16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í D-deild Alþingistíðinda. (2949)

156. mál, félagsheimili

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf hér sem svar við fsp. minni, í fyrsta lagi um það, að engar hömlur hefðu þegar verið settar á fjárfestingarleyfi fyrir félagsheimilum, og í öðru lagi, að slíkar hömlur væru ekki fyrirhugaðar.

Ég hafði hins vegar nokkra ástæðu til þess að ætla, að um einhverja stefnubreytingu væri að ræða í þessum efnum, þar sem mér var persónulega kunnugt um það, að byggðarlagi, sem var svo að segja samkomuhúslaust, hafði á s.l. ári verið synjað um fjárfestingarleyfi til þess að hefjast handa um byrjunarframkvæmdir í þessum efnum, og þar sem liðinn er nú hálfur fjórði mánuður af yfirstandandi ári, án þess að fjárfestingarleyfi fengist fyrir þessari framkvæmd. En sem sagt, ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hans svör og dreg ekki í efa, að þau séu byggð á fullum rökum og að þess megi vænta, að á þessar umsóknir um fjárfestingarleyfi fyrir félagsheimilum á komandi sumri verði litið í samræmi þar við.

En ég verð að segja það, að það er ákaflega óþægilegt fyrir þá aðila, sem hyggjast ráðast í framkvæmdir sem slíkar og raunar allar framkvæmdir, að vera dregnir fram á mitt ár með svör frá þeim opinberu nefndum og ráðum við því, hvort þeir megi hefjast handa eða ekki.

Það er, eins og ég gat um í frumræðu minni, margt, sem þarf að undirbúa, áður en ráðizt er í byggingu stórra húsa. Menn þurfa að afla sér byggingarefnis og mannafla og ráða byggingarfróða menn. Ef þeir svífa í lausu lofti um það fram á mitt ár, hvort þeir megi byrja eða ekki, getur svo farið, að þeir fái hvorugt, hvorki byggingarefni né heldur menn til þess að stjórna framkvæmdunum.

Það gladdi mig einnig að heyra þær upplýsingar hæstv. ráðh., að hann gerir ráð fyrir, að tekjur félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti verði á yfirstandandi ári um 3 millj. kr. Það er veruleg aukning frá því, sem áður var, þar sem árið 1956 voru tekjurnar tæpar 2 millj. kr. og á s.l. ári 2.2–2.4 millj. kr. En í sambandi við þessa aukningu á tekjum sjóðsins vil ég þó benda á það, að jafnhliða því, sem hluti félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti var aukinn úr 35%o upp í 50%, var fjölgað þeim aðilum, sem rétt áttu til þess að fá styrki úr sjóðnum, þannig að þessar tölur einar gefa ekki fyllilega til kynna hina auknu möguleika sjóðsins til þess að gegna hlutverki sínu. Engu að síður er hér um að ræða nokkra viðbót við tekjur hans, og ég vænti, að hann geti starfað öfluglega að því að leysa verkefni sitt á komandi árum. Enn fremur vil ég að lokum láta í ljós þá von, að samkvæmt þessum upplýsingum ráðherrans muni ekki lengi úr þessu standa á fjárfestingarleyfum fyrir þeim framkvæmdum, sem hér var spurzt fyrir um.