19.03.1958
Neðri deild: 66. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (2668)

143. mál, verslunarviðskipti við herlið Bandaríkjanna

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í till. þeirri til þál., er hér liggur fyrir, er lagt til, að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar til rannsóknar á verzlunarviðskiptum Íslendinga við varnarlið Bandaríkjanna og verktaka þess á Íslandi. Tilefni till. þeirrar er það, að tvö íslenzk verktakafélög hafa ekki alls fyrir löngu flutt út nokkurn varning af Keflavíkurflugvelli til ráðstöfunar á íslenzkum markaði. Hafa orðið allmikil blaðaskrif út af þessum útflutningi.

Ég var því miður staddur erlendis, er blaðaskrifin hófust og meðan þau fóru fram, og hef því ekki átt þess kost persónulega að gera grein fyrir málinu á opinberum vettvangi, fyrr en nú. Af hálfu utanrrn. var hins vegar í fjarveru minni gefin út stutt og greinargóð yfirlýsing um afstöðu utanrrn. til málsins í heild. Eins og gefur að skilja, er þess ekki kostur að gera máli sem þessu fullnægjandi skil í stuttri greinargerð.

Ég vil að sjálfsögðu taka undir og ítreka allt það,sem sagt var í yfirlýsingu um mál þetta á sínum tíma, og vil auk þess nota þetta tækifæri til að gera grein fyrir málinu og málavöxtum í heild.

Þeir tveir íslenzku verktakar, sem eiga hlut að máli og flutt hafa varning út af Keflavíkurflugvelli til ráðstöfunar á íslenzkum markaði, eru Sameinaðir verktakar og Aðalverktakar. Útflutningur beggja þessara aðila af Keflavíkurflugvelli stendur í beinu sambandi við skipulagsbreytingar, sem gerðar hafa verið í sambandi við opinberar framkvæmdir í þágu varnarliðsins. Mér þykir því rétt, til þess að menn fái heildaryfirlit yfir málið og geti áttað sig betur á því, að gera grein fyrir því, í hverju voru fólgnar þær skipulagsbreytingar, sem leiddu til þess, að sá útflutningur, sem hér um ræðir, var leyfður af utanrrn. á sínum tíma.

Skal ég fyrst leyfa mér að gera nokkra grein fyrir þætti Sameinaðra verktaka í þessu máli. Þegar varnarliðið kom til Íslands á árinu 1951, var öllum ljóst, að á vegum þess mundu fara fram mjög yfirgripsmiklar framkvæmdir. Var gert ráð fyrir þessum framkvæmdum í varnarsamningnum og undirsamningum hans með ýmsum ákvæðum.

Varnarliðið hóf undirbúning að þessum framkvæmdum sínum með því að semja við bandarískt verktakafirma um, að það tæki að sér sem aðalverktaki að sjá um allar framkvæmdirnar. Var tilætlunin sú, að þessi bandaríski aðalverktaki ýmist annaðist framkvæmdirnar sjálfur eða semdi við íslenzka undirverktaka um einstakar framkvæmdir, eftir því sem bezt þætti henta hverju sinni.

Þeim, sem með utanríkismálin fóru á þeim tíma, var ljóst, að á því voru mjög miklir annmarkar, að hinn bandaríski aðalverktaki gæti leitað ótakmarkað til einstakra íslenzkra verktaka um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Kom þar ýmislegt til. Ljóst var t.d., að talsverðir erfiðleikar voru á því fyrir einstaka íslenzka verktaka að ráða fjárhagslega við þær framkvæmdir, sem þarna voru á ferðinni. Auk þess var talin nokkur hætta á því, að ef íslenzkir verktakar stæðu sundraðir, gæti orðið um undirboð að ræða af þeirra hálfu í einstakar framkvæmdir til óþurftar fyrir landsmenn í heild.

Þess vegna beitti utanrrn. sér fyrir því á sínum tíma, að íslenzkir verktakar, sem óskuðu eftir að hafa með höndum framkvæmdir fyrir varnarliðið á Íslandi, mynduðu með sér samtök. Fyrir forgöngu utanrrn, voru Sameinaðir verktakar því stofnaðir á árinu 1951 eða 1952 í þeim tilgangi, að þeir tækju að sér framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir hina bandarísku aðalverktaka og að svo miklu leyti sem aðalverktaki ekki annaðist framkvæmdir sjálfur. Sameinaðir verktakar fengu einkarétt til þessara framkvæmda á flugvellinum.

