16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í D-deild Alþingistíðinda. (2948)

156. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er spurzt fyrir um, hvort þegar hafi verið settar hömlur á byggingu félagsheimila. Því ber að svara neitandi. Það hafa engar hömlur verið settar á byggingu félagsheimila,

Það er spurzt fyrir um, hvort slíkar hömlur séu fyrirhugaðar. Því ber einnig að svara neitandi. Það eru engar hömlur fyrirhugaðar á byggingu félagsheimila.

Svo sem öllum hv. þm. er kunnugt, eru í gildi lagaákvæði, sem skylda alla, sem ráðast vilja í ákveðnar tegundir fjárfestingar eða byggingarstarfsemi, að sækja um leyfi til slíks til innflutningsskrifstofunnar.

Bygging félagsheimila er háð hinum almennu reglum löggjafans varðandi þetta efni, og sker innflutningsskrifstofan, forstjórar hennar, úr umsóknum um byggingu félagsheimila eins og umsóknum um allar aðrar tegundir bygginga. Mér er ekki kunnugt um, að sérstök tregða hafi verið á því að veita leyfi fyrir byggingu félagsheimila nema síður væri, svo sem einnig kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda, þar sem hann gat þess, að á s.l. ári hefði verið byrjað á 7 félagsheimilum, eða allmiklu fleiri félagsheimllum, en byrjað hafði verið á næstu ár þar á undan, og er þetta í samræmi við þá stefnu, sem nú er uppi í þessum efnum, þar sem gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að bæta mjög hag félagsheimilasjóðs með því að ætla honum aukna heimild af tekjum skemmtanaskatts og með því að auka sjálfar tekjurnar af skemmtanaskattinum.

Það kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda, að undanfarin ár, t.d. árið 1956, sem hann nefndi, hefðu tekjur félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti numið tæplega 2 millj. kr., en um allmörg undanfarin ár hefur það lagaákvæði verið í gildi, að félagsheimilasjóður skuli fá 35% af skemmtanaskattstekjunum. Síðan í fyrra eru þau ákvæði í gildi, að félagsheimilasjóður fær 50% af skemmtanaskattstekjunum. Hlutdeild hans í skemmtanaskattinum hefur því verið aukin úr 35% í 50%, auk þess sem sjálfar skemmtanaskattstekjurnar munu fara vaxandi vegna þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið á skemmtanaskattslögunum almennt, þannig að nú má gera ráð fyrir því, að á yfirstandandi ári verði tekjur félagsheimilasjóðs ekki undir 3 millj. kr., þ.e. að tekjur félagsheimilasjóðs munu á árinu 1958 verða um það bil 50% hærri, en þær voru á árinu 1956, svo sem hv. fyrirspyrjandi gat um í ræðu sinni. Þetta er í samræmi við þá stefnu núv. ríkisstj. að stuðla svo sem unnt er að aukinni byggingu félagsheimila, sem víðast á landinu.

Ég vona, að þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar til þess að bæta hag félagsheimilasjóðs, komi að sem skjótustum og sem beztum notum, því að um það er ég alveg sammála hv. fyrirspyrjanda, að til þess ber hina brýnustu nauðsyn að auka skilyrði manna í dreifbýlinu til þess að eiga aðgang að góðum samkomuhúsakynnum til þess að hafa sem jafnasta aðstöðu á við þéttbýlisfólkið til þess að njóta leiklistar og annarrar listar sem og þess að vera jafnt sett um skilyrði til almenns samkomuhalds. Að því miða þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til eflingar félagsheimilasjóðnum, sem ég vona að muni bera sem skjótastan og beztan árangur.