14.03.1958
Neðri deild: 66. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (2667)

143. mál, verslunarviðskipti við herlið Bandaríkjanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við hv. 2. landsk. þm. höfum leyft okkur að flytja hér brtt, um að setja á stofn rannsóknarnefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til þess að rannsaka sérstök fyrirbrigði, sem staðhæft er að hafi átt sér stað undanfarið í sambandi við þau viðskipti, sem fram hafa farið við herlið það, sem hér dvelur enn á Íslandi af hálfu Bandaríkjanna.

Það er rétt fyrir okkur að gera okkur það ljóst, þegar slík mál eru rædd, að allan þennan síðasta áratug og lengur, sem Ísland hefur haft við það að búa, að í einni eða annarri mynd hefur verið hér erlent herlið, hefur verið höfð á því alveg sérstök gát, að svo miklu leyti sem það hefur komið til Alþingis kasta, hvernig slík viðskipti færu fram, að af slíkum viðskiptum gætu einstaklingar í landinu ekki haft hagnað, heldur, að svo miklu leyti sem slík viðskipti gerðust, skyldi það vera ríkið, sem hefði hagnað þar af.

Þegar fyrstu ákvæði voru sett um þessa hluti 1944, þegar ákveðið var að kaupa af ameríska setuliðinu, sem þá hafði verið hér um nokkurt skeið, eignir þess, var gerð sú ráðstöfun af hálfu þáverandi ríkisstj. og síðan samþ. af Alþingi, fyrst sett brbl. og síðan samþ. lög af Alþingi, að það skyldi vera ríkið. eitt, sem hefði með alla slíka verzlun og viðskipti að gera. Var með brbl., sem út voru gefin 26. apríl 1944, svo fyrir mælt, að ráðstöfun allra slíkra eigna skyldi framkvæmd af fimm manna nefnd, sem ríkisstj, skipaði. Fjórir nm. voru þá tilnefndir af stjórnmálaflokkunum, einn af hverjum, skv. 2. gr. laganna, en ríkisstj, skipaði formann, sem jafnframt skyldi vera framkvæmdastjóri. Þetta voru þau lög, sem síðan voru í gildi, og þessi n., sem síðan var kölluð sölunefnd setuliðseigna, hafði með að gera alla þá verzlun, sem fram fór á eignum og tækjum þess setuliðs, og allir stjórnmálaflokkarnir, sem þá áttu sæti á Alþ., höfðu menn í þessari n, til þess að fylgjast með því, að ekki kæmist þarna að nein spilling, að þarna væru ekki neinir sérstakir einstaklingar að hagnast á eða annað slíkt, og að svo miklu leyti sem hagnaður yrði þarna af, þá væri það ríkið eitt, sem græddi á því.

Með öðrum orðum: Alþ, ákvað með ákveðinni löggjöf, hvernig haga skyldi þessum málum, og þessi lög, sem sett voru 1944 sem brbl. og staðfest á Alþ. 1945, eru enn í því lagasafni, sem gefið var út 1954, og eru einu lögin, sem enn þá hafa verið samþykkt á Alþingi um þann hátt, sem skyldi hafa á um viðskipti við erlent setulið, sem hér dveldist, þannig að það er sú eina leiðbeining um þá viðskiptahætti, sem þar skyldu ríkja, sem Alþ. fyrir sitt leyti hefur gefið.

Þegar aftur fór svo, að herlið settist að hér í landinu, varð það tiltölulega fljótt líka vandamál, hvernig fara skyldi með þau viðskipti, sem við það setulið fóru fram, og þess vegna var löngum gengið út frá því af hálfu stjórnarvaldanna, að það hlyti að vera sama grundvallarregla og Alþ. hafði markað með lögunum 1945, sem um slíkt skyldi höfð. Það var þess vegna svo, að 1952, árið eftir að erlent herlið hafði setzt hér að aftur opinberlega, beindi núverandi hæstv. menntmrh, fsp, hér á Alþ, til þáverandi fjmrh., sem er sami og hæstv. fjmrh. í dag, um það, hvernig háttaði starfsemi þessarar sölunefndar setuliðseigna og hvernig væri um margs konar verzlun, sem fram færi við það setulið, sem var að koma. Í þeim umræðum, sem urðu út af þeirri fsp., sem rædd var þá í sameinuðu Alþingi 26. nóv., voru gefnar ýmsar upplýsingar um, hvernig farið hafði um þessi viðskipti. Og það er rétt að minna nokkuð á einmitt þær upplýsingar, sem hæstv. núv. fjmrh. gaf á þeim tíma. Hann segir í svari sínu til hæstv. núv. menntmrh. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sölunefnd setuliðseigna var stofnuð á árinu 1944 með bráðabirgðalögum nr. 26 frá 26. apríl, og lauk hún störfum 20. maí 1948. Við störfum nefndarinnar, að svo miklu leyti sem framhald var á þeim, tók sala setuliðseigna ríkisins, sem er enn starfandi og ég greini síðar frá, hvernig sett er saman.“