Það kom snemma í ljós, eftir að framkvæmdir hófust fyrir varnarliðið, að nokkrir erfiðleikar voru á samstarfi milli Sameinaðra verktaka og erlenda aðalverktakans. Þess vegna var snemma farið að vinna að því að koma þessum málum þannig fyrir, að aðalverktaki yrði einnig íslenzkur, ekki síður en undirverktakinn. Leiddi þetta til þess, að á árinu 1954 var samið um og gengið frá stofnun íslenzks aðalverktakafélags, sem leysti hinn bandaríska aðalverktaka af hólmi. Sameinaðir verktakar skyldu engu að síður halda áfram sínum störfum sem einkarétthafar til undirverka á Keflavíkurflugvelli, en að sjálfsögðu með þeirri breytingu, að nú skyldu þeir taka við einstökum framkvæmdum úr hendi Íslenzkra aðalverktaka í stað erlends aðalverktaka áður.

Þó var það svo, að eftir að íslenzkt aðalverktakafélag hafði verið stofnað 1954, var enn bandarískur verktaki á Keflavíkurflugvelli, sem átti vinnuvélar og áhöld og hafði ýmsa yfirumsjón. Var þar um allumfangsmikil störf að ræða.

Á tímabilinu frá 1951 til 1956 leystu Sameinaðir verktakar af höndum, bæði á Keflavíkurflugvelli og utan hans, geysimikla þjónustu fyrir varnarliðið, og námu þær fjárhæðir, sem greiddar voru til Íslendinga í þessu sambandi, fleiri hundruðum milljóna króna. Á árinu 1956 dró mjög úr öllum framkvæmdum, og síðari hluta ársins stöðvuðust þær að mestu af ástæðum, sem mönnum er kunnugt um.

Á árinu 1957 var hins vegar ráðizt í að hefja framkvæmdir á ný, þó að í miklu minni stíl væri en áður hafði verið. En þegar farið var að semja við Bandaríkjamenn um þessar nýju framkvæmdir, kom í ljós, að gera þurfti allverulegar skipulagsbreytingar á öllu verktakafyrirkomulagi á flugvellinum og stöðvum þeim, sem varnarliðið hafði nokkurn rekstur á.

Ég fyrir mitt leyti lagði á það mikla áherzlu, að allar framkvæmdir á Íslandi væru í höndum Íslendinga einna og íslenzkra verktakafyrirtækja, en öll erlend verktakafyrirtæki og verktakar hyrfu í burtu.

Af ýmsum ástæðum reyndist hvorki framkvæmanlegt né heppilegt að færa út starfsemi Sameinaðra verktaka í þessu sambandi, heldur var horfið að því ráði, að Íslenzkir aðalverktakar skyldu taka að sér allar framkvæmdir fyrir varnarliðið og yfirleitt annast þær sjálfir. Þó mátti grípa til undirverktaka, er sérstaklega stóð á. Sérréttindi Sameinaðra verktaka skyldu falla niður. Með þessari skipulagsbreytingu var fótunum með öllu kippt undan framkvæmdastarfsemi Sameinaðra verktaka á Keflavíkurflugvelli.

Eftir að þessir samningar voru gerðir 1957, var ekki um það að ræða, að Sameinaðir verktakar fengju þar sem slíkir neinar framkvæmdir, enda varð félagið upp úr þessu fljótlega leyst upp í sinni upphaflegu mynd.

Þegar verið var að gera Sameinaða verktaka upp, eftir að grundvellinum hafði þannig verið kippt undan starfsemi þeirra, kom að sjálfsögðu í ljós, að eftir svo miklar framkvæmdir og svo langan starfstíma hafði félagið dregið að sér ýmis verkfæri og ýmis áhöld, sem notuð höfðu verið til framkvæmdanna. Hjá félaginu hafði og safnazt fyrir nokkuð af efnisafgöngum frá því, sem þeir höfðu þurft á að halda á sínum tíma. Allar þessar vélar, tæki og áhöld ásamt öllu því efni, sem Sameinaðir verktakar áttu á Keflavíkurflugvelli, höfðu þeir sjálfir ýmist keypt hér í landi á frjálsum markaði eða flutt til landsins með nauðsynlegum aðflutningsleyfum. Af öllum þeim verðmætum, sem þeir höfðu keypt hér innanlands og áttu ónotuð eða nothæf á flugvellinum, höfðu þeir að sjálfsögðu borgað full aðflutningsgjöld. Svo var einnig um nokkuð af því efni og tækjum, sem þeir höfðu flutt til landsins. Aðflutningsgjöld höfðu þeir borgað af þessum verðmætum, þegar þau komu inn í landið. Aðra hluti höfðu þeir fengið að flytja inn með leyfum, án þess að aðflutningsgjöld hefðu verið greidd, vegna þess að til þess var ætlazt á sínum tíma, að það gengi allt til framkvæmda á flugvellinum.

