20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (2720)

34. mál, bygging kennaraskólans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég furðaði mig á því, að hv. 6. þm. Reykv. (GTh), borgarstjórinn í Reykjavík, skyldi segja, að upplýsingar mínar um lóðamál skólans væru rangar, þegar hann í skýrslu sinni staðfesti þær í öllum atriðum, sem máli skipta. Menntmrn. hefur ekki bein viðskipti við bæinn út af lóðamálum, það gerir byggingarnefndin sjálf, svo að þau gögn, sem liggja fyrir rn. um þessi efni, eru frá byggingarnefndinni. Ég hafði getið þess, að n. hafi tilkynnt rn. 28. júní 1952, að loforð sé talið fengið fyrir lóð undir skólann, en síðan, að n. eða formaður hennar hafi tjáð rn. 4. júní 1956, að gengið verði frá úthlutun lóðar frá bæjarins hálfu þann dag, m.ö.o., að gengið verði endanlega frá lóðaúthlutuninni þann dag, 4. júní 1956.

Þessar upplýsingar koma algerlega heim við það, sem borgarstjórinn í Reykjavík lýsti í ræðu sinni áðan, hvernig málið hafi gengið fyrir sig. Það eina, sem á milli gæti borið, væri það, hvort ber að skoða tilkynningu bæjaryfirvaldanna til byggingarnefndarinnar um loforð fyrir lóð sem alveg endanlega ákvörðun bæjaryfirvaldanna, og vel má vera, að starfshættir bæjaryfirvaldanna séu þeir, og þá er ekkert frekar um þetta að segja. En hitt var engu að síður rétt, sem ég sagði, að formleg og endanleg úthlutun lóðarinnar fór ekki fram samkvæmt ummælum byggingarnefndarinnar, sem lóðaleyfin fær, fyrr en 4. júní 1956.

Hv. 2. þm. Eyf. ræddi um starfsemi húsmæðrakennaraskólans og spurði, hvort hann mundi starfa í vetur. Því ber að svara neitandi. Hann starfar ekki í vetur. Hvort hann muni taka til starfa með eðlilegum hætti næsta haust, þ.e. áður en efstu hæð kennaraskólahússins er lokið, er undir því komið, hvort tekst að fá handa skólanum hentugt bráðabirgðahúsnæði, sem skólanefndin og skólastjórinn gætu sætt sig við þau ár, sem bygging kennaraskólahússins óhjákvæmilega hlýtur að taka. Það var athugað mjög rækilega á s.l. sumri, hvort hægt væri að fá bráðabirgðahúsnæði fyrir skólann nú í haust, en það tókst ekki. Þeim athugunum mun verða haldið áfram í tæka tíð fyrir næsta haust, og ef hentugt leiguhúsnæði fæst fyrir skólann, mun það verða tekið á leigu og skólinn taka til starfa. En svo sem kunnugt er, er mjög erfitt að afla húsnæðis til rekstrar jafnvel skóla, þ.e. leiguhúsnæðis, vegna gildandi lagaákvæða, sem reisa við því rammar skorður, að íbúðarhúsnæði sé tekið til annarra þarfa, en íbúðar.

Það vildi ég leiðrétta, sem án efa stafar af ókunnugleika hjá hv. þm., að við skólann, sem ekki starfar nú, sé á föstum launum skólastjóri og einn eða tveir kennarar. Starfsmenn skólans eru tveir, skólastjóri og einn fastur kennari. Báðir eru að sjálfsögðu á þeim launum, sem þeirra skipunarbréf veita þeim réttindi til, en kennarinn starfar við aðra ríkisstofnun og vinnur þar fullkomlega fyrir launum sínum.

Að síðustu vildi ég svo aðeins segja, að í raun og veru voru þær upplýsingar, sem hv. 10. landsk, þm. gaf í ræðu sinni, fullnaðarsvar við fsp. hv. 1. þm. Reykv. til mín í síðustu ræðu sinni áðan, þar sem hann spurði, hvernig stæði á því, að byggingarframkvæmdum við kennaraskólann skuli þó ekki vera lengra komið, en raun ber vitni um, þrátt fyrir það að menntmrn. gaf þegar á s.l. sumri, í júlí s.l., leyfi sitt til þess, að byggingarframkvæmdir væru hafnar, og að ég fyrir mitt leyti hafi haft á því fyllsta áhuga þann tíma, sem ég hef gegnt þessu starfi, að framkvæmdum yrði hraðað sem mest. Ástæðan er sú, að það fékkst ekki fjárfestingarleyfi fyrir framkvæmdunum fyrr en 2. sept. s.l. Það er staðreynd, sem ég gat um í fyrstu ræðu minni um málið og skiptir óneitanlega miklu máli. Það hef ég enga tilraun gert til að draga fjöður yfir, tók það meira að segja fram, að ég harmaði mjög, að það tókst ekki að fá fjárfestingarleyfi fyrir framkvæmdinni fyrr en 2. sept. s.l. En þeir, sem segjast hafa barizt fyrir því í sex ár að fá fjárfestingarleyfi fyrir þessari framkvæmd, ættu ekki að verða hissa á því, þó að það hafi tekið fjárfestingaryfirvöldin, sem nú starfa, níu mánuði að taka sína ákvörðun um það, að byggingunni skuli haldið áfram. Þá ákvörðun, sem innflutningsskrifstofan tók 2. sept. um málið, ber að skoða sem endanlega, þannig að það er tryggt, að leyfi verði aftur gefið út þegar í ársbyrjun næsta árs. Það er endanleg ákvörðun um málið, þannig að á næsta ári á byggingin að geta haldið áfram með öllum þeim hraða, sem fjármunir leyfa.