Síðan greinir hann frá, hverjum hafi verið falið að hafa með þetta að gera, og upplýsir því næst hagnaðinn af sölunefnd setuliðseigna, upplýsir, að hann hafi orðið 41/2 milljón þann tíma, sem hún starfaði fram til 1948; en hagnaðurinn af þessum viðskiptum, eftir að nefndin hætti og hin nýja skipun var innleidd, hafi verið frá 20. maí 1948 til 1. nóv. 1952 6 millj, og 250 þús. Það má með öðrum orðum sjá, að allmikill hagnaður hefur orðið fyrir ríkið á þessum viðskiptum og það svo, að skipti samanlagt yfir milljónatug. Er greinilegt á þeim umræðum, er þá fóru fram, að það hefur þótt sjálfsagt, að ríkið hefði áfram með þessa hluti að gera. Hins vegar upplýsir hæstv. fjmrh. þá, að sú breyting hafi verið á gerð, að sérstökum manni hafi verið falið að ljúka þessum störfum og sérstakir tveir menn settir honum til aðstoðar.

Þegar þessi breyting hins vegar er gerð, virðist það vera gert bara með bréfi, dags. 15. ágúst 1949, að ráðherra hafi þá falið ákveðnum manni að sjá um þessa hluti. Svo segir hæstv. ráðh. á eftir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hefur þótt hagkvæmt, að kaup á öðrum eignum, sem féllu til í sambandi við rekstur Keflavíkurflugvallar svo og dvöl varnarliðsins hér, færu einnig um hendur trúnaðarmanna ríkisstjórnarinnar, en þessar vörur væru ekki á frjálsum markaði, — eða þótt hagkvæmt, að þessi viðskipti færu eingöngu um hendur trúnaðarmanna ríkisstjórnarinnar, enda um slíkt samið við hina erlendu aðila á hverjum tíma, samið um það, að það skuli aðeins ganga til stjórnarinnar, sem þeir vilja selja.“

Nú er að vísu rétt að taka það fram, þegar hæstv. fjmrh. tilkynnir þessa breytingu á árinu 1952, sem átt hafði sér stað 1948, að þessi breyting er gerð með þó nokkuð undarlegu móti, vikið frá þeirri reglu, sem ákveðin hafði verið af hálfu Alþ. og fest hafði verið í lögum, sem enn þá hafa gildi, og farið inn á að breyta til um alla tilhögun á þessari sölu og síðan látið raunverulega bara koma eitt ráðherrabréf í staðinn, ekki einu sinni, eftir því sem ég bezt hef getað fundið, svo mikið sem reglugerð, sem þarna sé farið eftir.

Ég vil strax taka það fram, að ég álít það ómynd, þegar svona er farið að. Stjórnarvöld landsins eiga að venja sig á það, þegar breyting er gerð út frá lögunum, sem sett hafa verið, að láta þá breyta lögum, fella þá úr gildi þau gömlu, setja ný í staðinn, en sjá til þess, að það, sem gert er, komist þess vegna á fastan grundvöll. Það er ekki rétt að taka upp aðra hætti en þá, sem lög mæla fyrir um, bara t.d. með einföldu ráðherrabréfi. Það skapar los í allt stjórnarfarið á landinu og getur leitt af sér ýmiss konar spillingu.