Þegar svo var komið, að Sameinaðir verktakar gátu ekki starfað lengur í sinni upphaflegu mynd og áttu þessi verðmæti eftir á flugvellinum, kom upp spurningin um það: Hvað á að gera við þessa hluti?

Sameinaðir verktakar sneru sér þá til mín og óskuðu eftir leyfi til þess að fá að flytja út af flugvellinum og ráðstafa innanlands þeim efnisafgöngum og verkfærum, sem þeir áttu liggjandi á Keflavíkurflugvelli. Í bréfi, sem þeir rituðu mér hinn 5. sept.1957, upplýsa þeir, að „vörur þær, sem vér eigum á Keflavíkurflugvelli, eru að langmestu leyti keyptar á innlendum markaði. Það, sem aðallega ræðir um að séu ótollaðar vörur, eru innan við 10 tonn af saum, um 300 plötur af vatnsheldum krossvið, gúmmíkapall og svo ýmis tæki til byggingarframkvæmda, sem ýmist hafa verið flutt inn tolluð eða ótolluð, og erum vér að sjálfsögðu reiðubúnir að sýna tollreikninga fyrir því, sem tollað er.“

Þannig var málið lagt fyrir mig af hálfu Sameinaðra verktaka. Mér fannst það ekkert áhorfsmál, hvernig átti að afgreiða þetta mál.

Sameinaðir verktakar voru á sínum tíma stofnaðir að tilhlutun utanrrn. í þeim tilgangi að annast framkvæmdir fyrir varnarliðið á Íslandi. Utanrrn. hafði með ráðstöfunum sínum komið í veg fyrir það 1957, að þetta fyrirtæki gæti haldið áfram störfum sínum á Keflavíkurflugvelli. Það hefði verið hreinasta óbilgirni af minni hálfu, ef ég hefði meinað fyrirtækinu að flytja út af flugvellinum og ráðstafa á innlendum markaði þeim eignum, sem það hafði óhjákvæmilega dregið að sér til þess að geta leyst af hendi það verkefni, sem utanrrn. hafði falið því, en þó varð að sjálfsögðu að setja það skilyrði, að full aðflutningsgjöld yrðu greidd af öllu, sem inn hafði verið flutt.

Ég lét virða og rannsaka, hversu mikils virði þær eignir væru, sem þarna var um að ræða, og matið kom upp á eitthvað rúmar 600 þús. kr. Meira en helmingurinn af því matsverði var fyrir einn kranabíl, sem fyrirtækið hafði flutt inn fyrir nokkrum árum með fullkomnu innflutningsleyfi og notað til framkvæmda sinna á Keflavíkurflugvelli.

Ráðuneytið brast að sjálfsögðu algerlega vald til þess að taka þessi verðmæti af Sameinuðum verktökum. Ráðuneytið hafði ekkert vald til að skylda Sameinaða verktaka til að afhenda sölunefnd varnarliðseigna þessar eignir á Keflavíkurflugvelli. Til þess var engin lagaheimild. Valið stóð á milli þess að leyfa þeim að flytja þessar vörur inn gegn því, að þær voru tollafgreiddar, eða þvinga þá til þess að láta þær liggja ónotaðar og grotna niður á Keflavíkurflugvelli. Um þetta tvennt var að velja og annað ekki.

Mér fannst skylt, eins og til Sameinaðra verktaka var stofnað og eins og frá þeim var gengið, að þeir fengju að koma þeim verðmætum í peninga, sem þeir höfðu flutt inn með löglegu móti, enda greiddu þeir af þeim fullkomin aðflutningsgjöld.

Ég ritaði þess vegna Sameinuðum verktökum bréf þann 6. sept. 1957, sem — með leyfi hæstv. forseta - er svo hljóðandi:

„Ráðuneytið hefur móttekið bréf yðar, dags. í dag, varðandi vöruafganga Sameinaðra verktaka á Keflavíkurflugvelli. Þar sem hér er aðallega um að ræða þegar tollaðar vörur, veitir ráðuneytið Sameinuðum verktökum leyfi til að flytja þær út af Keflavíkurflugvelli.

