05.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Pálmason:

Herra forseti, háttvirtu áheyrendur. Þegar þeir bandalagsflokkar, sem nú stjórna landi voru, tóku að fullu höndum saman 1956, þá var ekki við góðu að búast. Þeir hafa með starfi sínu á löngum tíma unnið að því beint og óbeint og nokkuð hver með sínum hætti að gera allan frjálsan atvinnurekstur til sjávar og sveita óstarfhæfan. Þetta hefur gerzt með því að hækka svo útgjöld framleiðslunnar, að eðlilegar tekjur fengju eigi undir risið. Áður en þessir menn tóku nú við að fullu, var svo komið fyrir þeirra tilverknað, að aðalatvinnuvegir landsins gátu eigi gengið nema með miklum uppbótum frá ríkinu. Var þó áður búið vegna áhrifa sömu flokka að fella gengi íslenzku krónunnar tvisvar sinnum með tíu ára millibili.

Það vita allir, að gengisfall peninga er eitt hið mesta neyðarbragð, sem hægt er að grípa til. En það er auðséð, að núverandi stjórnarherrar ætla eigi að láta þriðja tíu ára tímabilið renna svo til enda, að eigi skelli yfir þriðja og stærsta gengisfallið. Nú lofuðu þeir að koma öllu í gott horf með varanlegum ráðum og töldu það auðvelt verk. Meiri hluti þjóðarinnar var svo auðtrúa að taka þau loforð góð og gild. En það hefur sannazt, sem búast mátti við, að öll slík loforð hafa orðið að engu, og ekki nóg með það. Allt, er miður fór áður, hefur nú versnað svo gífurlega, síðan þessir tóku við, að ekkert þvílíkt hefur áður þekkzt.

Fjárl. fyrir árið 1956 voru samþ. í tíð fyrrv. ríkisstj. Útgjöld þeirra á sjóðsyfirliti voru áætluð 661 millj. kr. Við það bættust svo útgjöld framleiðslusjóðs, sem ákveðin voru í febr. 1956 og áætluð 152 millj. Alls er þetta 813 millj. kr. og þótti mörgum gífurlega hátt. Stóð heldur eigi á hrópum og átölum stjórnarandstæðinga um óhóf og eyðslu, vitlausa skatta o. s. frv. Í hópi þeirra urðu líka brátt framsóknarmenn, sem hlupu nú til andstæðinganna til að skamma sína eigin ríkisstj. Stóð sjálfur fjmrh. Eysteinn Jónsson þar fremstur í flokki, svo sem kunnugt er og þykir eitt hið mesta endemi, sem sögur fara af. Allt átti nú að vera sjálfstæðismanna sök. Allur þessi gauragangur mun hafa haft mikil áhrif í kosningunum 1956 og átt þátt í því að koma núverandi ríkisstj. að völdum. Það er því rík ástæða til að athuga einmitt það, sem opinberlega hefur gerzt á fjármálasviðinu eftir öll gylliloforð þessarar ríkisstj.

Fjárlög fyrir árið 1957 voru samþ. með 811 millj. kr. útgjaldaáætlun. Framleiðslusjóður var nú skírður upp og heitir síðan útflutningssjóður. Tekjur hans voru áætlaðar fyrir árið 1957 540 millj. kr. Af þeim átti 1/5 að ganga í ríkissjóð, eftir voru til útgjalda 432 millj. og gjöldin samtals áætluð fyrir þetta ár 1.243 millj. kr. Hækkunin á fyrsta ári vinstri stjórnarinnar var því hvorki meira né minna en 430 millj., þ. e. 52.8%. Var það vel að verið á fyrsta stjórnarári. Fjárlög fyrir yfirstandandi ár voru samþ. hálfköruð fyrir síðustu jól með áætluðum útgjöldum upp á 807 millj. kr., en útflutningssjóðinn hefur stjórnarliðið verið að afgreiða með hinum dæmalausu lögum, sem búið er að lýsa. Sjútv.- og viðskmrh. áætlaði tekjur hans 1.155 millj. kr., og er það sama sem álögð gjöld hans vegna. Auk þess fylgir það, að söluskattur og verðtollur er lagður á öll yfirfærslugjöldin, og nemur sú upphæð, miðað við svipaðan innflutning, 144 millj. kr. Sú upphæð á að renna beint í ríkissjóð til að mæta auknum kostnaði hans af lögunum og í aðra eyðslu.

