27.11.1957
Sameinað þing: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (2621)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. hefur nú loks lokið þeirri ræðu, sem hann hóf hér fyrir hálfum mánuði og átti víst að vera svar til mín við þeim fáu orðum, sem ég sagði þá á fundi. Honum hefur þótt mikils við þurfa, því að mér telst svo til, að hann hafi notað svona fimmfaldan til sexfaldan ræðutíma á við mig til svarsins. Það lakasta er þó, að hann svaraði að mjög litlu leyti því, sem ég sagði, heldur gerði hann mér upp orð og hafði rangt eftir önnur og sneri út úr þeim, Hann bjó m.ö.o. til ræðu, sem hann eignaði mér, og svaraði svo henni. Ég býst við, að það hafi verið sú útgáfa af ræðunni, útgáfa Péturs Ottesens, sem ræðumaður einn í gærkvöld á borgarafundi, sem hv. þm. kallar, hafði í huga, þegar hann vék að mér, og ég hef frétt um. Um þetta geta allir þeir hv. þm., sem hlustuðu á báðar ræðurnar, borið vitni. Og það þarf raunar ekki til. Sem betur fer eru ræður nú teknar upp á vélrænan hátt og koma orðréttar og eru lagðar fram á lestrarsal Alþingis. Það mun því sýna sig á sínum tíma, hvað hv. þm. vitnaði heiðarlega í mína ræðu, og sú ræða liggur nú þegar frammi á lestrarsal. Ég skora á hann að sækja hana og finna þeim orðum stað úr ræðu minni, sem hann vitnaði til, sumum þeirra að minnsta kosti.

Um beina rangfærslu á orðum mínum skal

ég einnig nefna dæmi. Þm. hafði eftir mér, bæði við fyrri hluta umræðunnar og eins nú, að ómögulegt væri að komast af án þess að veita útlendingum vin. Það eina, sem ég sagði um þetta, var, að þessi till. hlyti að taka til sendiráða Íslands og hún kynni að hafa áhrif á umgengni íslenzkra fyrirsvarsmanna og ábyrgra útlendinga, ef hún yrði samþykkt. Ég sagði meira að segja, að till. kynni að verða til góðs í þessu efni, þó að ég efaðist um, að það yrði vel séð í einu tilteknu landi, að hætt yrði að veita þar vín. Er þetta það sama sem að segja, að ómögulegt sé að komast af án þess að veita útlendingum vín? Hitt er annað mál, að ég taldi, að þessa hlið málsins þyrfti einnig að athuga. Og á því byggði ég till. mína um það að vísa málinu til utanrmn.

Hv. þm, Borgf. fór að maklegleikum lofsamlegum orðum um Tryggva heitinn Þórhallsson. Ég vissi ekki vel, í hvaða sambandi það var, en mér virtist næstum eins og hann teldi, að ég hefði eitthvað verið að hallmæla honum. Hafi svo verið, þá mótmæli ég því alveg. Við munum báðir, við hv. þm. Borgf., hafa verið vinir Tryggva Þórhallssonar og viljum hvorugur sjálfsagt segja neitt honum til miska. En það var allt rétt, sem ég sagði um hann. Ég tók það fram, að hann var alger bindindismaður. Ég tók það líka fram, að hann bjó í svokölluðum ráðherrabústað. Það var hans heimili. Hann bjó þar með konu sinni og börnum. Mér er ekki kunnugt um, að Tryggvi heitinn Þórhallsson héldi nokkrar veizlur á kostnað ríkisins, nema ef telja skyldi, eins og ég sagði í ræðu minni um daginn, að það mun hafa verið svo talið, að eitt borðhaldið á Þingvöllum 1930 væri á hans vegum. Veizlur þær, sem hann hélt, voru á hans eigin kostnað, eða ekki er mér kunnugt um annað. En á hinn bóginn hafði hann risnufé, ákveðna upphæð úr ríkissjóði, Og mér er ekki kunnugt um, að ráðherrar yfirleitt og ríkisstj. hafi hér áður fyrr haldið veizlur á kostnað ríkissjóðs. Sá siður mun fyrst hafa komið upp eftir 1940. Ég fullyrði ekki alveg um það, en ég hygg, að sú ríkisstj., sem var hér skipuð af forseta 1942, hafi fyrst haldið veizlu á ríkisins kostnað. Þetta fullyrði ég ekki, en mér hefur virzt svo, eða ég varð ekki var við slíkar veizlur fyrr. Að sjálfsögðu hefur það verið eitthvað þó, þegar svo bar til, sem sjaldan var, að útlendir þjóðhöfðingjar komu hingað til lands, að þá hefur ríkið vitanlega kostað til þess, eins og 1907 og eins þegar Kristján X. konungur kom hér.