Sameinuðum verktökum ber að sýna tollreikninga fyrir þeim vörum, sem hafa verið tollálagðar. Varðandi tæp 10 tonn af saum, um 300 plötur af vatnsheldum krossviði, gúmmíkapal og ýmis tæki til byggingarframkvæmda, sem ekki hafa verið tollafgreidd, ber að meta sérstaklega og tollafgreiða hjá tollgæzlunni á Keflavíkurflugvelli, sem hefur verið sent afrit af bréfi þessu.“

Samkvæmt þessu voru vörurnar metnar, fluttar út af vellinum og fullkomin aðflutningsgjöld greidd af þeim áður.

Hvernig Sameinaðir verktakar hafa síðan ráðstafað þessum eignum, veit ég ekki, enda tel ég mér það með öllu óviðkomandi.

Ég vil sérstaklega undirstrika, að hér var um að ræða vörur, sem fluttar höfðu verið inn með aðflutningsleyfum á sínum tíma, og hér var um að ræða vörur, sem rn, hafði ekki aðstöðu til að skylda Sameinaða verktaka til að láta af hendi, hvorki við einn né neinn, sölunefnd varnarliðseigna né aðra. Spurningin var um þetta tvennt, eins og ég sagði áðan: Átti ég að skylda þá til að láta þessi verðmæti liggja á Keflavíkurflugvelli og grotna þar niður ónotuð — eða leyfa þeim að flytja þau inn í landið gegn því, að fullkomin aðflutningsgjöld yrðu greidd, svo að landsmenn gætu haft af þeim gagn?

Ég hygg, að flestir sanngjarnir menn hefðu afgreitt málið á sama hátt og ég gerði, ef þeir hefðu staðið í mínum sporum.

Ég kem þá að hinum aðilanum, sem eru Aðalverktakar. Eins og ég gat um áðan, voru Aðalverktakar stofnaðir árið 1954 í þeim tilgangi að taka að sér þau verkefni, sem hinn erlendi aðalverktaki hafði leyst af hendi til þess tíma, þ.e. að semja við Bandaríkjastjórn um heildarframkvæmdir hennar á Íslandi, en afhenda siðan verkin til undirverktaka. Þetta hlutverk leystu Íslenzkir aðalverktakar af hendi frá því á árinu 1954 og þar til á árinu 1957.

Þegar samið var við varnarliðið um áframhaldandi framkvæmdir snemma á árinu 1957, stóð svo á, að hér hafði um nokkurt skeið starfað erlent verkfræðingafyrirtæki, sem hafði annazt ýmiss konar rekstur fyrir varnarliðið. Átti félag þetta hér mikið af vélum og tækjum, sem notuð voru á flugvellinum, Í samningum þeim, sem fram fóru við Bandaríkjamenn á árinu 1957, var lögð á það áherzla af þeirra hálfu, að Íslenzkir aðalverktakar tækju við til framkvæmdanna eins miklu af þessum tækjum og frekast þyrfti á að halda. Úr kaupum á þessum tækjum gat að sjálfsögðu ekki orðið þá, heldur var samið um, að þeir skyldu fá tækin til afnota, en síðan skyldi athugað, hvernig færi um eignarrétt þeirra. Auk þess átti þetta verkfræðingafyrirtæki á Keflavíkurflugvelli nokkuð af skemmum, sem notaðar höfðu verið fyrir mötuneyti, fyrir skrifstofur og fyrir svefnskála starfsfólksins. Á það var lögð áherzla af báðum aðilum, að Íslenzkir aðalverktakar tækju við mötuneytisskemmunum með þeim áhöldum, sem þar væru, og skrifstofuskemmunum með þeim áhöldum, sem þar væru. Fyrir skemmurnar skyldi ekkert endurgjald greiða annað en það, að Aðalverktakar áttu að skila skemmunum aftur að loknu starfi sínu í svipuðu ástandi og þeir tóku við þeim. Hins vegar gat ekki verið um það að ræða, að þeir skiluðu aftur mataráhöldum, skrifstofuhúsgögnum, borðum, dýnum úr svefnskálum og rúmfatnaði og öðru slíku í sama ástandi og þeir tóku við því. Var því svo um samið, að til afnota við reksturinn skyldu Aðalverktakar taka við þeim áhöldum, sem í mötuneyti og skrifstofum væru, og svo nokkrum hluta af svefnskálum. En það var hins vegar ljóst þegar í upphafi, að þó að Aðalverktakar þyrftu á miklu af þessum verðmætum að halda, þá var það meira en svo, að þess þyrfti alls við. Þessum umframverðmætum var hlaðið upp í geymsluskemmurnar, en við samningana varð þetta eign Aðalverktaka, ef grípa þyrfti til þess síðar.

