19.03.1958
Sameinað þing: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (2940)

151. mál, verðlagning á bensíni og olíu

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi svaraði nú að nokkru leyti núna með framsöguræðu sinni fsp. sinni, Hann sagði, eins og rétt er, að verðlækkanir gætu ekki farið fram hér jafnótt og verðlækkanir yrðu á heimsmarkaðinum, því að þeir aðilar, sem með olíuna verzla, verða að fá tóm til þess að nota upp þær birgðir, sem aflað er með meiri tilkostnaði, og verðlækkunin getur þá fyrst komið til greina, þegar þær birgðir eru þrotnar. Þess vegna þarf enginn að undrast það, þótt verðlækkanir komi fram hér nokkru eftir að menn, sem vel fylgjast með, hafa spurnir af þeim á heimsmarkaðnum. Þetta er að mestu svarið við hans fyrirspurn og skýrir það fyllilega, að verðlækkanir, sem hann spyrst hér fyrir um, eru ekki komnar til framkvæmda.

Þó skal ég fara nánar út í þetta mál og upplýsa ýmislegt út af fsp. um verðlagsákvarðanir á benzíni og olíum á þessu liðnu ári.

Hinn 27. febr. 1957 var sett eftirfarandi hámarksverð á gasolíu og benzín: Benzín kr.

2.47 hver lítri, gasolía frá leiðslu kr. 1.04 hver lítri og gasolía til húsa kr. 1.07 hver lítri. Hér var um verulega verðhækkun að ræða frá því, sem verið hafði, enda höfðu flutningsgjöld á olíum stórhækkað þá að undanförnu vegna áhrifa Súezdeilunnar. Hefðu nú olíufélögin einskis átt í að missa vegna hækkana á flutningsgjöldunum, hefði verðbreytingin þurft að eiga sér stað allmiklu fyrr, en þetta. OIíufélögin höfðu í þessu sambandi gert ítrekaðar kröfur um verðhækkanir, en við þeim kröfum var ekki orðið strax, heldur voru félögin látin taka á sig hinn mikla flutningsgjaldamun mánuðum saman.

Það eru ekki fyrir hendi upplýsingar um, hvað þessi dráttur á verðhækkun kostaði olíufélögin, en það rétta er, að þar er þó um nokkuð verulegar upphæðir að ræða.

Hver var sú álagning, sem olíufélögunum var heimiluð, þegar þessi verðákvörðun átti sér stað, sem sé í ársbyrjun 1957? Við verðlagninguna í febrúarmánuði 1957 var olíufélögunum reiknuð eftirfarandi heildarálagning: Á benzín 475 kr. á tonn, á gasolíu 200 kr. á tonn, hvort tveggja miðað við sölu frá leiðslu. En auk þess skyldu þau fá 3 aura akstursgjald á lítra, eða kr. 34.09 á smálest á alla aðra sölu.

Hinn 31.júlí 1957 var svo ákveðið nýtt hámarksverð á þessar vörur, svo sem hér segir: Benzín kr. 2.27 á lítra, gasolía frá leiðslu 87 aurar á lítra og gasolía til húsa 90 aurar á lítrann, þ.e.a.s. benzínið lækkaði með þessari verðlagningu um 20 aura lítrinn og gasolían í báðum tilfellunum, frá leiðslu og til húsa, 17 aura lítrinn. Þessi lækkun var aðallega vegna þess, að fragtir voru farnar að lækka eftir áhrifin frá Súezdeilunni.

Um þessa verðlagningu var allmikill ágreiningur hjá innflutningsskrifstofunni og milli meiri hluta hennar og verðlagsstjóra. Verðlagsstjórinn gerði tili. um það, að reiknað væri með sömu álagningu og gert hafði verið í verðlagningunni í febr. 1957. Olíufélögin gerðu hins vegar kröfur um stórkostlegar hækkanir á álagningu og uppbætur vegna eldri tíma. Niðurstaðan varð aftur sú, að meiri hluti innflutningsskrifstofunnar samþykkti í þetta sinn nýjar verðlagningarreglur, sem höfðu í för með sér stórfellda hækkun á álagningu. Samkvæmt þessum reglum varð álagningin svo sem hér segir: Á benzínið 460 kr. á smálest, á gasolíu 223 kr. á smálest, miðað við sölu frá leiðslu, auk 3 aura akstursgjaldsins. Auk framangreindrar álagningar, sem miðast við magn, var heimilað að reikna 1% álag á kostnaðarverð og 2% álag á útsöluverð. Miðað við það verðlag, sem gilti á þessum tíma, höfðu þessar nýju reglur í för með sér hækkun á heildarálagningu olíufélaganna á þessar tvær vörutegundir úr hér um bil 48.5 millj. kr. á ári í um það bil 58.5 millj. kr. á ári, eða sem næst 10 millj. kr. hækkun miðað við ársnotkun. Það var nú ekki farið verr með þau en þetta í júlíálagningunni s.l. ár.

