20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (2713)

34. mál, bygging kennaraskólans

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. vitnaði hér til ýmissa heimilda eða gagna, sem að hans áliti áttu að sýna, að verulegur dráttur hefði orðið á þessu máli allt þangað til hann sjálfur tók við meðferð þess. Nú hef ég ekki færi á því að sannreyna þær dagsetningar, sem hæstv. menntmrh. vitnar til, ég hef ekki færi á því að gera það undirbúningslaust og skal út af fyrir sig ekki vefengja þær, þó að ég verði að segja, að samkvæmt því, sem hv. þm. N-Ísf. (SB) nú hefur upplýst, verður að taka með allri varúð umsögn þessa hæstv. ráðherra um málið, því að það er óyggjandi, að hann er staðinn að því að hafa sagt mjög villandi frá gangi málsins í fyrri ræðu sinni og orðið efnislega að gefa allt aðra mynd af málinu nú í seinni ræðunni, eftir það að hv. þm. N-Ísf. upplýsti um það bréf, er ritað hafði verið fjórum dögum eftir flutning þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir. En hæstv. ráðh. vildi túlka plöggin á þann veg, að málið hefði verið dregið óhæfilega á langinn og ekkert hefði verið aðhafzt fyrr en, eins og hann lagði mikla áherzlu á í sinni ræðu, um það bil að kosningar áttu að fara fram. Og þó að hann segði það ekki, gat sú staðhæfing hans ekki átt annað inni að fela, en að það hefði verið eins konar kosningabragð, að málið var þá tekið upp. Hins vegar liggur það alveg ljóst fyrir eftir þeim gögnum, sem hæstv. ráðh. hafði, að í menntmrn. var aldrei neinn óhæfilegur dráttur á meðferð málsins. Málið hafði þar eðlilega meðferð, og því var hraðað, eftir því sem föng voru til, og það var einmitt fyrir sérstakan atbeina menntmrn., menntmrh, sjálfs á sínum tíma, að fjárfestingarleyfi fékkst, og það hefði ekki fengizt, ef hann hefði ekki skorizt í málið, þannig að það að vera með ásakanir, þótt dulbúnar væru, á þann veg, sem hæstv. menntmrh. var með, er vægast sagt gersamlega ástæðulaust.

Um meðferð slíks máls sem þessa verður auðvitað að hafa í huga, að undirbúningur allur hlýtur að taka mjög langan tíma. Í fyrsta lagi verður að taka ákvörðun af réttum aðilum, í þessu tilfelli Alþingi. um byggingu hússins, og sú ákvörðun verður fyrst og fremst að koma fram í fjárveitingunum, sem ætlaðar eru til framkvæmdanna. Og það er tómt mál að tala um upphaf byggingar, sem kostar margar milljónir, ef ekki milljónatugi áður, en yfir lýkur, meðan aðeins fá hundruð þúsunda eru fyrir hendi. Það er ekkert vit í að ráðast í slíkar stórframkvæmdir fyrr, en nokkuð stórt átak verður gert í einu. Og það vakti fyrir mér, þegar ég lét doka við og undi því um skeið, að fjárfestingarleyfi væri ekki veitt, að það var verið að draga saman fé, til þess að hægt væri að byrja af nokkrum myndarskap, þegar tímabært þætti. Hæstv. fjmrh. hefur í öðru sambandi lýst því nokkuð, hvernig gekk að útvega fé, bæði til þessara og annarra nytjaframkvæmda, sem þurfti að fá hans samþykki til. Hann segist aldrei hafa lent í harðari baráttu á sinni ævi, en að standa á móti ásókn frá sjálfstæðisráðherrunum, þ. á m. mér, til ýmissa framkvæmda, sem undir þeirra ráðuneyti heyrðu. Ein af þeim framkvæmdum, sem ég harðast gekk eftir og átti í mestri baráttu við fjmrh. um, var elnmitt fjárveitingin til kennaraskólans. Hún er eitt dæmi þess, sem baráttan stóð um í ríkisstj. á sínum tíma. Jafnskjótt og búið var að safna nokkru fé til þess að hægt væri að ráðast í framkvæmdina, var orðið tímabært að taka ákvörðun um, að hefjast skyldi handa. Hitt hefði verið hreinn leikaraskapur, að vera að sýnast hafa áhuga fyrir framkvæmd, sem ekki var með þáverandi fjárveitingum hægt að eiga þátt í, að hrundið væri af stað.