Aðalverktakar hafa, síðan þeir hófu sitt starf, unnið mikið og margþætt starf á Keflavíkurflugvelli, og til þeirra framkvæmda hefur þurft að nota efni fyrir tugi milljóna króna. Telst mönnum svo til, að á þeim þrem árum, sem Aðalverktakar hafa starfað, hafi þeir sjálfir flutt inn efni til framkvæmda fyrir talsvert yfir 40 millj. kr. og tekið við frá verkfræðingadeild hersins efni til afnota fyrir um 30 millj. kr. Hins vegar hefur komið í ljós og hlýtur alltaf að koma í ljós, þegar um jafnstórvægilegar framkvæmdir er að ræða eins og þarna hafa átt sér stað, að nokkrir afgangar verða af efni. Ýmislegt er keypt og til framkvæmdanna fengið, sem ekki reynist nothæft eða heppilegt, þegar kemur að því að nota það, bæði vegna þess, að framkvæmdir breytast, áður en þeim er lokið, og svo vegna hins, að til einstakra verka er jafnan pantað og keypt inn nokkru meira en það, sem menn telja sig komast af með minnst í upphafi. Það hefur því farið fyrir Aðalverktökum eins og öðrum, sem í slíkum framkvæmdum lenda, að hjá þeim hefur hlaðizt upp nokkurt efni, sem ekki er nothæft eða þarf á að halda til þeirra framkvæmda, sem það var upphaflega ætlað.

Aðalverktakar leituðu eftir því við mig 25. nóv. 1957 að fá að flytja það efni, sem hlaðizt hafði upp og ekki þurfti að nota, út af flugvellinum og ráðstafa því á innlendum markaði, enda yrðu greidd af því fullkomin aðflutningsgjöld samkvæmt mati. Ég lét athuga nokkuð um það, hvaða efni hér væri á ferðinni, og kom í ljós, að um var að ræða að mestu leyti timbur, sem hafði verið keypt til ákveðinna framkvæmda, en ekki reynzt af þeim styrkleika og þeirri tegund, sem á þurfti að halda, þegar til kom, m.a. vegna breytinga á fyrirhuguðum og upphaflega ráðgerðum framkvæmdum. Mér þótti ekki rétt að láta þetta efni grotna niður þarna suður frá, fyrst vitanlegt var, að ekki þurfti að nota það þar, og þessa efnisafganga gaf ég Aðalverktökum leyfi til að flytja út af Keflavíkurflugvelli til ráðstöfunar á innlendum markaði, enda yrði efnið virt og af því greidd fullkomin aðflutningsgjöld. Það var ekki sundurliðað í leyfinu, hvert þetta efni væri, enda lá ekki fyrir fullkomin sundurliðun um það. Lagt var fyrir tollgæzluna að fylgjast með útflutningnum og virða það, sem út væri flutt, til peninga og sjá um, að tollur væri af öllu greiddur. Gerði tollgæzla flugvallarins það.

Aðalverktakar fluttu nokkuð af þessu efni út af flugvellinum, þegar eftir að þeir fengu leyfið, og auk þess fluttu þeir út nokkuð af þeim áhöldum, sem þeir höfðu yfirtekið úr mötuneytinu, af skrifstofunum og úr svefnskálunum frá verkfræðingadeild hersins á sínum tíma. Það, sem út hefur verið flutt, hefur verið virt, og nemur verðmæti þess alls 216 þús. kr. Ég hef skoðað skrána yfir þessa muni. Mjög verulegur hluti þeirra er áhöld úr eldhúsi verktakanna á Keflavíkurflugvelli, áhöld sem hafa verið notuð um margra ára skeið, auk þess sem þarna eru teppi, dýnur, lök og annað þess háttar, sem einnig hefur verið notað um margra ára skeið. Einnig er nokkuð af skrifstofuáhöldum, þó tiltölulega lítið, sem ekki reyndist nauðsyn fyrir í þeim skrifstofum, sem Aðalverktakar þurftu að starfrækja á flugvellinum.

Af þessu má sjá, að það, sem hér er um að ræða, er í rauninni ekki annað en það, að Aðalverktakar hafa, í stað þess að láta afgangsefni liggja ónotað á Keflavíkurflugvelli, fengið að flytja það inn til hagnýtingar fyrir landsmenn, og í stað þess að láta hluti úr mötuneyti, skrifstofum og svefnskálum liggja þar syðra og grotna niður, hafa þeir fengið að flytja þá inn einnig, ef hægt skyldi vera að koma verðmætum þessum í eitthvert verð.

