11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í D-deild Alþingistíðinda. (2907)

28. mál, togarakaup

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er sízt ofsögum sagt, að svör hæstv. sjútvmrh. séu mjög á reiki og harla óljós. Það eina, sem virðist vera alveg öruggt í hans huga, er það, að engan veginn sé tímabært enn þá að tala um úthlutun þessara skipa, hvað þá heldur meira. Hann minnist á það sem algera fjarstæðu, að um það sé spurt, hvort búið sé að úthluta skipunum.

Þetta er mjög fróðlegt fyrir þingheim, en ekki síður fyrir borgara hér í Reykjavík að heyra, því að ekki alls fyrir löngu báru flokksbræður hæstv. ráðherra fram í bæjarstjórn Reykjavíkur tillögu um það, þar sem Reykjavíkurbær átti að gera gangskör að því að útvega sér nú þegar verulegan hluta af þessum skipum. Bæjarstjórnin gerðist svo djörf, að hún vildi láta vísa málinu til athugunar þeirrar n., sem um þessi mál fjallar hjá henni, en það var þá af flokksbræðrum hæstv. ráðherra kallaður fjandskapur við málið, óhæfilegur dráttur og látið svo sem því væri mjög stefnt í voða, að Reykjavíkurbær gæti fengið nokkuð af þessum skipum, En þegar hingað á Alþingi kemur, heyrum við það, að hæstv. ráðh. telur með öllu fjarstæðu, að um úthlutun skipanna skuli rætt. Við sjáum þá sæmilega glöggt og vissum það raunar áður, af hvaða toga þessi málflutningur í bæjarstjórninni var spunninn.

En þó að það sé ljóst af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að hann telur mjög ótímabært að tala um úthlutun skipanna, þá var flest annað mjög ógreinilegt í hans svörum. Vildi ég nú enn gera tilraun til þess að fá hæstv. ráðh. til þess að festa sig nokkuð við jörðina og svara ákveðnum spurningum, sem þingheimur sannarlega á kröfu til að fá ákveðin og skýr svör við. Og fyrsta spurning mín er þá sú, hvort hér sé eingöngu um að ræða lán, tengd byggingu skipanna, þ.e.a.s. frá skipasmiðastöðvunum, sem tilboð hafa gert. Og ef um slík lán er að ræða, hvaða lönd koma þar þá til greina? Ég get ekki ætlazt til þess á þessu stigi, að ráðh. svari, hvar lánin endanlega verði tekin, en þingheimur á rétt á því að fá svar við því, hvaða lönd koma hér til greina.

Enn fremur vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því, hvort engin almenn lánsútvegun á vegum ríkisstj. sé í undirbúningi. Ef slík almenn lánsútvegun er í undirbúningi, er þá fyrir fram ákveðið, að ekkert af því láni renni til togaranna? Og ef unnið er að slíkri almennri fjárútvegun, hvar er þá unnið að henni, í hvaða landi eða í hvaða löndum? Loks vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því, samkv. marggefnu tilefni í stærsta stjórnarstuðningsblaðinu, Þjóðviljanum, því, sem hæstv. ráðh. hefur sérstaka umsjón með: Er rétt, að kostur sé eða hafi verið á stóru rússnesku láni til Íslands, og ef svo er, þá með hvaða kjörum? Hver er afstaða hæstv. ríkisstj. til þeirrar lántöku? Og er hæstv. ríkisstj. sammála um afstöðu sína til þess lánstilboðs?