20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (2712)

34. mál, bygging kennaraskólans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég verð að leiðrétta atriði í ræðu hv. þm. N-Ísf. varðandi byggingarmál kennaraskólans. Hann taldi mig hafa farið með rangt mál varðandi framkvæmdir við kennaraskólabygginguna nú í haust og staðhæfði, að menntmrh. hefði ekki lagt fyrir byggingarnefndina að hefja framkvæmdir fyrr en fjórum dögum eftir að þessi till. kom fram á hinu háa Alþingi. Um þetta hafði þingmaðurinn allstór orð. Ég ætla, að hann hafi viðhaft sín stóru orð af því, að honum hafi ekki verið allir málavextir kunnir, og vil trúa því, þangað til ég reyni annað. En málavextir eru þeir, að byggingarnefnd kennaraskólans hafði ráðuneytisheimild til að halda áfram byggingarframkvæmdum við kennaraskólann frá því í fyrrahaust, hún hafði heimild til þess frá því á sumrinu 1956 og þurfti því enga nýja heimild, hvorki munnlega né skriflega, frá menntmrh. á þessu ári. Það, sem byggingarnefndina skorti, var fjárfestingarleyfi. Og menntmrh. hafði á miðju þessu ári leitað mjög eindregið eftir því við fjárfestingaryfirvöldin, að slíkt leyfi yrði veitt. Samdægurs og slíkt leyfi kom í hendur byggingarnefndarinnar, hafði hún ekki aðeins rétt, heldur og skyldu til þess að hefjast handa þegar í stað.

Ég fylgdist nákvæmlega með afgreiðslu málsins hjá fjárfestingaryfirvöldunum og átti tal við formann byggingarnefndar kennaraskólans, Freystein Gunnarsson skólastjóra, að því er ég held samdægurs eða daginn eftir að fjárfestingarleyfið var veitt, og lét þá í ljós þá munnlegu ósk, sem raunar var alveg óþarfi, — það kom fram með eðlilegum hætti í tali okkar, — að nú yrði byggingarframkvæmdum að sjálfsögðu haldið áfram. En síðan óskaði ég eftir því í rn., að þetta samtal yrði staðfest með bréfi. Og það var það, sem var gert 29. Okt. þessa árs.

Því miður hef ég ekki afrit af bréfinu sjálfu hér, en efnisútdrátt úr því hef ég, gerðan af rn., og þar segir:

„29. okt. 1957. Ráðuneytið staðfestir bréflega það, sem áður hafði verið tilkynnt formanni byggingarnefndar munnlega, að ráðuneytið hafi heimilað að halda áfram byggingu kennaraskólahússins, eftir því sem fjárfestingarleyfið segir til um, sbr. bréf innflutningsskrifstofunnar, dags. 2. sept. s.l.“

Af þessu vænti ég, að hv. þm. sjái, að ákvörðun rn. í þessu máli var algerlega óháð flutningi þessarar till., að það hafði þegar tekið sínar sjálfsögðu ákvarðanir, sem því ber auðvitað engar sérstakar þakkir fyrir, að ræða um það við byggingarnefnd skólans, að nú haldi framkvæmdunum að sjálfsögðu áfram. Þetta mál vona ég því að megi teljast alveg upplýst að fullu, þannig að það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni um þetta mál, var í samræmi við skjöl málsins og staðreyndir.

Þá kemur hitt atriðið, sem hv. þm. vék að, og það er húsnæðismál húsmæðrakennaraskólans. Hv. þm. spurði, hvaðan mér hafi komið heimild til þess að ákveða húsmæðrakennaraskólanum stað í kennaraskólabyggingunni um aldur og ævi, eins og hv. þm, mun hafa tekið til orða. Hv. þm. mun flestum kunnugt um þær miklu deilur, sem urðu um húsnæðismál húsmæðrakennaraskólans á síðasta þingi, og mörgum einnig kunnugt um deilur, sem áður hafa orðið hér á hinu háa Alþingi um þetta mál. En ákvæði laga um húsmæðrakennaraskóla eru þannig, að starfrækja skuli húsmæðrakennaraskóla í Reykjavík. Till., sem uppi hafa verið og ég m.a. hef verið meðflm. að áður, hafa verið þess efnis, að menntmrh. eða fræðslumálastjórnin skuli ákveða staðsetningu húsmæðrakennaraskólans. Sú skýring hefur þá fylgt af hálfu hlutaðeigandi ríkisstj. eða yfirvalda, að ef sú skylda yrði numin úr l. að hafa húsmæðrakennaraskólann í Reykjavík, yrði hann fluttur í lítið notað, ef ekki ónotað húsnæði á Akureyri.