Hv, þm. Borgf. sagði, að ég hefði blandað saman Ingólfsstyttunni og þessari till. Vitanlega er þetta algerlega rangt. Ég lagði til, að þessari till. væri vísað til sömu n. og till. um það að gefa Norðmönnum Ingólfsstyttu var vísað. Og ég færði rök að því, að till. ætti þar heima, a.m.k. væri ástæða til að athuga víssa hlið þessa máls af utanrmn. Ég tel ekki, að þetta sé að blanda þessum tveim málum saman. Hver þingnefnd fær venjulega ýmis mál til meðferðar, sem ekki heyra saman beinlínis, ekki eru tengd hvert öðru.

Hv. flm. lagði til, að allshn, þingsins fengi þetta mál til meðferðar. Þegar þetta var lagt til, þá var nýbúið að vísa till allshn. till. snertandi jöfn laun karla og kvenna. Var það að blanda saman þessari till. og jöfnum launum karla og kvenna, þó að báðum væri vísað til allshn.? Ég sé það ekki. Hv. þm. kom að þessu líka í seinni hluta ræðu sinnar og sagði þá, að hann hefði aldrei vitað borna fram á Alþingi eins vanhugsaða og vitlausa tillögu og þetta, að vísa málinu til utanrmn., og það sæti sízt á forseta að bera fram slíka tillögu. Mig langar nú til að spyrja hann út af þessu: Hvernig greiddi hann atkv. um það að vísa till. um það að gefa Norðmönnum styttu af Ingólfi Arnarsyni? Er það meira utanríkismál, en þetta? Mér finnst líka, að það sé ekki í kot vísað að vísa máli til utanrmn. þingsins. Í öllum þingum, sem ég hef spurnir af, þykir það göfugasta nefnd þingsins og jafnan valdir í þá nefnd framámenn þinganna. Í þeirri utanrmn., sem nú situr á hinu háa Alþingi, ætla ég að eigi sæti tveir fyrrv. forsrh., fyrrverandi utanrrh. og hæstv. forseti sameinaðs Alþingis. Ég skil nú tæplega í, að hv. þm. vilji lýsa yfir beinu vantrausti á formann Sjálfstfl., sem á sæti í utanrmn. Það er vitanlega hreint vantraust á þessa nefnd og þá menn, sem í henni eiga sæti, ef það er eitthvert sérstakt hneyksli, að máli, sem óneitanlega snertir sendiráð Íslands í útlöndum og móttökur erlendra gesta, sé vísað til þessarar nefndar.

Ég efast ekkert um það, og það er alveg af fullri einlægni mælt: ég álít þessa nefnd bærasta um og færasta um að gefa þinginu ráð í þessu máli.

Mér skildist jafnvel hv. þm. telja þetta brot á þingsköpum. Ég skil ekki, hvað maðurinn meinar. Ég hélt, að hver þingmaður hefði leyfi til þess að stinga upp á, að máli væri vísað til þeirrar nefndar, sem hann telur heppilegast. Atkvæði skera svo úr um það, í hvaða nefnd málinu er vísað.

Hv, þm. sagði í fyrra hluta sinnar löngu ræðu, að ég hefði talað ósæmilega, og hann lét það álit í ljós, að ég mundi sem forseti Ed. víta þm. í Ed., ef hann léti sér um munn fara það, sem ég gerði hér, og hann krafðist þess, að forseti vítti mig. Ég skal nú taka það fram mér til ánægju, að það þarf yfirleitt ekki að víta efri deildar þingmenn, og í minni forsetatið, sem er nú að verða nokkuð mörg þing, hefur það aldrei komið fyrir mig, að ég hafi vítt þm., sem þar á sæti, enda þarf þess ekki, eins og ég sagði, því að ég verð ekki annars var en að allir þm. í Ed. tali prúðmannlega, Hv. þm. Borgf. rangfærði orð mín, eins og ég hef sýnt og get sannað með þeirri ræðu, sem nú liggur frammi á lestrarsal orðrétt. Hann gerði mér upp orð, sem ég hafði aldrei talað, og var þó nýbúinn að heyra ræðu mína og átti að vita betur. Er þetta prúðmannlegt?

