30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (2679)

21. mál, vegagerð

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti, Þegar frv. um breyting á vegalögum, sem hv. 1. flm, þessarar till. flutti í Ed., var til umr., lét ég þar í ljós mjög svipaða skoðun og fram kemur í fyrri hluta þeirrar till., sem hér er til umr. Ég taldi sem sé vafasamt að vera nú að taka fjölda nýrra þjóðvega upp á vegalög, þar með algera innanhéraðsvegi, heldur þyrfti að rannsaka allt þetta mál frá rótum og gera einhverja heildaráætlun um það, hvað ríkið vildi leggja af vegum og í hvaða röð, m.ö.o.: hvernig framkvæma skyldi þau mál, því að eins og allir vita, hefur það verið ákaflega tilviljanakennt undanfarið, hvaða vegir hafa verið gerðir að þjóðvegum, og mikið farið eftir dugnaði einstakra þm., hvað þeir hafa getað komið inn á vegalög af vegum í sínum kjördæmum.

Ég er þess vegna þakklátur fyrir það, að þessu máli er hreyft hér í Sþ., þó að ég álíti, að till., eins og hún liggur fyrir, sé of löng. Það hefði ekki átt að vera að tiltaka þar sérstaka vegi, heldur nægt, að till. hefði verið svo: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera í samráði við vegamálastjóra samræmda áætlun um vegagerð í landinu“ — og sleppa niðurlaginu.

Þegar um það er að ræða, hvaða vegi skal leggja, er auðvitað miklu fleira að taka tillit til en hv. 1. flm. þessarar till. nefndi. Eins og hv. 1. þm. N-M. (PZ) vék að í sinni ræðu, koma þar til greina atvinnuhættir í hinum einstöku héruðum o.fl. Atvinnuhættir í sumum héruðum eru þannig, að það þarf daglega og mikla flutninga á sumum vegum. Aðrir vegir eru þannig, að þeir eru ekki notaðir nema lítið, þó að auðvitað sé þægilegt að hafa þá. Og eins þarf vitanlega að athuga staðhætti, t.d. eins og það, að sumum héruðum hentar áreiðanlega betur að hafa samgöngur á sjó, ja, ég segi ekki heilum héruðum, en sumum byggðarlögum hentar áreiðanlega betur að hafa samgöngur á sjó, en þar sé varið stórfé til þess að komast t.d. yfir ófær fjöll og að leggja þar veg.

Það er dálítið vafasamt að gera þannig samanburð, að sum héruð hafa svona og svona mikla vegi og önnur minni. Það er nú t.d. eitt atriði í þessu máli, og það er það, að það er til lítils að hafa vegi, sem eru ófærir. En það vill brenna við, að elztu akvegum landsins er ekki haldið betur við en það, að þeir eru að verða ófærir, og ég er ekki viss um, nema það væri ráð að fella niður t.d. á 5 eða jafnvel 10 ára fresti öll framlög til nýrra vega, en verja öllu því fé, sem hægt er að leggja til vega, til uppbyggingar eldri vega og viðhalds. Ég held það sé gömul og góð búmennska að gera ekki áhöld eða aðrar eignir, sem menn hafa eignazt með ærnum kostnaði, ónýt, það sé yfirleitt hagkvæmara að eignast færra og halda því sæmilega við, sem er í eigu einstaklinga eða opinberra aðila.

Ég álít samkvæmt þessu, að brtt. þær, sem hv. 1. þm. N-M. hefur lagt hér fram á þskj, 45, séu til bóta og mundu gera samþykkt till. þýðingarmeiri með því móti, ef þær yrðu í aðalatriðum samþykktar, þó að ef til vill væri rétt að breyta þeim nokkuð. Og erindi mitt hingað í ræðustólinn var aðeins það að skora á þá n., sem fær þetta mál til athugunar, að taka það til athugunar á breiðara grundvelli, en hér er lagður, og ef Alþingi samþykkir áskorun til ríkisstj. í þessu efni, þá sé fleira tekið til greina, en aðeins það, sem í þessari þáltill. felst um að koma landshlutum og héruðum sem fyrst í vegasamband, sem enn eru ýmist veglaus eða án sambands við meginakvegakerfi landsins. Ég held, að það sé enginn heill landshluti án sambands við aðalvegakerfi landsins. Eitthvað hef ég heyrt getið um það, að það er t.d. ekið vestur á Vestfirði. Það veit ég, að það er ekið á Austurland, því að það hef ég gert sjálfur meira að segja, eftir sæmilega góðum vegum, og ég skil ekki, hvaða heilir landshlutar það eru, sem eru án sambands við vegakerfi landsins lengur. Hitt er sjálfsagt, að einstakar sveitir eru það, en fer nú fækkandi, sem betur fer. En þó að það sé ágætt að koma sem flestum í vegasamband, ef fé er fyrir hendi, má ekki gleyma hinu, að vegasamband, sem hefur fengizt og þegar er fengið, geti haldizt. Ég held, að það sé óhugsandi fyrir þessa þjóð, jafnfámenn og hún er og jafnstórt og okkar land er, að ríkið eitt geti lagt vegi alls staðar, þar sem menn vilja hafa vegi, og séð um viðhald þeirra, ef fólkið sjálft, sem veganna nýtur, vill ekkert sérstaklega á sig leggja. Þess vegna held ég, að þau atriði, sem eru í brtt. hv. 1. þm. N-M. um að skipta vegunum nokkuð í flokka, séu vel athugunar verð. Í mínu héraði var það í einni sveit fyrir mörgum árum, að íbúarnir sjálfir lögðu akveg eftir henni endilangri í eins konar þegnskylduvinnu. Og fólkið í sveitinni byggði veginn vel akfæran. Nú er þessi vegur að vísu kominn í þjóðvegatölu, en honum er bara ekki haldið við nægilega, og kaflar eru í honum, sem verða á hverju ári hálfófærir og alófærir.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég mæli fastlega með því, að Alþ. geri ályktun í þessu efni í þá átt, sem upphaf fyrirliggjandi till. segir, og taki svo að öðru leyti málið til nánari athugunar og hafi till. fyllri, en hér er lagt til.