05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í D-deild Alþingistíðinda. (2935)

135. mál, endurskoðun laga um verkamannabústaði

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi gat þess, að fsp. hans væri borin fram til þess, að málið fengist skýrt, og er mér ljúft að verða við því, að svo miklu leyti sem það er á mínu færi.

Hv. 4. þm. Reykv. spyr um það, hvað liði endurskoðun laga um verkamannabústaði. Af því gæti e.t.v. einhver ályktað sem svo, að Alþ. hafi samþykkt, að slík endurskoðun skuli fara fram. En svo er ekki. Alþ. hefur engin fyrirmæli gefið um endurskoðun þessara laga. En á s.l. ári, þegar unnið var að undirbúningi laganna um húsnæðismálastofnun ríkisins o.fl., var það álit margra, að eðlilegast væri að endurskoða lögin um verkamannabústaði og lögin um byggingarsamvinnufélög og fella þau inn í einn heildarlagabálk um húsnæðismál. En um þetta gat þó ekki orðið samkomulag, og því varð ekki af því, að sá háttur yrði hafður á. Allir voru þó sammála um, að nauðsynlegt væri að gera nokkrar breytingar á lögunum um verkamannabústaði þá þegar. Þessar breytingar miðuðu ásamt öðrum ráðstöfunum, sem gerðar voru, að því að auka fjárframlög til byggingarsjóðs verkamanna. Þannig var framlag sveitarfélaga til sjóðsins tvöfaldað með einni þeirra breytinga, sem gerðar voru á lögunum um verkamannabústaði í fyrra. Framlög sveitarfélaganna höfðu verið miðuð við 12–18 kr. á íbúa bæjar eða kauptúns, og mátti sveitarstjórn ákveða það með sérstakri samþykkt, hvort greiðslan í viðkomandi kaupstað eða kauptúni væri höfð í lágmarki eða í hámarkinu, 18 kr., eða einhvers staðar þar á milli, og hafa bæjarfélögin mörg ákveðið undanfarin ár að vera í hámarki. Þessu gjaldi hafði ekki verið breytt um nokkuð mörg ár. En með breytingunni, sem allir urðu sammála um í fyrra, skyldi tvöfaldast gjaldið, þ.e.a.s. verða að lágmarki til 24 kr. og að hámarki 36 kr., og sá sami háttur hafður á, að sveitarstjórnirnar gætu ákveðið, hvar þær yrðu á þessu bili, frá 24–36 kr. á mann í bæjarfélagi eða kauptúni. Jafnframt þessu var svo fjárveiting til verkamannabústaða að sjálfsögðu tvöfölduð á fjárlögum, því að ríkið á að Leggja jafnt á móti þeim greiðslum, sem koma í byggingarsjóðinn frá sveitarfélögunum. Þessi breyting mun óefað efla starfsemi byggingarsjóðs verkamanna allverulega á næstu árum, því að það ætti að geta leitt til til þess, að fjármagn hans frá sveitarfélögum og ríkissjóði allt að því tvöfaldaðist.

Í lögunum um verkamannabústaði hefur frá öndverðu verið ákvæði um það, að skv. þeim lögum væri aðeins heimilt að byggja hús með tveggja til þriggja herbergja íbúðum. Þannig er það orðað í lögunum, frá því að þau voru fyrst sett. Því er ekki að neita, að þetta hafði margoft verið brotið og þar af leiðandi, þegar fé skorti hjá sjóðnum, verið byggðar færri íbúðir, en skyldi, því að þess voru mörg dæmi, að byggðar höfðu verið fjögurra og fimm herbergja íbúðir. Og mér er nær að halda, að þau dæmi séu til, að það hafi verið byggðar sex herbergja íbúðir, þannig að herbergi í kjallara og herbergi í rishæð hafi verið í viðbót við þriggja eða jafnvel fjögurra herbergja íbúð á miðhæð, og að þeir, sem byggðu skv. verkamannabústaðalögunum, hafi þannig verið farnir að vera eins og „mattadorar“ á miðhæðinni með leigjendur sina í kjallara og rishæð.

