11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (2905)

28. mál, togarakaup

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh, staðfesti í svari sínu það, sem hafði komið mjög ógreinilega fram í hans ræðu, að enn er allt í óvissu með lánin til þess að borga fyrir þau skipakaup, sem hér er verið um að ræða. Hæstv. ráðh. sagði, að skipakaupin í Austur-Þýzkalandi hefðu verið gerð á svipuðum grundvelli og einstaklingar hefðu gert undanfarið með kaup á bátum frá Danmörku og Svíþjóð. En það getur ekki afsakað á nokkurn hátt, að ríkisstj. hleypir sér í milljónaskuldir við slíkar byggingar, sem hún vægt sagt á mjög erfitt með að greiða eða standa í skilum með. Og hitt verð ég að segja, að ef ríkisstj. ætlar að gera samning um smíði 15 togara, sem munu kosta samtals um 150 millj. kr., þá verð ég að segja, að það er fullkomið ábyrgðarleysi, ef ríkisstj. ætlar að binda landinu slíkan bagga, án þess að hún hafi fulla tryggingu fyrir nauðsynlegum erlendum lánum í því skyni.