Mér kemur ekki til hugar, herra forseti, að kalla hv. þm. vísvitandi ósannindamann, og það er ekki eingöngu vegna þess, að slík orð eru ekki þingleg, og ég býst við, að hæstv. forseti mundi víta mig, ef ég viðhefði þau, ég tel það víst, — það er ekki eingöngu af þessum ástæðum, heldur líka af því, að hv. þm. kemst í slíkt hugarástand, þegar þessi mál ber á góma, að ég er ekki viss um, að hann viti, hvað hann segir, og ég vík nánar að því síðar. En það er til annað verra en að kalla mann vísvitandi ósannindamann, ef hann er það, og það er að fara með vísvitandi ósannindi, t.d. að fara rangt með orð annarra, sem nýbúið er að hlusta á. Ég er því hræddur um, ef hv. þm, Borgf. ætti sæti í Ed. og héldi þar slíka ræðu sem hann hefur nú haldið í tvo daga, að jöfnu tilefni og hann hafði til þeirrar ræðu, að ég neyddist til að víta hann.

Kröfu hv. þm. Borgf. um að víta mig svaraði sá forseti, sem þá sat í forsetastólnum, hv. 6, landsk. þm., nokkuð loðið, að mér fannst. Hann neitaði að vísu að víta mig, en á þeim forsendum, að þingmaður Eyfirðinga hefði ekki á sérstaklega alvarlegan hátt farið út fyrir efni till. Ja, ég veit ekki, hvort þetta er fullkominn sýknudómur eða hálfgildings áfellisdómur, en ég vil fá að vita það og krefst að fá að vita það. Og ef það er áfellisdómur að einhverju leyti, þá vil ég, að þessi hv. þm., sem þá sat í forsetasæti, tilfæri þau orð, þar sem ég fór út fyrir efni málsins.

En hvað er efni málsins?

Þessi fyrri hluti umræðunnar skilst mér vera sama eðlis og 1. umr. um lagafrv. Þá má tala almennt um málin. Ég fullyrði, að ég talaði eingöngu um málið, sem fyrir lá, fyrst og fremst till. sjálfa, en þó lítið eitt, grg. hennar og ræðu 1. flm. hennar og svo til hvaða nefndar ætti að vísa málinu. Ég tel þetta allt saman leyfilegt og venjulegt. Og eins og ég sagði áðan, þá krefst ég að fá að heyra það, hvaða orð það voru í minni ræðu, sem fóru út fyrir þennan ramma, ef hæstv. forseti þáv. hefur meint orð sín svo, að ég hafi gert það.

Hv. þm, Borgf. sagði, að ég væri að gera málið að fíflskaparmáli, — sagði það í fyrra hluta ræðu sinnar.

Ég kannast ekki við, að ég hafi nokkuð gert til þess að gera það að fíflskaparmálum, og finni hann það þá í ræðu minni, sem nú liggur frammi. Ef málið er fíflskaparmál, hefur það verið það frá upphafi og ekki batnað við ræðu hv. þm, Borgf. Ástæðan til þess, að hv. þm. bar mér þetta á brýn, virtist vera það, að ég minntist á, að ýmsir þjóðhöfðingjar Múhameðstrúarmanna hefðu skrifað undir þetta fræga skjal eða skuldbindingu um það að veita ekki vín í veizlum sínum. Ja, ég hafði tilefni til að minnast á, hverjir hefðu undirskrifað þetta.