Þetta taldi ég að væri ekki í anda laganna og bæri heldur að stuðla að því, að haldið væri áfram að hafa í heiðri bókstaf laganna frá öndverðu, að byggja sem sé tveggja og þriggja herbergja íbúðir. En menn bentu á, að það væri ekki e.t.v. hægt að saka félmrh. um það að hafa ekki, þegar teikningar höfðu verið samþykktar af rn., spornað við því, að þannig væri gengið á svig við ákvæði laganna, og þess vegna var lagt til í fyrra, og voru allir sammála einnig um þá breytingu, að það yrði tekið inn skýrt ákvæði um það, að jafnframt því sem félmrn. skyldi leggja samþykki sitt á fyrirkomulag verkamannabústaða, ætti það einnig þar á meðal að leggja samþykki á stærð íbúða, en það hafði ekki skýrt verið tekið fram í lögunum áður.

Til þess að veita svo aðhald um byggingarkostnað verkamannabústaða var í fyrra samþykkt samhljóða sú breyting á lögunum um verkamannabústaði, að bygging slíkra íbúða skyldi jafnan vera boðin út, til þess að leita eftir lægstu tilboðum, en það hafði ekki verið neitt ákvæði í þeim um það áður.

Þá var það ein meginbreyting, sem samkomulag varð um í fyrra, að þeir einir gætu nú verið félagsmenn í byggingarfélögum verkamanna með fullum réttindum, sem væru fjárráða, heimilisfastir innan kaupstaðarins eða kauptúnsins, og svo kemur nýja ákvæðið, sem bætt er inn í: og hefðu ekki viðunandi íbúð fyrir sig og fjölskyldu sína s.l. tvö ár og eigi haft yfir 50 þús. kr. árstekjur, miðað við meðaltal þriggja síðustu ára, að viðbættum þó 5.000 kr. fyrir hvern ómaga á framfæri, né yfir 75 þús. kr. skuldlausa eign, allt miðað við þann tíma, þegar félagsmaðurinn kaupir íbúðina.

Allir voru sem sé sammála um, að þeir, sem ekki hefðu átt íbúð s.l. tvö ár, yrðu að sitja fyrir þeim, sem ættu íbúð, um það að geta fengið að verða aðnjótandi 150 þús. kr. lántöku með 31/2% vöxtum til 42 ára. Meðan ekki væri hægt að fullnægja allra þörf, yrði auðvitað að vera ákvæði í lögunum um það, að þessi miklu fríðindi, þessa miklu aðstoð þjóðfélagsins fengju fyrst og fremst þeir, sem ekki væru íbúðareigendur og hefðu ekki verið það s.l. tvö ár, því að það eru vissulega mikil þjóðfélagsfríðindi að fá lán af þessari upphæð og með slíkum vildarkjörum, Það sést bezt, að svo er, þegar við lítum á þau kjör, sem öðrum eru boðin í sambandi við að leysa þeirra húsnæðisvandamál, sem er þetta, að menn geti fengið lán með 7–71/4% vöxtum til 15 eða í mesta lagi 20 ára og lánsupphæð sé um 70 þús. kr., ekki helmingur af þeirri upphæð, sem þarna er um að ræða. Það gefur að skilja, að það væri ekkert þjóðfélagsréttlæti í því að heimila hverjum sem væri að njóta forgangs að hlunnindum laganna um verkamannabústaði, þegar ekki er hægt í þjóðfélaginu að gera betur við fólk almennt, kannske með lakari ástæðum almennt, skv. hinni almennu húsnæðismálalöggjöf.

