04.02.1958
Sameinað þing: 24. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í D-deild Alþingistíðinda. (2761)

48. mál, útboð opinberra framkvæmda

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt tveimur hv. þm. öðrum flutt till. á þskj. 78, sem er þess efnis, að Alþingi lýsi yfir þeirri skoðun sinni við ríkisstj., að fylgja skuli þeirri meginreglu við opinberar framkvæmdir að bjóða verkin út með það í huga að reyna að tryggja, að viðkomandi verk verði unnið á sem hagkvæmastan hátt og verði sem kostnaðarminnst fyrir ríkið.

Till. þessi er augljós og þarf ekki langra skýringa við. Öllum hv. þm. er það kunnugt, að ríkið hefur með höndum í æ ríkari mæli margvíslegar framkvæmdir á mörgum sviðum, og nema þær fjárhæðir, sem árlega eru veittar í fjárlögum eða aflað með lánum, mjög háum upphæðum, þannig að það er augljóst mál, hversu þýðingarmikið það er fyrir ríkissjóðinn og þjóðarheildina, að fé þetta nýtist sem bezt og að þessum málum verði sem hagkvæmast unnið.

Að opinberum framkvæmdum er unnið á mismunandi hátt. Sums staðar eru verk boðin út, og á það einkum við hin stærri verk, t.d. í sambandi við orkuverin, sem byggð hafa verið, og einnig mun það hafa verið tíðkað við skólabyggingar nokkuð. Að vísu eru nú flestar þeirra á vegum annarra aðila, þ.e.a.s. reistar af sveitarfélögunum, þó að ríkið leggi fé til þeirra. En um fjölmargar opinberar framkvæmdir er hins vegar þannig háttað, að þær ríkisstofnanir, sem viðkomandi framkvæmdir heyra undir, hafa í sinni þjónustu bæði sérfræðinga og annað starfslið til þess að vinna sjálft þessi verk.

Nú er það auðvitað rétt, að í ýmsum tilfellum verður ekki hjá því komizt, að ríkið hafi í sinni þjónustu ýmiss konar sérfræðinga, sem annist tilteknar framkvæmdir á vegum ríkisins, en ég hygg þó, að það sé í ríkari mæli gert, en heppilegt sé, að ríkið sjálft annist ýmiss konar framkvæmdir, sem það leggur fé til.

Það er auðvitað engin trygging fyrir því, að tiltekin ríkisfyrirtæki vinni verkið á hagkvæmastan hátt, þó að þau séu til þess sett. Það er enginn samanburður, sem þar fæst, og a.m.k. ætti að vera augljóst, að það er æskilegt að bjóða út sum af þessum verkum, til þess að auðið verði að fá samanburð, því að geti viðkomandi ríkisstofnun unnið verkið ódýrar og hagkvæmar en hægt er að fá það unnið af öðrum aðilum, þá er auðvitað sjálfsagt, að ríkisstofnunin framkvæmi verkið. En höfuðatriði málsins hlýtur að vera það, að verkið fáist unnið sem hagkvæmast og ódýrast fyrir ríkið.

Ég hygg raunar, að það geti varla verið ágreiningur um þetta atriði, þó að menn geti haft nokkuð mismunandi skoðanir um það, hversu langt skuli ganga um útboð opinberra framkvæmda.

Það er naumast um að ræða að bjóða út almenn viðhaldsverk, t.d. viðhald vega og annað þess konar, en mér sýnist, að það geti mjög vel komið til mála, og hygg, að það hafi gefið góða raun, þar sem það hefur verið reynt, að bjóða út einstök verk, bæði hafnargerðir, brúargerðir og ýmislegt af slíku tagi, en það mun lítið hafa verið sá háttur á hafður að undanförnu.

Nú er svo ástatt í okkar landi, að mörg byggingarfyrirtæki hafa risið upp, sem hafa yfir að ráða bæði verkfræðilegri þekkingu og fullkomnum vinnuvélum og hafa auk þess öðlazt margvíslega reynslu í sambandi við ýmsar stórframkvæmdir. Í annan stað er svo við það vandamál að glíma hjá ríkinu, að mjög erfitt er um vik að fá verkfræðinga og ýmsa aðra sérfræðinga til starfa, þannig að ýmsar opinberar stofnanir hafa ekki getað leyst sín hlutverk af hendi af þessum sökum. Það sýnast þess vegna öll rök hníga í þá átt, að æskilegt sé, að opinberar framkvæmdir séu boðnar út meira en verið hefur, og sé því fullkomlega tímabært að hreyfa þessu máli. Ég skal geta þess í sambandi við þetta mál, að sparnaðarnefnd, sem starfaði á vegum ríkisstj. árið 1954, lagði í álitsgerð sinni eindregið til, að opinberar framkvæmdir yrðu boðnar út í miklu stærri stíl, en gert hefur verið til þessa, og voru taldar líkur til þess, að með því móti væri hægt að fá verkin unnin á hagkvæmari hátt og ódýrar fyrir ríkið í ýmsum tilfellum.

Ég sé ekki þörf á að orðlengja þetta frekar. Málið er skýrt í grg., og ég hef rakið hér helztu meginatriðin, sem liggja því til grundvallar, að till. er flutt. Þar sem hér er um að ræða mál, sem sérstaklega varðar framkvæmdir ríkisins og tilhögun þeirra, sýnist mér eðlilegast, að það fari til athugunar í fjvn., og vildi því leggja til, að þessari umr. yrði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.