Ég skal ekkert segja um það, hvort þessi breyting hafi staðið í sambandi við, að það voru innleiddar reglur, sem almennt voru kallaðar af okkur, sem þá vorum í stjórnarandstöðu, helmingaskipti, að í staðinn fyrir að þingið almennt og fulltrúar þess hefðu möguleika á að fylgjast með því, sem gerðist hjá ríkisstj. og því opinbera, var innleitt það fyrirkomulag, að þeir, sem þá fóru með ríkisvaldið, sem þá voru ]öngum bara tveir flokkar, skyldu tveir einir hafa þarna eftirlitið og umsjónina með, og við kölluðum það venjulega helmingaskipti, og það getur náttúrlega verið, að það hafi þótt þess vegna hentugra að vera ekki með nein ný lagafyrirmæli, heldur láta þau gömlu svo að segja sofna, en gefa ný út með ráðherrabréfi. En þetta er óviðkunnanlegt fyrirkomulag. Hins vegar er yfirlýst af hálfu hæstv. fjmrh., þegar hann ræðir þetta, að höfuðreglan, sem liggi til grundvallar, eigi að vera sú sama, og hann vitnar svo í svari sínu til hæstv. núv. menntmrh. áfram í það, að í samningunum við Bandaríkin frá 1951 sé svo ákveðið, með leyfi hæstv. forseta, „að vörur, sem varnarliðið flytur inn tollfrjálst, megi einungis láta af hendi á Íslandi samkvæmt sérstakri heimild ríkisstj. og þá með þeim skilyrðum, er tollyfirvöldin setja. Í framkvæmdinni er eitt þessara skilyrða það, að þessar vörur séu afhentar ríkisstjórninni til þess að selja þær aftur út innanlands.“ Svo mælti hæstv. fjmrh. þá.

Þá hafði hæstv. núverandi menntmrh. sagt í því svari, sem hann þá gaf, að hann teldi talsverðan vafa leika á því, að ríkisstj. hefði heimild til þessarar verzlunar, eins og hún nú væri stunduð, þrátt fyrir ummæli hæstv. ráðh. þar að lútandi. M.ö.o.: hæstv. núv. menntmrh. er á svipaðri skoðun og ég, að þetta sé á heldur veikum grundvelli byggt allt saman, fyrst horfið er frá því, sem lögin mæla fyrir um, og stuðzt einvörðungu við ráðherrabréf.

Þetta er nú viðvíkjandi því, sem snertir formið á þessum hlutum. M.ö.o.: formið, sem var tekið upp eftir 1948 og styðst við ráðherrabréf, var, að raunverulega aðeins þáverandi stjórnarflokkar eða þeir, sem urðu síðar stjórnarflokkar, hefðu þarna eftirlit með, hvernig um færi.

Allan þennan tíma bar nokkrum sinnum á góma í sambandi við fjárlög, hvort ekki bæri að áætla í fjárlögunum tekjur af þessari sölunefnd setuliðseigna, og hafði verið gagnrýnt, og kom fram í þeim umræðum, sem ég nú hef vitnað í frá árinu 1952. Hins vegar gaf hæstv. fjmrh. upplýsingar um, hvað þessar tekjur hefðu verið. En eftir 1952 héldu þessir menn áfram að starfa, og það einkennilega var, að það er alltaf notað í ríkisreikningunum eftir þetta ár sama orðið yfir það og notað var í lögunum frá 1945, sölunefnd setuliðseigna, Og eftir 1952 halda áfram að koma í ríkissjóðinn nokkrar tekjur af þessari sölunefnd.

Nettótekjurnar á árinu 1952 urðu t.d. 1.394.089 kr. 1953 stendur á ríkisreikningunum: Innborgað vegna sölunefndar setuliðseigna 1.000.000. Þá virðist sem sé allt í einu sá háttur upp tekinn, að það virðist vera tekinn ákveðinn slumpur af tekjunum af þessu á síðasta ári og borgað inn í ríkissjóðinn, því að ólíklegt má telja, að svo mikið hafi breytzt til, að tekjurnar hafi farið að renna inn svo nákvæmt, að tekjurnar, sem á árinu áður námu 1.394.089 kr., hafi allt í einu orðið upp á krónu ein milljón árið á eftir, enda stendur: „Innborgað vegna sölunefndar setuliðseigna“, svo að það er engu líkara en eitthvað af því sé borgað inn í ríkissjóðinn, eftir því sem þessari sölunefnd þóknast.