Næst því að afla fjárveitinganna var að fá fjárfestingarleyfið, og það var heldur engan veginn erfiðleikalaust. Ég segi ekki, að þeir menn, sem stóðu á móti bæði fjárveitingum og fjárfestingarleyfi, hafi gert það af illum hug. Við verðum að hafa hér í huga, að það var sótt eftir mörgu, og þeir, sem þarna veittu andstöðu, töldu, að aðrar þarfir yrðu að vera í fyrirrúmi. Og það var ekki fyrr en mjög var fast eftir gengið og með sérstakri íhlutun þáverandi ráðherra, sem þetta leyfi fékkst. Jafnvel þær a.m.k. mjög einkennilega fram settu upplýsingar, sem hæstv. menntmrh, hér gaf, sýna alveg eindregið, þegar þær eru skoðaðar, að svona liggur í málinu.

Samtímis þessu var svo verið að vinna að teikningu hússins, og hæstv. menntmrh. var að leggja áherzlu á það, að ég hefði á sínum tíma viljað láta minnka bygginguna frá því, sem byggingarnefnd lagði til. Ja, ég vildi láta skoða það ofan í kjölinn. Án þess að ég muni eftir því í einstökum atriðum, um hvað þarna var að ræða, vildi ég láta skoða það ofan í kjölinn um þessa byggingu sem aðrar, að það væri þörf á því, sem í væri ráðizt, og fá fullnægjandi upplýsingar um nauðsynina, áður en rn. tæki sína ákvörðun. Þegar þær upplýsingar fengust og eftir skoðun málsins samþykkti ég teikninguna, og sú töf, sem af þessu varð, varð alls ekki til þess að tefja framgang málsins í heild. En það, að teikningar séu aldrei of vel skoðaðar, sannaði svo einmitt ræða hæstv. menntmrh. að öðru leyti, þegar það kemur í ljós, að eftir að byggingin er hafin, verður það einmitt til þess, að ársdráttur verður á framkvæmdum, að það þarf að gerbreyta teikningunni frá því, sem áður hafði verið ákveðið.

Það er sem sagt algerlega villandi, þegar hæstv. menntmrh. er nú að láta svo, að þessi dráttur, sem orðið hafi, sé vegna þess, að staðið hafi á fjárfestingarleyfum. Eftir hans eigin upplýsingum er ástæðan einfaldlega sú, að hann ætlar að breyta og breytir byggingunni, sem ákveðið er að hefjast handa um. Ég tek það alveg skýrt fram, að það má vel vera, að sú ráðstöfun hæstv. ráðh. sé rétt og það eina skynsamlega. Mig skortir öll gögn til þess að dæma um það. En það gefur auga leið, að þegar ákvörðun er tekin um það að setja alveg nýja stofnun í bygginguna, jafnvel þó að hún eigi að vera uppi á efsta lofti, verður að endurskoða alla bygginguna, alla teikninguna, og það er vitanlega ekkert vit í því að halda áfram með bygginguna, meðan á þessu stendur. En þetta átti hæstv. menntmrh. að segja okkur hreinlega og undanbragðalaust, að málið hefði tafizt um nokkra mánuði, af því að hann taldi ástæðu til að gera þessa gerbreytingu á meðferð málsins. Eins og ég segi, það getur vel verið, að það sé það eina skynsamlega, en þá á hann ekki að vera að reyna að velta ábyrgðinni yfir á aðra og segja: Það stóð á fjárfestingarleyfi, og fjárfestingaryfirvöldin þurftu að fá hina nýju teikningu. — Ja, urðu ekki mennirnir, sem áttu að byggja eftir teikningunni, að hafa þá nýju teikningu? Eða var bara um hreina loftkastala að ræða, sem hægt var að byggja eftir sjónhendingu, jafnvel eftir viðtali hæstv. ráðh. við formann byggingarnefndar kennaraskólans, — viðtali, sem var þó ekki ákveðnara, en svo, að 11/2 mánuði eftir að það á að hafa farið fram, vaknar ráðherrann við illan draum um það, að hann þurfi að staðfesta viðtalið skriflega?

