20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2710)

34. mál, bygging kennaraskólans

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Með till. þeirri, sem hér liggur fyrir á þskj. 47, frá hv. þm. N-Ísf. (SB) og fleirum, hefur verið stofnað til umræðna um byggingarmál kennaraskólans hér á Alþingi. Ég hef í því sambandi leyft mér að koma á framfæri á ný hugmynd, sem ég hef áður hreyft, þ.e.a.s., að breytt verði til um aðsetursstað skólans og hann byggður utan Reykjavíkur. Ég hef á þskj. 81 flutt brtt. um, að skólanum verði valinn staður á Norður-, Austur- eða Vesturlandi. Þótt bygging skólans í Reykjavík hafi verið undirbúin af núv. hæstv. menntmrh, og m.a. grafið fyrir grunni á lóð hér í bænum, geri ég ekki ráð fyrir, að það þurfi að koma verulega í bága við flutning skólans.

Sú vinna, sem lögð hefur verið fram við að gera sér grein fyrir þörfum skólans í sambandi við teikningu, ætti að koma að notum, hvar sem hann verður reistur, og það þarf að grafa fyrir grunni þess húss, sem reist verður á þeirri lóð, sem nú er rætt um, eins þó að það kynni að verða eitthvert annað hús, en kennaraskólinn, sem þar verður reist.

Ég er ekki reiðubúinn til að gera till. um ákveðinn stað, enda eðlilegast, að kennslumálastjórnin fjalli um það mál, og þá m.a. í samráði við kennarasamtökin í landinu. Ég tel sjálfsagt, að sú þingnefnd, sem fær till. á þskj. 47 til meðferðar, ræði um hana við þá aðila, sem af mestri reynslu og þekkingu geta fjallað um þetta mál frá sjónarmiði skólans og þeirra, sem hans eiga að njóta.

Þegar ég hreyfði þessu máli hér á Alþ. fyrir mörgum árum, var mér það efst í huga, að skólinn yrði endurbyggður í sveit, helzt á einhverjum fögrum stað, þar sem hægt væri að hafa not af jarðhita. Sem dæmi um slíkan stað held ég að ég hafi þá nefnt Varmahlíð í Skagafirði. Ef hnigið væri að þessu ráði, þyrfti auðvitað að byggja heimavist í skólanum, en sú heimavist gæti verið til ýmissa hluta nytsamleg á sumrin. Sýnist þó einkum álitlegt að halda námskeið fyrir kennara og ef til vill fleiri að sumrinu. Þá gætu kennarar og aðrir, er slík námskeið sæktu, dvalið í heimavistinni og ef til vill stundum með fjölskyldum sínum. Ef til vill gæti það komið til mála, að kennarasamtök kæmu þar upp sumardvalarstöðum, ef skólinn ætti hentugt land til þess, og þar gætu kennarar ef til vill einnig átt þess kost að kynnast einhverjum stéttarfélögum sínum frá öðrum löndum, sem hingað kæmu. Ég veit, að til voru, a.m.k. um það leyti sem þessu máli var þá hreyft, kennarar, sem áttu sér framtíðarhugsjón eitthvað í þessa átt, um þennan stað, í sambandi við kennaraskóla. Mér er það þó hins vegar vel ljóst, að á þessu fyrirkomulagi, að láta skólann hafa aðsetur í sveit, eru nokkrir gallar, sem e.t.v. geta valdið því, að það reynist ekki tiltækilegt. Er þess þá fyrst að minnast, að í sambandi við æfingakennsluna þurfa nemendur í kennaraskólanum að hafa aðgang að nokkuð fjölmennum barnaskóla eða æfingadeild, eins og það er nefnt. En til þarfa skólans sjálfs verður auðvitað að taka fyllsta tillit, þegar honum er ætlaður staður.

Ég vil svo jafnframt láta það koma skýrt fram, enda bæði rétt og skylt að gera það, að ég hef hreyft þessari hugmynd bæði fyrr og nú öðrum þræði vegna þess, að það er skoðun mín, að æskilegt sé, að embætti og ríkisstofnanir, þ. á m. skólar, sem ekki er af einhverjum sérstökum ástæðum óhjákvæmilegt að hafi aðsetur í höfuðstaðnum, séu látnar starfa annars staðar í byggðum landsins. Ég tel, að hér geti verið um að ræða mikinn ávinning fyrir þær byggðir, sem fámennari eru. en Reykjavík. Það skiptir hins vegar litlu máli fyrir höfuðborgina, sem ekki skortir fjölmenni og verður jafnan, þótt einhverjar breytingar af þessu tagi yrðu gerðar, miðstöð opinberrar starfrækslu í landinu. En þetta atriði mun ég ræða nánar í sambandi við annað mál, sem nú liggur fyrir þessu þingi.

Um kennaraskólann er annars það að segja, að hann er í sínu hlutverki og á að vera ein af þýðingarmestu menntastofnunum landsins, og það er mikils um vert, að vel sé að honum búið, eins og hefur komið fram í þessum umræðum. Á þetta hefur nokkuð skort og einkum að því er varðar húsnæði skólans, sem mátti víst heita allgott á sinni tíð, en er nú orðið á eftir tímanum. Við þennan skóla hafa starfað ýmsir ágætir menn bæði fyrr og síðar, og öll þjóðin á mikið undir því, að vandað sé til menntunar þeirra, sem eiga að vísa allri þjóðinni veginn til þekkingar og manndóms, að því leyti sem slík leiðsögn verður veitt á vegum þjóðfélagsins.

Ég er þess alveg fullviss, að starf og áhrif svo gagnmerkrar menntastofnunar og þeirra, sem við hana ynnu, mundi verða til ómetanlegs gagns fyrir þann landshluta, þar sem hún væri starfandi, og þessa mundi gæta miklu meira, þar sem fámenni er og minna um að vera, en hér í höfuðstaðnum. Þetta mundi sá landshluti eða það byggðarlag, sem í hlut á, líka vel kunna að meta, og er þess t.d. skemmst að minnast, hvílíkar mætur fólk á Norðurlandi hefur á Menntaskólanum á Akureyri, sem komið hefur fram í stuðningi við þann skóla á margan hátt.

Ég veit, að flutningur slíkrar stofnunar sem Kennaraskóla Íslands og raunar svo að segja hvaða stofnunar sem er hlýtur því miður að baka einhverjum óþægindi og fyrirhöfn, og ég þykist vita, að hér séu e.t.v. ekki allir á einu máli. Hér er sem viðar full þörf skilnings, viðsýni og rólegrar yfirvegunar. Mér þykir það líklegt, að skoðun starfandi kennara megi sín mikils í þessu máli, enda er það eðlilegt, kennaranna bæði í Reykjavík og um allt land. Ég mundi telja það mikils vert, ef kennarar landsins vildu leggja þessu máli lið, og vænti þess, að þeim verði gefinn kostur á að athuga það sem vandlegast. En ég veit ekki, hvort þeir hafa áður átt þess kost að athuga skólamálið til hlítar frá því sjónarmiði, sem ég nú hef leyft mér að gera grein fyrir í stuttu máli.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en þar sem till. liggur nú þegar fyrir, brtt., taldi ég sjálfsagt að gera grein fyrir henni nú þegar. En ég vil mælast til þess, að brtt, verði tekin til meðferðar í þeirri hv. n., sem væntanlega fær málið, þ.e.a.s. till. á þskj. 47, til meðferðar, áður en það kemur til afgreiðslu í þinginu.