23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (2890)

14. mál, skyldusparnaður

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans við fsp. Ummæli hans staðfestu þau orð mín, að ráðuneyti hans hafi vanrækt í marga mánuði að gefa út reglugerð um framkvæmd skyldusparnaðarins, eins og mælt er fyrir í III. kafla laganna. Það er þess vegna algerlega úr lausu lofti gripið hjá hæstv. ráðh., þegar hann segir, að ég hafi farið með rangt mál í sambandi við útgáfu reglugerðarinnar. Hún var gefin út 1. okt., upplýsir hæstv. ráðh.

En lögin voru staðfest 1. júní, og í umræðum um málið á Alþingi s.l. vor varð ekki hæstv. ráðh, skilinn öðruvísi, en hann gerði ráð fyrir verulegum hagnaði af skyldusparnaði í byggingarsjóð á þessu ári.

Allt bendir þetta til þess og ekki sízt þau ummæli, sem hæstv. ráðh. hefur nú hér, að hann hafi í upphafi alls enga hugmynd gert sér um það, hvernig þessi ákvæði um skyldusparnað skyldu framkvæmd. Mér er líka kunnugt um það, að reglugerðin, sem nú mun hafa verið staðfest hinn 1. okt. s.l., eða uppkast að henni lá í marga mánuði á borði hæstv. félmrh., áður en hann hafði sig í það að staðfesta hana.

Það liggur þannig ljóst fyrir, að mjög hefur verið flanað að þessu máli og engin trygging lá fyrir um það, þegar breytingar voru gerðar á húsnæðismálalöggjöfinni á s.l. vori, að aðalnýmæli þeirra breytinga kæmu að nokkru raunhæfu gagni til þess að afla fjár í byggingarsjóðinn.

Það má segja, að þýðingarlítið sé að sakast um orðinn hlut. En mér virðist sem rás viðburðanna hafi sannað það, að skynsamlegra mundi hafa verið á s.l. vori að samþykkja þær brtt., sem sjálfstæðismenn báru fram við frv., en láta þessar óhugsuðu till. hæstv. félmrh. um skyldusparnaðinn, sem hann veit ekki einu sinni enn hvernig á að framkvæma, eiga sig, bíða betri tíma, þar til þær hefðu verið hugsaðar betur og einhver grundvöllur lagður að framkvæmd þeirra.

Ég vil svo að lokum láta í ljós þá von, að enda þótt engar upplýsingar liggi fyrir um það, þá verði ekki hið nýja veðlánakerfi ónýtt í höndum hæstv. ríkisstj. og hæstv. félmrh. Reynslan hafði þegar gefið af því allgóða raun. Hundruð manna um allt land höfðu fengið mikilvæga aðstoð til umbóta í húsnæðismálum sínum. Mér virðist nú horfa þannig undir forustu hæstv. félmrh., að miklu minni horfur séu á því, að þessi löggjöf verði að gagni undir hans stjórn og forustu, heldur en fyrsta reynslan af þeim gaf til kynna undir forustu þeirra manna, sem höfðu lagt traustan grundvöll að framkvæmd laga um aðstoð við það fólk í landinu, sem þarfnaðist bætts húsnæðis.