11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (2906)

28. mál, togarakaup

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það er nú kannske ekki þörf á því að lengja þetta mikið frekar, en orðið er. Aðeins þetta, að mér sýnist, að þessir hv. sjálfstæðismenn, sem hér hafa talað um þetta mál, reikni með öllum vinnubrögðum í þessum efnum nokkuð einkennilegum. Það er helzt á þeim að skilja, að það hefði verið hinn eðlilegi gangur málsins, að ríkisstj. hefði farið á stúfana og útvegað sér 150 millj. kr. að láni einhvers staðar, átt það í handraðanum og farið svo á stað til þess að leita fyrir sér um togarabyggingar á eftir. Svona er vitanlega hægt að stilla upp dæminu. En ég hygg, að þeir, sem nærri þessum málum hafa komið, viðurkenni allir, að það er ekki svo auðvelt að útvega lán í þessum efnum, að ekki sé rétt að tengja þetta að meira eða minna leyti við sjálfa smíðina, að maður verði að leggja til hliðar þennan möguleika með öllu, en hin leiðin hljóti að verða farin af eðlilegum ástæðum, að kanna það fyrst, hvar eru kjörin á byggingunni bezt, hvar er hægt að fá skemmstan afgreiðslutíma, hvar er hægt að fá verðið lægst og önnur kjör bezt, og kanna það síðan í viðkomandi landi og með aðstoð viðkomandi byggingarstöðvar, hvaða lánsmöguleikar eru þar fyrir hendi, Nú hefur ríkisstj. fengið upplýsingar um þetta, sem eru allmikils virði, þar sem hún veit um nokkra lánsmöguleika í sambandi við bygginguna á þennan hátt, en vill þó hins vegar vinna að því frekar, af því að hún telur að þurfi að útvega þarna hagstæðari lánakjör, en fram hafa komið á þessu stígi málsins. Hins vegar sé ég ekki, að það þurfi að vera neitt ógætilegt fyrir ríkisstj, að semja um smíði skipanna á hliðstæðan hátt og gert hefur verið áður, þegar svona skip hafa verið keypt, þegar líka það liggur fyrir, að nokkrir lánsmöguleikar eru fyrir hendi og þeir ekki það óaðgengilegir, að þetta ætti að vera viðráðanlegt.

Hér hefur síðan verið margendurtekið af þessum hv. þm., að allt sé í óvissu um fram kvæmdir. Það er í óvissu allt um framkvæmdir, þegar búið er að vinna nauðsynlegan undir búning að byggingunum, og það er búið að taka ákvörðun um, að smíðasamningur verði nú gerður. Þeir, sem þannig tala, hafa sýnilega ætlazt til þess, að um leið og Alþ. var búið að samþykkja lögin, yrði samið undireins.

Það er vitanlega hægt að deila um það út af fyrir sig, hvort þessi undirbúningstími er orðinn of langur eða ekki. Það er deila um einn, tvo eða þrjá mánuði, það er rétt. En ég hygg nú samt, að þeir menn, sem með ríkisstj, hafa unnið að undirbúningi málsins, hafi unnið vel, og ég veit, að eftir þá liggur nú þegar mikið verk í sambandi við þennan undirbúning.

Mér er ekki kunnugt um, að það hafi nokkurn tíma verið farin sú leið áður í sambandi við úthlutun á skipum, að þeim hafi verið úthlutað til ákveðinna kaupenda, áður en formlegir kaupsamningar hafa verið gerðir. Það hefur ekki verið gert í sambandi við þessi 12 skip. Þeim hefur ekki verið úthlutað, fyrr en búið var að festa kaup á skipunum, og ég sé heldur ekki, hvaða ástæða væri til þess að fara nú að úthluta þessum 15 togurum, áður en formlegir smíðasamningar eru gerðir.

Það er líka mesta fjarstæða að ætlast til þess, að hér verði gefin svör um það, við hvaða aðila eða við hvaða land á að semja um byggingu þessara skipa. Þegar það liggur fyrir, að tilboð hefur borizt frá fleiri en einu landi og þau mjög svipuð í ýmsum tilfellum, þá viljum við leita betur fyrir okkur um það, áður en gefnar eru út opinberar yfirlýsingar hér á Alþ. um það, að eitt byggingarlandið og ein byggingarstöðin verði þar tekin fram yfir aðra. Og það er því heldur engin ástæða til þess að gefa yfirlýsingu um neitt slíkt.

Sama er í rauninni að segja um það, þegar hér er verið að spyrja sérstaklega um, hvort eigi að semja í tilteknu landi um smíði á öllum skipunum eða ekki öllum skipunum. Vitanlega fer þetta eftir því, hvernig samningar gerast þar um málið sem heild, en hins vegar er heimild Alþ. og ætlun ríkisstj. að kaupa 15 skip, eins og kunnugt er.

Þá er hér á sama hátt alltaf verið að inna eftir því, hvar eru líkur fyrir lánum. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að gefa hér neinar upplýsingar um það, hvernig þau tilboð eru, sem borizt hafa í sambandi við byggingu á þessum skipum, eða hvaða lánatilboð hafa þar borizt með. Ég tel það ekki heppilegt fyrir framgang málsins, mjög óeðlilegt gagnvart þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, hinum erlendu aðilum, en hitt tel ég að sé út af fyrir sig nægilegt, að nú liggja upplýsingar fyrir um það, að undirbúningsvinna hefur öll verið unnin hér heima í þessum efnum og ákvörðun tekin um það að ganga nú beint til verks og semja um smíðina.

Ég held svo, að fleiri atriði hafi hér ekki komið fram, sem mér þykir ástæða til þess að ræða um.