Þá er útgjaldaupphæðin komin samtals í 2.106 millj. kr. Hækkun á tveimur árum samkvæmt áætlunum 1.293 millj. og allt miðað við svipaðan innflutning. Þetta þýðir hækkun á tveim árum um 159%. Eftir er svo að reikna út, hvað öll verðhækkunin hleður utan á sig í viðskiptalífinu. Öllu þessu til viðbótar er svo hinn alkunni stóreignaskattur, sem talið er að verði 135 millj. kr. Ekkert af honum er enn komið inn í áætlunina. Ofan á allt annað er nú búið að ákveða gífurlega hækkun á hinum almenna eignarskatti þvert ofan í gefin loforð.

Í þessum upplýsingum, sem ég hef hér nefnt, eru aðaldrættirnir í áhrifum stjórnarinnar. Þar sér fólkið nokkuð afleiðingar þess að koma þessari stjórn til valda. Munu margir hugsa á þá leið: Hvernig geta þessi ósköp skeð? Gat nokkrum manni dottið það í hug, að útgjöld ríkisins yrðu miklu meira en tvöfölduð á tveimur árum? Í þessu sést, hvað við var átt, þegar 400 manna flokksþing framsóknarmanna var fengið til þess í marz 1956 að samþykkja það, að ómögulegt væri að stjórna efnahagsmálum með sjálfstæðismönnum. Mennirnir vissu sem var, að út í svona glæframennsku væri aldrei hægt að leiða Sjálfstfl.

Því er ekki að leyna, að mér hefur lengi ofboðið eyðsla ríkisins og stofnana þess, og svo er um fleiri menn. En þegar þessi stjórn tók við árið 1956, var þó eins og stífla væri tekin úr á. Eyðslan óx með ofsalegum hraða, eins og áætlunartölurnar sanna.

Hver er svo stefnan? Þegar stjórnin tók við og Hannibal ráðh. gaf út bráðabirgðalög um stöðvun kaupgjalds og verðlags, þá gerðu margir sér von um, að stjórnin ætlaði að gefast betur, en búizt var við. En þetta stóð aðeins í 4 mánuði. Þá var aftur snúið við með ofsalegum tollahækkunum, og núna tekur svo dýrtíðarskrúfustefna Eysteins fjmrh, hið stærsta stökk, sem sögur fara af. Hinir ráðh. þvælast með, sumir sýnilega óánægðir, en aðrir ánægðir í sínu ráðleysi. Með öllu þessu þykist svo ríkisstj. vera að bjarga framleiðslunni, þ. e. sjávarútvegi og landbúnaði, sem vissulega þurfa hjálpar við. En af hverju? Við vitum, hvað er að þeim. Það er fyrst og fremst of mikill rekstrarkostnaður, of miklir skattar, of hátt kaupgjald, of hátt vöruverð. Allt þetta til samans myndar þann óhóflega rekstrarkostnað, sem er að sliga framleiðsluna. Vísitöluskrúfan hefur svo verið látin sjá fyrir því, að allt þetta hefur skrúfað hvað annað upp á víxl, og nú er það snjallræði ríkisstj. að hækka svo ofsalega sem lýst hefur verið skattana, tollana og vöruverðið. Í leiðinni á svo að lögbjóða almenna launahækkun upp á 50 millj. kr. eftir áætlun.

