17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

73. mál, kosningar til Alþingis

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það má segja um hæstv. fjmrh., að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Ég hef ekki nýlega séð hann jafnheitan og hann var núna, þegar hann talaði um orðið valdbeitingu, sem hv. 1. þm, Reykv, (BBen) hafði um það frv., sem hér liggur fyrir.

Hann segir: Er það valdníðsla að leyfa mönnum ekki að standa inni í kjörklefanum hjá kjósendunum og sjá, hvernig þeir kjósa? En ég vil spyrja: Hvers vegna má enginn vita um það, hverjir hafi kosið. Hvað er það, sem er verið að reyna að dylja, sem enginn má vita? (Gripið fram í: Hverjum kemur það við?) Hverjum kemur það við? Ja, þá má segja það. En ég vil þá spyrja hv. stjórnarmenn, hvernig þeir ætli sér að koma þessu í framkvæmd. Í 4. gr. segir, að það sé nýmæli, að það sé nýmæli í lögum, að haldið sé hlífiskildi yfir einkamáli kjósandans, og það sé jafnmikið einkamál hans, hvort hann kýs, eins og hvernig hann kýs. En hvernig á að fara að því að koma í veg fyrir það, að nokkur fái að vita, hverjir koma á kjörstað? Hvernig á þá að framkvæma kosninguna? Ef kjósandi sést ganga inn á kjörstað, gerir hann það varla nema í einu augnamiði, sem sé að kjósa? Mundi ekki sá, sem stendur þar og horfir á hann fara inn, vita, að þessi maður er að fara inn að kjósa? Og þegar hann kemur út, þá hefur hann kosið.

Ég sé ekki, að 4. gr. komi í veg fyrir þetta, því að enn þá er ekki saklausum mönnum bannað að standa nálægt kjörstaðnum eða horfa á þá, sem inn fara.

En úr því að hæstv. fjmrh. er nú að leggja síðustu hönd á þær breytingar á þessu frv., sem hann á nú að öllum líkindum mestan þáttinn í, mundi ég geta kennt honum ráð til þess að koma einni tilhlýðilegri breytingu í sambandi við 4. gr. Ef menn mega ekki sjá, hverjir fara á kjörstað, þá er varla hægt að hindra það nema með því að fyrirskipa, að allir séu grímuklæddir, sem koma á kjörstaðinn. Það er alveg sýnilegt, að þess þarf með, ef þeir eiga ekki að þekkjast. Annars getur hver maður séð, hverjir það eru, sem hafa kosið, og hvar er þá leyndin? Ég sé ekki, að kjósandinn geti að öðrum kosti notið þeirrar leyndar, sem 4. gr. ætlast til og allt þetta frv. virðist byggjast á, þó að hv. stjórnarflokkar hafi ekki enn þá viljað viðurkenna það, sem hv. 1. þm. Reykv. bar fram hér í sinni ræðu áðan, að meginþungi þessa frv. er það, hvort á að koma í veg fyrir, að hægt sé að greiða fyrir kosningunni. Það er verið að koma í veg fyrir það með því, að enginn megi vita, hverjir hafi kosið og hverjir hafi ekki kosið.

Það hefur verið mikið rætt um þetta frv. innan þings og utan og ekki sízt utan þings, því að segja má, að allur almenningur furði sig á þeirri valdníðslu, sem hér kemur fram, — valdníðslu, sem notuð er í pólitískum tilgangi. Stjórnarflokkarnir hafa undanfarið verið að leita að hálmstrái til þess að fljóta á í kosningunum. Á milli þeirra hafa farið miklar bréfaskriftir til þess að fá úr því skorið, hvort þeir geti staðið allir saman gegn Sjálfstfl., vegna þess að þá mundu þeir hafa einhverja litla von til þess að geta gengið með sigur af hólmi. Þetta gekk ekki. En þeir hafa getað sameinazt um þetta frv., um það að synja mönnum um vitneskju, hverjir hafa kosið, til þess að ekki sé hægt að greiða fyrir kosningu þeirra, sem eftir eiga að kjósa, m.ö.o., eins og hæstv. fjmrh. hefur látið sér um munn fara, að greiða ekki fyrir því, að kosningaapparat Sjálfstfl. geti unnið á kjördegi. Þar liggur hundurinn grafinn. (Fjmrh.: Ég hef aldrei sagt þetta, þetta er ósatt hjá þm. Það er gallinn á því.)

