23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (2873)

165. mál, biskup í Skálholti

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá hv. alþingismönnum, hversu þeir þm., sem hér taka til máls, þegar minnzt er á Hóla og Skálholt, verða allt í einu andlegir, hvaða áhrif þetta hefur yfirleitt á sálarlíf þessara manna, sem stöðugt eru að þjarka í þessu daglega. Það er aðeins vinur minn, hv. þm, A-Húnv., sem virðist eiga mjög erfitt með að hefja sig upp úr að þrasa um peninga og fjármál, þegar á þetta er minnzt. Og ég hygg líka, að einmitt þetta, þegar við sjáum, hvernig hv. alþm. fá í raun og veru yfir sig allt annan brag í umræðum sínum, þegar þeir fara að ræða um helgi þessara staða, sýni okkur það, að við eigum þarna óyrktar lindir. Ég skal alls ekki fara mörgum orðum um það, en þakka hv. frsm. og þeim, sem hér hafa tekið til máls, þann skilning, sem þeir hafa á þörfum kirkjunnar fyrir að yrkja þessar lindir betur, en hefur verið gert fram til þessa.

Á síðasta þingi flutti ég ásamt fleirum, m.a. nokkrum af flm. þessarar till., tillögu svipaðs efnis eða sama efnis og er í þeirri till., sem hér er flutt. Hún var þá látin daga uppi, en samþ. voru lög um kirkjuþing hinnar almennu íslenzku þjóðkirkju. Þar er beinlíns ákveðið, að þetta kirkjuþing skuli vera ráðgefandi um öll meiri háttar mál, sem kirkjuna varða, og þá ekki sízt um löggjöf í þessum efnum.

Í 14. gr. þessara laga, sem samþ. voru á síðasta Alþ., stendur m.a.:

„Kirkjuþing hefur ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll þau mál, er kirkju, klerkastétt og söfnuði landsins varða og heyra undir verksvið löggjafarvaldsins eða sæta forsetaúrskurði.“

Með þessum lögum skuldbindur Alþingi sig til, að ekki skuli sett nein meiri háttar löggjafarákvæði, sem kirkjuna varða, án þess að stofnun þessi, kirkjuþing, fái a.m.k. að segja álit sitt um það. Vegna þessa gerðist ég ekki meðflm. að þessu sinni að þessari till., vegna þess að ég vissi um það, hvað hv. Alþingi hafði samþ. í fyrra. Og þess vegna tel ég það sjálfsagt, eins og komið er, að við séum við það bundnir, að kirkjuþing fái að segja álit sitt um þetta efni, áður en Alþ. ræður því til lykta. Og ég tel líka, að það sé mjög eðlilegt, að kirkjan sjálf fái að segja til um það, á hvern veg hún vilji hina andlegu endurreisn á Skálholtsstað, hvort sem Alþingi telur sér svo skylt að fara eftir því eða ekki.

Það var þá líka vitað, að nú eru fyrir hendi önnur frv, um þessi efni, sem ekki hafa verið lögð fram nú, einmitt vegna þess, að víst var talið og eðlilegast, að þau fengju fyrst athugun á kirkjuþingi og kirkjan fengi sjálf að segja til um, hverja lausn hún vildi hafa á þessu máli. En vitanlega er þar aðalatriðið við hina andlegu endurreisn Skálholtsstaðar, að því verði þannig ráðið, að það efli starfsemi og aðstöðu kristninnar í landinu og að það endurveki um leið fornan veg Skálholtsstaðar. En þetta tvennt hlýtur að fara saman, því að það er íslenzk kristni, sem sögu og frægð Skálholtsstaðar hefur skapað, og það er hún, sem hlýtur að leggja grundvöllinn að því, að við getum yrkt það fyrir okkar þjóðfélag og fyrir okkar andlega líf í framtíðinni.

Það má segja margt í sambandi við lausn þessa máls, og vitanlega munum við seint verða sammála um öll atriði. Þó vona ég, að áður en lýkur og þegar leitað hefur verið til réttra aðila um lausn þessa máls, getum við fundið, að við höfum ekki efni á því, við höfum ekki andlega efni á því að láta þá orku frá liðnum öldum og í sögu okkar liggja ónotaða í Skálholti og á Hólum. Ég fyrir mitt leyti hef alltaf talið sjálfsagt, að ef endurreistur yrði biskupsstóll í Skálholti, hlyti eins og eðlileg afleiðing af því að koma, að Hólar yrðu endurreistir einnig, enda heyrði ég það strax hér af hv. 1. þm. Skagf., að annað kemur vitanlega ekki til mála í hugum Norðlendinga. Og ég held satt að segja fyrir mitt leyti, að kirkjan eins og aðrir hefði gott af því, að það kæmi einhver samkeppni milli þessara staða, alveg eins og var í fornri tíð millí Skálholts og Hóla. Ekki þannig að skilja, eins og hér var eitthvað rætt um, að það væri einhver metingur á milli Hóla og Skálholts um endurreisn þeirra. En það á að verða metingur um það í framtíðinni, eins og var í fortíðinni, hver getur afrekað mestu og sem heillaríkustu starfi fyrir þjóð sína. Þessu held ég að við höfum líka gott af og að þetta eigi að koma í framtíðinni á einhvern veg.

Þegar talað er um það, að erfitt sé að ferðast til Skálholts, verðum við að gæta að því. að það er orðin allt önnur aðstaða bæði að ferðast til Skálholts og til Þingvalla, en var á dögum Jóns Sigurðssonar og þegar Skálholtsstaður og Skálholtsbiskupsdæmi var lagt niður. Við erum smátt og smátt að yfirstíga þessa erfiðleika, og þessi 100 km fjarlægð skiptir vitanlega eftir örfá ár engu máli í samskiptum okkar innanlands. Það er hverjum manni augljóst.

Ég tel þess vegna, að á þessu þingi eigi ekki að afgreiða þessa till. og það sé varla hægt vegna þeirra lagaákvæða, sem þingið hefur þegar sett um afgreiðslu kirkjulegra mála á Alþingi, en það eigi að bíða til kirkjuþingsins, hins fyrsta, sem haldið verður nú í haust, er kemur, og verið er að undirbúa núna einmitt þessa dagana um kjörskrár og annað slíkt, og getur þá næsta Alþingi tekið ákvörðun í þessu efni. Ég sé heldur ekki, að það liggi neitt á. Skálholtsstaður er ekki tilbúinn enn þá til að taka á móti biskupi, og munu enn þá a.m.k. líða ein tvö, þrjú ár, þangað til bæði íbúðarhús og kirkja er fullgert á staðnum.

Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umr., þó að ég telji sjálfsagt, að till. verði vísað til n. á þessu stigi málsins.