Það eina ráð, sem ekki má nefna, er sparnaður og samdráttur í útgjöldum. Að draga úr þenslunni er þó það, sem hyggnir menn telja nauðsynlegra en annað, en það má ekki nefna. Allt skal hækka: Meiri þensla, meiri dýrtíð, hærri skattar, hærri laun og einkum hærra vöruverð. Það er nú sem fyrr aðferð fjmrh. Það vantar heldur ekki í þetta eitt höfuðeinkenni hans stefnu: Bráðabirgðaráðstafanir eiga það að vera. Orðið er þaulkunnugt á Alþ. og aldrei að góðu. Annað meira eigum við að fá á næsta þingi og svo koll af kolli, þar til allar eignir einstaklinganna verða teknar í hina botnlausu ríkishít. Það er rússneska sælan.

Með núverandi ráðstöfunum mun aðstaða okkar bænda gerð verri, en nokkru sinni fyrr, síðan vinstri stjórnin gamla, hallærisstjórnin, var við lýði. Fjmrh. sagði við 1. umr. málsins í Nd. Alþ., að af því, hvað orðið væri dýrt að heyja, þá væri mjög óráðlegt, að bændur fengju fóðurbæti og vélar svo ódýrt sem verið hefur. Hann telur sýnilega óráðlegt, að bændur séu að kaupa slíkan óþarfa sem fóðurbæti og vélar. Það getur valdið offramleiðslu, svo sem stjórnarherrarnir tala mikið um. Þess vegna er hver dráttarvél hækkuð um 15–16 þús. kr. og önnur verkfæri og varahlutir í samræmi við það. Hvert tonn af fóðurbæti hækkar um 1–2 þús. kr. a. m. k. og ekki einasta það útlenda, heldur líka innlent fóðurmjöl, svo sem síldarmjöl og fiskimjöl, af því að verðið hækkar til útflutnings. Hver áburðarpoki af algengasta innfluttum áburði hækkar um nærri 90 kr. Byggingarefni hækkar um 30% og hver benzínlítri um 80 aura frá því, sem nú gæti verið. Bændum sem öðrum atvinnurekendum er svo gert það hagræði að lögbjóða 5–7% allsherjar grunnlaunahækkun. Svo á að sletta í þá bændur, sem framleiða sölumjólk, 5% hækkun á mjólkurverði frá 1. júní. Aðrir bændur eiga ekkert að fá fyrr en 15. sept., og þá er trúlegast eftir fenginni reynslu, að framsóknarmennirnir, sem ráða því félagi, sem kallast Stéttarsamband bænda, ákveði að hækka verðgrundvöll um 1.8% eða eitthvað þvílíkt vegna allra hinna gífurlegu hækkana á útgjöldum. Í þessu félagi þykir nægilegt að fá samþykki þriggja manna fyrir alla bændastéttina. Er líka kunnugt, að þá sjaldan sem fulltrúafundir eru þar, þá er séð um að taka ákvarðanir um það, er helzt skiptir máli, áður en fundirnir hefjast, svo sem átti sér þar stað á síðasta hausti.

Það er alkunnugt, að þegar launastéttir gera kröfur, þá er aldrei minnzt á minna en 5–10% launahækkun ofan á allt hitt. En þegar bændur eiga í hlut, þá kemur annað hljóð í strokkinn. Þá er hámarkið 1.8%. Þeim er talið allt boðlegt.

En það er fleira, sem bændur og aðrir landsmenn fá í nasirnar með hinum nýju stjórnarlögum. Vega- og brúagerðir eru það, sem margir sveitamenn þrá meira en annað, en það er næstum hið eina, sem núverandi stjórn leggur kapp á að spara. Fjmrh. lagði til að láta 12 millj. kr. í alla þjóðvegi landsins á þessu ári. Það er álíka upphæð og rekstrargjöld ríkisútvarpsins og heldur lægra en ríkisstj. með sínu stjórnarráði kostar. Þetta var nú hækkað í meðferð Alþingis um tæpar 4 millj. kr., en hin nýju lög lækka þetta aftur í framkvæmdinni um 10–12%. Brúargerðir, raforkuframkvæmdir og hafnarbætur lækka vegna laganna miklu meira vegna efniskaupa.