1954 er svo á ríkisreikningunum uppfært á óvissum tekjum: Innborgað vegna sölunefndar setuliðseigna, aftur 1 milljón, — 1 milljón upp á krónu. Virðist aftur vera slumpað á þetta, hvað það ætti að vera.

Á ríkisreikningunum 1955 er hins vegar nokkuð breytt til. Þá er eins og þetta gamla orð, sem notað hafði verið frá því á stríðsárunum og hafði viðgengizt líka eftir að ráðherrabréfið 1948 var gefið út, hafi verið farið eitthvað að fara í taugarnar á þáverandi ríkisstj., og þá stendur þess vegna í ríkisreikningunum: Innborgað af sölunefnd varnarliðseigna 4.5 millj. kr., — enn aftur slumpur, sem greiddur er inn.

Á ríkisreikningunum 1956 stendur svo: Innborgað af sölunefnd varnarliðseigna kr. 7.367104.67. Þá virðist allt í einu vera gert nokkuð upp og allnákvæmlega, meira að segja upp á eyri.

Af þessu, sem ég nú hef lesið, má sjá til viðbótar við þá skýrslu, sem ég las upp áðan, frá því, sem fjmrh. gaf 1952, að allmiklar tekjur hafa komið þarna inn, en þó auðsjáanlega um nokkurt árabil verið slumpað á, hvað innborgað væri í ríkissjóðinn, en eftir stjórnarbreytinguna 1956 virðist hins vegar vera farið að gera þarna upp allnákvæmlega, og kom þá fram allmikil fúlga, sem sé kr. 7.367.104.67.

Ég hef nú rakið þetta ýtarlega hér til þess að sýna fram á tvennt: Í fyrsta lagi, að það hefur ekki verið sem beztur háttur hafður á á undanförnum áratugum um stjórnsemina á þessum hlutum. Það hefur ekki verið farið eftir þeim lögum, sem upphaflega voru sett, og Alþ. almennt ekki verið gefið það tækifæri, sem var með lögunum 1945, um eftirlit og stjórn á þessum hlutum til þess að koma í veg fyrir þá hugsanlegu spillingu, sem af þessu gæti hlotizt. Og það virðist enn fremur um tíma hafa verið slumpað á það, hvað greitt væri í ríkissjóðinn frá þessari sölunefnd, þó að hún eftir yfirlýsingu fjmrh. 1952 eigi nú allt í einu að heita sala setuliðseigna.

Í öðru lagi virðist það greinilegt, að þarna er um miklar fjárfúlgur að ræða, fjárfúlgur, sem á þessu árabili hafa numið tugum milljóna. Það er þess vegna eðlilegt, að þessir hlutir séu rifjaðir upp og hv. þm. minntir á, hvernig þetta hafi verið á þessum undanförnu árum og hvaða reglur hafi um þetta gilt, vegna þess að nú undanfarið hafa að frásögn tveggja blaða, sem ættu að vera þessum málum einna kunnugust, gerzt þeir hlutir, sem a.m.k. þau blöð virðast telja nauðsynlegt að hið opinbera grípi inn í og láti rannsaka og veldur því, að við hv. 2. landsk. þm. höfum nú lagt fram þá till. til þál., sem er á þskj. 282, um skipun fimm manna rannsóknarnefndar.

Tvær fyrstu greinarnar hjá okkur fara fram á, að það sé nú athugað, hvort hafi verið farið að lögum og reglum um þessi viðskipti, og ég hef nokkuð minnzt á nú þegar það, sem mér hefur fundizt varasamt eða verðskulda gagnrýni í þeim efnum og þurfa rannsókn.

Hins vegar varða tveir síðari liðirnir hjá okkur, 3. og 4. liðurinn í þáltill., fyrst og fremst það, sem talið er að gerzt hafi nú í þessum síðasta mánuði og sérstaklega veldur því, að þessi till. er komin fram.

