07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (2878)

165. mál, biskup í Skálholti

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti Það, sem ég vildi leyfa mér að benda á í sambandi við þetta mál, er í stuttu máli þetta:

Það er áður komin hér till. um að athuga möguleikana á því að setja upp menntaskóla í Skálholti eða flytja menntaskólann frá Laugarvatni að Skálholti. Þessari till. var vísað til allshn.

Ég tel, að þessi till., þó að annars eðlis sé, eigi líka að fara til allshn., en ekki til fjvn., eins og áður hefur verið lagt hér til, og ég tel, að allshn. eigi að afgreiða þetta mál á þann veg að leggja til, að annaðhvort Alþingi kjósi eða ríkisstj. skipi þrjá menn, sem athugi, hvað á að gera við Skálholt.

Það eru lög, gömul lög eða nokkuð gömul lög um það, að þar eigi að koma búnaðarskóli. Fyrstu tvö eða þrjú árin, eftir að þau lög voru samþ., var veitt til þess fé á fjárlögum að koma honum upp. Það eru lög um, að þar eigi að sitja prestur, sem þjóni Biskupstungunum. Hann hefur ekki verið látinn sitja þar, af hverju sem það kemur. Hann hefur verið látinn sitja á gamla prestssetrinu, Torfastöðum, en ekki í Skálholti. Það er talað um að flytja biskupinn úr Reykjavík og í Skálholt. Aðrir tala um að setja upp þrjá biskupa, einn aðalbiskup í Reykjavík og tvo hjálparkokka, annan að Hólum og hinn í Skálholti. Allt þetta er talað um, og svo er talað um enn fleira, sem gera á í Skálholti af öðrum mönnum, sem ég skal nú ekki fara nánar út í.

Nú skilst mér, að áður en Alþingi slái nokkru föstu um þetta, hvort á að setja þar aðalbiskup, — ja, það er búið að slá föstu bændaskóla og prestssetri, þó að það hafi ekki verið framkvæmt nema að nokkru leyti, — þá sé rétt að láta athuga gaumgæfilega, hvað á að gera við Skálholt, og snúa sér svo að því, en vera ekki með mörg járn í eldinum í einu, sem sum á ekkert að gera með annað, en bara svona hafa þau á pappírnum. Þess vegna legg ég ákveðið til, að till. fari til allshn., sem hefur till. um Skálholt áður til meðferðar, og ég legg til, að hún athugi þennan möguleika. Ég geri ekki ráð fyrir, að hún hafi tíma til þess á tveimur eða þremur fundum að athuga þessar aðstæður allar, heldur komi nefnd, sem annaðhvort Alþingi kjósi eða ríkisstj. skipi til að athuga málið á milli þinga, svo að við getum næst ákveðið, hvað gera skuli við Skálholt, ekki bara að hafa lög á pappír og ræða um að gera þetta eða þetta, heldur snúa okkur að framkvæmdum, — Það er aðeins þetta, sem ég vildi segja.