Þá er meðferðin á sveitar- og bæjarfélögunum alveg hroðaleg. Nú er áformað að innheimta í ríkissjóð og útflutningssjóð á 14. þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu, miðað við eitt ár. Við bæjar- og sveitarfélögin er með því sagt: Þið megið hirða rökin í allar ykkar þarfir. — Nú er það kunnugt, að flestar hinar miklu þarfir sveitarfélaganna eru lögbundnar. Þær eru stórhækkaðar með nýju lögunum. Áður voru mörg sveitarfélög að sligast undir byrðunum, — en hvað mun hér eftir?

Þegar þetta allt er athugað, þá er ömurlegt til þess að hugsa, að nokkrir bændur eða sveitamenn skuli hafa orðið til þess að koma vinstri stjórninni að. E. t. v. læra þeir af reynslunni, og er þá vel. En verði það ekki, væri næst að ætla, að þeir hefðu það lundarfar að láta sér bezt líka að vera barðir til hlýðni. Hvað sem um það er, þá veit ég þó hitt, að sveitakonurnar muna lengur en til morguns þann kinnhest, sem stjórnarliðar hafa veitt þeim með sínum nýju skattalögum. Það er út af fyrir sig gott, að þær kaupstaðarkonur, sem vinna fyrir launum, fái skattaívilnanir. Það er réttmætt, ef því fylgdi það eðlilega réttlæti, að þær konur til sveita og við sjó, sem helga heimilunum alla sína krafta, fái að njóta sama réttar, en það máttu stjórnarliðar á Alþingi ekki heyra nefnt. Og varðandi sveitakonurnar er það í góðu samræmi við þá reglu í verðlagi afurða að meta að engu vinnu húsfreyjanna, rétt eins og þær snerti aldrei á öðrum handarvikum, en annast börnin og matreiða handa fjölskyldunni. Við, sem erum í sveitunum og þekkjum þar alla örðugleika, vitum, að þessu er mjög á annan veg háttað. En ranglæti núverandi stjórnarliða gagnvart sveitakonum ríður ekki við einteyming, enda munu einhverjar þeirra muna kinnhestinn, þegar tækifæri gefast.

Ég hef hér lítinn tíma til að svara ræðum, stjórnarliða þeirra, er hér töluðu í gærkvöld. Örfá atriði vil ég þó minnast á.

Þm. Dal. flutti hér ræðu um framfarir og framleiðsluaukningu landbúnaðarins á undanförnum árum. Hefði sú ræða verið ágæt fyrir hálfu öðru ári, því að hún var rétt lýsing þeirra framfara, sem urðu í sveitunum á því langa tímabili, sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn stjórnuðu landinu sameiginlega. En það vantaði í ræðuna að lýsa því, að það eru einmitt þessar framfarir, sem núverandi ríkisstj. er að stöðva með öllum sínum öfgum.

Forsrh. hélt hér að vonum langa ræðu og kom víða við. Því miður var ræða hans mjög í mótsögn við sjálfa sig og einkum við það, sem ríkisstj. er og hefur verið að gera. Ráðh. sagði, að vísitöluskrúfan væri eins og sjálfhreyfivél, er skapaði þá svikamyllu, sem enginn réði við og ekki væri til í nokkru öðru landi en Íslandi. Þetta er rétt og hið sama sem ég hef haldið fram í 18 ár. Þá lýsti ráðh. þeim háska, sem stafaði af verkfallabaráttu undangenginna ára, og fór þar einnig með rétt mál. En ráðh. var í sömu stöðu og nú, þegar vísitöluskrúfan var sett í gang fyrir 18 árum, og enn hefur hann ekkert gert til að stöðva hana. Býst ég þó við, að hann skorti ekki viljann til, en hann hefur í stj. sinni tvo af helztu formælendum vísitöluskrúfunnar, fjmrh. og menntmrh. Sama er að segja um verkfallapólitíkina, að stjórnin hefur ekkert gert til að stöðva hana. Þvert á móti þessu hvoru tveggja verka dýrtíðarskrúfulög stjórnarinnar í þá átt að gera örðugra, en nokkru sinni fyrr að afnema vísitöluskrúfuna og verkfallabröltið. Þá sagði forsrh., að engin varanleg úrræði væru til í efnahagsmálum. Þetta er gagnstætt því, sem hann og aðrir stjórnarliðar héldu áður fram, og er gott, þegar menn viðurkenna þannig sína fyrri villu. Þá sagði forsrh., að framleiðslan gæti ekki greitt meira, en nú er. Þetta er hverju orði sannara, en samt hefur stjórn hans nú lögfest að leggja 55% toll á allar rekstrarvörur framleiðslunnar og bæta þar á ofan söluskatti og verðtolli. Mun allt þetta nema yfir 300 millj. kr. á ári að óbreyttum innflutningi.