Það fer sem sé ekki milli mála, að sú aðstoð, sem er veitt með hinum löngu og vaxtalágu og tiltölulega háu lánum, sem veitt eru skv. lögunum um verkamannabústaði, er hin mesta aðstoð, sem veitt er í okkar þjóðfélagi til úrbóta í húsnæðismálum einstaklingsins. Það verður því miður að segjast, af því að það er satt, að sú venja hafði skapazt víðast hvar hjá byggingarfélögunum, án þess þó að styðjast við lagabókstaf, að láta félagsmenn fá íbúðir í þeirri röð, sem þeir höfðu gengið í félögin. Þá gat auðveldlega komið fyrir, að margra ára biðlisti myndaðist, og auðvitað gat þá líka hent, að á þessu margra ára bili hefðu efnahagsástæður þeirra, sem gengu í byggingarfélag fyrir mörgum árum og síðan verið á biðlistanum kannske heilan áratug, verið orðnar gerbreyttar, menn á listanum unnvörpum orðnir íbúðareigendur, sumir eigendur tveggja íbúða, og áttu samt eftir venjunni, sem skapazt hafði, forgangsrétt, þegar röðin kæmi að þeim, um að fá íbúð hjá verkamannabústöðunum með þessum vildarkjörum, niðurborguðum vöxtum frá hendi þjóðfélagsins. Ég og margir fleiri voru þeirrar skoðunar, að þetta næði ekki nokkurri átt, — maður horfðist m.a. í augu við það, að ungt fólk kom, þegar þessir löngu biðlistar höfðu myndazt, og spurðist fyrir um möguleika til þess að fá að byggja skv. lögunum um verkamannabústaði. Því miður engin von, hér er biðlisti upp á næstu 12 ár, og það er engin von. Og unga fólkið, sem þarna fór bónleitt til búðar, vissi ósköp vel, að á biðlistanum var fólk með ýmiss konar ástæður, vondar ástæður og góðar, og átti bara að fá að njóta þessa réttar eftir þessari tilviljunarkenndu röð, sem myndazt hafði fyrir mörgum árum.

Það vaknaði sú spurning fyrir mönnum: Má þetta svo til ganga? Er þetta réttlátt? Á þetta svona að vera? — Nei, auðvitað var rétt að miða við tekjur og ástæður fólks, þegar félagsmaður ætti kost á því að kaupa íbúð. Hin margra ára gamla röð gat ekki verið réttlát regla til að fara eftir. En þá kom spurningin: Hvaða tekjumark gat þá talizt hæfilegt, til þess að menn yrðu aðnjótandi hinnar mestu aðstoðar ríkisins til úrlausnar húsnæðisvandamála fyrir þjóðfélagseinstaklinginn? Í þessu tilfelli varð samkomulag um það í fyrra að miða við 50 þús. kr. tekjur sem meðaltal þriggja síðustu ára. Það jafngildir, og þó vel það, tekjum af samfelldri vinnu átta stunda vinnudags alla virka daga ársins og tveggja stunda eftirvinnu hvern virkan dag ársins í viðbót. Dagvinnan gerir um 43.200 kr. með núverandi vísitölu og eftirvinnan um 10.800 kr. eða þetta samtals um 54 þús. kr., miðað við árið í ár, en nálægt 50 þús. kr., þegar meðaltalið er tekið af þremur síðustu árum, miðað við dagvinnutaxta og eftirvinnutaxta verkamanns.

Við þetta var þetta mark miðað. Þá væri sem sé um að ræða ýtrustu tekjur þess verkamanns, sem hefði samfellda vinnu alla virka daga ársins og eftirvinnu tvo tíma á hverjum degi einnig.

