11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (2929)

38. mál, innheimta opinberra gjalda

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í fjmrn. hafa á undanförnum árum verið athugaðir möguleikarnir á því að innheimta skatta, um leið og teknanna væri aflað. Nefnd, sem starfaði að endurskoðun skattalaganna á árunum 1953 og 1954, athugaði þetta atriði alveg sérstaklega að beiðni n., en treystist ekki til að leggja til, að slíkt innheimtufyrirkomulag yrði tekið upp, vegna þess að þeim fannst, að það mundi auka svo gífurlega starfskerfi ríkisins, verða svo kostnaðarsamt.

Rn. hefur nú sett reglugerð um fyrirframgreiðslu skatta o.fl., hún var sett s.l. sumar, þar sem ákveðið er, að frá og með árinu 1958 skuli heimilt að innheimta skatta með átta jöfnum greiðslum, í gjalddaga 1. marz, 1. apríl, 1. maí, 1. júní, 1. ágúst, 1. september, 1. október og 1. nóvember. En þar sem komið var fram yfir mitt ár, þegar reglugerðin var sett, voru sett sérákvæði um greiðslu skatta á þessu ári, sem kveða svo á, að þá skuli greiða með fjórum jöfnum greiðslum, eða heimílt sé að innheimta þá með fjórum jöfnum greiðslum, sem falli í gjalddaga 1. ágúst, 1. sept., 1. okt. og 1. nóv. 1957, en þó megi fastir starfsmenn, sem greiða skatta reglulega af kaupi, ljúka greiðslu gjaldanna með sex jöfnum greiðslum, þannig að auk fyrrnefndra gjalddaga á þessu ári komi 2. jan, og 1. febr. 1958. Með þessu er farið inn á þessa braut meira en áður hefur verið, mjög miklu meira en áður hefur verið, að innheimta skattana á mörgum gjalddögum og draga þá frá kaupi manna. Hér er um heimildir að ræða, og þessi ákvæði geta náð til allra skattgreiðenda, en að svo komnu hefur verið nánast um tilraun að ræða, sem er framkvæmd þannig, að innheimtumenn í öllum kaupstöðum landsins notfæra sér þessi ákvæði reglugerðarinnar, en annars staðar á landinu hefur það verið lagt í vald innheimtumannanna, að hve miklu leyti þeir notfæri sér ákvæði þessarar reglugerðar eða að hve miklu leyti þeir haldi við hið eldra fyrirkomulag og að skattfjárhæðir séu þá greiddar eða innheimtar í einu lagi.

Hér er sem sagt verið að fara inn á þessa braut, og er það nokkuð svipað og allmörg bæjarfélög hafa gert.

Þó að þessi breyting hafi verið innleidd, eins og ég hef greint frá, hefur rn. haft það í athugun áfram og er með það í athugun, hvort tiltækilegt sé að útfæra skattgreiðslur af tekjum manna jafnóðum, enn frekar, en gert er með þessu. Hefur rn. m.a. haft mann í Svíþjóð til að athuga skattinnheimtukerfi þeirra þar, og er hann væntanlegur heim næstu daga. Enn fremur hefur ríkisstj. gefið út yfirlýsingu um þetta mál í sambandi við víðræður við Alþýðusamband Íslands nú í haust, og var tekið fram, að stjórnin mundi beita sér fyrir því að koma því fyrirkomulagi á að innheimta skatta jafnóðum af tekjum, að svo miklu leyti sem það teldist fært að athuguðu máli. Verður nú tekin ákvörðun mjög fljótlega um það, hvað ofan á verður í þessu máli, m.a. eftir að skoðaðar hafa verið þær upplýsingar, sem fulltrúi rn., sem hefur verið erlendis, hefur að færa. Verður þá einnig tekin ákvörðun um það, hvort leitað verður samstarfs við bæjarog sveitarfélögin um þessi mál, en fram að þessu hefur það ekki verið gert. Það verður tekin ákvörðun um það um leið, hvort leitað verður samstarfs við þau um málið.