Hv. 1. flm. till. minntist á tvo þjóðhöfðingja, sem hefðu undirskrifað þetta skjal. (Gripið fram í: Hverjir voru þeir?) Það var Svíakonungur og Japanskeisari. (Gripið fram á: Eru þeir Múhameðstrúar?) Eru þeir? Nei. Ég var ekki búinn að tala út. Þeir eru ekki Múhameðstrúarmenn, a.m.k. ekki Svíakonungur. Ég veit nú ekki um hinn, hvaða trú hann hefur. Ja, hann er nú eða hefur til skamms tíma sjálfur verið guð meðal sinnar þjóðar. Ég veit ekki, hvort hann trúir á sjálfan sig. En það voru ýmsir þjóðhöfðingjar Múhameðstrúarmenn, sem skrifuðu undir skjalið. Ég vildi gefa þær upplýsingar í málinu. (PO: Hverjir voru það?) Ja, það var nú t.d. þessi nafnfrægi Saud, konungur í Saudi-Arabíu, ef ég man rétt, forseti Tyrklands, soldáninn í Marokkó, keisarinn í Persíu o.s.frv., — og þetta las ég allt í bindindisblaði, svo að ég þykist hafa allgóðar heimildir fyrir þessu. Og fleiri voru víst nefndir, þó að ég hafi það ekki á hraðbergi, því að ég hef ekki þetta blað með mér, sem ég las þetta í. Það var alveg fullt tilefni til þess að bæta við upplýsingar hv. 1. flm., að það væru fleiri þjóðhöfðingjar, en hann nefndi, sem hefðu skrifað undir þetta.

Ég heyri sagt, að maður á þessum svokallaða borgarafundi í gærkvöld hafi sagt, að ég hefði talið Eisenhower Bandaríkjaforseta Múhameðstrúarmann. Þingmenn geta borið um það, sem heyrðu ræðuna, hvort ég nefndi slíkt.

Ég skil ekki, hvers vegna hv. þm. Borgf. verður svona æstur út af því, þó að ég upplýsti, að nokkrir þjóðhöfðingjar Múhameðstrúarmanna væru fylgismenn hans í þessu máli. Þykir honum skömm að því? (PO: Nei, nei.) Mér finnst það alveg ástæðulaust að þykja nokkur skömm að því. Ég tel víst, að margir Múhameðstrúarmenn geti verið mætir menn. Sumir þeirra hafa auðvitað „harem“, því hefur hv. þm. Borgf. auðvitað andstyggð á. Er það þess vegna? En mér finnst mega taka vægt á því, þó að þeir geri þetta, því að þetta var nú einu sinni síður í þeirra löndum, og þetta er leyft í þeirra trúarbrögðum, og þó að hv. þm. Borgf. sé að sjálfsögðu siðsamur maður, þá hefur nú viljað brenna við, að jafnvel við, sem ekki erum Múhameðstrúarmenn, brjótum stundum — eða sumir okkar — það boðorð, sem bannar slíkt.

Mér finnst reyndar alveg óþarfi að fara að taka upp siði Múhameðstrúarmanna í einu eða öðru, en mér finnst alveg ástæðulaust líka að hata þá svo mikið, að það sé vítavert að nefna þá hér á Alþingi í sambandi við mál, sem þeir eru riðnir við. Ég skil ekki slíkt.

Hv. þm. Borgf. minntist á það, að ég hefði í æsku verið ungmennafélagi, og hann bjóst við því, að ungmennafélagar og þá einkum og sérstaklega norður í Eyjafirði hefðu orðið fyrir miklum vonbrigðum með mig. Ég skal ekkert segja um þetta. Það er ekki mitt að dæma um það, hverjir verða fyrir vonbrigðum um mig og hverjir ekki. En ég verð að segja það þó út af þessu, að ef mínir gömlu félagar í ungmennafélagsskapnum hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum af mér, þá lýsa þau vonbrigði sér töluvert einkennilega. Það er í fyrsta lagi það, að það voru einkum félagar mínir í ungmennafélagsskapnum, sem studdu mig mest og bezt, þegar ég í fyrstunni leitaði eftir kosningu sem þingmaður, og hafa jafnan stutt mig síðan, þó að skarð sé nú komið í hópinn, af því að mörg ár eru nú liðin síðan það var. En einkum er það þó mitt eigið ungmennafélag, sem lýsir vonbrigðum á ákaflega einkennilegan hátt, ef vonbrigðin eru þar fyrir hendi. Ja, ég kann nú ekki við að vera að tína það til, sem kynni að vera álitið að ég segði frá mér til frama, en ég held ég verði þó að geta þess í sambandi við þetta, að þegar ég enn var ungur maður og hafði lengi verið formaður míns gamla ungmennafélags, en treystist ekki til að inna þar mikil störf af hendi, sökum þess að þá var farið að fela mér sveitarstjórnarstörf og fleiri opinber störf, svo að ég baðst undan formannskosningu, þá kaus þetta ungmennafélag mig fyrir heiðursfélaga, og ég er það enn, þar með vitanlega leystur frá öllum skuldbindingum, en hef allan rétt engu að síður, og meira að segja: ég vinn enn með þessu ungmennafélagi að hugðarmáli, sem við höfum með höndum, og ég er ævinlega boðinn og velkominn til þess á samkomur eða fundi og nota það stundum, svo að vonbrigðin eru einkennileg, ef þau eru fyrir hendi.

