18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

73. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf, beindi þeirri spurningu til mín sem forseta, hvort ég hefði orðið var við áskoranir til meðmæla því frv., sem hér liggur fyrir.

Nú veit hv. þm. N-Ísf, það vel, að síðan vélaupptaka á ræðum þm. var tekin hér upp, les forseti ekki af forsetastóli ágrip af þeim erindum, sem send eru Alþ., heldur tilkynnir aðeins, að erindi hafi borizt frá þessum og þessum aðilum.

Ég kýs að svara þessari fyrirspurn, þó að ég sé nú um stund vikinn úr forsetastól, og svar mitt er það, að ég get ekki sagt um þetta með neinni vissu, vegna þess að það er langt frá því, það skal ég játa, að ég hafi lesið öll þessi erindi. En ég tel alveg víst, að eitthvað af þessum erindum hljóti að vera meðmæli með þessu frv. Það líður varla sá fundardagur, hvort heldur er í d. eða í Sþ., að ekki séu lesnar upp tilkynningar um það, að borizt hafi erindi frá fleiri eða færri áfengisvarnanefndum. Nú er það alveg vitanlegt, að kjördagur endar oft með fylliríi fyrir fjölda manns. Það hafa menn séð, sennilega allir hv. þm. séð, a.m.k. í kaupstöðum. Ég skal ekki segja, hvernig á þessu stendur, en ég býst við, að ein aðalástæðan sé, ja, svona spenningur og líka það, að menn vaka fram eftir kvöldi út af kosningum og þá fara þeir að drekka. Ég tel þess vegna alveg víst, að eitthvað af þessum erindum frá áfengisvarnanefndum sé um það að mæla með þessu frv. til þess með þeim hætti að koma í veg fyrir fyllirí á kjördaginn. Að öðru leyti get ég ekki svarað þessu. (Gripið fram í.) Ég veit ekki, ég held þetta væri miklu áhrifameiri bindindisráðstöfun, sem er í þessu frv., að hætta kosningu fyrr, en gert er og vera ekki að telja á næturnar, heldur bíða með talninguna til næsta dags, heldur en sú till., sem liggur fyrir hv. Sþ. Það hygg ég væri. Ég get ekki svarað þessari fyrirspurn nánar.

Ég ætla ekki að blanda mér neitt inn í þann eldhúsdag, sem hér hefur verið haldinn og háður. Hv. þm. N-Ísf, sagði hér margar sögur um atferli framsóknarmanna og Alþýðuflokksmanna á Vesturlandi í kosningum. Ég veit ekkert, hvernig kosningar ganga til á Vesturlandi. Ég er þar ekki kunnugur. En trúað gæti ég því, að ef hæstv. félmrh. hefði verið hér staddur, og hann er líka kunnugur á Vestfjörðum, hefði hann kunnað ýmsar sögur um atferli Sjálfstfl. í kosningum á Vesturlandi. Satt að segja sakna ég þess ekki, þó að hæstv. ráðh. væri nú ekki viðstaddur, því að eins og allir vita, er vinátta þeirra hæstv. félmrh. og hv. þm. N-Ísf. þjóðkunn, og ég býst við, að það hefði þá kannske leitt til þess, að þeir hefðu rætt æði mikið saman, vitanlega í vináttu og bróðerni, en þó orðið til þess, að við hinir hefðum orðið að vaka yfir því allmikið fram á nóttina.

Að ég kvaddi mér hljóðs, var annars eingöngu til þess að gera lítils háttar grein fyrir atkv. mínu um þær brtt., sem hér liggja fyrir.

Ég skal þá segja það strax, að ég er beinlínis efnislega mótfallinn þeirri brtt., sem hv. þm, Vestm. hefur borið fram á þskj. 196, að takmarka það við næsta nágrenni við kjörstað að hafa gjallarhorn í bílum. Ég hef a.m.k. einu sinni heyrt í þess konar gjallarhorni, sem notað hefur verið á kjördag, og það gerir hið mesta ónæði, ekki einasta í næsta nágrenni kjörstaðar, heldur um allan bæinn, a.m.k. var það svo í þeim bæ, sem ég var staddur í. Það var meira að segja ekki hægt að hlusta á útvarp inni í húsum fyrir aðganginum í þessu gjallarhorni, svo að ég held, að það sé engin þörf á að hafa það, enda vitanlega fer ekki nokkur lifandi maður eftir því, hvað kallað er út úr bíl í gegnum gjallarhorn um, hvað menn eigi að gera. Er því öllum flokkum gagnslaust að vera með slík læti.

Allt öðru máli gegnir um brtt. hv. þm. VSk. Aðaltill. er um það, að þegar kosning fari fram á vetri, skuli kjördagar vera tveir, og varatill. um það, að þegar óveður hindrar kjörsókn, geti yfirkjörstjórn ákveðið, að kjördagar skuli vera tveir, og sama rétt skuli undirkjörstjórnir hafa í einstökum kjördeildum utan kaupstaða.

Þetta er í raun og veru réttmætt. En það er nú svo með tvo kjördaga, að það hefur reynzt fært, eins og hv. þm. N-Ísf. hefur bent á og við allir vitum, samkvæmt núgildandi lögum að hafa kjördagana tvo. Ég man ekki, hvort sett voru einhver bráðabirgðalög um það eða hvernig það bar að, en hitt man ég, að það er ekki einu sinni, heldur tvisvar a.m.k., að kjördagar hafa verið hafðir tveir. Og það hygg ég að sé enn hægt að gera án þess að lögtaka þetta í þessu frv. En hvað varatill. hv, þm. snertir, þá er hún algerlega óþörf, því að sams konar ákvæði er í núgildandi kosningalögum, þ.e. í 134. gr. l., sem hljóðar svo, eða fyrsta málsgr.: „Nú ferst kosning fyrir í einhverri kjördeild á hinum ákveðna degi sökum óveðurs eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum, og kveður þá undirkjörstjórn innan viku til kjörfundar að nýju. Í kauptúnum og kaupstöðum skal birta fundarboðið á sama hátt og venja er þar að birta opinberar auglýsingar, en í sveitum skal senda með það gagngert á hvert heimili.“ Svo heldur greinin áfram um önnur atriði, sem geta valdið því, að kjörfundur ferst fyrir og boðað er til nýs kjörfundar.

Mér finnst því, þó að till. fari ekki fram á neitt annað en það, sem í sjálfu sér er réttmætt, að ekki sé þörf á að samþ. þær, og þar sem svo stendur á, að hv, Nd. er hætt störfum núna fyrir jólin, — það er mér kunnugt um, — þá sýnist það vera óþarfi þessara hluta vegna að láta málið tefjast fram til þess tíma, þegar Alþ. kemur aftur saman, út af þessu. A.m.k. er það alveg tvímælalaust, að varatill. segir ekkert annað, en það sama sem stendur í núgildandi lögum. Og hitt hefur verið „praktíserað“, þegar ástæða hefur þótt til. Ég hef ekki haft tíma til að rannsaka, með hvaða hætti það bar að, en það er áreiðanlega hægt að gera það eins hér eftir og hingað til, ef sérstök ástæða þykir til að hafa kjördagana tvo. Þess vegna er það, að ég álít þessar till. óþarfar, þó að meining þeirra sé sanngjörn.