20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (2701)

31. mál, hafnarbótasjóður

Flm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 41 till., sem miðar að því, að lögin um hafnarbótasjóð séu endurskoðuð með það fyrir augum, að sjóðurinn sé efldur og starfsgrundvelli hans breytt.

Það er nýlega búið að ræða um hafnarmál hér á hv. Alþ., og hv. alþingismönnum eru vafalaust í minni þær upplýsingar, sem þar komu fram, sem sé, að nokkur tiltekin viðfangsefni yrðu að ganga fyrir á undan hafnarframkvæmdum, að því er við komi hugsanlegri lánsútvegun.

Nú kann það að vísu að orka nokkurs tvímælis í hugum einstakra manna, hvort þessi niðurröðun sé sú eina rétta, og kemur þar vafalaust til greina mismunandi aðstaða einstakra byggðarlaga úti um landið. Ég þekki til nokkurra byggðarlaga, þar sem hafnarframkvæmdir eru í hugum fólksins fyrsta og aðalatriðið á framkvæmdalistanum. Víða á þeim stöðum vantar ekki fleiri báta, vinnslustöðvar eru e.t.v. til í landi, en hafnarskilyrðin eru í slæmu ástandi. Mig grunar, að það séu til þó nokkuð margir staðir í kringum landið, þar sem hafnarframkvæmdirnar eru efst á blaði hjá sveitarstjórnunum. Ég held því, að þessi mál séu á því stigi, að þau þoli ekki bið gagnvart einstökum stöðum, en auðvitað er það misjafnt, hve ástandið er slæmt, Hins vegar er till. mín við það miðuð að fá álit hv. Alþ. á því, hvort ekki sé nauðsynlegt að taka þessi mál til skipulegrar meðferðar nú þegar með því að efla lánsstarfsemi hafnarbótasjóðs, ef þess væri talinn nokkur kostur.

Ég hef valið þessa leið vegna þess, að margar sveitarstjórnir hafa nú þegar gert áætlanir um framkvæmdir, sem vart verður komizt hjá að gera fljótlega, en allt stendur fast, vegna þess að ekki virðist neinn möguleiki á að fá nauðsynlegt lánsfé til framkvæmdanna. Ef hafnarbótasjóður væri þess megnugur að lána til einhverra tiltekinna hafnarframkvæmda, mætti gera ráð fyrir, að skipulag kæmist á þessi mál og á hverju ári væri lánað til þeirra framkvæmda, sem talið væri nauðsynlegast að ráðast í, eftir því sem möguleikar sjóðsins leyfðu. Allt tal og óskir um hafnarframkvæmdir á næstu árum byggjast vitaskuld á því, að viðkomandi sveitarfélag fái nauðsynlegt lánsfé.

Framkvæmdir hafnarmála hér á landi eru nú einmitt, að ég hygg, komnar á það stig, að litlar upphæðir nægja yfirleitt skammt, vegna þess að smærri framkvæmdum er mjög víða lokið, og tiltölulega fáir staðir hafa haft möguleika til að ráðast í stóru, en jafnframt nauðsynlegu framkvæmdirnar. En fjöldamargir staðir bíða með tilbúnar áætlanir. Einmitt af þessum ástæðum er nauðsynlegt að vinna skipulega og eftir áætlun að þeim heildarhafnarframkvæmdum, sem þarf að gera víða í kringum landið.

Mér er það ljóst, að það er mjög áskipað á áætlunum hæstv. ríkisstj. um ýmiss konar framkvæmdir, sem þarf að útvega fé til, svo að þær nái fram að ganga. En ég óttast, að ef ekki er eitthvað gert þegar til lausnar á þeim mikla vanda, sem er hjá einstökum byggðarlögum varðandi hafnarmálin, kunni að skapast mjög alvarlegt ástand, jafnvel að bátar kunni að fara í burtu til betri hafna og fólk flytjist í burtu vegna atvinnuleysis. Þess vegna held ég, að þegar hafnarmálin eru sett á eftir öðrum framkvæmdum hjá hæstv. ríkisstj., þá sé ekki hjá því komizt, að eitthvað annað sé reynt að gera til bjargar ástandinu í þessum efnum.

