19.03.1958
Sameinað þing: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (2858)

152. mál, rit Jóns Sigurðssonar

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, forsetar Alþingis, að bera hér fram till. á þskj. 307 um útgáfu á ritum Jóns Sigurðssonar. Till. hljóðar, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Alþingi ályktar, að gefin skuli út heildarútgáfa af ritum Jóns Sigurðssonar forseta og kostað kapps um, að fyrsta bindi útgáfunnar komi út árið 1961, á 150 ára afmæli hans. Felur Alþingi ríkisstjórninni að leita samninga við Menntamálaráð Íslands um að annast útgáfu ritanna á þeim grundvelli, að 40% kostnaðarins greiðist úr menningarsjóði, en 60% úr ríkissjóði. Hagnaður sá, sem verða kann af útgáfu þessari, renni óskiptur í sjóðinn „Gjöf Jóns Sigurðssonar.“

Forsaga þessa máls er í stuttu máli sú, að mér var tjáð fyrir stuttu, að menntamálaráð hefði haft uppi ráðagerð um það um nokkurt skeið að gefa út rit Jóns Sigurðssonar forseta, en það mál hefði strandað hjá menntamálaráði á því, að það hefði ekki treyst sér til að festa í útgáfunni það fjármagn, sem nauðsynlegt væri, eða — og þó öllu heldur — að ef þetta fjármagn væri í þeirri útgáfu fest, mundi það geta orðið til þess að draga úr útgáfustarfsemi ráðsins á öðrum sviðum, sem ekki var talið mögulegt.

Þá munu hafa farið fram viðræður nokkrar, milli menntamálaráðs og menntmrn. um það, hvort ríkissjóður gæti á einhvern hátt hlaupið þarna undir bagga í bili, og þá var það, að ég heyrði um þetta, vegna þess að það var ekki talið Alþingi óviðkomandi, hvernig um þetta mál færi.

Þau viðtöl, sem þá áttu sér stað, urðu til þess, að þessir þrír aðilar, menntamálaráð, menntmrn, og við forsetar Alþingis tilnefndum sinn manninn hver til þess að athuga þetta mál og undirbúa, eftir því sem þeir teldu að hægt væri og ástæða væri til. Árangurinn af því starfi liggur fyrir í þessari þáltill. og þeirri grg., sem hér fylgir.

Þessi grg. er allýtarleg, og ég hef þar ekki neinu verulegu við að bæta.

Jón Sigurðsson skipar svo einstakt sæti í okkar sögu, að það er ekki vansalaust, að þjóðin skuli ekki eiga greiðari aðgang að ritverkum hans, en hún á dag. Þessi ritverk eru að vísu mörg prentuð, en þau eru prentuð á ýmsum stöðum og í ritum, sem almenningur á alls ekki aðgang að. Þingræður og þess háttar er vitaskuld í alþingistíðindunum ritgerðir hans margar eru í Nýjum félagsritum, og hvort tveggja þetta liggur náttúrlega fyrir prentað, og bréf hans hafa einnig verið prentuð tveim sinnum eða í tveim bindum, og eru þau einnig þess vegna til prentuð. En hvort tveggja er, að þessi prentuðu rit eru í tiltölulega mjög fárra manna höndum, og svo hitt, að enn er mikill hluti af ritum hans óprentaður, sem þyrfti að takast með, ef heildarverkið ætti að vera aðgengilegt og koma fyrir almannasjónir.

Þessi útgáfa, ef í hana verður ráðizt, verður allstórt verk að vöxtum. Það er gert ráð fyrir af mönnum, sem kannað hafa, að það mundi verða um 10 stór bindi, 50–60 arkir hvert bindi, svo að búast má við, að hún taki allmörg ár, sjálfsagt eitthvað á annan áratug. Útgáfan verður að vera vönduð, svo að hún sé í samræmi við þá minningu, sem við viljum tengja við nafn Jóns Sigurðssonar, svo að þess vegna verður að leggja í hana allmikið verk, áður en til prentunar getur komið.

Kostnaðaráætlun hefur verið sett upp af þeim, sem hafa kannað þetta mál, og tölurnar í þeirri kostnaðaráætlun eru að vísu nokkuð háar, eða heildartölurnar í kringum 51/2 millj. kr., en það þýðir þó ekki, að þessa fjárhæð þyrfti að leggja út, því að væntanlega verða komnar inn verulegar tekjur af útgáfunni, áður en henni er lokið, þannig að síðari hluta af kostnaðarverði útgáfunnar mætti að verulegu leyti mæta með tekjunum af fyrri hlutanum.

Það hefur verið lagt til, að menntamálaráð kostaði útgáfuna að 2/5 hlutum, en ríkissjóður að 3/5 hlutum, en þó er gert ráð fyrir, að hún skili þessum peningum aftur, bæði til menntamálaráðs og til ríkissjóðs, þegar henni er lokið, svo að þetta þurfi ekki að vera raunveruleg útgjöld fyrir hvorugan aðilann, aðeins fé, sem verður bundið um nokkurt árabil. Það er meira að segja gert ráð fyrir, að af þessari útgáfu geti orðið nokkur hagnaður, ef vel tekst til, og þessum hagnaði er gert ráð fyrir að verja til þess að styrkja „Gjöf Jóns Sigurðssonar“, sem því miður hefur ekki með þeim fjármunum, sem hún hefur nú yfir að ráða, getað sinnt því verkefni, sem þeim sjóði var í upphafi ætlað.

Það þarf því ekki orðum um það að eyða, hvaða þakklætisskuld við stöndum í við Jón Sigurðsson forseta, enda höfum við sýnt það, bæði á 100 ára afmæli hans með stofnun háskólans og einnig þegar lýðveldið var stofnað hér 1944 með því að dagsetja lýðveldistökuna einnig á hans afmælisdegi. Eftir þrjú ár rúm — eða árið 1961 — eru liðin 150 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, og það er að áliti okkar flm. og annarra, sem um þetta mál hafa fjallað, talið æskilegt og viðeigandi, að einmitt á því ári gæti þessi útgáfa hafizt, Að því mundi þá verða stefnt, að fyrsta bindi útgáfunnar kæmi út einmitt á því ári.

Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð. Íslenzka þjóðin hefur haldið til haga fjöldamörgum sögulegum minjum og mörgum þeim, sem út af fyrir sig kannske skipta ekki mjög miklu máli. Það er þess vegna ekki vansalaust, að rit þessa manns, sem hefur verið brautryðjandi í okkar frelsisbaráttu og markað tímamót í okkar sögu, eiga ekki að vera til aðgengilegri, en þau eru í dag.

Ég vildi þess vegna vona, að hv. alþm. vildu á þessa till. fallast og greiða fyrir því, að þessi útgáfa yrði hafin á þann hátt, sem till. gerir ráð fyrir.

Ég vildi svo leyfa mér að leggja til, að málinu yrði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.