Hjón mega þó samkvæmt hámarksákvæði laganna, sem sett voru í fyrra, hafa 5.000 kr. hærri tekjur, þ.e.a.s. 55 þús. kr. Þeir, sem útilokazt hafa af þessu ákvæði, en það fannst mér hv. fyrirspyrjandi leiða orðum að, að fólk væri jafnvel að tala um, að lögin væru ekki lengur fyrr verkafólk, — en þeir, sem úti lokazt hafa þess vegna samkvæmt þessu ákvæði, hafa þá notið einhverra meiri tekna, en verkamaður eftir núgildandi kauptöxtum getur notið með fullri dagvinnu allt árið um kring og fullri eftirvinnu alla daga ársins í viðbót, og þá er spurningin, hvort það fólk á að sitja fyrir öðru fólki með verri lífskjör.

Ég segi eins og hv. fyrirspyrjandi: T.d. skrifstofumaður, þótt hann stundi ekki verkamannavinnu, en af því að hann er með lægri laun, á hann ekki að njóta þessarar þjóð félagsaðstoðar, þó að hann sé ekki í vinnu galla og vinni ekki útivinnu verkamannsins? Ég held, að lögin hafi alls ekki miðazt við það, heldur að einmitt fólk úr ýmsum stéttum, láglaunastéttum þjóðfélagsins, ætti að njóta þessarar löggjafar.

Lítum svo á mann með meðalfjölskyldu eða svo. Hann má hafa 50 þús. plús 25 þús. kr. meðaltekjur þrjú s.l. ár til þess að njóta þessara fyllstu hlunninda laganna eða hafa 75 þús. kr. tekjur að meðaltali þrjú s.l. ár. Það þýðir, að hann má a.m.k. vera upp í 80 þús. kr. í ár eða yfir það til þess að útilokast, því að hin tvö árin draga það niður.

Ég tel, að meðan við stöndum í þessum sporum, verðum við að láta hitt fólkið sitja fyrir, sem er með tekjur neðan við þetta, og vil því vona, að það verði öllum ljóst, þegar þetta er athugað, að hér er ekki verið að breyta lögunum um verkamannabústaði á þann hátt, að verkamenn geti ekki notið þeirra, því að það eru eingöngu þeir menn, sem eru með meiri tekjur en verkamenn, hafa ýtrustu möguleika til þess að hafa, sem útilokast, og þeir áttu ekki að sitja fyrir, þó að þeir gerðu það í ýmsum tilfellum, þangað til þessi breyting var gerð.

Nú kunna menn að segja: Ja, eru nú mjög margir undir þessu tekjumarki? — Ég fullyrði það, að meginþorri verkalýðsstéttarinnar er undir þessu marki, og þeir mega prísa sig sæla í verkalýðsstétt, sem eru hærri að tekjum en 75–80 þús. kr., og vitanlega eru þó lögin fyrst og fremst hugsuð fyrir fjölskyldur, og þannig ber að miða við það tekjumark umfram allt. A.m.k. mundi það gleðja mig, ef svo fáir í verkalýðsstétt reyndust vera með meðaltekjur s.l. þriggja ára neðan við 55–75 þús. kr., að geta byggingarsjóðs gerði betur, en geta leyst húsnæðisvanda alls þessa fólks á sómasamlegan hátt. En þá fyrst, þegar sjóðurinn væri þess megnugur, væri ástæða til þess að haga lagaákvæðum svo, að hann gæti farið að sinna þörfum hins fólksins, sem væri tekjuhærra. Ég held, að því miður þurfi ekki að gera því skóna í bráð, svo að það vinnist áreiðanlega tími til þess að breyta lögum með tilliti til þess, að tekjuhærra fólk þurfi að komast þarna að. Ég held, að það sé ekki rétt, meðan húsnæðisástandið er eins og það er, að tekjuhærra fólk, en þetta fái forgangsrétt að þessum vildarkjörum, sem þjóðfélagið veitir samkvæmt lögunum um verkamannabústaði.

