11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (2901)

28. mál, togarakaup

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. lýsir hér vonbrigðum sínum yfir því, hve seint hafi gengið með undirbúning í þessu máli. Mér sýnist alveg augljóst á því, hvernig hann flytur mál sitt, að annað tveggja hafi hann verið búinn að ákveða fyrir fram að reyna að halda einhverju slíku fram eða þá hitt, að hann er harla ókunnugur því, hvernig mál eins og þessi ganga raunverulega fyrir sig hjá hverjum þeim, sem hlut á að máli. Ég hefði t.d. viljað benda honum á það að fá upp tímalengd og dagsetningar hjá flokksbræðrum sínum í bæjarstjórn Rvíkur og kanna það, hvað það tók þá langan tíma, frá því að þeir misstu eitt af sínum skipum nú fyrir nokkru, þar til þeir voru búnir að semja um kaup á nýju skipi, og þá hygg ég, að hann kæmist að raun um, að þar var um ólíkt lengri tíma að ræða, en frá því að ríkisstj. nú fékk heimild samkvæmt lögum til þess að kaupa þessi skip. En þegar um það er að ræða að kaupa 15 togara, eins og hér er um að ræða, er ofur skiljanlegt, að það taki nokkurn undirbúningstíma að ákveða margt í sambandi við þau kaup.

Það var farin sú leið, að skipuð var nefnd fimm landsþekktra togaraskipstjóra til þess að leita eftir áliti þeirra á því, hvernig þessi skip ættu að vera, af hvaða stærðum og hvernig þau ættu að vera útbúin. Þegar sá tími var liðinn, sem þessi nefnd hafði starfað, og hún hafði skilað áliti sínu, var sett niður sú nefnd manna, sem ég gat hér um í mínum upplýsingum og ég hygg að sé þannig valin, að allir verði að viðurkenna, að þar eru þeir menn til valdir, sem mesta þekkingu og kunnáttu hafa í þessum efnum frá okkar hálfu, Íslendinga, þar sem eru Hjálmar Bárðarson, okkar þekktasti skipaverkfræðingur, Erlingur Þorkelsson vélfræðingur, sem hefur verið við umsjón og byggingu allra þeirra nýrra togara, sem keyptir hafa verið til Íslands nú eftir stríðið, og svo einn þekktasti togaraskipstjóri landsins, Sæmundur Auðunsson. Það tók þessa menn alllangan tíma að gera þá útboðslýsingu, sem talið var alveg óhjákvæmilegt að gerð yrði, og senda hana út til þeirra skipasmíðastöðva, sem líklegastar þóttu að fenginni nokkurri athugun til þess að taka að sér þessa skipasmíði. Það hefur því ekki staðið á ríkisstj. í þessum efnum á neinn hátt, heldur hefur verið unnið, eftir því sem tími hefur leyft, að þessum nauðsynlega undirbúningi. En þegar búið er síðan að gera útboð á svona skipum, verður skiljanlega að líða nokkur tími, þangað til skipasmíðastöðvarnar treysta sér til þess að skila fullkomnum tilboðum inn aftur, og það er vitanlega ekki fyrr, en slík tilboð frá skipasmiðastöðvunum liggja fyrir og búið er síðan að vinna nokkuð úr þeim, sem hægt er að hefjast handa um að ganga til beinna samninga. En hv. þm. N-Ísf. virtist líta svo á, að þar sem nú fyrst ætti að fara að hefja samningagerðina, þá væri auðvitað allur tíminn eftir í þessu máli, því að manni skildist helzt á honum, að auðvitað hefði mátt byrja á að semja strax og lögin voru samþykkt hér á Alþingi.

Nei, þessi mál ganga ekki þannig fyrir sig. Einmitt þegar allur þessi undirbúningur hefur verið unninn, útboðslýsingarnar og tilboðin eru komin inn, þá er orðið tiltölulega auðvelt að velja úr nokkrar skipasmíðastöðvar, sem tvímælalaust eru líklegastar með afhendingartíma, með verðlag og kunnar sem togarabyggingarstöðvar, — þá er hægt að velja þær úr og semja á tiltölulega skömmum tíma við þær um sjálfa smíðina. Og ég man líka svo vel, að þessu var svona farið á tímum nýsköpunarstjórnarinnar. Það leið a.m.k. jafnlangur tími og nú hefur liðið, frá því að ákvörðun var tekin um smíði þeirra skipa, þar til samningar voru gerðir.

