26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (2835)

123. mál, réttindi vélstjóra á fiskiskipum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það er ekki langur tími síðan það féll í minn hlut hér að flytja svipaða till. og þessa varðandi skipstjórnarmenn og þeirra réttindi. Það er sama í grundvallaratriðum, sem kemur til greina hér, þegar um er að ræða réttindi vélstjóranna eins og réttindi skipstjórnarmannanna. Það hefur orðið svo ör þróun í stækkun skipanna, sem notuð eru til fiskveiða, að hin gömlu ákvæði um stærðir og réttindi þessara manna hafa smátt og smátt orðið úrelt, og það var eins og ég lýsti því hér fyrrum með réttindi skipstjórnarmanna, að þetta lenti í því, að menn urðu að fá sem kallað var undanþágu til þess að mega taka þátt í fiskveiðunum á þessum skipum ár eftir ár, og hv. Alþingi féllst á þetta, og hæstv. ráðh., sá sem hafði með þau mál að gera þá, lét útbúa breytingar á löggjöfinni í þá átt að létta þessum mönnum aðgang að réttindum á þessu sviði, þannig að hægt væri að minnka a.m.k. mikið undanþágurnar, ef ekki að fella þær niður að öllu.

Nú hefur þetta sama kannske um leið endurtekið sig, en einkum hef ég þó orðið var við það núna upp á síðkastið, að vélstjórar kvarta mjög undan því, að ekki sé til auðveldari leið að því að tryggja þeim rétt til að starfa á fiskiskipunum, þessum stærri vélbátum, heldur en er, og það er þeirra ósk, Vélstjórafélags Vestmannaeyja, sem hér er borin fram, hefur þó verið borin fram við hæstv. ríkisstj. fyrr, og veit ég ekki, það a.m.k. liggur ekkert fyrir um það, hvort hæstv. ríkisstj. hefur nokkuð sinnt því.

Málinu til útskýringar skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp nokkurn kafla úr bréfi Vélstjórafélags Vestmannaeyja til sjútvmrh., og er það bréf dags. 16. jan.:

„Á undanförnum árum hefur þróunin orðið sú, að vélar í fiskiskipum verða æ stærri og stærri að hestaflatölu og einnig í hlutfalli við tonnatölu skipsins, og vart finnast dæmi um, ef skipt er um vél í skipi, að nýja vélin sé ekki stærri en sú gamla, er í burtu er tekin. Fiskiskipin hafa og á síðari árum stækkað.

Skipstjórarnir hafa fengið sín réttindi aukin í samræmi við þróunina, en vélstjórar verða að fá tímabundna undanþágu frá settum reglum til þess að mega fylgja skipstjóra sínum í áframhaldandi starfi. Margir vélstjórar hætta og leita frekar eftir starfi í landi, heldur en að standa í því vafstri og þeim óþægindum, sem réttindaleysið skapar.

Við þetta er margt að athuga.

Í fyrsta lagi: Sá hópur manna, sem vill og getur stundað sjómennsku, er sízt of stór, og löggjafanum ber skylda til að stuðla að frekari stækkun hans heldur en að útiloka menn frá sjómennskustarfinu.

Í öðru lagi skapast við þetta hættur og örygglsleysi, þá er óvanir eða lítt reyndir vél- stjórar verða látnir taka við og gæta hinna dýru véla og hins ábyrgðarmikla starfs, þar sem handvömm getur valdið stórtjóni eða jafnvel riðið á lífi margra manna. Og til að undirstrika þá hættu, sem hér blasir við, leyfir Vélstjórafélagið sér að benda á, að á s.l, ári hefur hér í Eyjum orðið að lögskrá 50 vélstjóra, sem ekki hafa haft tilskilin réttindi, en orðið að fá undanþágu til starfsins.“

Þetta er kafli úr rökstuðningi vélstjóranna til hæstv. sjútvmrh.

Um þetta mál hef ég ekki séð að kæmi fram neitt frv. á Alþingi, og liggur mér því við að ætla, að hæstv. ráðh. hafi enn dregið aðgerðir í því efni, en till. á þskj. 245, sem ég leyfi mér að bera fram, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta hið fyrsta fara fram endurskoðun á lögum þeim um atvinnu við siglingar, er sérstaklega snerta réttindi vélstjóra, og að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frv. til laga um breytingar á þessu sviði til aukinna réttinda vélstjóranna í svip- aða átt og áður hefur átt sér stað um réttindi skipstjórnarmanna á sams konar fiskiskipum.“

Ég ætla, að ég þurfi ekki að hafa hér um öllu fleiri orð, vélstjórarnir hafa rökstutt sjálfir sitt mál svo greinilega í því bréfi, sem ég las kafla úr, til hæstv. sjútvmrh. Ég veit nú ekki, hvort það heyrir beint undir þann hæstv. ráðh. að gangast fyrir endurskoðun þessara laga, en þykist vita, að ef Alþingi fer fram á það við stjórnina, þá muni fara fram lík endurskoðun og átti sér stað á sviðinu um skipstjórnarréttindi áður, og vonast ég til, að Alþ. geti fallizt á þessa till. Það mun vera ákveðin aðeins ein umr. um málið, og þar sem þykir hlýða, að mál fari í n., er það mín ósk við hæstv. forseta, að umr. verði frestað og málið sent til allshn.