20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (2711)

34. mál, bygging kennaraskólans

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það má vera okkur flm. þessarar till, mikið ánægjuefni, hversu einlægum áhuga sínum hæstv. menntmrh. lýsti á áframhaldi framkvæmda við byggingu kennaraskólans. Af þeim yfirlýsingum hans virðist mega draga þær ályktanir, að framkvæmdum við bygginguna verði nú haldið áfram linnulaust og eftir því, sem föng eru frekast á.

Yfir hinu verð ég að láta í ljós vonbrigði mín, að hæstv. ráðh. skyldi fara hér með gersamlega rangt mál um það, hvenær hafnar voru framkvæmdir að nýju á þessu ári við byggingu skólans. Hæstv. ráðh. hikaði ekki við að lýsa því yfir, að þegar þessi till. hefði verið flutt, hefðu framkvæmdir staðið yfir við kennaraskólabygginguna. Þetta upplýsir hæstv. ráðh. frammi fyrir öllum þingheimi, enda þótt honum hefði átt að vera kunnugast um það allra manna, að ráðherrabréf um það, að framkvæmdum skyldi haldið áfram við skólann á þessu ári, var gefið út 29. Okt. s.l., eða fjórum dögum eftir að þessi till., sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 47, var lögð fram af hálfu okkar flm. Þrátt fyrir þetta, sem hæstv. ráðh. veit um, lýsir hann því yfir, að þegar till. var flutt, hafi framkvæmdir staðið yfir við bygginguna. Það má hver lá mér sem vill, þó að ég verði að átelja hæstv. menntmrh. fyrir slíkan málflutning.

Öllum hv. þm. má af þessu vera ljóst, hvað hefur gerzt í þessu máli. Hæstv. menntmrh. hefur séð þá till., sem hér liggur fyrir, þar sem ríkisstj. er falið að halda áfram byggingu kennaraskólans í samræmi við undirbúning þess máls undanfarin ár, og hrekkur þá við, og fjórum dögum síðar fyrirskipar hann, að hafizt skuli handa um byggingarframkvæmdir að nýju, eftir að komið er haust.

Mér er ekkert launungarmál, að af hálfu okkar flm, þessa máls er það tekið upp vegna þess, að ýmsir áhugamenn í kennarastétt um byggingu nýs kennaraskóla komu að máli við okkur og skýrðu okkur frá því, hvernig málin stæðu, og framkvæmdir hefðu legið gersamlega niðri á árinu og ekkert útlit væri fyrir, að nokkuð yrði gert á þessu ári. Það er vegna ábendinga og óska þessara manna, sem höfðu unnið að því margir hverjir undanfarin ár að þoka kennaraskólamálinu áleiðis, sem við flytjum þessa tillögu. Og ég get lýst yfir ánægju minni yfir því, að hún hefur þegar orðið til þess, að hæstv. menntmrh. hrekkur við og fyrirskipar áframhald framkvæmda við bygginguna.

Það má segja, að þetta sé kjarni málsins, að koma málinu á rekspöl að nýju. Og þess vegna mun ég ekki leggja neina áherzlu á það að skattyrðast við hæstv. ráðh. út af því, að hann gefur hv. Alþ. rangar upplýsingar um það, hvenær þessar framkvæmdir hafa verið hafnar, og reynir að láta líta út fyrir það, að við flm. þessarar till. höfum flutt hana gersamlega að ástæðulausu, flutt hana sem sagt þrátt fyrir það, þó að okkur hafi átt að vera kunnugt um, að framkvæmdir stóðu yfir við bygginguna.

Ég get svo látið útrætt um þetta, á þessu stigi málsins a.m.k., en endurtek það, að ég er ánægður yfir því og við flm. allir, að hæstv. ráðh. hefur, þegar hann sá till. okkar, en ekki fyrr, fyrirskipað, að framkvæmdum við bygginguna skyldi haldið áfram.

En það er annað atriði í þessu máli, sem hæstv. ráðh. kom hér inn á. Hann upplýsti, að hann hefði lagt til, að Húsmæðrakennaraskóla Íslands yrði fengið húsnæði á efstu hæð hinnar nýju kennaraskólabyggingar.

Ég vildi nú mega spyrja hæstv. ráðherra: Í samráði við hvern hefur þessi ákvörðun verið tekin? Ég býst við, að alla hv. alþm. reki minni til þess, að á undanförnum þingum hafi einmitt staðið yfir stórátök um það í báðum deildum þingsins, hvar þessi skóli ætti að vera staðsettur. Það hafa verið flutt frv. um það, að honum skyldi fengin bólfesta í nýju eða nýlegu og ágætu skólahúsi norður á Akureyri. Þegar það mál var flutt fyrst hér á hv. Alþ. af þáverandi þm. Ak., Jónasi Rafnar, hér í Nd., þá samþykkti Nd. frv., og það komst til Ed. Ég man nú ekki, hvort það dagaði uppi þar eða hvort það var fellt þar, en víst er það, að það náði ekki afgreiðslu. Mig minnir, að hv. Nd. hafi tvívegis samþykkt þetta frv., en málið engu að síður ekki náð fram að ganga. Á síðasta þingi flutti hv. núverandi þm. Ak. þetta mál í Ed., og urðu um það meiri átök þar en flest önnur mál þingsins, og hefur þetta mál jafnan verið mjög mikið álitamál og deilumál meðal þingmanna, menn greint mjög á um það, hvort skólann ætti að flytja til Akureyrar, þar sem ágætt húsnæði er til fyrir hann, eða hvort ætti að ráðast í nýjar milljónaframkvæmdir hér í Reykjavík til þess að hýsa þessa ungu menntastofnun.

Ég verð að segja það, að með tilliti til þessarar vitneskju, sem hæstv. menntmrh. hlýtur að hafa, er það í mesta máta einkennilegt, svo að ekki sé dýpra í tekið árinni, ef hann ákveður annaðhvort gersamlega upp á eigin spýtur, að þessi skóli skuli verða til húsa í framtíðinni í nýrri kennaraskólabyggingu, eða þá í samráði við skólastjóra húsmæðrakennaraskólans eða skólanefnd.

Á það má enn benda í þessu sambandi, sem gerir atferli hæstv. ráðh. enn þá vafasamara, að á fjárlögum hefur verið ætluð nokkur fjárupphæð, að mig minnir tvö ár í röð, til byggingar húsmæðrakennaraskóla, en ekkert mun vera tekið fram um það í fjárlögum, hvar skólann eigi að reisa.

Þegar á allt þetta er litið, býst ég við, að það hljóti að koma hv. þingmönnum nokkuð á óvart að heyra hæstv. menntmrh. lýsa því yfir, að hann hafi tekið ákvörðun um það, að þessi skóli, sem svo mjög hefur verið deilt um hvar skuli staðsettur, skuli endanlega og um alla framtíð vera á ákveðnum stað, í efstu hæð hinnar væntanlegu nýju kennaraskólabyggingar. En vera má, að hæstv. ráðh. hafi nokkra afsökun í þessu máli, og vil ég ekki fyrir fram gera honum verri getsakir, en ástæða kann að vera til. Vera má, að hann hafi haft samráð við einhverja fleiri aðila um staðsetningu húsmæðrakennaraskólans, áður en hann tók þá ákvörðun, sem hann gat um hér í ræðu sinni áðan. En ég vildi þá leyfa mér að vænta þess, að hæstv. ráðh. gæfi fyllstu upplýsingar um það, í samráði við hverja og á hvaða grundvelli hann tók þá ákvörðun, sem hann lýsti hér áðan um staðsetningu Húsmæðrakennaraskóla Íslands.