Ég vil sérstaklega í þessu sambandi benda á, að þau verðmæti, sem Aðalverktakar tóku við frá Bandaríkjamönnum, tóku þeir við frá verkfræðingadeild varnarliðsins og frá erlendum sjálfstæðum verktökum, en ekki frá sjálfu varnarliðinu, og mun ég víkja að því síðar. Sölunefnd varnarliðseigna hefur aldrei, hvorki fyrr né síðar, haft nein viðskipti við erlenda verktaka, sem á Keflavíkurflugvelli hafa verið, og heldur engin viðskipti við verktakadeild varnarliðsins. Það hefur verið föst regla hjá þessum aðilum tveimur, að öll þau verðmæti, sem hingað hefur verið komið með og ekki hefur verið hægt að nota hér, hafa þeir yfirleitt flutt út, en ekki selt til Íslendinga.

Hv. 1. flm. till. þeirrar, sem hér liggur fyrir, vildi halda því fram, að með þeim ráðstöfunum, sem hér hafa verið gerðar, hafi verið brotin eða sniðgengin lög, sem sett voru árið 1945 um heimild fyrir ríkissjóð til að kaupa eignir setuliðsins á Íslandi. Hér kennir mjög mikils misskilnings. Lög þau, sem þessi hv. þm, vitnaði í, eiga ekki hér við, þau giltu um allt annað málefni og allt aðrar aðstæður en hér eru. Lögin frá 1945 eru þannig til komin, að þegar varnarliðið fór frá Íslandi í stríðslok, á árinu 1945, átti það hér í landi talsvert miklar eignir. Jafnframt hvíldu þá á varnarliðinu allháar bótakröfur frá Íslendingum, ýmist fyrir leigu eftir land, landspjöll eða annað tjón, sem varnarlíðið hafði valdið, á meðan það dvaldist á Íslandi. Í lok stríðsins samdist svo um á milli ríkisstj. Íslands og ríkisstj. Bandaríkjanna, að ríkisstj. Íslands skyldi verða eigandi að öllum þeim mannvirkjum og eignum, sem varnarliðið skildi hér eftir, gegn því að ríkisstj. tæki að sér að greiða þær bótakröfur, sem á varnarliðinu hvíldu og óuppgerðar voru. Lögin frá 1945 voru sett til þess að fullnægja þessum samningi.

Í 1. Gr. þeirra laga segir: „Ríkisstj. heimilast að kaupa fyrir ríkissjóðs hönd eignir setuliðsins á Íslandi.“

Í 2. gr. segir: „Ráðstöfun og sala þeirra eigna, sem yfirteknar verða samkv. heimild í 1. gr., skal framkvæmd af 5 manna nefnd.“

Tilgangur laganna frá 1945 er því í fyrsta lagi sá að heimila ríkisstj. að kaupa eignir setuliðsins, sem þá var að hverfa frá landinu, jafnframt því sem ráðstafanir eru gerðar um það, með hverjum hætti þessar ákveðnu eignir skyldu seldar.

Í 3. gr. laganna segir enn fremur: „Ríkisstj. veitist heimild til að fela hæstarétti að nefna þriggja manna matsnefnd til að ákveða bætur handa landeigendum hér á landi vegna landspjalla, er þeir hafa orðið fyrir af völdum setuliðsins.“

Lögin frá 1945 eru því öðrum þræði um að heimila ríkisstj. að láta meta og gera ráðstafanir til þess að greiða þær bætur, sem hún með samningum við varnarliðið hafði tekið að sér að greiða.

Hlutverk laganna frá 1945 var því það eitt að sjá um framkvæmd á þeim samningi, sem ríkisstjórn Íslands hafði gert við stjórn Bandaríkjanna um að greiða þær bótakröfur, sem á því kynnu að hvíla hér á Íslandi eftir brottför þess, enda fengi ríkisstj. eignir varnarliðsins til ráðstöfunar og sæi um sölu á þeim. Lögin frá 1945 áttu því að fullnægja þessum tilgangi einum og skipta ekki máli út yfir þann tilgang.