Ef hægt væri að auka framlag til hafnarbótasjóðs það mikið, að hann væri þess megnugur að lána eitthvað að marki til hafnarframkvæmda, eða að hann gæti fengið einhvers staðar fé að láni til þessara framkvæmda, þá væri þó þarna lánsstofnun, sem hefði það hlutverk sérstaklega að lána til hafnanna. Nú virðist mér jafnvel allra erfiðast að fá lánsfé til þessara framkvæmda, enda telur enginn peningastofnun sér sérstaklega skylt að taka að sér að lána til þeirra. Ef hafnarbótasjóður fengi hins vegar bætta aðstöðu, mætti gera ráð fyrir, að hann gæti orðið þarna að verulegu liði. Hver sem niðurstaðan yrði, þá er það ljóst, að athugun á þessum málum getur aldrei haft neinar skaðlegar afleiðingar fyrir framgang þeirra, og því hef ég lagt til, að slík athugun væri látin fara fram.

Ég hef fengið fróðlegar upplýsingar hjá vitamálastjóra um framkvæmdir í hafnarmálum á s.l. árum, frá 1949–1957. Á þessu tímabili hefur verið unnið við hafnarframkvæmdir fyrir ca. 165 millj, kr., auk 17.4 millj., sem hefur verið unnið fyrir við landshafnir. Fyrir um helming þessarar upphæðar hefur verið unnið í ár og tvö undangengin ár. Í fyrra, 1956, var unnið við hafnarframkvæmdir fyrir 33 millj. kr. Framlag ríkisins á fjárlögum var þá um 8 millj. 94 þús., og úr hafnarbótasjóði var greitt 2 millj. 63 þús. Lán Akraneshafnar það ár var 9 millj. Mismuninn, um 14 millj., hafa því sveitarfélögin sjálf lagt fram, sem er auðvitað að langmestu leyti fengið að láni hingað og þangað og e.t.v. sumt til skamms tíma. Í ár er gert ráð fyrir, að framkvæmdir verði fyrir 31.8 millj., framlag á fjárlögum 10.6 millj., úr hafnarbótasjóði 1 millj 955 þús. og lán vegna Akraneshafnar um 10 millj. Aftur er mismunur upp á 9–10 millj., sem sveitarfélögin hafa sjálf útvegað. Á þessum tveimur árum hafa því kaupstaðir og kauptún lagt fram hartnær 25 millj. kr., líklega mest að láni, og verður það út af fyrir sig að teljast vel gert, þó að þetta sláttufyrirkomulag verði alltaf erfiðara og erfiðara. Skipulegt átak í lánamálum hafnanna verður að hefjast eftir ákveðinni áætlun, þannig að þær hafnir gangi fyrir lánum, sem verst eru á vegi staddar að dómi þeirra, sem til þekkja, svo sem vita- og hafnarmálastjóra eða atvinnutækjanefndar.

Þetta skipulag á lánamálum hafnanna finnst mér eðlilegast að væri framkvæmt í gegnum hafnarbótasjóð, sem gæti þá e.t.v. orðið sjálfstæð stofnun, líkt og fiskveiðasjóður eða fiskimálasjóður. Mundi þá hafnarbótasjóður gera lánaáætlanir fram í tímann, eftir því sem fjárhagur hans leyfði.

Á undanförnum 12 árum hefur hafnarbótasjóður greitt til hafna rúml. 21.2 millj. samtals, þar af sem lán hátt í 2 millj. Bein framlög úr sjóðnum hafa þannig orðið til jafnaðar rúml. 1.6 millj. kr. á ári að meðaltali. Í langflestum tilfellum er hér um smáar upphæðir að ræða, sem út af fyrir sig hafa komið að miklum notum og beinlínis gert unnt að ráðast í ýmsar smærri framkvæmdir á mörgum stöðum, en geta ekki hjálpað til, þar sem um stórar og dýrar framkvæmdir er að ræða, því að það dugir ekki til, þar sem þannig stendur á. Ef það yrði samþykkt hér á hæstv. Alþingi, að sérstök athugun á öllum þessum hafnarvandamálum yrði látin fara fram, þá yrði skipulag lánveitinganna auðvitað eitt aðalatriðið. Það er eins með hafnvæðingu landsins og rafvæðinguna, að það verður að gera áætlanir langt fram í tímann, taka síðan fyrir tiltekin verkefni og ljúka þeim, til þess að framkvæmdirnar komi að fullum notum, auk þess sem vinnubrögð öll hljóta að verða með miklu meiri árangri. Hér er um mikið framtíðarverkefni að ræða, og ég held, að ef hafnarbótasjóður yrði efldur og fyrirkomulagi hans breytt eftir því, sem kunnugir menn telja heppilegast, þá ætti hann eftir að verða mikil lyftistöng fyrir hafnarmálin í heild og stuðla að betra skipulagi lánamála hafnanna.

Þar sem hér er um athugun aðeins að ræða á þessu máli, tel ég rétt, að því væri að lokinni umr. vísað til allshn.