Þann 22. febr. þ. á. er grein undir allstórri fyrirsögn í Morgunblaðinu, þar sem stendur í fyrirsögninni, með leyfi hæstv. forseta: „Stórfelldasta braskmál, sem um getur, er nú í uppsiglingu. Varnarmáladeild veitir Aðalverktökum heimild til milljónaviðskipta við varnarliðið og bakar með því ríkissjóði stórtjón auk óþarfa gjaldeyriseyðslu.“ Og undirfyrirsögn: „Dótturfyrirtæki S.L.S. hafði forgöngu og á að annast braskið.“

Síðan er í þessari grein veitzt mjög bæði að Sambandi ísl. samvinnufélaga og h/f Regin og rætt um í því sambandi heimild frá varnarmáladeild, sem þessi fyrirtæki hafi fengið til þess að stunda þarna mjög einstæð viðskipti.

Síðan segir í þessari grein Morgunblaðsins, með leyfi hæstv. forseta, undir fyrirsögninni: „Mikil hagnaðarvon“: „Þeir aðilar, sem að þessu standa, og þá sérstaklega h/f Reginn, sem hefur allan veg og vanda af málinu, munu hafa talið mjög mikla hagnaðarvon í sambandi við þessi viðskipti, þar sem um er að ræða vörur, sem nema vafalaust milljónatugum að verðmæti. Var hér um að ræða vöruflokka, sem skipta hundruðum, og eru þar á meðal margar verðmiklar og eftirsóttar vörur.“

Síðan er haldið áfram nokkru síðar: „Eins og fyrr er getið, hefur enginn íslenzkur aðili hingað til fengið leyfi til að kaupa og selja vörur frá varnarliðinu nema sölunefndin. Hefur hún sem einkaaðili í þessu sambandi keypt vörurnar með mjög hagstæðu verði og allur ágóði af sölu þeirra runnið í ríkissjóð.“

Og síðan er haldið áfram enn þá lengra: „Hefur varnarmáladeildin sýnilega ekki horft í gjaldeyriseyðslu, þegar hún veitti leyfi sitt til þessara einstöku viðskipta, um leið og hún gefur leyfishafanum milljóna eða milljónatuga hagnað, sem af þessum viðskiptum leiðir.“

Og síðan setur blaðið fram sem sína ályktun af þessu: „Fer ekki á milli mála, að hér er um eitt stórfelldasta braskmál að ræða, sem um getur, og er almenningur þrumu lostinn yfir slíkum fréttum.“

Það virðist m.ö.o. mjög greinilegt, að Morgunblaðið telji þarna hluti á ferðinni, sem séu þess eðlis, að þeir verðskuldi mjög, að þeir séu rannsakaðir.

Tíminn, blað Framsfl., tekur þessi mál síðan fyrir í 47. tölublaði, miðvikudaginn 26. febr., og segir þar með álíka stórri fyrirsögn og Morgunblaðið: „Geir Hallgrímsson og sonur Ólafs Thors í stórfelldu braski með flugvallarvörur.“ Og undirfyrirsögn: „Sameinaðir verktakar fylltu skemmu, sem er eign Kveldúlfs, með hvers konar varningi af Keflavíkurflugvelli, m.a. vélum og bílum, og seldu fyrir stórfé. Braskararnir reyna að dyljast á bak við upplognar ásakanir Morgunblaðsins á hendur saklausu fólki og fyrirtækjum.“

Síðan stendur áfram í greininni, með leyfi hæstv. forseta, að sá flutningur, sem þar er tilgreindur, „fór fram í skjóli heimildar utanrrh. um, að fyrirtækið fengi að flytja „vöruafganga“ út af vellinum.“

Því næst upplýsir blaðið, að það muni vera þarna um að ræða varning, sem að matsverði sé talinn a.m.k. 600 þús. kr. virði, og segir síðan áfram:

„Þennan varning fluttu íhaldsgæðingarnir til Reykjavíkur og seldu hér. Birgðir þessar voru geymdar í einni skemmu Thorsaranna við höfnina, og munu leifarnar liggja þar enn.“

Og síðan er haldið áfram orðrétt: „Vöruflutningar þeir, sem Íslenzkir aðalverktakar hafa framkvæmt, eru svo í framhaldi af þessum stórfellda business íhaldsfyrirtækisins, enda er það fyrirtæki langstærsti eigandi Aðalverktaka.

