04.12.1957
Sameinað þing: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (2626)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að svara sérstaklega ræðu hv. þm. A-Húnv., þar sem hv. 2. þm, Eyf. (MJ) hefur gert hana að umtalsefni. Ég er hv. 2. þm. Eyf. sammála um það, sem hann sagði efnislega um ræðu hv. þm., en ég vil þó bæta því við, að ég tel frekar óheppilegt að blanda saman svo óskyldum málum sem þessum tveimur: sparnaðarmáli, að skera niður útgjöld ríkisins til skemmtiferða, veizluhalda og þess háttar, og menningarmáli, eins og sjálf till, er að efni til. Aftur á móti er ég alls ekki andvigur skoðunum hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Eyf. í þessu efni. Það má sannarlega skera eitthvað niður hvað þetta snertir. En það getur hindrað þetta mál, ef blandað er saman við það máli af öðru tagi. Auðvitað hlýtur sú spurning að vakna, þegar talað er um skemmtiferðir og veizlur, hvort eigi sé rétt að taka margt fleira, sem eigi að draga saman og spara í útgjöldum ríkisins. Ég er ekki alveg viss um, þó að skemmtiferðir séu dýrar, að það eigi endilega að byrja á því að skera niður þessa einu skemmtiferð á ári til handa starfsfólki stofnana. Það getur vel verið, að það megi draga úr þeim kostnaði, ég vil ekki neita því, en ég hygg, að margt sé í ríkisrekstrinum, sem mætti ganga eitthvað á undan þessu. En ég endurtek það, að af því að þetta eru óskyld mál, þá ætla ég að sleppa að ræða sérstaklega till. hv. þm. A-Húnv. að öðru leyti.

Umræðurnar um þessa till. okkar þremenninganna eru nú farnar að verða nokkuð langdregnar, og ef dæma mætti eftir lengdinni, þá lítur svo út, að hér sé um ekki neinn smáræðis ágreining að ræða hjá ræðumönnum. Ég hef heyrt menn hafa orð á því, að hér hafi átzt við tveir höfuðandstæðingar í málinu, hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Eyf. En eftir ræðu hv. 1. þm. Eyf. að dæma s.l. miðvikudag sýnist mér, að þessi ágreiningur sé miklu minni, en menn ætla. Mér sýnist hann helzt liggja í því, að hv. 1. þm. Eyf. efist um, að sá árangur náist með samþykkt þessarar till., sem við flm. till. búumst við. Ég skil hann meira að segja svo, hv. 1. þm. Eyf., að ef hann hefði tryggingu fyrir því, að með samþykkt þessarar till. mundi draga nokkuð úr áfengisneyzlu í landinu almennt, sérstaklega meðal æskufólks, þá mundi alls ekki standa á honum að samþykkja hana.

Nú hefur þessi hv. þm. bent réttilega á, hversu kvikmyndir geta verið skaðlegar í þessum efnum, að unglingar horfi á drykkjuskap í kvikmyndum, svo að þeir muni sannarlega geta lært listirnar þar. Þetta er alveg rétt. Það eru bágborin uppeldisáhrif, sem alltaf er verið að flytja inn í landið með sumum af þessum myndum. Ofbeldi, rán, manndráp og drykkjuskapur er jafnvel höfuðinntakið í sumum af þessum myndum. En ef áhrifin eru svo skaðleg af þessum erlendu leikurum á kvikmyndatjaldi, — og þau eru vafalaust skaðleg, — hvað halda menn þá um áhrifin af áfengisveizlum hins opinbera, sem foreldrar og húsbændur þessara sömu unglinga sækja?

Ef samþykkt þessarar till. yrði til þess, að breytt yrði nokkuð um veizlutízku í landinu almennt, er þá nokkur vafi á því, að hún mundi hafa sín áhrif?

Samkv. ákvæðum l. nr. 29 frá 1947, um vernd barna og ungmenna, er framkvæmt eftirlit með kvikmyndasýningum hér í landinu. Þessum eftirlitsmönnum er þó ekki ætlað að hafa nein afskipti af því, hvaða myndir eru fluttar inn í landið. Það eina, sem þeir geta og gera, er að banna að sýna börnum innan 16 ára aldurs þær myndir, er þeir álíta að geti haft skaðleg uppeldisáhrif. Hins vegar er ekkert eftirlit með kvikmyndasýningum fyrir eldri unglinga en 16 ára. Það er því full ástæða til að gefa frekari gætur að gildandi lagaákvæðum um eftirlit með kvikmyndum, því að áhrif kvikmynda á unglinga detta ekki alveg úr sögunni, þó að unglingarnir verði 16 ára. En þegar hv. 1. þm. Eyf. var að ræða um nauðsyn á meira eftirliti með kvikmyndum, sagði hann, að slík till. sem þessi, sem hér er til umræðu, mætti fljóta þar með. Þessi ummæli hans sýna, að ekki telur hann till. óþarfa, því að ef hún væri óþörf, þá hefði hún hvergi þurft að fljóta með. Þetta færir mér heim sanninn um það, að þessi hv. þm. muni varla greiða atkv. gegn þessari till.

