11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (2900)

28. mál, togarakaup

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir hans svör við fsp. mínum, svo langt sem þau ná.

Hann upplýsir í fyrsta lagi, að samið hafi verið um smíði á þeim 12 smærri skipum, sem ríkisstj. fékk heimild til að láta byggja, og jafnframt, að þessi skip muni verða tilbúin á síðari hluta næsta árs. Nokkrar upplýsingar hafði hæstv. ráðh. einnig að gefa um ráðstöfun hluta þessara skipa.

En um byggingu togaranna voru upplýsingar hans hins vegar allmiklu meira á reiki, og ég verð að lýsa yfir nokkrum vonbrigðum mínum af þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. hafði að flytja þingi og þjóð.

Hann kvað tilboð hafa borizt frá allmörgum skipasmíðastöðvum hinn 28. okt. s.l. og ríkisstj. hefði á grundvelli þeirra ákveðið að hefja samninga um smíði skipanna. Lengra er þá málið ekki komið að sinni, að ríkisstj., sem hefur í heilt ár haft heimild til þess að taka lán og hefjast handa um smíði 15 togara, hefur fyrst nú ákveðið að hefja samninga um smíði skipanna. Virðist mér þetta benda til þess, að málið hafi ekki verið eins vel undirbúið og nauðsynlegt hefði verið og að allt önnur vinnubrögð hafi nú verið um hönd höfð heldur, en þegar sett var löggjöf um endurnýjun togaraflotans á vegum nýsköpunar stjórnarinnar. Þá var málið undirbúið, áður en það kom fyrir Alþ., og framkvæmdum öllum miðaði mjög örugglega áfram og skipin komu að loknum tiltölulega mjög skömmum tíma, frá því að Alþ. gaf ríkisstj. heimild til þess að hafa forustu um skipakaupin.

En það er ekki nóg með það, að það sé nú fyrst verið að taka ákvörðun um að hefja samninga um smíði skipanna. Hæstv. ráðh. hefur ekki aðrar upplýsingar að gefa um lántöku vegna þessara skipasmíða en þær, að ríkisstj. hafi leitað fyrir sér um lán til skipasmíðanna og að nokkur tilboð hafi þegar borizt, en hins vegar muni verða haldið áfram að leita hagstæðari lánstilboða. Sem sagt, allt svífur í lausu lofti um lánsútvegun vegna þessara skipasmíða.

Ég vildi nú leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. til viðbótar, hvort þau lánstilboð, sem ríkisstj. hafa þegar borizt, séu það há, að með því að taka þeim, þiggja þau lán, sem með þeim eru boðin, sé hægt að smíða hluta af þessum skipum eða öll skipin. Duga þessi lán, sem ríkisstjórninni hafa boðizt, til þess að byggja einhvern hluta skipanna eða öll þessi 15 skip?

Ég vildi enn fremur mega fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann veitti Alþingi nokkru gleggri upplýsingar, en hann gerði í frumræðu sinni um það, hvar ríkisstj. hafi í hyggju að láta smíða þessi skip, því að ef hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að hefja samninga um smíði skipanna, hlýtur hún á því stigi málsins að vera búin að gera sér ljóst, við hvaða aðila og hvar hún ætlar að fá skipin smíðuð. Enn fremur kemst ég ekki hjá að vekja athygli á því, að hæstv. ráðh. hliðraði sér algerlega hjá að svara 4. lið fsp. minnar, um það, hvort skipunum hefði þegar verið ráðstafað til ákveðinna staða og þá hverra og hvaða aðila.

Ég álít, að það sé nauðsynlegt, að hæstv. ráðh. gefi alveg skýlausa yfirlýsingu um þetta, því að mér er kunnugt um það, að einstakir staðir þykjast hafa fengið vilyrði fyrir því að fá einhver þessara skipa. Þess er nú skemmst að minnast, að flokksbræður hæstv. ráðh. í bæjarstjórn Reykjavíkur hafa borið fram till. um það í bæjarstjórn, að 6 af þessum 15 skipum verði úthlutað til Bæjarútgerðar Rvíkur og öðrum fjórum til einkaaðila í Reykjavík. Það sætir engri furðu, að slíkar tillögur og raunar ýmislegt fleira hafi vakið þær vonir hjá mörgu fólki, að ríkisstj, hafi átt fast undir fótum í þessum togaramálum og að hægt sé að byggja nokkuð á framkvæmdum hennar í þeim að því er snertir bætt atvinnuskilyrði og bætta aðstöðu á ýmsum stöðum í landinu.

Tími minn er nú þrotinn, en ég vildi leyfa mér að óska þess, að hæstv. ráðh. gæfi nokkru gleggri upplýsingar um þau atriði, sem ég hef sérstaklega lagt áherzlu á hér. Að öðru leyti vil ég láta í ljós vonbrigði mín yfir því, hversu skammt þessu stóra máli er á veg komið, þar sem hæstv. ráðh. upplýsir, að það sé fyrst nú búið að ákveða að fara að semja um smíði skipanna, en allt sé hins vegar í lausu lofti um það, hvort lán yfirleitt fáist til þessara framkvæmda.