En þegar vöruflutningar þessir eru líka orðnir í nafni fyrirtækis, sem aðrir eiga hlut í, grípa íhaldsbraskararnir tækifærið og nota Morgunblaðið til þess að bera þessa minnihlutaaðila sökum um óheyrilegt brask. Braskararnir skríða þarna á bak við stóryrði og upplognar ásakanir Morgunblaðsins og þykjast hvergi koma nærri. Þetta er einhver fáheyrðasta blekkingahríð, sem um getur í seinni tíma sögu.“

Eins og menn heyra, þá er ekkert af dregið í báðum þessum blöðum, hvílíkt stórmál sé hér á ferðinni, og síðan er haldið áfram, með leyfi hæstv. forseta, til þess að lýsa þessum leik:

„Það er þessi leikur, sem nú er reynt að leika gagnvart Sambandi ísl. samvinnufélaga og Regin h/f. Hvorugur þessi aðili hefur haft með höndum vörukaup á Keflavíkurflugvelli eða flutninga þaðan. Þetta er beinlínis staðfest í yfirlýsingu frá stjórn Aðalverktaka, þar sem íhaldið hefur fulltrúa. Morgunblaðið þegir um stórfellda vöruflutninga íhaldsfyrirtækisins í haust og þegir um það, að þetta sama íhaldsfyrirtæki er aðaleigandi Aðalverktaka, Það eru hinir aðilarnir, sem eru sekir um brask.

Þetta er gula siðferðið og þetta er nazistísk starfsaðferð.“

Og þannig er haldið áfram, og síðan klykkt út með þessu:

„Þetta fyrirtæki (þ.e. Sameinuðu verktakarnir) var skipulagt í upphafi af Bjarna Benediktssyni, meðan hann var utanrrh., og átti að veita gróðalindum frá flugvellinum til íhaldsgæðinganna í Reykjavík, og að þessu marki hefur látlaust verið unnið síðan, þótt erfitt hafi reynzt, eftir að yfirstjórn þessara mála dróst úr höndum sjálfstæðismanna.“

Það er með öðrum orðum alveg greinilegt á því, sem þessi tvö blöð þessara flokka rita, að þarna er á ferðinni mál, sem þau hafa bæði mjög mikinn áhuga fyrir að almenningur fái að vita um, og bæði undirstrika mjög skarplega, hve þýðingarmikil þessi mál séu. Morgunblaðið segir siðan 27. febr. með stórri fyrirsögn á fyrstu síðu:

„Af hverju er ekki upplýst um tollverð og söluverð varanna, sem braska átti með?“ — og segir síðan, að þarna sé um einstæð viðskipti að ræða, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt:

„Sá háttur hefur verið á, að sölunefnd varnarliðseigna, sem er opinber aðili, hefur farið með kaup og sölu alls varnings, sem frá varnarliðinu er runninn, og ágóðinn rennur í ríkissjóð. Hér var til þess stofnað í fyrsta sinn að fara fram hjá þessum aðila og fá öðrum þessi viðskipti og hagnaðinn af þeim. Því hefur verið haldið fram hér í blaðinu, að þær vörur, sem nú átti að flytja út af vellinum í blóra við sölunefndina, hafi verið keyptar af hinum erlenda aðila við mun hærra verði en sölunefndin hefur keypt þessar vörur og væri því hér um gjaldeyriseyðslu að ræða umfram þarfir auk hagnaðartjónsins fyrir ríkið. Hefur Morgunblaðið óskað eftir, að upplýst væri um söluverð og tollverð hverrar einstakrar vöru, svo að þetta atriði yrði fyllilega ljóst, en þær upplýsingar hafa ekki verið gefnar.“

Hér er m.ö.o. enn þá ítrekað, að það sé þörf á upplýsingum í þessu efni. Og síðan segir áfram í áframhaldi af þessari grein:

„Eins og bent hefur verið á, kemur slíkt brask með varnarliðsvörur alls ekki til greina, fyrr en S.Í.S.-liðið er búið að ná þessum málum undir sig, enda er ljóst, að beinar götur liggja á milli varnarmáladeildar og Íslenzkra aðalverktaka, sem stofnaðir voru að tilhlutan Framsóknarforustunnar, og dótturfyrirtæki S.Í.S. er einn stærsti aðilinn.“

Og síðan er haldið áfram:

„Þetta eru helztu staðreyndirnar, sem fram eru komnar um þetta mikla braskmál, en eftir er að vita, hvort það upplýsist betur, en það er auðvitað á valdi þeirra, sem hafa hér alla þræðina í sínum höndum.“

Og þannig mætti lengi lesa, en allt verður nú ekki tekið.