Síðast í nóvembermánuði s.l. gerði verðlags stjórinn svo tillögur um nýtt hámarksverð, bæði á gasolíu og benzíni, en ákvörðun var frestað vegna tilmæla frá ríkisstj.

Verð á gasolíunni var svo ákveðið þann 21. des., og við þá verðákvörðun var tekið fullt tillit til þess dráttar, sem orðinn var, og verð ákveðið lægra, en ef verðbreytingin hefði farið fram þann 1. des. M.ö.o.: þessari verðákvörðun var hagað þannig, að útkoman yrði nákvæmlega sú sama hjá olíufélögunum.

Verði á benzíni hefur hins vegar ekki verið breytt enn þá. En um það verður séð, að olíufélögin hagnist ekki á þeim drætti, og þykist ég vita, að það varði hv. fyrirspyrjanda nokkuð, því að auðvitað vill hann ekki, að olíufélögin fái til sín óréttmætan gróða. Ég skil hans fyrirspurn svo, að hann hafi áhuga fyrir verðlækkunum einmitt til almennings.

Verð á benzíni hefði átt að breytast 1. des. í kr. 2.19 lítrinn úr kr. 2.27, eða um 8 aura, ekki 17, eins og hann sagði. Um síðustu áramót höfðu olíufélögin innheimt á þennan hátt fram yfir það, sem verðlagningarreglurnar gera ráð fyrir, um það bil 365 þús. kr., en nú mun þessi upphæð fara að nálgast 1 millj. kr., sem er hjá olíufélögunum vegna benzíns sem geymslufé.

Það hafa ekki orðið verulegar breytingar á innkaupi eða flutningsgjöldum á benzíni fyrr, en á þeim farmi, sem kom með Hamrafellinu hingað til lands þ. 27. febr. s.l., en sá farmur kemur væntanlega ekki til sölu fyrr en, í næsta mánuði vegna þeirra birgða, sem fyrir voru. Eftir núgildandi reglum ætti söluverð á þessum farmi að verða annaðhvort kr. 1.09 eða kr. 1.10 lítrinn. Þetta er um benzínið.

Hinn 21. febr. s.l. gerði svo verðlagsstjóri till. um lækkun á gasolíu frá 1. marz. Útreikningar hans sýndu, að verðið ætti þá að lækka um 4 aura lítrinn eftir gildandi verðlagningarreglum, sem innflutningsskrifstofan ákvað í júlí. Samtímis því að verðlagsstjórinn lagði útreikninga sína fyrir innflutningsskrifstofuna og sumpart nokkru síðar bárust frá olíufélögunum, hverju í sínu lagi, enn á ný sundurliðaðar kröfur um stórfellda hækkun á álagningunni. Verðlagsstjóri athugaði þessi gögn öll, og að þeim athuguðum lagði hann til, að þessum kröfum olíufélaganna yrði öllum synjað. Hann benti á, að hann teldi gildandi verðlagningarreglur vera það hagstæðar fyrir olíufélögin, að það væri alveg ástæðulaust að breyta þeim nú til hækkunar, enda engin rök ný, frá því að verðlagið var ákveðið í júlí, til þess að framkvæma frekari hækkun á álagningarreglunum. Hann taldi a.m.k. sjálfsagt að bíða með það, þangað til fyrir lægju nánari upplýsingar um raunverulega afkomu olíufélaganna við núv. verðlagsgrundvöll. Hann taldi, að það mætti ætla, að rekstrarreikningar félaganna yrðu tilbúnir í næsta mánuði, og væri því sjálfsagt, að þeir lægju fyrir, áður en farið væri að gera breytingar á álagningarreglunum.

Meiri hluti innflutningsskrifstofunnar vildi þó ekki fallast á þessi sjónarmið og samþykkti að hækka einn lið álagningarreglnanna, þ.e.a.s. akstursgjaldið, hækka það um 67% eða úr 3 aurum á lítra í 5 aura lítrann. Þessi hækkun jafngildir 2.3 millj. kr. tekjuaukningu fyrir olíufélögin, miðað við árssölu. Minni hluti innflutningsskrifstofunnar var hins vegar andvígur þessari hækkun, og var afgreiðslu málsins í innflutningsskrifstofunni áfrýjað til ríkisstj. nú fyrir skömmu, og þar er málið nú í athugun.

Með þessu, sem ég nú hef sagt, hef ég gefið allar þær upplýsingar, sem ég tel að máli skipti viðvíkjandi fyrirspurninni, og vona, að hv. fyrirspyrjandi telji, að hans fyrirspurn hafi verið mætt eins og hann sagði að hún hefði verið hugsuð, sem sé ekki í ádeilutón, heldur til þess að biðja um skýringar, og þær hef ég leitazt við að gefa.