Það var öllum ljóst, þegar varnarsamningurinn var gerður 1951, að varnarliðið mundi flytja inn mikið af verðmætum, sem nota ætti í landinu vegna veru og framkvæmda liðsins hér. Það var líka vitað, að ýmislegt mundi flutt inn, sem notað yrði aðeins um takmarkaðan tíma, og annað, sem reyndist ekki eins nauðsynlegt, þegar komið var til landsins. Þegar varnarsamningurinn var gerður 1951, voru því gerðar ráðstafanir um það, hvernig skyldi fara með þau verðmæti, sem varnarliðið kæmi með til landsins og þyrfti ekki að nota eða hætti að nota.

Með lögunum nr. 110 frá 1951 um varnarsamninginn fylgdi undirsamningur, sem gerður var um leið og varnarsamningurinn sjálfur, og í þessum undirsamningi eru ákvæði um það, hvernig skuli með þessi verðmæti fara. Í 8. gr. 7. tölul. viðbætis við varnarsamninginn um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna eru ákvæði um það, hvernig þessum verðmætum skuli ráðstafað. Þar er lögð á það megináherzla, að vörur, sem varnarliðið hafi flutt til Íslands tollfrjálst, skuli varnarliðinu frjálst að flytja óhindrað úr landi aftur. Þetta er meginatriðið. Í b-lið þessarar gr. segir, að slíkar vörur skuli eigi látnar af hendi á Íslandi, hvorki með sölu, að gjöf né í skiptum. Þó má, er sérstaklega stendur á, veita heimild til slíkrar afhendingar með þeim skilyrðum, er tollyfirvöld setja. Meginreglan er sú, að vörurnar má flytja úr landi, það má ekki afhenda þær til Íslendinga, en það er heimilt, ef sérstaklega stendur á, að láta slíka afhendingu fara fram, ef fylgt er þeim skilyrðum, sem tollyfirvöldin setja.

Til framkvæmda á þessu ákvæði var í það gengið snemma á árinu 1953 að gera sérstakan samning á milli utanrrn. og varnarliðsins um meðferð þeirra verðmæta, sem varnarliðið sjálft flytti inn og þyrfti ekki lengur á að halda og teldi ekki ástæðu til að kosta upp á að flytja úr landi. Var sérstaklega um það samið, að allur slíkur varningur skyldi af hálfu varnarliðsins afhentur íslenzku ríkisstj. til sölu og meðferðar. Samningurinn, sem þarna var gerður, var byggður á þessu ákvæði í fyrrgreindum undirsamningi varnarsamningsins, en alls ekki á lögunum frá 1945, eins og hv. 1. flm. þessa frv. var að halda fram. Sú n. og sú framkvæmdastjórn, sem síðan þetta gerðist hefur annazt móttöku varnings frá varnarliðinu og séð um sölu hans á innlendum markaði, hefur fyrst og fremst gert það í krafti þessa ákvæðis undirsamningsins og þess samnings, sem þarna var gerður.

Þessi samningur er gerður á milli utanrrn. og varnarliðsins og hefur að geyma ákvæði um, að flugherinn skuli afhenda íslenzku ríkisstj. eða þeim aðila, sem hún löggildir, þessi verðmæti til ráðstöfunar á innlendum markaði.

Hins vegar hefur aldrei verið neinn samningur um slíka hluti gerður eða fengizt gerður við þá erlendu verktaka, sem hér hafa verið, og alls ekki heldur við verkfræðingadeild varnarliðsins. Þessir aðilar hafa aldrei gert slíkan samning og engin verðmæti afhent til íslenzku ríkisstj, til sölu á innlendum markaði, heldur eins og ég gat um áðan: Það, sem þeir hafa ekki þurft að nota sjálfir vegna framkvæmdanna, hafa þeir yfirleitt flutt úr landi eða látið liggja ónotað á Keflavíkurflugvelli án þess að ráðstafa því sérstaklega.

Það, að ég hef leyft þann útflutning, sem um hefur verið rætt, til þessara tveggja verktakafélaga, brýtur því ekki í bága við nein lög eða neina samninga, sem gerðir hafa verið.

Að því er Sameinaða verktaka varðar, hafa þeir ekki við neinum eignum eða verðmætum tekið úr hendi varnarliðsins eða stofnana þess. Þeir hafa sjálfir flutt inn eða keypt á innlendum markaði allt, sem þeir fluttu út, og greiddu af því fullkomið aðflutningsgjald. Það, sem Aðalverktakar hafa flutt út, eru verðmæti, sem þeir ýmist sjálfir hafa flutt inn með leyfum og ekki þurft að nota, eða verðmæti, sem þeir hafa tekið við úr hendi erlendra verktakafélaga samkvæmt samningum, sem utanrrn. hefur staðið að, til þess að þeir gætu tekið í sínar hendur allar þær framkvæmdir, sem erlendir verktakar höfðu áður haft með höndum.