Eins og margoft hefur verið tekið fram, er þetta frv. eitthvert mesta flaustursverk, sem lagt hefur verið fyrir þingið. Flutningsmenn þess hafa orðið að viðurkenna ýmis atriði, sem sjálfstæðismenn hafa bent á, þeir hafa orðið að viðurkenna, að þessum atriðum þurfi að breyta. En hitt er svo dálítið einkennilegt, hvers vegna þurfti að flaustra þessu frv. svona mikið. Hvers vegna þurfti að flýta sér svo mikið að semja þetta frv., úr því að n. hafði þegar verið sett til þess að endurskoða kosningalögin? Hvers vegna þurfti að flýta sér svo mikið, að frv. gæti ekki verið frambærilegt, þegar það var lagt fram í þinginu, sem það var ekki? Það var ekki frambærilegt. Þetta hafa greindari menn flokkanna séð, og þess vegna hafa þeir orðið að breyta því. En hvers vegna er verið að flýta þessu? Það er til þess, að hægt sé að samþykkja frv., áður en bæjarstjórnarkosningarnar fara fram, eða réttara sagt, áður en þingið fer heim nú, vegna þess að það kemur ekki saman fyrr en eftir kosningarnar.

Frv. hefur verið breytt, að vísu ekki í mjög veigamiklum atriðum, en því hefur verið breytt í atriðum, sem voru næsta hlægileg í byrjun, þegar frv. var sett fram, eins og það, að nú er numið burt bannið um að skrifa hjá sér, hverjir kjósi. Þeir hefðu mátt kannske taka með sér stálband og taka nöfnin á það. Enn fremur það, eins og margoft hefur verið tekið fram, að menn máttu ekki taka með sér á kjörfund kjörskrá eða nokkra aðra skrá, eins og 1. þm. Reykv. sagði áðan, að þeir mættu ekki einu sinni í sakleysi taka með sér hurðarskrá í vasann. Í 5. gr. stendur, að ekki megi hafa uppi flokksmerki, merki lista eða önnur auðkenni á sjálfum kjörstaðnum. Þarna er ákvæði, sem er bókstaflega óframkvæmanlegt, enda sáu menn það strax og farið var að athuga þetta, því að þá hefði t.d. ekki nokkur bifreið mátt koma nálægt kjörstaðnum eða keyra um nærliggjandi götur, ef hún hefði nokkur einkenni. Það varð að taka af þeim númer og nafn, kannske ýmislegt fleira. Nú, að ég tali ekki um 8. gr., sem var kippt fljótt út, um það, ef maður safnar saman upplýsingum eða gefur öðrum mönnum upplýsingar um, hver hefur kosið. Þetta hefur verið tekið út úr frv., eins og í raun og veru við var að búast.

En hvernig er þá frv., þegar það kemur frá Ed.? Í staðinn fyrir, að sagt er í frv. óbreyttu, að ekki megi taka kjörskrá eða nokkra aðra skrá, þá stendur, að ekki megi hafa meðferðis á kjörfund kjörskrá eða aðra slíka skrá, Hvað er „önnur slík“ skrá? Er það t.d. símaskrá, þar sem nöfn eru á fjölda borgara, og svo gæti kannske einhver notað símaskrána til þess að krossa við þá borgara, sem í skránni eru og kjósa?

Enn fremur stendur svo í 4. gr., að kjörstjórn skuli hafa eftirlit með, að ákvæði þessu sé fullnægt og að frambjóðendur eða umboðsmenn þeirra hafist ekki annað að á kjörfundi, en fylgjast með, að kosning fari fram lögum samkvæmt. Ja, hvað þýðir það, að menn megi ekki hafast annað að á kjörfundi, en sjá um, að kosningin fari fram samkvæmt lögum? Mega menn t.d. taka í nefið á kjörfundi? Er það ekki brot á lögunum? Þá hafast þeir eitthvað annað að, en aðeins það að sjá um, að kosning fari fram lögum samkvæmt.

