20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (2714)

34. mál, bygging kennaraskólans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. hefði alveg getað sparað sér þessa ræðu eða aðalefni hennar, ef hann hefði látið þar við sitja að gera um það fsp., sem ég hefði að sjálfsögðu þegar í stað svarað, með hverjum hætti sú endurskoðun á teikningu kennaraskólans, sem gerð hefur verið, hafi farið fram. Um það var samkomulag á milli skrifstofu húsameistara og innflutningsskrifstofu að láta endurskoðun teikningarinnar ekki tefja fyrir framkvæmdum, vegna þess að vitað var, að þær framkvæmdir, sem þurfti að vinna að í haust og mundi verða unnið að í haust, yrðu eingöngu kjallaragröftur. Það er mikið verk að grafa fyrir kjallara hússins á þeim stað, þar sem húsið á að reisa, og lá ljóst fyrir, að á þessu ári mundi í hæsta lagi hægt að koma byggingunni það langt áleiðis, að lokið yrði grefti kjallarans, og þá voru auðvitað allir aðilar um það algerlega sammála, að ástæðulaust væri að bíða eftir hinni endurskoðuðu teikningu.

Það, sem gerðist var síðan það, að fjárfestingaryfirvöldin samþykktu að leyfa bygginguna 2. sept. 1957, eins og ég hef getið um áður, og sögðust mundu gefa út formlegt fjárfestingarleyfi, þegar hin endurskoðaða teikning hefði verið staðfest hjá byggingaryfirvöldunum. Endurskoðun teikningarinnar hefur ekki tafið framkvæmdirnar um einn dag, ekki um klukkustund. Öll þau stóru orð, sem hv. þm. sagði í framhaldi af þessari skoðun sinni, hefði hann því betur látið ósögð.

Hinar einföldu staðreyndir í málinu eru þessar, og þær skal ég rifja upp að síðustu: Byggingarmál kennaraskólans hefur verið á döfinni frá því sumarið 1950. Í þau sex eða sjö ár, sem liðin eru frá þeim tíma, hafa tveir af framámönnum Sjálfstfl. farið með yfirstjórn menntamálanna í sex ár, en ég aðeins í rúmt ár. Þegar valdatími hinna tveggja sjálfstæðismenntmrh. var að renna út, þá fyrst er hafizt handa um það, sem hefur úrslitaáhrif í málinu, eins og hv. ræðumaður lýsti, þ.e. að tryggja byggingunni fjárfestingarleyfi. Þá fyrst á þeim sex árum, sem málið hefur verið á döfinni, eða 4/6 1956, ritar menntmrn. innflutningsskrifstofunni og óskar eftir nauðsynlegum leyfum til, að unnt sé að hefja þegar byggingu kennaraskólahúss í Reykjavík, m.ö.o., eins og ég sagði áðan, í sama mánuði og kosningar skyldu fara fram til Alþingis. Og eftir að kosningarnar fóru fram, eða 17. júní 1956, nokkrum dögum áður en hv. 1. þm. Reykv. vék úr sæti menntmrh., skrifar hann byggingarnefndinni og felur henni að hefja bygginguna.

Það, sem gerzt hefur á þeim tíma, sem núv. ríkisstj. hefur haft með þetta mál að gera, er það, að byggingin sjálf var hafin af byggingarnefndinni, eins og hún hafði rétt og skyldu til, á s.l. ári, með grefti fyrir byggingunni. Menntmrn. óskaði mjög eindregið eftir endurnýjun á fjárfestingarleyfinu skriflega 6. júní 1957, en munnlega hafði það verið gert margoft áður. Leyfið fékkst 2. sept.1957, og síðan hefur byggingarnefndin haft öll formleg leyfi til að hafast það að, sem hún taldi rétt og skynsamlegast, og ég veit ekki annað, en hún hafi hafzt þannig að, að hana sé ekki unnt að saka um nokkurn drátt í málinu. Og það er einmitt algerlega að mínum vilja, að byggingunni verði hraðað eins og leyfi og fé gera kleift.