Þegar gripið er til slíkra undanbragða og jafnframt er verið að reyna að koma sökum á þá, sem engar sakir eiga skilið fyrir afskipti sín í málinu, er það bezta sönnunin fyrir því, að um er að ræða óhreint mél í pokanum og ekki hefur verið eins eindregið unnið að málinu og skyldi, enda sést það nokkuð berlega af því, að þegar hæstv. ráðh. byrjar hér sína varnarræðu og heldur því fram, að flytjendur málsins hafi alltaf átt að vita, að þessi bygging væri hafin og hefði alltaf staðið yfir, ja, hvað segir jafn glöggur, jafnvelviljaður og gerhugull maður og hv. þm. N-Þ. (GíslG) í sinni brtt. á þskj. 81? Í staðinn fyrir að eigi að halda áfram byggingu, þá leggur hann til í till. sinni, að eigi að hefja byggingu. Það á að hefja byggingu. Svo bætir hann að vísu við, að það eigi að flytja bygginguna til. Þessi maður telur þá, eftir að till. er búin að koma fram og hann hefur haft færi á því að kynna sér öll viðhorf málsins, að það sé enn tímabært að gera á Alþingi till. um að hefja byggingu á kennaraskóla, og jafnvel þessi litli undirbúningur, sem fram hafi farið, sé ekki meira virði en svo, að það sé hægt að flytja húsið til, ja, eitthvað út á land, það má bara ekki vera í Reykjavík. Það á þá sem sagt eftir hans till. að vera á Norður-, Austur- eða Vesturlandi, það má bara ekki vera á Suðurlandi og allra sízt í Reykjavík. Það sýnir nokkuð hans hug til höfuðstaðarins. Látum það eiga sig, það er mál út af fyrir sig. Hér er óumdeilanlega um það að ræða, að það var búið að afla nokkurs fjár til þessarar byggingar, ekki nógu mikils, en nokkurs fjár. Það var búið að fá lóð, það var búið að fá teikningar, sem menn á því stigi töldu vel við unandi, það var búið að fá fjárfestingarleyfi, og það var búið af þáverandi ríkisstjórnar hálfu að mæla fyrir um, að byggingin skyldi hafin. Eftir 16 mánuði, eða hvað þeir eru nú orðnir margir, er svo ekki komið lengra en að hæstv. ráðherra þarf að staðfesta í bréfi, að það eigi að halda áfram byggingunni, eftir því sem hann segir sjálfur, og jafneindreginn stuðningsmaður hans og hv. þm. N-Þ. flytur till. um, að það eigi að fara að hefja framkvæmdirnar.

Það kann vel að vera, að þetta sé allt skýranlegt og það sé málinu til góðs, að það hafi verið dregið með því að taka ákvörðun um að sameina byggingu húsmæðraskólans kennaraskólanum. Það er alveg mál fyrir sig, sem er sjálfsagt að athuga af fullri sanngirni og velta fyrir sér, hvort það verði til góðs eða ills. En þegar málið liggur þannig fyrir, hefði hæstv. menntmrh. átt að hafa í sér hreinskilni til að segja frá því, eins og málið liggur fyrir, og ekki a.m.k. að vera að reyna að sletta aur í aðra í leiðinni.