17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Herra forseti. Í þeirri ræðu, sem ég flutti um þetta mál hér við 2. umr., vék ég nokkuð að því, að ég teldi, að það væri mikil áhætta, þegar kosningar fara fram um hávetur, eins og er um allar bæjar- og sveitarstjórnarkosningar í kaupstöðum og kauptúnum, að þær eiga að fara fram síðasta sunnudag í janúarmánuði, þ.e. snemma á þorranum, þegar allra veðra er von. Ég gat um það, að það gæti komið þar mjög óþægilega við, ef það væri allt ófært af snjó öllum bifreiðum eða það væri blindhríð eða ofsaveður. Í samræmi við þetta vil ég leyfa mér að leggja hér fram brtt. við þetta frv., sem ég verð af því, hve mikill hraði er á hafður, að leggja fram skriflega og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir. Hún er á þessa leið: „Aftan við 2. gr. bætist ný málsgrein, svo hljóðandi:

Aftan við 77. Gr. laganna komi ný málsgrein, þannig:

Þegar kosningar fara fram að vetri til, skulu kjördagar vera tveir.“

Ég hef borið þessa till. fram í samráði við skrifstofustjóra þingsins, þannig að hún falli rétt inn í lögin, og þetta á þá bæði við um alþingiskosningar og sveitar- og bæjarstjórnarkosningar.

Nú er það kunnugt, að það var a.m.k. 1942, þegar alþingiskosningar fóru fram fyrsta vetrardag, að þá var það gert til öryggis að ákveða, að það skyldu vera tveir kjördagar, og auðvitað í þeim tilgangi, að það væri því betur tryggt, að allir kjósendur ættu kost á því að greiða atkv., enda þótt eitthvað meira eða minna væri að veðri. Nú er það vitaður hlutur, að í okkar landi er það svo, að það eru undantekningar, að það séu mjög mikil illviðri um veturnætur, þó að það geti komið fyrir, að þá séu hríðar og illviðri. Hitt er miklu algengara, að það sé meira eða minna illviðri og ófærð um miðjan veturinn.

Ég get í þessu sambandi bent á það, að þegar lýðveldiskosningarnar fóru hér fram um árið, 1944, voru kjördagar þrír. Og það var gert til þess að tryggja fólkinu möguleika til þess, að allir kysu. Eins vil ég halda því fram, að þegar kjósa á um hávetur, eins og er í lögunum, þá sé í því mikil trygging að hafa tvo kjördaga. Og ef það væri samþykkt, þá gerði minna til sú breyting, sem er í þessu frv., að ákveða, að það skuli skilyrðislaust loka kjördeildum kl. 11 að kvöldi.

Nú skal ég ekki hafa fleiri orð um þessa till., en úr því að ég er kominn hér í stólinn, þykir mér ástæða til að minnast á nokkur atriði önnur, sem hér hafa komið fram, og í sambandi við frv. í heild til viðbótar því, sem ég sagði hér í gærkvöld.

Það hefur komið fram, bæði hjá hv. þm. N-Þ. og hæstv. fjmrh., að þeir tala um, að það sé eitthvert aðalatriði í frv. að banna mönnum að vera inni í kjörklefanum. Þetta er einhver hroðalegur misskilningur, ef það er þá ekki bara mismæli hjá þessum mönnum, því að það hefur aldrei verið siður og er ekki leyfilegt, að neinir aðrir menn en kjósandinn sjálfur, sem á að vera í einrúmi, fari inn í kjörklefann. Allt tal þessara manna um það, að það varði eitthvað, að það sé verið að banna mönnum að fara inn í kjörklefana, er þess vegna út í hött.

Hins vegar get ég sagt það, af því að ég hef fregnir víðs vegar af landinu af frekju sumra pólitískra manna, og þar standa alltaf framsóknarmenn í fremstu röð hvað það snertir, að ég hef fréttir af því, að það skeði fyrir nokkuð mörgum árum við kosningar í einu kjördæmi hér sunnanlands, að þar komu tvær ungar stúlkur, sem voru nýfluttar í kjördæmið, og ætluðu að kjósa. En kjörstjórinn, sem var framsóknarhreppstjóri, heimtaði að fara með þeim inn í kjörklefann og kjósa fyrir þær. Stúlkurnar neituðu. En það var nú ekki nóg með það, að þetta dygði, heldur þegar hann fékk þeim seðilinn, hvorri í sínu lagi, þá bendir hann á seðilinn: Hér áttu að krossa, og það var framan við Framsfl.