Alþingi hefur tvívegis lýst yfir eindreginni skoðun sinni í þessu máli, þ.e.a.s. ítrekað, að húsmæðrakennaraskólinn skuli vera í Reykjavík. Það er það, sem ríkisstj. eða menntmrn. hefur að fara eftir í þessum efnum, ekki aðeins gamalt lagafyrirmæli, heldur tví yfirlýstur vilji Alþingis um það, að húsmæðrakennaraskóli skuli vera í Reykjavík.

Húsmæðrakennaraskólinn missti fyrir um það bil tveimur árum það húsnæði, sem hann hafði haft frá stofnun sinni, á neðstu hæð háskólabyggingarinnar, og var húsnæðislaus síðasta ár. Bygging nýs húss, sem svolítið fé hefur verið veitt til, hlyti að taka mörg ár, auk þess sem sú fjárveiting, sem fyrir hendi er í þessum efnum, er allt of litil til þess, að hægt sé að byggja nægilegt húsrými fyrir húsmæðrakennaraskólann eða skynsamlegt sé að hefja byggingu með jafnlitla fjármuni og yfir er að ráða í þessu sambandi. Þess vegna datt mér í hug á síðastliðnu vori, skömmu eftir að Alþ. hafði tekið síðustu ákvörðun sína í málinu, að varpa fram þeirri hugmynd, fyrst við skólastjóra og byggingarnefnd húsmæðrakennaraskólans, hvort þessir aðilar, sem auðvitað fyrst og fremst hafa forgöngu um að benda á húsnæði fyrir skólann, mundu telja það heppilega lausn, að skólinn fengi frambúðarhúsnæði í kennaraskólabyggingunni. Og þessir aðilar báðir voru á einu máli um það, að þetta væri mjög æskileg lausn og æskilegasta lausnin á húsnæðismálum húsmæðrakennaraskólans. Að fengnu þessu áliti ritaði rn. byggingarnefnd kennaraskólans og spurðist fyrir um það, hvort hún vildi fyrir sitt leyti samþykkja það, að teikningum kennaraskólahússins yrði breytt þannig, að skólanum yrði ætlað þar húsnæði. Byggingarnefndin samþykkti það fyrir sitt leyti, og teikningar hafa verið endurskoðaðar með tilliti til þess, þannig að þeir aðilar, sem um þetta eiga að fjalla lögum samkvæmt, hafa fjallað um það. Annar aðilinn, sá sem fyrst og fremst ber ábyrgð á skólanum, þ.e. skólanefndin og skólastjórinn, taldi lausnina ekki aðeins æskilega, heldur og æskilegustu frambúðarlausnina á málinu, og hinn aðilinn, sem hefur yfir húsnæðinu að segja, hefur á það fallizt fyrir sitt leyti.

Um það má auðvitað deila endalaust, hvort skynsamlegt væri að byggja sérstakt hús yfir húsmæðrakennaraskólann eða gera þetta, sem nú hefur verið ákveðið að gera með samþykki allra hlutaðeigandi aðila. Mín skoðun á málinu er alveg bjargföst. Hún er sú, að heppilegast sé, að húsmæðrakennaraskólinn starfi í sem allra nánustum tengslum við þá stofnun, sem annast hina almennu kennaramenntun í landinu. Húsmæðrakennaraskólinn á að mennta kennara, sérkennara á ákveðnu sviði, og það er heppilegast fyrir nemendur húsmæðrakennaraskólans, það er ódýrast fyrir ríkið, og það er þægilegast fyrir kennarana, að þessar tvær stofnanir séu til húsa í einni og sömu byggingunni. Jafnvel fyndist mér koma til greina að athuga að gera stofnanirnar að einni stofnun, að sameina þær, þó að það sé að sjálfsögðu ekki til umræðu nú, eins og lögum um þetta efni er háttað.