26.03.1958
Sameinað þing: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (2639)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Í byrjun þessa þings kom fram till. til þál. um afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis og ríkisstofnana. Þessari till. var vísað til hv. allshn. 12. febr., og hefur hún því verið þar til athugunar nú í 6 vikur. Þetta verður að álítast ríflegur tími, einkum þegar tekið er tillit til þess, að till. hafði langa viðdvöl hér, áður en hún fór til hv. nefndar. Henni var útbýtt 25. okt., var 8 sinnum sett á dagskrá og rædd á fjórum eða fimm fundum hér.

Ég vil nú mælast til þess, að hv. allshn. skili áliti um þessa till. hið allra fyrsta. Málefninu, sem í till. felst, hæfir ekki svæfing í nefnd, Sérhver viðleitni gegn ómenningu drykkjuskaparins verðskuldar þvert á móti fyllstu athygli hins háa Alþingis. Því vænti ég þess einnig, að hæstv. forseti beiti sínum áhrifum, ef með þarf, til þess að till. fái fulla þinglega afgreiðslu innan skamms.