherrar Íslands á undan þeim, meðan einn var ráðherra, bjuggu í þessum bústað. Það var þeirra heimili. Nú er það alkunnugt mál, að Tryggvi Þórhallsson var bindindismaður og neytti aldrei áfengs drykkjar, hvorki fyrr né síðar. Ég hygg nú, að enginn óvitlaus maður ætlist til þess af bindindismanni, að hann veiti áfengi heima á sínu heimili. Tryggvi Þórhallsson hafði oft boð heima hjá sér á sínu heimili, m.a. fyrir allt Alþingi. Það var nú siður og það fram yfir hans daga, að slík boð voru haldin fyrir allt Alþingi, og vitanlega var þar aldrei vín, sem ekki var að vænta, þar sem hann var alger bindindismaður.

Hvað snertir Þingvelli 1930, þá er það að segja, að ég veit nú ekki, hvort beinlínis er hægt að tala um veizlur þar nema eina. Alþingismenn og útlendir gestir voru í föstu fæði í Valhöll á Þingvöllum, meðan á hátíðinni stóð. Og það mun hafa verið svo að vísu, að talið var, að forsrh. eða ríkisstj. byði í eina máltíðina, og þar var að sjálfsögðu ekki áfengi. Mig minnir nú, að við þessar máltíðir væri ekki áfengi heldur í hin skiptin þangað til í lokin. Þá var haldin veizla í Valhöll á Þingvöllum, miklu víðtækari, en þessar máltíðir höfðu verið áður. Þá var vín haft þar um hönd. Tryggvi Þórhallsson stóð að sjálfsögðu ekki fyrir því, a.m.k. ekki sérstaklega, en á kostnað ríkisins var það. Þetta vín, sem þar var haft um hönd, var að vísu ákaflega meinlaust, það var eingöngu hvítvín.

Ég held það sé gagnslaust að þessu leyti að taka Tryggva Þórhallsson til dæmis um þetta. Ef hæstv. ráðherrar væru bindindismenn, þá vitanlega horfði allt öðruvísi við um þá. Það ætlaðist enginn a.m.k. til, að þeir hefðu vínveitingar heima á sínum heimilum, ef þeir væru bindindismenn. Nú, kannske mönnum sýnist að gera það að skilyrði fyrir ráðherradómi, að menn séu bindindismenn. En ég veit nú ekki, hvort það hefði á öllum tímum verið heppilegt. Ef Danir t.d. hefðu sýnt þann drengskap og það frjálslyndi, þegar stjórnarskráin kom 1874, að skipa Íslandsráðherra samkv, óskum íslenzku þjóðarinnar og Alþingis, þá hefði það vitanlega orðið Jón Sigurðsson. Ja, hann var ekki bindindismaður, þó að hann væri ekki drykkjumaður. Það er alkunna. Fyrsti innlendi ráðherrann var allt annað en bindindismaður, eins og allir vita og kvæði hans bera vott um. Ég veit ekki, hvort íslenzka þjóðin hefði verið komin lengra áleiðis, þó að sá maður hefði verið útilokaður frá því að verða ráðherra, Ég efast um það.

Hv. 1. flm. þessarar till. hélt mjög góða ræðu um skaðsemi áfengis og hversu gott það væri að vera laus við það. Ég gat áðan um spurningu, sem hefði vaknað í mínum huga, þegar ég Ias þessa till., og kem síðar að því. En það vaknaði líka önnur spurning í mínum huga, þegar ég las þessa tillögu: Er nokkurt gagn að þessu? Er nokkurt gagn að tillögunni, eins og hún liggur fyrir? Ég vil leyfa mér að lesa tillöguna, og hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar, að áfengir drykkir skuli ekki veittir á kostnað ríkisins eða ríkisstofnana.“

En nú er orðinn mikill siður að halda þessar opinberu veizlur á hótelum, sem hafa vínveitingaleyfi. Ég tel alveg vist, að það gilti alveg eins slíkt leyfi þau kvöld, sem opinber veizla væri, svo að gestirnir gætu sjálfir keypt sér áfengi. Væri nokkuð unnið í bindindisátt með því? Yfirleitt er það nú svo, að það er frekar þeim mönnum boðið í opinberar veizlur, sem hafa ráð á því að fá sér glas og kaupa það, svo að ég er ekki víss um, að drykkjuskapur minnkaði neitt, þó að þessi till. yrði samþykkt, eins og hún liggur fyrir. Ég held, að það yrði þá að fylgja með að svipta þessi veitingahús rétti til vínveitinga, a.m.k. þau skipti, sem opinber veizla er haldin á þeirra vegum, ef það ætti að ná því takmarki, sem hv. flm, telja sig stefna að.