Í athugasemdum með frv. um húsnæðismálastjórn ríkisins o.fl. var svo hljóðandi málsgrein um breytingarnar á lögunum um verkamannabústaði, sem þá voru samþykktar af hv. Alþingi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nauðsyn þykir til bera vegna þess aðhalds, sem gert er ráð fyrir um lánveitingu samkvæmt frv. þessu, að gera nokkrar breytingar á lögunum um verkamannabústaði. Miða þessar breytingar einkum að því að tryggja, að þeir einir hljóti stuðning samkvæmt lögunum um verkamannabústaði, sem hafa stuðningsins mesta þörf; enn fremur að tryggt sé, að byggingar verkamannabústaða verði sem ódýrastar.“

Þarna er átt við útboðsskylduna.

Og á eftir þessari aths. stendur svo hljóðandi málsgrein:

„Gert er ráð fyrir, að heildarendurskoðun lagaákvæða um verkamannabústaði og byggingarsamvinnufélög fari fram fyrir næsta reglulegt Alþingi og þau lagaákvæði verði síðan felld inn í þessi lög.“

Þetta er tilvitnunin, sem hv. fyrirspyrjandi vék að, og vegna þessarar mgr. í grg. með húsnæðismálalöggjöfinni í fyrra er fyrirspurn hans fram borin.

Þetta er það einasta, sem ég veit til að gefið hafi verið undir fótinn um endurskoðun laganna um verkamannabústaði, og það skal ég játa, að það er skoðun mín, að það sé nokkur ástæða til að láta slíka endurskoðun fara fram, ekki sízt á lögunum um byggingarsamvinnufélög.

Á verkamannabústaðalögunum tel ég að hafi verið gerðar nokkrar breytingar á s.l. ári og allar að minni skoðun til bóta, til öryggis í þá átt, að vildarkjara laganna nytu þeir efnaminnstu í þjóðfélaginu, allt upp í það, að þeir hefðu ýtrustu verkamannatekjur, og þó miklar tekjur af aukavinnu. En hver er þá ástæðan til þess, að þessi endurskoðun, sem þarna er gert ráð fyrir, hefur ekki farið fram, því að hún hefur ekki farið fram enn þá?

Ástæðan er einkum sú, að ég taldi rétt, að lögin um verkamannabústaði fengju að reyna sig í framkvæmd a.m.k. í eitt ár með þeim breytingum, sem gerðar voru í fyrra, því að þær breyttu verulega ýmsum atriðum um starfsaðferðir, starfsháttu í sambandi við byggingarfélög verkamanna:

Sumar þeirra breytinga, sem gerðar voru í fyrra, tóku ekki gildi, fyrr en nú í ársbyrjun 1958, og gildir það alveg sérstaklega um tvöföldunina á framlagi sveitarfélaganna. Í lögunum í fyrra var það orðað svo, að frá og með ársbyrjun 1958 skyldu sveitarfélögin byrja að framkvæma þessa tvöföldun á persónugjaldi til byggingarsjóðs verkamanna, og reynslan af þeirri tvöföldun fjármagnsins til byggingarsjóðs er því fyrst að fara af stað núna fyrir tveimur mánuðum. Það er því lítil sem engin reynsla komin á hinn nýja fjárhagslega grundvöll, sem löggjöfinni var skapaður með breytingunum í fyrravetur.

Þó er svo að sjá, sem betur fer, að bygging verkamannabústaða víðs vegar um landið hafi tekið mikinn fjörkipp á árinu 1957 og að framkvæmdir á þessu sviði verði miklar á yfirstandandi ári.