Ég sé nú ekki mikla ástæðu til að svara síðari hluta af ræðu hv. þm. Borgf., því að hún var öll byggð á röngum forsendum. Þegar hann nú hóf að tala til mín, þá sagði hann, að ég hefði gert hvatvíslega tilraun til þess að hnekkja þessari till. Ég hef ekki gert nokkra tilraun til þess að hnekkja þessari till. Það er bara misskilningur og fjarstæða. (PO: Voru það þá meðmæli með henni?) Það voru svona hugleiðingar, og aðallega var það tillagan um, í hvaða nefnd ætti að vísa tillögunni. Ja, það voru a.m.k. engin mótmæli, og hv. þm. getur leitað í ræðunni, sem nú liggur fyrir eins og ég flutti hana, (PO: Ég man hana vel.) Ef hv, þm, man ræðuna vel, þá lýsir það honum ekki vel, hvernig hann fór með hana. Þá er hann ekki eins vandaður maður og ég þó hélt að hann væri, ef hann man hana vel. Ég held, að það sé óhugsandi. Ég hef alltaf álitið hann — og hef nú þekkt hann lengi — betri dreng en það, að hann túlkaði ræðu, sem hann myndi vel, á þann hátt, sem hann hefur túlkað mína ræðu, svo að ég trúi ekki þessu, að hann muni hana vel.

Hann minntist m.a. á það, að það hefði mælzt vel fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki vínveitingar 17. júní, þegar fólk kom í ráðherrabústaðinn, að mér skilst, til þess að samfagna ríkisstj. út af afmæli lýðveldisins og afmæli Jóns Sigurðssonar forseta. Ég er þeim mönnum, sem fagna þessu, alveg sammála. Mér finnst það hreinasti óþarfi, þegar slíkar almennar móttökur eru og mér skilst að hver megi koma, sem vill, að fara að hella áfengi í fólk þá. Þetta er allt annað en veizla, sem boðið er sérstaklega til.

Ég var áður búinn að svara því, sem hv. þm. talaði um utanríkisþjónustuna og hvað ég hefði sagt í því sambandi. Ég vil aðeins mótmæla því, að ég hafi verið að bera nokkurt drykkjuskaparorð í ræðu minni um daginn á nokkurn mann, hvorki ráðamann í Ráðstjórnarríkjunum né nokkurn annan. Ég sagðist hafa heyrt það og lesið það, að einn af mestu ráðamönnum þar hefði ekki á móti áfengi, og heimildin fyrir því er einkum Morgunblaðið, flokksblað hv. þm. Borgf. En að ég væri að bera drykkjuskaparorð með því, — ég tók einmitt fram, að ég teldi hann ekki verri mann fyrir það, þó að hann bragðaði vín.

Í síðari hluta ræðu sinnar fór hv. þm, Borgf. að tala um, að þessi till. hefði vakið mikla athygli úti um land og það hefðu komið margar áskoranir frá áfengisvarnanefndum um það að samþykkja hana og fleiri aðilum og svo hefði nú verið haldinn borgarafundur hér í Reykjavík í gærkvöld. Hvað skyldi hann hafa verið fjölmennur, og hvað eru margir kjósendur í Reykjavík, það væri gaman að fá þetta tvennt upplýst, hve mikill hluti reykvískra kjósenda hefði verið á þessum fundi. Það væri mjög fróðlegt. Það væri líka fróðlegt að vita það, hvað margir af þessum mönnum, sem hafa sent áskoranir, hafa komið í veizlur til ríkisstj. eða annarra opinberra aðila og drukkið þar áfengi. Það væri mjög fróðlegt.

En hv. þm, getur lesið upp svo margar áskoranir sem honum sýnist. Það hefur engin áhrif á mig. Ég hef nóga reynslu fyrir því, að það er hægt með einhliða áróðri að fá áskoranir um allt mögulegt, þarft og óþarft, og meira að segja, það hafa drifið að áskoranir oft og tíðum, sem hv. þm. Borgf. hefur ekki farið neitt eftir eða gert neitt með.