Þetta er nú kannske einsdæmi, sem betur fer. En það sýnir m.a., að það er þó ekki einsdæmi, að þeir, sem hlut eiga að máli, vilja gjarnan fara inn í kjörklefann. Hitt er það venjulega og sjálfsagða og hefur alltaf verið, að kjörstjórn og umboðsmenn sitja í sérstakri stofu, sem er kölluð kjörstofa, kjörstjórnarstofu, og það er það, sem um er að ræða í þessu sambandi, en alls ekki kjörklefarnir. Og það er alveg rétt, að það er aðalatriði þessa frv. að banna það, að umboðsmenn flokkanna megi nokkurn hlut fylgjast með því og allra sízt skrifa það hjá sér, hverjir hafa kosið. Þetta á að koma í veg fyrir, að það sé hægt að annast það að greiða fyrir mönnum yfirleitt, sem ekki eru búnir að kjósa, útvega þeim bíla o.s.frv. Þetta er aðalatriði frv., ef svo mætti segja, og að mínu áliti ákaflega fráleitt, því að hvað gerir það til, þó að það sé fylgzt með því, hverjir hafa kosið? Það mundi nú hafa þótt dálítið einkennilegt hér í gamla daga, ef það hefði verið álitið eitthvað syndsamlegt að fylgjast með því, hver hefði kosið, því að við, sem erum nú komnir á efri ár, vitum, að það var ekki fyrr en 1908, sem leynileg kosning var lögleidd. Allar alþingiskosningar, sem fram fóru, frá því að Alþ. var endurreist 1845 og fram til 1908, voru opinberar, þannig að kjósendur voru kallaðir upp með nafnakalli af sýslumanni í hverju kjördæmi, og þá fór það ekki einu sinni leynt, hverjir hefðu kosið, heldur vissu það allir menn, hvern hver maður kaus.

Hæstv. fjmrh. var að þenja sig yfir því hér áðan, að það væri kunnugt, að almenningur væri þessu frv. samþykkur. Hvað veit hæstv. ráðh. um það? Ég hugsa, að hann viti ekki um annan almenning, en þann innsta hring í Framsfl. hér í Reykjavík. Það getur vel verið, að einhverjir hans fulltrúar úti á landinu hafi hringt til hans um það: Ja, þetta væri náttúrlega ágætt frv. o.s.frv. Annars skil ég nú ekki í, að þessi hæstv. ráðh. viti um það atriði.

Þá var hv. frsm. meiri hl., þm. N-Þ., að tala um, að það væri undarlegt, að það væru bara sjálfstæðismenn, sem væru á móti þessu hér, því að þetta gilti jafnt um alla flokka. Jú, það er alveg rétt, að þetta gildir jafnt um alla flokka, að þeir megi ekki fylgjast með því, hverjir hafa kosið. En hitt er ekkert undarlegt, að ég vék hér nokkuð að því í gærkvöld, að þetta komi óþægilegast við Sjálfstfl. hér í Reykjavík, af því að hann hefur meira, einn, en allir hinir flokkarnir til samans, fyrir utan það, að það er kunnugt, að æsingafólkið í pólitík er fyrst og fremst með hinum flokkunum. En það fólk, sem er rólegast og æsingaminnst, fylgir yfirleitt að meginhluta Sjálfstfl., og margt af því er þannig, að það leggur ekkert kapp á það að kjósa. Og margir hugsa á þá leið: Ja, flokkurinn minn er svo sterkur, að það gerir ekkert til, þó að ég sitji heima. — Það er þetta, sem fylgismenn þessa frv, vilja eitthvað spekúlera í, ef það gæti orðið til þess, að færri sjálfstæðismenn kysu en ella. Og það er augljóst, eins og hér hefur verið rækilega á bent af hv. 1. þm. Reykv. og raunar fleirum, að þessi ákvæði, sem hér er um að ræða, koma erfiðast fyrir, þar sem fjölmennið er mest, og það er auðvitað hér í Reykjavík.

Þá var hv. þm. N-Þ. að undrast það, að ég hefði talað í þessu sambandi aðallega um Reykvíkinga, en ekki Húnvetninga, að þetta kæmi ekkert illa við þá. En ég verð nú að segja, að það er nú dálítill munur á því. Það á að kjósa núna í vetur til hreppsnefndar á tveimur stöðum í Húnavatnssýslu, og þar eru á hvorum stað eitthvað á fjórða hundrað manns á kjörskrá, og ég hugsa, að það séu engir erfiðleikar á því í svo fámennum kauptúnum að fylgjast með því, þó að það sé bannað að skrifa hjá sér í kjörstjórnarhúsinu, hverjir hafi kosið, — þá séu engir örðugleikar á því að vita alveg um það, hverjir hafa kosið þar og hverjir ekki. Og svo er yfirleitt víðs vegar um landið. Eins og ég vék hér að í gærkvöld, þá er það, að þótt Reykjavík væri skipt í 6 kjördeildir, þá eru í hverri kjördeild miklu fleiri kjósendur, en í nokkru öðru kjördæmi á Íslandi, — miklu fleiri.