Á árinu 1956 var engin hreyfing á byggingu verkamannabústaða nema aðeins á fjórum stöðum á landinu, þ.e.a.s. í Reykjavík, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og nokkrar íbúðir á Seyðisfirði, og víðast hvar hafði bygging verkamannabústaða legið niðri árum saman, og ýmis dauðamerki voru farin að koma í ljós á lagakerfinu um verkamannabústaði, þar sem svo dauft hafði verið yfir starfseminni undanfarin ár. Sum bæjarfélög höfðu t.d. ekki greitt framlög sín, gjaldið frá 12–18 kr. á mann, til byggingarsjóðsins s.l. 10 ár. Þetta er þó ekki fyrir meðalkaupstað nema 50–60 þús. kr. greiðsla, þ.e. svona fimmti eða sjötti partur af verði einnar íbúðar, og er ekki hægt að segja, að þau bæjarfélög telji það eitt af sínum höfuðmálum að leysa úr húsnæðismálum, sem ekki vilja leggja slíkt gjald fram árlega, til þess að fleiri eða færri af borgurum bæjarins, sem búa við húsnæðisskort, geti fengið þá aðstoð, sem þjóðfélagið þá býður fram.

En á árinu 1957 hefur stjórn byggingarsjóðs eftir upplýsingum, sem ég fékk frá starfsmanni sjóðsstjórnarinnar í gær, veitt vilyrði fyrir lánum til verkamannabústaða á 20 stöðum á landinu, og eru það samtals 110 íbúðir. Þessa staði hef ég hér á skrá, og vil ég biðja forseta að afsaka, að ég þarf að ná í það, ef menn hefðu áhuga fyrir því að vita, hvar verkamannabústaðir eru nú annaðhvort farnir af stað eða undirbúningsstarfsemi þegar innt af hendi, en staðirnir eru: Akureyri, sem fer á stað með 10 íbúðir, Borgarnes með 4, Búðareyri með 2, Búðir við Fáskrúðsfjörð 3, Dalvík 3, Djúpivogur 2, Hafnarfjörður 10, Hnífsdalur 2, Hólmavík 2, Húsavík 4, Kópavogur 10, Neskaupstaður 5, Njarðvíkur 4, Ólafsfjörður 3, Reykjavík 32, Sandgerði 2, Sauðárkrókur 3, Siglufjörður 5, Stokkseyri 2, Stykkishólmur 2, samtals 110 íbúðir. Og lánin eru, eins og ég gat um, að því er snertir Reykjavík og nokkra kaupstaðina 150 þús. kr. á íbúð til 42 ára með 31/2 % vöxtum, að ég held.

En þetta, að þessi hreyfing er komin á um byggingu verkamannabústaðanna, leiðir til þess, að allir þeir staðir, sem fara á stað með byggingu, borga nú þær skuldir, sem safnazt höfðu á undanförnum árum hjá þeim. Vangreiðsla frá sveitarfélögum nam eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um það, núna við árslokin 1957 4.8 millj. kr.

Þessi hreyfing, sem nú er aftur komin á byggingu verkamannabústaða eftir margra ára dauðamók víðast hvar, — sums staðar hélt starfsemin áfram, eins og ég hef tekið fram, — leiðir aftur til þess, að ríkið verður að geta greitt sitt framlag að jöfnu á móti, og veitir þá ekki af, að nú eru 4 millj, kr. á fjárlögum í þessu skyni í stað 1.9 millj. kr., sem áður var, og einnig veitir ekki af hinu heldur, að byggingarsjóði verkamanna voru útvegaðar 8 millj. kr. að láni, sem auðvitað munu verða notaðar auk ríkisframlagsins og sveitarfélagaframlagsins, þegar það hvort tveggja er til þurrðar gengið vegna starfseminnar úti um landið.

Eins og ljóst má vera af því, sem ég hef nú sagt, hef ég talið heppilegra, að nokkur reynsla fengist af lögunum um verkamannabústaði eins og þeim var breytt fyrir tæpu ári, áður en hafin væri endurskoðun á þeim að nýju. En hitt skal tekið fram, að ég er fús til þess að láta hefja slíka endurskoðun, bæði á þeim lögum og lögunum um byggingarsamvinnufélög, ef þess er óskað, og teldi ég þá langsamlega eðlilegast, að haft værisamráð um þá endurskoðun við þá menn, sem gerkunnugastir eru þessum lögum hvorum tveggja, einkanlega í framkvæmd.