23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (2874)

165. mál, biskup í Skálholti

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð vegna þess, að Skálholtsstaður hefur verið ræddur í allshn. hv. Sþ. í tilefni af till. hv. 1. þm. Reykv, um hugsanlegan flutning á menntaskóla þangað. Það var bent á við umr. um það mál, að n. yrði að athuga það mál á dálítið víðari vettvangi og hafa þá í huga, heildarframtíð Skálholts. Í sambandi við þetta leitaði n. umsagna frá nokkrum aðilum, og barst m.a. umsögn frá biskupi Íslands. Í þessari umsögn er eitt atriði, sem varðar það mál, sem hér er til umr., er vakti nokkra athygli mína, og ég vil því lesa eina mgr. upp úr bréfi biskups, með leyfi hæstv. forseta. Biskup segir um það, hvað verða muni eða verða eigi um Skálholt:

„Embættisbústaður sá, sem risinn er í Skálholti, mun að líkindum verða biskupssetur, og ætti vera biskups þar að geta orðið skólastarfi og skólalífi til farsældar og gagnsemdar,“ — og er þá miðað við, ef menntaskóli yrði þangað fluttur. Biskupinn segir sem sagt, að embættisbústaðurinn muni að líkindum verða biskupssetur.

Þessi ummæli biskups vöktu nokkra athygli mína, og ég reyndi því að hlera, þó að ég hafi ekki snúið mér beint til biskups til frekari skýringa, hvað við væri átt með þessu. Ég hygg eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að biskupinn hafi þarna ekki í huga, að biskupsembættið í núverandi mynd sinni verði flutt til Skálholts, heldur muni raunverulega vera á því mjög mikill áhugi innan kirkjunnar, að sú breyting verði gerð einhvern tíma í náinni framtíð, að vígslubiskupsembættin verði lögð niður, en í þeirra stað komi Hólabiskup og Skálholtsbiskup, en biskup Íslands muni þá eftir sem áður sitja í Reykjavík.

Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram, vegna þess að hér fara fram almennar umræður um þetta mál, og ég tel, að það mundi vera full ástæða fyrir þá n., sem fær þetta til athugunar, að kynna sér þessar hugmyndir ýtarlega, áður en hún afgreiðir málið, (BBen: Er ekki eðlilegra að vísa þessu máli til allshn., sem hefur nú þegar til athugunar skólasetur í Skálholti?) Ég veit ekki, hvort þessari fsp. er beint til mín eða hæstv. forseta. En ég vildi aðeins skjóta því hér að, að ég hef ekkert á móti því, að málið komi þangað, æski ekki eftir því heldur, en vil þó benda á, að það er töluvert sterk þróun í þá átt að vísa til allshn. málum, sem hafa mjög verulegar fjárhagshliðar, sem mun þó vera gagnstætt því skipulagi, sem mun vera. Annars getur þingheimur ráðið því.