Það gildir nákvæmlega sama um Aðalverktaka og Sameinaða verktaka. Utanrrn. hafði ekki neina aðstöðu til þess að skipa Aðalverktökum að afhenda sölu varnarliðseigna þau verðmæti, sem þeir þarna höfðu keypt og tekið við. Til þess brast lagaheimild. Hins vegar er rétt, að utanrrn. gat bannað Aðalverktökum að fara með þessi verðmæti út af vellinum og kosið þá heldur þá leið að láta þau liggja þar um ófyrirsjáanlegan tíma og verða e.t.v. að engu og engum að gagni. En með því að hér var um mjög lítilvæga hluti að ræða, sem mér virtust ekki skipta máli, og hér var ekkert fordæmi skapað og á engan hátt vikið frá þeim reglum, sem alla tíð höfðu gilt um að hafa viðskiptin við sölunefndina að því er varnarliðið sjálft varðaði, sá ég ekki ástæðu til að meina Aðalverktökum að flytja afgangsefni út af vellinum og hluti, sem þeir óhjákvæmilega höfðu tekið við og keypt vegna opinberra ráðstafana, en hafa ekki þurft að nota.

Mér þykir rétt að gefnu tilefni að taka fram, að þegar Aðalverktakar voru langt komnir að flytja þessi verðmæti út af vellinum, var mér tjáð, að þeir hefðu gengið lengra í þeim efnum, en til hafði verið ætlazt í upphafi. Ég lét þá stöðva útflutninginn, þótt lítið væri eftir, og einnig frekari ráðstöfun á því, sem út hafði verið flutt, til þess að mér ynnist tími til að athuga, hvort leyfið hefði hér verið misnotað eða ekki.

Ég hef einnig gert ráðstafanir til að láta athuga um það, hvort Sameinaðir verktakar hafi á nokkurn hátt í sínum útflutningi farið út yfir það, sem til var ætlazt í upphafi og leyft var á sínum tíma.

Mér virðist till. sú, sem hér liggur fyrir til umræðu, vera nokkuð víðtæk, og ég held, að hún mundi reynast nokkuð erfið og tímafrek í framkvæmd. Samkvæmt 1. lið till. á að rannsaka, hvaða sala á þeim varningi, er herlið Bandaríkjanna á Íslandi eða verktakar í þjónustu þess hafa flutt inn tollfrjálst, hefur farið fram með leyfi íslenzkra stjórnvalda, hvort farið hefur verið að lögum og settum reglum um þessi skipti.

Það gefur auga leið, að ef þessi till. verður samþ. eins og hún liggur fyrir, er meginverkefni þessarar rannsóknarnefndar að rannsaka kaup, útflutning og sölu þess aðila, sem mest og lengst hefur flutt út af vellinum. Það yrði meginverkefni þessarar n. að rannsaka allan þann útflutning, sem farið hefur fram á vegum sölunefndar varnarliðseigna, ekki um takmarkaðan tíma, heldur frá því að n. fór að taka við verðmæti af Keflavíkurflugvelli og flytja út og til þessa dags, auk þess sem n. yrði að sjálfsögðu að athuga málið að því er varðar Aðalverktaka og Sameinaða verktaka. Það er tiltölulega fljótlegt með Aðalverktaka, vegna þess að verðmætin liggja fyrir og hefur ekki verið ráðstafað. Hitt held ég að sé nokkuð yfirgripsmikið og erfitt viðfangsefni fyrir þannig kjörna þingnefnd, að eiga að fara að rannsaka öll viðskipti sölunefndar varnarliðseigna við varnarliðið og ráðstöfun nefndarinnar á verðmætum, sem hún hefur tekið við frá byrjun og til þessa dags. Ég held, að það sé allyfirgripsmikið og tímafrekt verkefni, og sannast að segja hef ég ekki trú á því í framkvæmd.

Ég geri ráð fyrir því, að þessi till. fari til athugunar í þn. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að láta hv. þn. í té allar þær upplýsingar, sem hún kann að óska eftir. Á þessu stigi málsins hef ég fyrir mitt leyti ekki séð ástæðu til þess að gera aðrar og frekari ráðstafanir, en þær að kynna mér, hvort þau leyfi, sem ég gaf á sínum tíma til útflutnings varnings af flugvellinum, hafa verið misnotuð eða ekki, enda skilst mér, að það sé aðalatriðið í málinu. Sú athugun fer nú fram á vegum ráðuneytisins.