Það var af hv. 1. flm. og hefur verið í blöðum vitnað í það, að ýmsir þjóðhöfðingjar hafi skuldbundið sig til þess að hafa ekki vín um hönd í veizlum, sem væru haldnar á þeirra ábyrgð. Flestir af þessum þjóðhöfðingjum, sem ég hef nú séð nefnda í þessu sambandi eru Múhameðstrúarmenn, og þeim er bannað í Kóraninum að neyta áfengis og veita það. En þeim er aftur leyfður annar munaður, sem er bannaður hér á Vesturlöndum, Ég veit ekki, hvort menn vilja skipta á því. A.m.k. býst ég nú varla við, þó að þessi till. vafalaust hafi mikið fylgi meðal blessaðs kvenfólksins, að það mundi samþykkja skipti á þessu, svo að ég veit ekki, hvort það er nú beinlínis rétt að taka þjóðhöfðingja Múhameðstrúarmanna til fyrirmyndar í mannasiðum. Og það er nú töluvert skrýtið um suma aðra, sem þarna eru nefndir og hv. flm. nefndi. Það má vel vera, að Einar Gerhardsen sé bindindismaður. Ég hef ekki séð hann drekka áfengi. En ég hef verið í veizlu undir hans forsæti, þar sem veitt var áfengi. Og ég held, að margir viti það, þó að það sé nú sjálfsagt rétt að tala lítið um erlenda þjóðhöfðingja, að það er veitt áfengi á vegum Svíakonungs, þó að alkunna sé, að hann er bindindismaður. En það kann að vera, að það séu einhverjir þeir siðir þar og reglur, að hann taki ekki ákvörðun um það sjálfur, heldur aðrir fyrir hans hönd. Ég skal játa, að ég kann lítið í hirðsiðum og því, hvaða tillit konungar verða að taka.

En satt að segja, þó að mér hafi nú orðið það á að minnast aðeins á það, sem fram kom í ræðu hv. flm. og líka í grg., þá var það í raun og veru ekki till. sjálf, sem ég ætlaði að tala um, heldur, eins og ég sagði í upphafi, meðferð málsins, hvernig með skyldi fara.

Þessi till., ef samþykkt yrði, hlyti t.d. að taka til íslenzkra sendiráða í útlöndum, því að þar eru auðvitað áfengir drykkir eins og aðrar veitingar veittar á kostnað íslenzka ríkisins. Einnig vitanlega er það svo, að þessar opinberu veizlur eru nú einkum haldnar í tilefni af komu ýmissa háttsettra útlendinga hingað, Mér virðist það því vera svo með þessa till., að hún sé a. m. k. ekki síður utanríkismál en það að gefa Norðmönnum styttu af Ingólfi Arnarsyni, því að til þess að gefa Norðmönnum þessa styttu hygg ég að þyrfti enga samninga við norsku stjórnina. Ég hygg, að Norðmenn mundu bara þakka fyrir styttuna og þiggja hana alveg vafningalaust. En það kynni að hafa áhrif á umgengni íslenzkra fyrirsvarsmanna og ábyrgra útlendinga, ef þessi till. yrði samþykkt. Hún kynni að verða til góðs, eins og hv. flm. sjálfsagt trúa, að umgengnin batnaði við það, og það kynni líka að koma snurða á þráðinn einhver út af þessu. Ég gæti t.d. trúað, eftir því sem sagt er um suma ráðamenn í einu okkar stærsta viðskiptalandi, að það þætti dálítið lélegt, ef sendiherra Íslands í Moskvu hefði ekki dropa. Það er sagt, að einn helzti ráðamaður þar þiggi fyllilega að bragða vín, og er hann ekki verri maður fyrir það.

Vegna þess arna að þetta í raun og veru kemur aðallega við umgengni Íslendinga og útlendra sendimanna og íslenzkra sendimanna og erlendra stjórnarvalda, þá finnst mér nú ráð, úr því að till. um styttu Ingólfs Arnarsonar var vísað til utanrmn., að þessari till. sé vísað það líka, en ekki til allshn., og ég geri það að till. minni. Og það var í sjálfu sér eina erindi mitt hingað í ræðustólinn, þó að ég gerði nú lítils háttar athugasemdir að auki við það, sem fram hefur komið, ekki tillöguna í sjálfu sér svo sem neitt, því að ég býst við, að flestir Íslendingar geti sætt sig við það, að það sé ekki haft áfengi í opinberum veizlum. Þeir hafa nóg ráð flestir til þess að fá sér áfengi, þeir sem það vilja, og mundu fá sér áfengi í opinberum veizlum líka á eigin kostnað, ef veizlurnar yrðu á annað borð haldnar á þeim hótelum, sem vínveitingaleyfi hafa, og ég veit ekki, hvar annars staðar ætti að halda þær, stærri veizlur.

Ég orðlengi þetta ekki frekar, en geri þessa till., sem ég nefndi.