Svo kemur þessi margumtalaða 6. gr., sem hæstv. fjmrh. hefur nú komið með breytingu á, enda séð sitt óvænna að líkindum. En ég verð að segja það, að þrátt fyrir þessa breytingu ráðh. er greinin næsta óljós. Ég vil nú spyrja: Hvað nær þetta ákvæði langt, ef þessu verður nú breytt eins og ráðh. vill, að ekki megi fara fram það, sem tiltekið er í gr., í næsta nágrenni, í staðinn fyrir að það megi ekki fara fram í aðliggjandi götum? Mega þeir t.d., sem leiðbeina kjósendum, en það er nú talið nauðsynlegt að hafa menn sem leiðbeina kjósendum við kjörstað, hafa nokkurt einkenni? Ef svo er ekki, hvernig eiga kjósendur þá að vita, hverjir eru til að leiðbeina þeim? Ég verð að segja það, að í hvert skipti sem ég hef komið á kjörstað, er þar fjöldi fólks, sérstaklega eldra fólk, sem hefur þurft á miklum leiðbeiningum að halda, einmitt inni í kjörstöðunum hér í Reykjavík, þar sem um margar kjördeildir er að ræða. Samkvæmt þessum lögum mega ekki leiðbeinendur á kjörstað hafa nein merki, sem geta gefið til kynna, að þeir leiðbeini kjósendum. Það er kannske hættulegt, að svo sé, því að bæði komast þeir að því, hverjir eru að kjósa, og það má ekki, og svo kannske hyggja hv. stjórnarflokkar, að með því mundu vera höfð of mikil áhrif á kjósandann.

Þá kem ég að því, sem hefur verið mjög umdeilt og svo virðist sem till. hæstv. ráðh. byggist á, en það er, hvort þetta ákvæði laganna nær til næsta nágrennis, til kosningaskrifstofa stjórnarflokkanna, framsfl., Alþfl. og kommúnistafl.? Framsfl. fær vafalaust í mjög náinni framtíð skrifstofu mjög nálægt aðalkjörstaðnum í Reykjavík. Kommúnistaflokkurinn hefur sína aðalbækistöð hinum megin við Tjörnina. Það hlýtur að teljast til næsta nágrennis. Alþfl. er við hliðina á kjörstaðnum, í Iðnó. Ég held, að það væri mjög heppilegt fyrir framtíðina, ef einhvern tíma yrðu deilur um þetta mál, að það kæmi greinilega fram í umr., hvort hv. flm. telja, að þessir staðir komi undir það ákvæði laganna að vera í næsta nágrenni við kjörstaðinn. Ef það dæmist svo, þá þýddi þetta, að þeir yrðu að flytja sig burt úr sínum venjulegu stöðum, sem þeir nota við kosningar.

Það er náttúrlega öllum bannað að hafa nokkur einkenni á kosningadaginn í þessu „næsta nágrenni“ kjörstaðarins. En hvað mundi nú verða sagt, ef einhver væri með íslenzkan fána í hnappagatinu? Yrði hann sektaður fyrir brot á helgi kjörstaðarins? Eða mundi verða álitið, að hann væri að smeygja inn merki einhvers flokks, því að það hefur tíðkazt hér á kosningadaginn, að sumir flokkar hafa notað íslenzka fánann á bifreiðum sínum? Ég held, að fleiri en einn flokkur hafi notað slaufu úr fánalitunum, sem þeir menn hafa borið, er hafa verið að vinna fyrir flokkinn.

Þó finnst mér nú, að 6. gr. kóróni þetta að verulegu leyti. Það kann vel að vera, að ekki sé ætlazt til þess, að framkvæmdin verði eins og tekið er fram í lögunum. En ekki verður annað skilið, en að kjósandinn verði að þola mjög nákvæma yfirheyrslu, hvers vegna hann sé að fara úr bænum, í hvaða erindum hann sé að fara og hvar hann verði á þeirri stundu, sem kosning fer fram. Ég sé ekki, að nokkur nauðsyn sé að hafa slíkar aðferðir við utankjörstaðarkosningu eða gera kjósendum hana erfiða á nokkurn hátt. Það hefur ekki sýnt sig undanfarin ár, svo að ég viti til, að misnotað hafi verið að nokkru leyti það frelsi, sem menn hafa haft við utankjörstaðarkosningu.

