05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (2849)

132. mál, skipaferðir milli Austfjarða og útlanda

Flm. (Helgi Seljan Friðriksson):

Herra forseti. Till. sú til þál. á þskj. 264, er ég hef leyft mér að flytja, er þess efnis, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að freista þess að ná samningum við stærstu skipafélög landsins um, að þau haldi uppi reglubundnum siglingum milli hafna á Austfjörðum og útlanda, og vinna auk þess að því að koma upp umskipunarhöfn á Austfjörðum. Þessi till. er svo nánar skýrð í grg. Þar er á það bent, að þær föstu áætlunarferðir, sem hér um ræðir, eru ekki neitt nýtt fyrirbrigði. Allt fram að heimsstyrjöldinni síðari voru slíkar ferðir frá útlöndum beint til Austfjarða, einn liður í áætlun Eimskipafélags Íslands, þó að eftir styrjöldina hafi sá háttur af lagzt. Bergenska gufuskipafélagið hafði um langt skeið slíkar ferðir samkvæmt áætlun erlendis frá til Austfjarðahafna. Nú um nokkurt skeið, eða eftir heimsstyrjöldina síðari, hefur ekki verið um annað að ræða en skip, bæði frá Eimskipafélaginu og skipadeild S.Í.S., hafa án nokkurrar fastrar áætlunar komið til hafna austanlands erlendis frá með kol, timbur, sement, salt og annað því um líkt. Föst áætlun hefur engin verið, og um aðrar vörur hefur vart verið að ræða, eins og tekið er fram í greinargerð.

Það má óhætt fullyrða það, að þessar siglingar eftir fastri áætlun til Austfjarða voru Austfirðingum mjög til hagsbóta og þeir voru mjög ánægðir yfir þeim. Kemur þar einkum tvennt til: Það fyrst, að ef Reykjavík er gerð að umskipunarhöfn fyrir nær allar nauðsynjavörur fólksins úti á landsbyggðinni, hlýtur það að tefja afgreiðslu varanna til hinna ýmsu staða, og er á þeirri skipan mála auðsæilegur munur og á því, sem hér er ráð fyrir gert, þ.e., að skipin komi beint með vörurnar til Austfjarðahafna. Hlýtur slíkt fyrirkomulag mjög að hraða afgreiðslu varanna. Annað atriði, enn veigameira, er svo vöruverðið. Með þeim kostnaði, sem er við umskipun hér í Reykjavík, og eins flutningskostnaði héðan og út um land hlýtur vöruverðið almennt að hækka. Sem afleiðing þessa verður vöruverð nokkru hærra, en það er í Reykjavík. Oft þegar verzlunarmenn úti um land eru spurðir um mismun á vöruverði þar og í Reykjavík, sem mönnum finnst oft óeðlilega mikill, eru svör þeirra mjög á sömu lund. Kostnaður og umskipun hér í Reykjavík og flutningskostnaður út um land er orsökin. Og oft virðist hér ekki um svo lítinn eða óverulegan hlut að ræða. Það þarf enda varla að rökstyðja nánar þau höfuðatriði, sem hér mæla með þessari skipan mála, svo sem það er augljóst mál. En með þessu ynnist tvennt fyrir Austfirðinga. Þeir mundu losna við aukakostnað, og þeir mundu fá margar nauðsynjavörur sínar, fyrr en ella.

Þetta ætti að nægja til að sýna, að þetta er sanngirnismál. Hitt er svo annað, að vafalaust má benda á ýmsa annmarka við framkvæmd þessarar till. En á það er þá að líta, að ekki er ýkjalangt síðan slíkum reglubundnum siglingum var haldið uppi, og ekki hefur annað heyrzt, en þær siglingar hafi borgað sig eins vel og hverjar aðrar. Ekki virðist heldur vera svo auðvelt að sjá, á hvern hátt þetta væri erfiðara í framkvæmd nú, en áður var, nema ef segja má, að það sé orðin svo föst venja að láta allar helztu nauðsynjavörur landsmanna fara fyrst til Reykjavíkur, að þetta þyki óhugsandi af þeim orsökum. En slíkt breytir auðvitað engu um raunverulega möguleika á framkvæmd tillögunnar.

Þegar um þetta hefur verið rætt, hafa oft heyrzt þær mótbárur, að á Austfjörðum séu engin heildsölufyrirtæki, og einnig hitt, að um Reykjavík fari öll gjaldeyris- og innflutnings- leyfi. Hvað fyrra atriðinu viðvíkur má slá því föstu, að ef möguleiki væri fyrir slíkum beinum siglingum, mundi ekki standa á slíkum heildsölufyrirtækjum, og má einkum benda á, að auðvelt ætti að vera fyrir kaupfélögin að hafa með sér samvinnu til þess að ná vörunum beint. Hitt atriðið er ekki heldur eins þungt á metunum og virðist vera og kæmi þessu máli engan veginn eins mikið við og í fljótu bragði virðist, einkum þegar á það er litið, að nú liggur fyrir Alþ, till. um það að koma upp innflutningsskrifstofu í hverjum landsfjórðungi, og ef sú till. næði fram að ganga, væri þar með sá vandi úr sögunni.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að umskipunarhöfn þeirri, sem um er rætt í till. Ef slíkar beinar siglingar kæmust á, væri auðvitað æskilegt, að áætlunin yrði bundin við sem flestar hafnir austanlands, þar sem viðunandi aðstaða er. Í mörgum tilfellum yrði þá auðvitað um það að ræða, að einhverjum höfnum yrði að sleppa, eigi sízt þegar tekið er tillit til þess, að yfir sumartímann eru samgöngur miklar og greiðar á landi um Austfirði og á þann hátt auðvelt að nálgast vörurnar, þó að þeim sé eigi komið á ákvörðunarstað. En til þess að þetta mætti verða sem auðveldast í framkvæmd, yrði að koma upp umskipunarhöfn á Austfjörðum, eins konar aðalhöfn, en þaðan færi svo aftur dreifing fram til hinna smærri staða. Í sambandi við þetta yrði að taka fullt tillit til Fljótsdalshéraðs og hvaðan hagkvæmast væri að dreifa vörum um það. Slík aðalhöfn yrði hin mesta nauðsyn, ef slíkar siglingar kæmust á, þó að æskilegast væri, að sem minnst umskipun þyrfti að eiga sér stað. Hitt gæti þó mjög oft margborgað sig. Sjálfsagt er, að ef úr þessu yrði, þá yrði aðstaða hinna ýmsu staða vandlega könnuð og lokaákvörðun tekin í samræmi við það. En Reyðarfjörður hefur án efa oftast verið nefndur í þessu sambandi, og er það einkum með tilliti til vörudreifingar um Fljótsdalshérað, sem er langauðveldust þaðan. Einnig er Reyðarfjörður mjög miðsvæðis í sambandi við allar samgöngur á landi, og fleira mætti telja. Ég bendi aðeins á þetta hér, en tel vandlega athugun á staðsetningu umskipunarhafnar nauðsynlega.

Að lokum vil ég svo geta þess, að fjórðungsþing Austfjarða hefur haft þetta mál til meðferðar og gert um það till., sem mjög beinast í sömu átt og mín till., og að lokum vil ég svo leyfa mér að æskja þess, að þessu máli verði vísað til allshn., umræðu verði frestað.