Við hv. þm. erum næstum jafngamlir,. Við vorum unglingar árið 1905, en þó komnir það til vits og ára, að við vissum, hvað fram fór. Þá skeði það, að ráðherra Íslands hafði náð samningum um það, að lagður yrði ritsimi til landsins og frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. Þetta hafði verið óskadraumur Íslendinga nokkuð lengi, og nú gat þessi draumur rætzt. Þá voru sendir menn um allar sveitir til þess að safna undirskriftum undir mótmæli á móti símanum, og hér var haldinn fundur í Reykjavík til að mótmæla símanum líka, og hann var víst miklu fjölmennari, en fundurinn í gærkvöld. Sá ráðherra, sem fyrir þessu máli stóð, bognaði ekkert fyrir þessum áskorunum, og símamálið gekk fram. Og hver mundi óska þess nú, að svo hefði ekki orðið? Ég held enginn. Og ég held, að menn hafi fljótlega á eftir áttað sig á því, að þetta var gott mál og þarft mál, og margir þeir, sem undir áskoranirnar skrifuðu og mótmælin, vildu fá síma heim til sín og sem flestar símastöðvar fljótt á eftir. Ég er ekkert að segja þetta til að mótmæla þeirri till., sem hér liggur fyrir, heldur bara til að sýna það, að þó að áróðursmenn fái með áróðri sendar áskoranir og leggi þær síðan fram sínu máli til stuðnings, þá met ég það ekki mjög mikils. Það er alltaf hægt að æsa upp fólk þannig. Ég er viss um, að ef menn legðu sig í það, þá mætti fá fjölda meðmæla með því, að þessi till. yrði felld. Ég er alveg sannfærður um það. Það mætti fá áskoranir, svo að þúsundum og tugþúsundum skipti, um það að fella till., ef menn vildu gera það, svo að þeir, sem fyrir þessu standa, geta sent nokkrar áskoranir enn, ef þeir hugsa sér að hafa áhrif á mig, a.m.k. þannig áhrif, að áskoranirnar marki nokkuð stefnu mína í þessu máli. En ég bið hv. þm, og aðra að taka eftir því, að ég hef ekki enn sagt neitt um það, hvernig ég endanlega greiði atkvæði um þetta mál, og ég hef ekki enn mótmælt till. á nokkurn hátt, þó að ég hafi mótmælt ýmsum fjarstæðum, sem hv. þm. Borgf. hefur borið hér fram, og þá sérstaklega því, sem hann hefur rangfært af því, sem ég sagði.