Þá innti hv. þm. nokkuð eftir því, að það væri einkennilegt, að ríkisstj. skyldi ekki vera búin að semja um lán til þessara skipakaupa. Þetta er í rauninni ekkert undarlegt, því að það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að lántaka til þessara smíða yrði að meira eða minna leyti tengd við smíði skipanna sjálfra, þ.e., að lán yrði tekið í því landi, þar sem endanlega yrði samið um smíðina, og notaðir m.a. þeir lánamöguleikar til hins ýtrasta, sem viðkomandi byggingarstöðvar geta aðstoðað við a.m.k. að veita í því landi.

Þessi leið hefur verið farin nú, og það hafa komið inn, eins og ég sagði, nokkur tilboð, en það þykir ekki ráðlegt að ganga frá neinum lánum, enda alls ekki aðgengilegt að gera það, fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um, hvar skipin endanlega verða keypt, og það er enn í dag ekki hægt að segja um það með fullri vissu, hvort eða hvar þessi skip verða smíðuð. Tilboð eru það lík frá a.m.k. tveimur löndum, að það þykir rétt að ganga alveg til botns með nánari viðræðum við þær stöðvar í því, hvaða byggingarland verður endanlega ákveðið, en eins og ég sagði, hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um það að hefja nú samninga um sjálfa smíðina, og verður þá það ekki látið tefja, þó að ekki liggi fyrir lánssamningar á þeim grundvelli, sem ríkisstj. telur þó að lánin þurfi að vera á, í þessu efni. Það verður eigi að síður gengið frá samningum um smíðina, þegar það liggur fyrir um þá lánamöguleika, sem hún veit um nú í dag.

Ég get ekki viðurkennt, að hér sé um neinar upplýsingar á reiki að ræða, eins og hv. þm. komst hér að orði. Hann hefur fengið hér þær upplýsingar, sem hann hefur spurt um. Ég taldi að vísu ekki nauðsynlegt, þegar þetta er nú athugað, sem fram hefur komið í málinu, að svara því sérstaklega, að ekki væri búið að úthluta þessum skipum, því að ég hygg, að það liggi alveg í augum uppi, að sú úthlutun hefur ekki farið fram, og það hefur ekki verið talið eðlilegt að úthluta þessum skipum, enda ætti að vera nægur tími til þess að ákveða útgerðarstað þeirra síðar meir.

En vert er svo að athuga það, að annar þáttur þessara mála er vitanlega kaupin á hinum minni togurum, sem ég gat um, þessum 250 tonna skipum, og frá þeim hefur fullkomlega verið gengið og þeim að vissu leyti úthlutað, eins og ég sagði um.

Ég nefndi að vísu hér í minni upptalningu, að úthlutun hefði farið fram til Raufarhafnarútgerðar og Vopnafjarðarútgerðar, en nánar tiltekið munu það vera tvö skip til Norðausturlandsins, þar sem ekki hefur að fullu og öllu verið gengið þar frá þeim útgerðarsamtökum, sem að þeim skipum munu standa. En með því að fara þá leið, sem hér hefur verið farin, að kaupa 12 skip af þessari stærð, hefur vitanlega verið leystur vandi mjög margra staða á landinu í sambandi við hráefnisöflun, og rétt er að geta þess, að kaup á þessum tólf skipum eru algerlega umfram það, sem ríkisstj. hafði gefið yfirlýsingu um að hún mundi standa að í sambandi við kaup á nýjum togurum. Þrátt fyrir það mun hún standa að því, eins og ég nú hef lýst, að samningar verði nú gerðir um smíði á þessum stóru skipum, byggt á þeim undirbúningi, sem nú hefur farið fram, og þeirri ákvörðun um stærð skipanna, sem þar hefur verið gerð.