En það langmerkasta, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði í ræðu sinni um daginn, var þetta orðrétt: „Það verður að sýna uppeldismálunum meiri áhuga á Alþingi“ og „reyna allar leiðir til þess að verja æskuna óhollum áhrifum“. Ég vænti þess, að hver einasti hv. þm. geti tekið undir þessi orð, og þau eru ekki sögð að tilefnislausu. Ætli þau séu ekki sögð vegna þess m.a., hversu áfengisneyzla meðal æskumanna og kvenna fer gífurlega vaxandi? Þetta sér hv, 1. þm. Eyf. alveg eins vel og aðrir. En það er ekki nóg að sjá það. Það verður að reyna allar leiðir til þess að verja æskuna óhollum áhrifum, eins og hv. þm. orðaði það, og það er það, sem við flm. þessarar till. erum að gera. Íslenzka þjóðin galt mikið afhroð vegna berklaveikinnar áratugum og jafnvel öldum saman. Mikinn fjölda æskufólks lagði þessi sjúkdómur í gröfina. En þjóðin hófst handa um baráttu gegn þessum sjúkdómi undir forustu okkar beztu manna í læknastétt og hefur náð slíkum árangri, að það má nærri telja einsdæmi í heiminum, t.d. eru S.Í.B.S. og Reykjalundur orðin einhver glæsilegasta landkynning þjóðarinnar. Þjóðin galt líka mikið afhroð vegna slysfara á sjó og landi. Einnig þar hófst hún handa og sameinaðist eins og einn maður um Slysavarnafélag Íslands, sem náð hefur mjög ágætum árangri með starfsemi sinni. Æskufólk landsins er nú í hliðstæðri hættu vegna áfengisneyzlunnar og það var áður vegna berklaveiki, þó að einhver stigmunur kunni að vera þar á. Á þá ekki að reyna að bjarga því nú eins og þá? Er það eitthvað betra, að það tærist upp siðferðilega og líkamlega af þessum ástæðum frekar en hinum ? Á ekki að reyna að bjarga þessu fólki frá sjúkdóma- og slysahættum, hvers kyns sem þær eru?

Það er hægt að deila um það fund eftir fund, að þessi till. beri ekki tilætlaðan árangur. En geri þeir þá betur, sem þannig mæla, og komi með aðrar till., sem bera meiri árangur. Þeir verða þá að sýna þær leiðir, sem þeir vilja fara til þess að verja æskuna óhollum áhrifum, eins og hv. 1. þm. Eyf. sagði um daginn. Það mun ekki standa á okkur flm, þessarar till. að ganga til samvinnu við hvern sem er um slíkar aðgerðir í uppeldismálum. En hitt, að gera ekki neitt, það sættum við okkur ekki við.

Þeir æskumenn, sem villast út á glapstigu áfengisneyzlunnar, eru oft miskunnarlaust grýttir af almenningsálitinu. En þeir eru ekki einir um sökina. Þeir eldri og reyndari, jafnvel feður og húsbændur, bera líka ábyrgð og ekki sízt forustumenn þjóðarinnar. Þeim ber að vera leiðsögumenn, og þeir eru það líka. Það er fyrst og fremst á ábyrgð leiðsögumannsins, hvaða stefna er tekin. Undan þeirri ábyrgð verður ekki flúið. Þessi skylda hvílir ekki sízt á hæstv. Alþingi.

Það verður að sýna uppeldismálunum meiri áhuga á Alþingi, segir hv. 1. þm, Eyf. Hann sér hættuna, eins og vænta mátti af svo lífsreyndum manni. En hvers er þá að vænta í þessu efni af yfirstandandi Alþingi? Verður það aðeins þessi till., eða verður það kannske ekki einu sinni hún? Eftir tiltölulega stuttan tíma verða komnir nýir menn í ábyrgðarstöður þessa þjóðfélags, líka hér á hæstv. Alþingi. Það verða menn, er notið hafa leiðsögu þeirra að meira eða minna leyti, sem nú eru í þessum ábyrgðarstöðum, Hver þau ráð, sem hér verða ráðin nú, bæði í þessu máli og öðrum, hafa því sína þýðingu fyrir framtíðina.

Ég skal játa það, að till. þessi er ekki svo stórstíg sem æskilegt hefði þó verið. En það hefur reynzt furðu erfitt að stiga stóru sporin í þessu máli hér á hæstv. Alþingi að undanförnu. Og það er betra að stíga stutt spor og stíga það í rétta átt, heldur en standa kyrr eða hrekjast af leið. Efni till. er ekki meira en það, að hætt skuli að veita áfengi á kostnað ríkis eða ríkisstofnana. Engum er bannað að neyta áfengis. Það er efnislega sagt við hvern þann, er opinbera veizlu sækir: Ef þú vilt neyta áfengis, þá gerðu það á þinn eigin kostnað eða a.m.k. ekki á kostnað hins opinbera. Er ekki erfitt fyrir hv. þingmenn að greiða atkv. gegn þessu? Vill nokkur svara sem svo: Nei, ég vil hafa áfengi í veizlum, og ég vil fá það á kostnað ríkisins?

Að þessu athuguðu get ég ekki skilið, að nokkur hv. þm. greiði atkv. gegn þessari till., og ég er því mjög bjartsýnn á framgang hennar á þessu yfirstandandi Alþingi.