Í ræðu minni um daginn vék ég nokkuð að ræðu hv. 1. flm. till., hv. 1. landsk. þm., — og það er ólíku saman að jafna að minnast á hans ræðu eða ræðu hv, þm, Borgf., — og þó að ég véki aðeins að henni á dögunum, þá ætla ég að gera það aftur. Hv. þm. Borgf. sagði um þá ræðu, að hann hefði talað af fullri einlægni. Ég er því sammála, og ég get bætt því við, að sá hv. þm. talaði af fullkominni prúðmennsku, enda á hann sæti í hv. Ed. Og ræða hv. 1. landsk. þm. var að mörgu mjög eftirtektarverð. Honum mistókst að vísu að sýna fram á það, að þessi till. hefði raunhæfa þýðingu. Hins vegar gaf hann mjög athyglisverðar og ískyggilegar upplýsingar í sinni ræðu. Mér skildist á ræðu hans hann telja, að það væru meira en 2.000 drykkjusjúklingar í Reykjavík einni, eða a.m.k. sem væru meira og minna sjúkir af áfengisnautn. Hér í Reykjavík eru eitthvað rúmlega 60 þús. íbúar, fer nú líklega að nálgast meira 70 þús., en hann talaði líka um meira en 2000 sjúka menn í þessu efni. Mér virðist því hann segja með þessu, að hvorki meira né minna en 30. hver Reykvíkingur sé áfengissjúklingur eða a.m.k. meira eða minna bilaður af völdum áfengis. Nú er þessi hv. þm. læknir og fæst þar að auki við slík mál. Þess vegna verður að gera mjög mikið með það, sem hann segir um þetta efni. Og ég verð að segja það, að mér finnst, að ef þessar tölur eru réttar, þá verði að hefjast handa um ráðstafanir til þess að bæta ástandið. Hitt er svo annað mál, að ég hef ekki ýkja mikla trú á þessari till., sem fyrir liggur, að hún lækni það, og vík ég síðar að því. Væri óneitanlega mjög fróðlegt, að þessu fylgdi skilgreining á því, hvað er drykkjusjúklingur. En ef þetta er nú rétt, hvernig mundi þá ástandið vera í öðrum löndum? Eftir opinberum skýrslum drekka Norðmenn rúmlega tvöfalt á við Íslendinga, miðað við mannfjölda. Samkvæmt því og samkvæmt tölunum hér í Reykjavík ætti þá 15. hver Norðmaður að vera drykkjusjúklingur. Danir eru samkvæmt opinberum skýrslum, seinustu sem ég hef séð, taldir drekka um 21/2 sinnum meira en hver Íslendingur, miðað við mannfjölda. Samkvæmt því ætti 12.–13. hver maður í Danmörku að vera sjúkur á þennan hátt. Samkvæmt sömu skýrslum er talið, að Svíar drekki þrefalt á við Íslendinga, miðað við mannfjölda og áfengismagn, og það vildi þá segja sama sem, miðað við ástandið í Reykjavík, að 10. hver Svíi væri sjúkur á þennan hátt. En hvað er þó þetta, samanborið við þau ósköp, sem hljóta að eiga sér stað í Frakklandi, því að samkvæmt opinberum skýrslum þar er talið, að Frakkar drekki 17falt áfengi á við Íslendinga, miðað við mannfjölda, m.ö.o., að meiri hluti frönsku þjóðarinnar sé drykkjusjúklingar? Hvernig getur slík þjóð lifað? Og þó hjarir hún. Henni gengur að vísu illa að mynda stjórn, en hún hjarir. En það hryggilegasta er, að það mun vera ekki svo lítill hluti af ungu fólki, unglingar og jafnvel börn, sem eru komnir mjög afvega í þessum efnum, og ég hygg, að allir séu sammála um það, að eitthvað þyrfti að gera þessu fólki til bjargar. En ég er ákaflega hræddur um, að þessi till. hafi lítið að segja í því efni. Það var haft áfengi í opinberum veizlum, þegar við hv. þm. Borgf, vorum unglingar, en þá var þó ástandið þannig, að drykkjuskapur var a.m.k. ákaflega fátíður meðal ungra manna og þekktist alls ekki á meða] barna og unglinga eða kvenfólks, — alls ekki.

Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það, sagði hv. þm. Borgf. — Já, þetta er gamall málsháttur, ég veit það. En hverjir eru taldir höfðingjar nú á dögum? Ég held, að því miður sé það svo, að æskufólkið í landinu taki ekki aðalráðamenn þjóðfélagsins til fyrirmyndar nú á dögum, — því miður, — því að enginn þeirra er ofdrykkjumaður eða óknyttamaður á neinn hátt. Það er annað, sem unga fólkið hefur til fyrirmyndar og alvarlegra, og það eru kvikmyndahúsin. Það eru kvikmyndaleikararnir, sem eru fyrirmynd unga fólksins nú. Það hef ég margsinnis orðið var við. Á kvikmyndahúsunum kemur það oft fyrir, að þar er sýndur drykkjuskapur, ekki drykkjuskapur róna, sem liggja úti fullir undir hunda og manna fótum, ef svo má segja, heldur drykkjuskapur skrautbúins fólks í glæstum sölum. Þar er oft líka sýnt lauslæti og glæpir. Og áhrifin sýna sig. Ég er alveg sannfærður um, að það er ákaflega mikið kvikmyndunum að kenna, hvernig fer um æskuna nú, að hluti hennar hneigist til drykkjuskapar, annar hluti til óknytta og glæpa jafnvel. Og við þessu þarf að reisa skorður. Það kann vel að vera, að þetta sé góð till., sem hér liggur fyrir til umræðu, en ég held, að það hefði verið enn þarflegri till., ef fram hefði komið, að reisa strangari skorður, en nú eru við því, hvað sýna má í kvikmyndum.