Tíminn skýrir síðan þennan sama dag frá því með einni af stærstu fyrirsögnunum á forsíðu, sem notaðar hafa verið um þetta mál, þ.e. 27. febr., með leyfi hæstv. forseta, aðalfyrirsögnin: „Líklegt er, að íhaldsforkólfar hafi grætt milljónir á braski með flugvallarvörur. Tímabært, að rannsókn fari fram á því, hvað hafi orðið um varninginn og hver féþúfa hann hefur orðið einstaklingum og fyrirtækjum. Lögðu Sameinaðir verktakar á einu bretti 70 þús. kr. í kosningasjóð Sjálfstæðisflokksins?“

Og síðan er haldið áfram, mjög skarplega deilt þarna á, og ég ætla að lesa hér einn kafla undir undirfyrirsögninni: „Beint í skemmu Kveldúlfs“ — í Tímanum:

„Allur þessi varningur var fluttur út um hliðið á Keflavíkurflugvelli“ — þ. e. varningurinn upp á 600 þús. kr. — „í skjóli bréfs utanríkisráðherra um „vöruafganga“ og rakleitt í vöruskemmur Kveldúlfs í Reykjavík.

Morgunblaðið túlkaði nýlega vöruflutninga Aðalverktaka í skjóli sams konar leyfis sem stórfellt hneyksli. Þær vörur liggja allar í vöruskemmu, og hefur ekkert af þeim verið selt. Vörur Sameinaðra verktaka hafa hins vegar verið seldar einstaklingum og fyrirtækjum fyrir harða peninga.

Virðist því með sömu röksemdum fullkomlega tímabært, að fram fari rannsókn á því, hvort þetta fyrirtæki íhaldsaðalsins í Reykjavík hafi misnotað ráðherraleyfið og flutt út tæki, sem varla geta heitið „vöruafgangur“. Auk þess virðist fullkomin ástæða til þess, í ljósi þeirra upplýsinga, sem fram eru komnar um vörusölu frá Keflavíkurflugvelli, að rannsókn fari fram á því, hvert þessar vörur hafa farið og fyrir hvaða verð, svo að fyrir liggi upplýsingar fyrir almenning, hvað fyrirtækið hefur grætt mikið fé á þessum viðskiptum, hver hlutur einstaklinga er í þeim gróða og hvort öll kurl koma þar til grafar gagnvart skattalöggjöf og verðlagsákvæðum.“

Svo farast Tímanum orð og er ítrekað enn ýtarlegar á eftir. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar svo nefnd sú, sem annast sölu varnarliðseigna, gerir athugasemd við þetta og braskararnir sjá, að málið er til umræðu, rýkur Morgunblaðið upp strax daginn eftir og reynir að fela allt braskið með því að kenna minnihlutaaðilanum í Aðalverktökum um allt saman. Þetta er eins og að þjófkenna mann, sem stolið er frá.“

Og síðan klykkir blaðið út með þessu: „Sameinaða verktaka hefur ekki skort fé að undanförnu. Þar er fjölmennt starfslið haft við störf eins og söluna á þessum vörum. Þar eru framámenn á hæstu launum, sem greidd eru á Íslandi. Fyrirtækið hefur verið svo vel fjáð, að talið er, að það hafi treyst sér til að leggja 70 þús. kr. fram á einu bretti í kosningasjóð Sjálfstæðisflokksins fyrir utan smáskammta.“

Menn sjá nú af því, sem þessi tvö heiðvirðu blöð, sem ættu að vera einna kunnugust þessum málum, bera hvort á annað, að það muni sannarlega vera þörf á, að opinber rannsókn sé látin fram fara á því, hvað þarna hafi gerzt. Það er greinilegt, að á einhvern hátt virðist hafa verið vikið út frá þeirri reglu, sem lengst af hefur gilt hér, að það væri ríkið eitt, sem annaðist öll viðskipti við erlent setulið, á meðan það dveldist hér, — reglu, sem var slegið fastri fyrir 13–14 árum hér á Alþ. og stendur enn í lögum, og að öll slík sala færi fram undir það góðu, opinberu eftirliti, þar sem allir stjórnmálaaðilar gætu haft aðgang að, að ekki yrði þarna um spillingu að ræða eða um það að ræða, að einstökum mönnum eða fyrirtækjum yrðu gefnir neinir möguleikar á því að útvega sér sérstakan gróða af viðskiptunum við hið erlenda setulið.

