16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (2947)

156. mál, félagsheimili

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Frá því að lögin um félagsheimili tóku gildi, 1. jan. 1948, hafa verið veittir styrkir úr félagsheimilasjóði til 90 félagsheimila um land allt. Árið 1956 námu tekjur félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti tæplega 2 millj. kr., en árið 1957 er áætlað að tekjur sjóðsins verði af skemmtanaskatti 2.2–2.4 millj. kr.

Félagsheimili þau, sem nú eru í byggingu og koma til greina við úthlutun úr sjóðnum, voru í des. s.l. 62 talsins. Til þess að gefa nokkra hugmynd um það, hve mikil fjárfesting sé í þessum framkvæmdum á ári hverju, vil ég leyfa mér að lesa upp lista yfir það, hvenær hafizt hefur verið handa um þessi félagsheimili, sem í byggingu eru.

Árið 1948 er byrjað á 9 félagsheimilum, árið 1949 5, 1951 2, 1952 7, 1953 8, 1954 7, 1955 13, 1956 4 og 1957 7 félagsheimilum.

Þessi 62 félagsheimili, sem í byggingu eru, hafa af stjórn félagsheimilasjóðs verið flokkuð þannig eftir því, á hvaða stigi smíði þeirra stendur: Nokkurn veginn fulllokið er við 23 félagsheimili, nærri lokið 13, meira en fokheld 5, fokheld 11, grunnar og sökklar steyptir að 6 og vegna eldri framkvæmda 2.

Umsóknir um fjárfestingarleyfi munu nú liggja fyrir um 26 ný félagsheimili.

Ég vil enn geta þess, að heildarkostnaður þessara 62 félagsheimila mun nema 38 millj. kr. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að hin nýju félagsheimili, sem byggð hafa verið úti um sveitir landsins og í sjávarþorpum og hinum smærri kaupstöðum, hafi orðið félags- og menningarlífi byggðanna að stórkostlegu gagni. Ný og bætt skilyrði hafa skapazt til þess að halda uppi fjölþættara menningarog félagslífi um land allt. Viða hafði félagslíf barizt í bökkum við mjög erfiðar aðstæður, þar sem ýmist ekkert húsnæði var til nothæft í þessu skyni eða mjög lélegt og fjarri því að samsvara kröfum tímans.

Ég hygg því, að engum blandist hugur um það, að bygging félagsheimilanna sé merkilegur þáttur í uppbyggingu landsins og hin nýju og fullkomnu félagsheimili, sem nú eru að rísa úti um sveitir og sjávarþorp, geti átt ríkan þátt í því, að fólkið uni glatt við sitt, við hin mikilvægu framleiðslustörf, sem unnin eru um land allt, bæði til sjávar og sveita. Ég hygg einnig, að menn greini ekki á um það, að það sé þjóðfélagslega þýðingarmikið, að fólkið í strjálbýlinu hafi ekki verri aðstöðu til þess, en fólk hinna stærstu kaupstaða að hafa með sér heilbrigt félagslíf, njóta fagurra lista, svo sem leiklistar og tónlistar, sem skapazt hafa margföld skilyrði til þess að iðka með hinum nýju félagsheimllum.

Nú hefur mér borizt það til eyrna, bæði á s.l. ári og um þessar mundir, að nokkur tregða sé á, að fjárfestingarleyfi fáist fyrir áframhaldandi framkvæmdum við félagsheimilin. Sjálfum er mér kunnugt um það úr þeim landshluta, sem ég þekki bezt til í, að hvað eftir annað hefur verið synjað um fjárfestingarleyfi til byggingar félagsheimilis á stað, þar sem mjög hrörlegt samkomuhús er fyrir og má raunar segja að fólk hafi enga eða litla aðstöðu til þess að koma saman og hafa samkomur. Ég hef þess vegna leyft mér að beina þeirri fsp, til hæstv. ríkisstj., hvort þegar hafi verið settar hömlur á byggingu félagsheimila eða hvort slíkar hömlur væru fyrirhugaðar.

Ég vil undirstrika það, að ef svo væri, sem ég vil ekki fullyrða um, og í lengstu lög vil ég vona, að engar sérstakar hömlur hafi verið settar á þessa byggingarstarfsemi, þá væri það mjög ómaklegt og óskynsamlegt. Ef hins vegar er aðeins um að ræða drátt á því, að fjárfestingarleyfi verði veitt í þessu skyni, þá er það að sjálfsögðu skárra. En ég vil benda hæstv. ríkisstj, á það, sem hefur yfirstjórn fjárfestingarmála í sinni hendi, að það er mjög óþægilegt fyrir þá aðila, sem ráðast í þessar framkvæmdir á þessu ári, að það dragist fram á mitt ár eða lengur, að fjárfestingarleyfi séu veitt. Það er óþægilegt vegna efnisútvegunar og mannaráðninga og sem sagt að öllu leyti mjög óhagkvæmt, að það dragist mjög langt fram á árið, að fjárfestingarleyfi séu veitt. Ég leyfi mér að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. gefi glögg og góð svör við þessari fsp. minni.