Svo er auðvitað annað, sem kemur til greina og ekki átti sér stað, þegar við hv. þm. Borgf. vorum unglingar, og það er það, að nú hafa unglingarnir margir hverjir fullar hendur fjár, vinna kannske fyrir háu kaupi, en búa og borða hjá foreldrum sínum og borga ekkert fyrir sig. Það er ekki hollt unglingum.

Þessi mál eru alvarleg, Og ef menn vilja bjarga æskunni, þá er ég sannfærður um, að það er fyrst og fremst á þessu sviði, sem þarf að taka í taumana. En slík framkvæmd eða till. eins og hér liggur fyrir gæti kannske flotið með, en hún er ekki neitt aðalatriði í þessu efni. Það þarf að sýna uppeldismálunum meiri áhuga á Alþingi og meðal þjóðarinnar, en nú er gert, ekki kannske með því að fjölga skólum eða auka skólagöngu, heldur reyna allar leiðir til þess að verja æskuna óhollum áhrifum. Og þar tel ég fyrst og fremst strangt og það mjög strangt eftirlit með kvikmyndum. Fleira mætti auðvitað gera meira jákvætt, eins og að efla hollan félagsskap æskulýðs o.s.frv.

Ég veit ekki, hvort þessari till. yrði fylgt bókstaflega, þótt samþykkt yrði. Ætli það yrði ekki eitthvað farið í kringum hana, enda er nú til hæstaréttardómur um það, að þingsályktanir eru ekki bindandi? Það eru lög, sem binda bæði ríkisstj. og aðra þegna þjóðfélagsins.

Mér er spurn: Hvers vegna fluttu hv. flm. þessarar till. ekki heldur frv. til laga um breytingu á áfengislögunum, þar sem þetta ákvæði var þá tekið upp og kannske fleiri, sem þeir höfðu áhuga á? Auðvitað fylgja þeir í þessu efni þeim sið, sem nú er orðinn á Alþingi. Það er eins og þingmenn séu hættir að bera fram lagafrumvörp. Hér úir og grúir af þingsályktunum um það að skora á ríkisstj. að semja lög um eitt og annað, en frumvörp frá alþm, um áhugamál sín sjást varla, og þetta fer í vöxt ár frá ári. Það er eins og allt starfið á Alþingi eigi að fara að snúast um þingsályktunartillögur og auðvitað sumar næsta þýðingarlitlar.

Þegar ég var unglingur heima í minni sveit, þekkti ég aldraðan mann. Hann fór sjaldan í kaupstað, en þegar hann gerði það, fékk hann sér í staupinu. Ég var honum stundum samferða, og ég tók eftir því, þegar við komum á þann stað á leiðinni, þar sem sást til Akureyrar, þá varð þessi maður engu líkari, en hann væri orðinn kenndur, vegna þess að þá sá hann staðinn, þar sem brennivínið beið hans, svo að það er sýnilegt, að brennivin getur haft áhrif með fleira móti, en drekka það beinlínis. Þessi maður fékk einhverja strauma frá áfengisbirgðunum. Hann varð eins og hálfkenndur af.

Nú vildi ég spyrja hv. 1. landsk., af því að hann er læknir og sérfræðingur í þessum efnum: Er það hugsanlegt, að það eitt að tala um áfengi geti framkallað áfengisáhrif? Mér virðist nefnilega hv. þm. Borgf. einna líkastur því, að hann hefði fengið sér töluvert, þegar hann talar um þessi mál. Og hann verður ekki glaður, eins og þessi maður varð af tilhlökkuninni um að fá vínið. En áfengið hefur ekki heldur þau áhrif á alla menn, þó að það hafi það á marga. Sumir verða argir og reiðir og komast í illt skap. Þeir ættu ekki að vera að drekka vín náttúrlega, –kannske enginn, — og allra sízt þeir. Og mér virðist, að það eitt að tala um þessi mál hafi svipuð áhrif á hv. þm. Borgf. Ég held því og vil ráða honum heilt, að hann ætti frekar að forðast að blanda sér í þessi mál, því að hann, sem ég tel eftir langa viðkynningu vera góðan dreng, umhverfist svo, að hann fer með rangt mál, hefur eftir mönnum orð, sem þeir hafa aldrei sagt o.s.frv. Það hlýtur að eiga sínar orsakir, og nú vildi ég gjarnan vita, hvort hv. 1. landsk. gæti skýrt sálfræðilega, hvernig á þessum ósköpum stendur.