Eins og ég gat um áðan og rakti, hefur nokkuð verið vikið út frá þeim ströngu lögum, sem sett voru um þetta í upphafi, fyrst með ráðherrabréfinu 1948 og síðan smám saman, að því er virðist, í framkvæmdinni um þessi mál. Þetta virðist hafa leitt til þess, að þessi mikli hagnaður, sem ríkið um alllangt árabil hefur haft af þessum viðskiptum, hefur að einhverju leyti freistað einstakra félaga, sem hafa verið svo voldug og áhrifarík, að þau hafa átt nokkuð innangengt í volduga flokka og haft góð sambönd, þannig að, að svo miklu leyti sem hér hafi nú verið vikið út af þeirri braut, sem upprunalega hafi verið lögð, þá hafi þeirri spillingu, sem alltaf er svo mikil hætta á að eigi sér stað í sambandi við það sérstaka ástand, sem hér ríkir á landi, verið gefið undir fótinn, enda vantar ekki, að t.d. þessi tvö blöð ásaki fyrirtæki hvort annars svo að segja um megna spillingu, misnotkun og annað slíkt í þessu sambandi.

Það virðist því alveg augljóst, að hér er þörf á, að Alþ. láti til sinna kasta koma og skipi rannsóknarnefnd til þess — samkv. 39. gr. stjskr. — að rannsaka, hvað gerzt hefur í þessum efnum: Rannsaka í fyrsta lagi, hvernig er raunverulega um þær reglur, sem þarna gilda um, og hvernig þessum reglum er framfylgt, og þá getur maður þar af, þegar sú rannsókn hefur fram farið, dregið sínar ályktanir um, hvort rétt væri og nauðsynlegt að breyta þarna til. Í öðru lagi að rannsaka, hvers vegna hluti af þessum viðskiptum hafi verið framkvæmdur af öðrum aðilum en þeim, sem ríkisstj. yfirleitt á undanförnum árum hefur falið þessa verzlun, og svo framarlega sem það leiddi í ljós, að eitthvað af því, sem þessi tvö blöð hafa verið þarna að ræða um, kynni að vera satt, hvaða einkaaðilar það séu, sem hafi þarna verið kaupendur, og hvern ágóða þeir hafi þarna af haft; og nefndinni sé gefin heimild til þess að rannsaka þetta til hlítar, yfirheyra embættismenn og aðra í því sambandi, eins og slík rannsóknarnefnd hefur rétt til.

Ég held, að það sé ekki ofmælt, að sú tillaga, sem við hv. 2. landsk. flytjum hér, ætti að vera í samræmi við ósk allra hv, þm. og þingflokka. Sérstaklega hefur það komið svo greinilega fram í blöðum beggja þessara stóru flokka, að þau krefjist þar rannsóknar og æski upplýsinga, að þeir ættu að geta verið því samþykkir, að sett væri nefnd til þess að kryfja þetta til mergjar. Þetta er líka alveg sérstaklega nauðsynlegt með tilliti til þess, að öll þau viðskipti, sem fram fara við setuliðið, hafa alltaf þá tilhneigingu að skapa spillingu í okkar þjóðfélagi eins og öll þess dvöl, á meðan það yfirleitt er hér. Ég vil þess vegna vonast til þess, að hv. þm. taki þessari þáltill. vel og fallist á að samþ. hana og að Alþ. láti þannig slíka rannsókn fram fara.

Ég vil gera það að minni tillögu að,ö að lokinni umr. um þetta mál nú verði till. vísað til allshn., og vona, að hún afgreiði hana sem allra fyrst, því að eins og menn sjá, þá er þetta mál, sem þarf að rannsaka sem fyrst og sem bezt, vegna þess að í svona málum er alltaf hætta á, að því lengri tími sem líður, frá því að þeir hlutir gerast, sem rannsaka á, kunni að verða erfiðara að komast til botns í því, sem gerzt hefur.