05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í D-deild Alþingistíðinda. (2936)

135. mál, endurskoðun laga um verkamannabústaði

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið við þessari fsp. minni, og þá skýrslu, sem hann hefur gefið um ástand þessara mála almennt. Ég harma það hins vegar, að þessi endurskoðun skuli ekki vera hafin, og vildi eindregið láta þá skoðun mína í ljós, að hún yrði hafin sem allra fyrst og þá, eins og ráðherrann sagði, af þeim mönnum sem gerkunnugastir eru.

Það er rétt, að ráðherrann sagði í upphafi síns máls, að Alþingi sem slíkt hefur ekki samþykkt, að slík endurskoðun fari fram. Hins vegar, eins og við erum sjálfsagt sammála um eftir þessar okkar ræður með sömu tilvitnun báðir, var í athugasemdunum fyrir hinu fyrrnefnda frv. um húsnæðismálastofnun o.fl. sagt, að gert væri ráð fyrir þessari endurskoðun. Og ég vil vona, að sú endurskoðun fari fram hið allra fyrsta, því að margir binda við þá endurskoðun ýmsar vonir um leiðréttingu á því, sem þeir telja miður í lögunum.

Mér kemur ekki til hugar að draga í efa þau fríðindi, sem lögin ákveða fyrir þá einstaklinga, sem koma til með að njóta þeirra, og mundi seinastur allra gera. Hitt er mér vel ljóst, að ef verkamaður vinnur 200 stundir á mánuði, eins og oftast nær er sagt, í dagvinnu með kr. 18.50 eða um það bil á tímann, 48 stundir í eftirvinnu á mánuði með 27.75 kr. á tímann eða rétt þar um bil, þá mun ekki vera langt frá, að hann sé kominn, ef hann hefur stöðuga vinnu árið út, vel yfir þessi 50 þús., og ég tel, að þetta atriði væri eitt af þeim, sem ætti að athuga í framtíðinni og þá ekki hvað sízt við þessa endurskoðun, sem hér er um að rætt.

Ég ítreka svo þakkir mínar til félmrh. fyrir ágæt svör við þessari fsp. og vona, að þeir ýmsir, sem áður hafa verið að velta vöngum yfir því, hvort endurskoðunin væri hafin, og þá, um hvað hún fjallaði, hafi fengið þeim efasemdum svarað og viti nú, hvernig þau mál standa.