26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (2837)

123. mál, réttindi vélstjóra á fiskiskipum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Hæstv. menntmrh. hefur nú talað í þessu máli, og þakka ég honum fyrir þær upplýsingar, sem fram hafa komið. En mér finnst nú, að þó að það kunni að hafa þótt nauðsynlegt á einhverjum tíma að vera með tvær nefndir í þessu, hvar af önnur starfar, en hin ekki starfar, þá hefði verið betra að hafa hraðari vinnubrögð. Ég vil ekki rengja hæstv. ráðh. um það, að hann hafi hert á þessum mönnum, en ég óska líka eftir því, að hv. Alþingi fái tækifæri til að herða á eftir þessum störfum, sem eru mjög svo nauðsynleg, og þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. ráðh. um, að það muni ekki breyta miklu, hvað hér er sagt eða gert, þá er það Alþingi, sem á að ráða gerðum ríkisstj. Og þegar þetta dregst nú svona úr hömlu, að það er komið hátt á annað ár, sem þessir góðu menn, sem hæstv. ráðh, nefndi, hafa verið að bollaleggja þetta mál með sér, og vélstjórarnir í Vestmannaeyjum hafa núna um áramótin mjög eindregið óskað eftir að fá þessar breytingar fram, þá sé ég ekki, að till. sé óþörf. Hins vegar liggur það í valdi Alþingis að samþykkja hana eða ekki samþykkja, og ég álít ekki, að ráðherra ætti að hafa neitt á móti því, að Alþ. herti á þessum mönnum, sem hann hefur sett í starf, sem er nauðsynlegt að vinna, en sýnilega hefur verið trassað.