11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (2930)

38. mál, innheimta opinberra gjalda

Fyrirspyrjandi (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf og sýna, að málið er komið nokkuð á rekspöl, þó að þær breytingar, sem hann gat um og komið hefur verið í framkvæmd, séu allt annað en það, að skattar séu innheimtir, um leið og teknanna er aflað. Ég vænti því þess, að það verði sá árangur af sendiför þess manns, sem sendur hefur verið til Svíþjóðar til þess að athuga þetta mál, að þetta geti komizt fyllilega í það form, sem það er nú í öðrum löndum, sem slíka skattheimtu hafa tekið upp, og reynsla er nú fengin í svo mörg ár víða um lönd um þessa skattheimtu, að það ætti að vera auðvelt fyrir okkur eins og marga aðra að taka hana upp.

Um samvinnu ríkis og bæjarog sveitarfélaga tel ég, að sú samvinna sé sjálfsögð og að sjálfsagt sé fyrir báða þessa aðila að athuga til hlítar, hvort sú samvinna sé ekki möguleg, því að ég hef aldrei getað skilið það og skil það ekki enn, að ekki sé hægt með góðum árangri að sameina þessa tvo liði opinberrar skattheimtu, útsvör og önnur gjöld bæjarfélaganna annars vegar og ríkisskatta hins vegar. Um þetta hefur oft verið rætt hér á Alþingi, en það hefur aldrei komizt á þann rekspöl, að nokkurt gagn væri að. En ég er ekki í neinum vafa um það, að slíkt fyrirkomulag mundi spara stórfé í opinberri innheimtu. Ég skal ekki fara neitt út í það hér á þessu stigi þessa máls, hvor aðilinn ætti að hafa þessa innheimtu með höndum. Ég tel eðlilegt, að bæjarog sveitarfélög — eða bæjarfélög — hafi alla innheimtuna, bæði fyrir sig og ríkissjóð. Annars er það að sjálfsögðu mál, sem má deila um, en verður auðvitað að athugast niður í kjölinn, þegar málið kemur til umræðu.