26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (2830)

122. mál, atvinnuskilyrði fyrir aldrað fólk

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn. og ég höfum leyft okkur að flytja á þskj. 241 till. til þál. um vinnuskilyrði fyrir aldrað fólk. Ég vil nú með nokkrum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna þessi till. er fram komin.

Það er alkunna, að á síðari árum hefur fólk náð hærri aldri hér á landi, en áður fyrr. Stendur þessi þróun í beinu sambandi við betri lífsskilyrði og bætta heilsugæzlu. Nú munu vera um 10–12 þús. manns á aldrinum 67 ára og eldri, en á næstu árum mun þessu fólki fjölga mjög mikið, því að margt fólk tilheyrir þeim aldursflokkum. Það er því nokkur ástæða til að gera sér grein fyrir því, hvernig hægt er að nýta starfsorku þessa fólks betur en gert hefur verið, þar sem heilsufar þess er orðið betra og starfsorka þess endist lengur.

Það er tvennt, sem er áríðandi í þessu sambandi. Það er að nota starfsorku þessa aldraða fólks til þess að skapa verðmæti í landinu og svo hitt, að láta það hafa verkefni, svo að ellin verði því ekki lítt bærileg.

Í sambandi við þessar hugleiðingar vil ég víkja nokkuð að því, að fyrir röskum 20 árum voru sett hér lög um hámarksaldur opinberra starfsmanna og embættismanna. Þar er miðað við, að opinberir starfsmenn og embættismenn leggi niður störf sín, þegar þeir hafa náð sjötugsaldri. Þetta takmark er miðað við þá reynslu, sem þá var fyrir hendi um starfsorku manna, því að þá var almennt talið, að hún væri orðin það lítil, að menn gætu ekki setið í ábyrgðarmiklum stöðum. Það hefur hins vegar sýnt sig, eins og ég drap á að framan, að starfsorka endist nú lengur, og í sambandi við það tel ég, að það væri hyggilegt að fara að endurskoða þessi lög.

Ég vil þá benda á, ef af endurskoðun yrði, hvort ekki væri hugsanlegt, að menn létu af störfum á annan hátt, en verið hefur, þannig ef þeir þyrftu ekki að fella seglin með einu handtaki, heldur gætu rifað þau nokkuð, t.d. fengið léttari störf eða sinnt starfl sínu að ein hverju leyti. Það væri t.d. ekki óeðlilegt, að kennarar gætu fengið að halda áfram kennslu, þar sem mikið er um stundakennslu í skólum almennt, þó að þeir hyrfu frá starfi sem fastir kennarar.

Ég held, að það hafi sýnt sig, að starfsömum manni með mikla starfsorku er það mjög erfitt að þurfa að leggja niður sitt fyrra starf svo að segja fyrirvaralaust og eiga engan kost á því að starfa neitt að því eða við önnur störf. Það er því hyggilegt að athuga þá möguleika, að menn létu af starfi með minni hraða, en nú er gert. Hitt er okkur flm. ljóst, að þó að einhver breyting yrði á í þessu efni, mundi það ekki koma í staðinn fyrir þær aðgerðir, sem við teljum að þurfi að gera til að hagnýta starfsorku þessa fólks betur, en nú er gert, og þess vegna verði fleira að koma til.

Um aldarfjórðungs skeið hafa starfað hér vistheimili fyrir aldrað fólk. Upphaflega munu þau hafa verið tvö, annað hér í Reykjavík, elliheimilið Grund, og á Ísafirði, og munu hafa hafið starfsemi sína nokkuð samtímis. Þessi heimili og þau, sem síðar hafa komið, — og eru alls orðin 11, og vistrúm fyrir aldrað fólk á þeim mun vera um 6–7 hundruð, — eru fyrst og fremst miðuð við að taka við fólki, sem hætt er störfum, og veita því samastað, en ekki vinnuskilyrði. Á síðari árum hefur þessum heimilum nokkuð fjölgað, og eru nú í byggingu, að ég held, eða a.m.k. unnið að því að koma þeim upp bæði í Keflavík, á Hvammstanga og ef til vill víðar. En það, sem okkur flutningsmönnum þessarar till. finnst eðlilegt að verði athugað í sambandi við þessi mál í framtíðinni, er að miða þessi dvalarheimili meira við það, að fólk, sem þar dvelur, geti notað þá starfsorku, sem það hefur yfir að ráða, bæði til þess að skapa verðmæti fyrir þjóðfélagið og svo til þess, að ellin verði því ekki þungbær, eins og ég drap á áðan. Ekkert er þessu fólki fjarlægara, en að sitja í iðjuleysi, og þess vegna er mikil nauðsyn að endurskoða þessi mál og skapa í þau meiri festu, en verið hefur. Það er skoðun okkar flm., að í þessu sambandi geti komið til greina nokkuð mikil breyting frá því, sem nú er, og það sé áríðandi að hugsa þessi mál raunhæft einmitt nú, þar sem vöxtur er nokkur í vistheimilamyndun og stórir hópar af öldruðu fólki munu koma hér á næstu árum.

Okkur hefur fundizt, að það væri eðlilegt að athuga möguleika til starfsskilyrða og dvalar fyrir þetta fólk í sambandi við þau svæði hér á landi, þar sem hverahiti er. Það mun hafa verið gerð nokkur tilraun í þessa átt í Hveragerði á vegum Árnessýslu og Elliheimilisins Grundar, en lítið er þar aðhafzt enn þá. En ekki er úr vegi að láta sér detta í hug, að þar gæti verið staður fyrir slíka starfsemi og víðar á landinu, svo sem á Kleppjárns- reykjum, sem einmitt hentuðu þessu fólki og þar sem væru möguleikar til að skapa því starfsskilyrði við þeirra hæfi.

Enn fremur teljum við, að athuga beri, hvort ekki á að byggja heimilin meira upp miðað við það, ef hjón dvelja þar, að þau geti skapað sér þar heimili betur en nú er, og þurfi ekki að hverfa eins inn í fjöldann og nú á sér stað almennt á dvalarheimilum aldraðs fólks.

Við álítum, að það sé margt, sem hér komi til greina, og það sé mikið verkefni fram und- an í þessu máli, sem þjóðfélagið geti ekki lát- ið óleyst.

Með meira þéttbýli og fjölgun á hinu aldraða fólki knýr þetta mál fastar á, og það á að vera höfuðsjónarmiðið í athugun á þessu máli, sem við leggjum til að verði gerð, að búa að þessu fólki svo, að það hafi skilyrði til að vera virkur þátttakandi í framleiðslustörfum þjóðarinnar og sköpun verðmæta, og skapa því hamingjusamari elli en nú er.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað, óska eftir því, og málinu vísað til hv. allsherjarnefndar.