Þessi ákvæði laganna eru þess vegna öll þýðingarlaus. Þessi ákvæði hafa ekkert að segja. En þeim er hrúgað upp til þess að fela eina ástæðu, þeim er hrúgað upp til þess, að það komi ekki berlega í ljós, hvaða ástæða felst á bak við frv. En hún er sú, eins og margoft er búið að taka fram, að synja um upplýsingarnar um það, hverjir hafi kosið. En þetta er gert í einu augnamiði og einu aðeins. Það er til þess, að Sjálfstfl., sem er stærsti flokkurinn í Reykjavík og hefur bezt skipulagða starfsemi, geti ekki greitt fyrir því að koma kjósendum á kjörstað. Það er þungamiðja frv. Enginn má vita, hver hefur kosið, til þess að ekki sé hægt að senda eftir þeim, sem eftir eiga að kjósa, eða greiða fyrir þeim á einhvern hátt. Með þessu ætla stjórnarflokkarnir — og þeir hafa alls ekki farið dult með það — að brjóta niður þá skipulagningu, sem Sjálfstfl. hefur í Reykjavík,

Orðið „friður“ er mikið misnotað nú á tímum. Stjórnarflokkarnir segjast gera þetta til þess að friða kjördaginn. Ég geri ekki ráð fyrir því, að allur almenningur taki slíka yfirlýsingu alvarlega. Þegar þeir tala um þetta mál hér á þinginu, ljómar andlit þeirra af helgisvip yfir þeirri friðarviðleitni, sem þeir þykjast sýna. En þegar þeir skrifa, eru pennar þeirra fullir af hræsni, því að hræsni er þetta og ekkert annað, að verið sé að friða kjördaginn með þessum ráðstöfunum. Ég mundi frekar segja, að verið sé að gera kjördaginn friðlausan með þessum ráðstöfunum.

Einn mætur framsóknarþingmaður í Ed. vildi sanna þessa friðarsókn með sögu, er hann sagði af atviki, sem kom fyrir í kosningum hér í Reykjavík og hann var sjálfur sjónarvottur að. Hann sagðist hafa verið í húsi, þar sem ein kona var, er ekki hafði kosið. Og meðan hann stendur við, koma menn frá þrem flokkum til þess að reyna að fá konuna til að kjósa. Hún stóðst nú að vísu áhlaupið, en hann segir: Þarna sjáið þið, hvort ekki er nauðsyn að friða kjördaginn. — Ég vil spyrja: Verður þetta hindrað með þessum lögum, þessu frv., sem hér liggur fyrir? Nei, það verður ekki hindrað. Þessi lög reka flokkana inn á heimilin. Þau reka flokkana til þess að afla sér upplýsinga um það, hvort menn hafa kosið. Eina leiðin, sem þeir hafa, úr því að búið er að nema burt heimildina um að mega fylgjast með, hverjir hafa kosið, er að fara á heimilin og afla sér upplýsinga um, hverjir eigi eftir að kjósa. Halda menn, að þetta verði minna ónæði en hitt, að sent sé eftir fólki, sem hefur ekki kosið, heldur en þurfa að afla upplýsinga hjá hverjum kjósanda, hvort hann hafi kosið eða ekki?

Hvar er þá friðun kjördagsins, sem ætlazt er til að náð verði með þessu frv., ef ákvæðin verða þess valdandi, að slíkir starfshættir verði upp teknir?

Ef eðlilegt hefði verið að breyta kosningalögunum og svo mikil þörf eins og flokkarnir vilja nú vera láta, þá væri fyrir löngu búið að breyta lögunum. En hvað liggur svo á, að það sé gert einmitt nú? Er slík vá fyrir dyrum nú í kosningum, sem aldrei hefur verið fyrr? Eða eru það kosningarnar í Reykjavík í janúarmánuði, sem frv. er ætlað að hafa áhrif á?

Hv. 1. þm. Reykv. og ég höfum komið fram með rökstudda dagskrá í minnihlutaáliti okkar. Þar leggjum við til, að frv. verði ekki afgreitt, fyrr en mþn. fái tækifæri til að fjalla um það og segja sitt álit á því. En af þeim umræðum, sem hér hafa nú farið fram, virðist mega ráða það, að hv. stjórnarflokkum er ekkert vel við það að láta málið fara til n., því að ef þeir hefðu trúað því, að n. hefði afgr. málið á þann hátt, sem það liggur nú fyrir, þá hefðu þeir ekki hikað við að senda henni það til þess að hafa n. á bak við sig, En þeir gerðu það ekki, vegna þess að þeir voru hræddir um, að heiðarlegir menn gætu ekki fallizt á frv. eins og þetta.