Þá var hv. þm. N-Þ. að tala um það, að þetta væri undarlegt, það væri mjög örðugt fyrir Reykvíkinga að kjósa allir, þó að þeir væru nú upp undir 40 þús. manns, og hvernig væri þá samanburðurinn við stórborgirnar, þar sem væru margar millj. Ég skal nú játa það, að ég hef ekki fengið neinar skýrslur um það, hvernig það fer fram, en ég reikna með því, að það séu þar þeim mun fleiri kjördeildir, það sé kosið á geysilega mörgum stöðum, og býst við því, að það sé. Og satt að segja væri það náttúrlega hægt hér í Reykjavík að fjölga kjörstöðum miklu meira, en hér hafa komið fram till. um. En það raskar ekki því, að það getur verið nauðsynleg trygging að ákveða það, þegar kosning er um hávetur, að þá séu 2 kjördagar.

Annars er það svo, að ég vil að gefnu tilefni segja frá því, hvernig hefur verið nokkuð lengi aðferðin í mínu eigin kjördæmi. Það átti sér þar stað á tímabili, að það voru flokksbílar og fólkið flutt á þeim á kjörstað, og voru af því mikil leiðindi. Það var verið að tína fólkið saman kannske og gera ráð fyrir: ja, þessi er með þessum og þessi er með hinum — og út af þessu voru hin mestu leiðindi. Þetta leiddi til þess, að ég og minn aðalandstæðingur, sem lengi hefur verið, Hannes Pálsson frá Undirfelli, við sömdum um það í kosningunum 1942, sem alltaf hefur gilt síðan, að hafa á þessu alveg sameiginlegan hátt, að flokkarnir allir í sameiningu hefðu bíla í gangi og sæktu hvern mann og ekkert væri um það hirt, hvern hver væri líklegur til að kjósa, heldur flytja allt fólkið í sameiningu á kjörstaðinn, og kostnaðinum var svo deilt niður á flokkana eftir atkvæðatölu eftir á. Þetta hefur gilt alltaf síðan í okkar kjördæmi og ég held allir ánægðir með það Og engum hefur þar dottið í hug að finna að því, þó að það sé algilt, að menn hafi að sjálfsögðu hjá sér kjörskrá eða skrifi niður hjá sér á kjörstað, hverjir hafa kosið og hverjir ekki. En með þessum hætti er það þó svo, að það þarf í hverjum kosningum iðulega að senda bílana oftar en einu sinni á sömu heimilin, vegna þess að þar sem fámenni er mikið og raunar hvort sem er, geta ekki allir heimilismenn farið í einu til þess að kjósa.

Hv. þm. N-Þ. var að lýsa því hér í ræðu sinni, sem er nýlokið, að sér hefði fundizt það á ræðu minni í gærkvöld, sem hefði nú komið viðar annars staðar við, að ég hefði ekki svo mjög mikið á móti þessu frv. Það er alveg rangt. Ég álít þetta frv. gersamlega óþarft, — það sé ekki einasta gersamlega óþarft, heldur og þau atriði í því, sem einhverja þýðingu hafa, séu til ills. Það hafa ekki verið færð nein rök fyrir því, hvorki af framsögumanni, fjmrh. né öðrum, að nokkurt einasta atriði í þessu frv. væri þannig, að það væri þörf á að lögleiða það. Aðalatriðið og í raun og veru vitlausasta atriðið í þessu er það, sem ég hef hér verið að tala um, þetta, að það megi ekki fylgjast með því, hverjir hafa kosið. Það dettur engum í hug, að þar með sé nokkurn hlut verið að grúska í það, hvaða flokk þessi eða hinn hafi kosið, og jafnvel á að láta í það skína, — þó að það sé ekki beinlínis fast bannað í frv. sjálfu, þá er það í greinargerðinni, — að það eigi að banna það, að menn geti nokkurn tíma vitað, hverjir hafi kosið eða ekki. Það verður þá mjög mikið að breyta til að öðru leyti um þær aðferðir, sem hafðar eru, þegar talning fer fram. Ég veit, að þar, sem ég þekki til, er það ævinlega svo, að undirkjörstjórnir verða að senda yfirkjörstjórnum allar kjörskrár, sem merktar hafa verið við kosningarnar, og þær liggja fyrir opinberlega hjá yfirkjörstjórn, og umboðsmenn flokkanna þar eða frambjóðendur geta þar alveg auðveldlega séð og eiga að sjá, hverjir hafi kosið í hverri kjördeild og hverjir hafi ekki kosið.

Nú held ég að það sé í rauninni ekki fleira, sem ég þarf að taka fram. En ég vil hér með afhenda hæstv. forseta mína brtt. og vænti þess annaðhvort núna, áður en fundi verður slitið, eða þá þegar fundur verður settur aftur, því að það verður sennilega haldið áfram annaðhvort í dag eða á morgun með þetta mál, að þá leiti hæstv. forseti afbrigða fyrir till., sem er skrifleg og of seint fram komin.