Menntmrh. flutti hér langa og furðulega ræðu, og skal ég stutt út í hana fara, en líkast var því sem þessi ráðh. væri milli svefns og vöku. Hann sagði, að yfirfærslugjöldin væru ekki skattar og ekki tollar og þau væru ekki gengislækkun. Var helzt á manninum að heyra, að þær 790 millj. kr., sem nú á að innheimta með þessum hætti, væru ekki útgjöld fyrir neinn, en öllum til gagns. Hann talaði um þann háska, sem stafaði af gengisfalli, og nú væri þó komið í veg fyrir það. En rétt á eftir sagði hann, að sá gjaldeyrir, sem ekki er lagt nema 30% gjald á, væri seldur mikið undir réttu verði. Þegar þetta er allt lagt saman og það haft í huga, að þarna talar eini hagfræðingurinn í ríkisstj., þá er ekki að furða, þó að djúpt sé á rökréttri hugsun í þeim lögum, sem stjórnin hefur sett. Það snerust líka þrír af greindustu þingmönnum stjórnarflokkanna harðlega gegn þessum óskapnaði og færðu eðlileg rök fyrir sinni mótstöðu.

Ríkisstj. er alltaf að ganga á eftir ráðum frá sjálfstæðismönnum. Þetta er eðlilegt. Hún er eins og hrapandi maður, sem hrópar á hjálp, í fimm mánuði hefur hún staðið ráðalaus yfir því, hvernig hún eigi að fleyta áfram okkar þjóðfélagi um stundarsakir, eftir að hún sjálf hefur með flónsku sinni leitt það fram á gjaldþrotabarminn. Hún veit og sér og skilur, að þegar svo er komið, þá er ekki um annað að ræða, en vandræðaráðstafanir, og það, hvort þær koma að gagni, fer ekki sízt eftir því, hverjir eiga að framkvæma þær. Þó að við sjálfstæðismenn gætum ráðið fram úr vandanum, ef við mættum einir ráða, þá mundi þýðingarlítið að kasta viturlegum ráðum um mikinn allsherjarsparnað og kerfisbreytingar í hendur þeirra ráðleysingja, sem nú fara með völd. Ef að líkum lætur, verður þess ekki langt að bíða, að Sjálfstfl. fái það ömurlega hlutskipti að taka við gjaldþrotabúi vinstri stjórnarinnar, og þá mun hann taka til sinna ráða, eins og góðum skiptaráðanda hæfir. En það veit þjóðin öll, að í meðferð gjaldþrotabúa er aldrei um ánægjulega kosti að velja.

Þó að þetta sé nú allt svona, þá hef ég nú þegar eitt ráð að gefa vinstri stjórninni. Það er meira aðkallandi, en önnur og gæti haft meiri þýðingu, en flest hin. Þetta er að skipta um fjármálaráðherra. Það er fullreynt, að engra bóta er að vænta, meðan þessi er. Þótt eigi væri farið út fyrir Framsfl., sem hefur þetta embætti, þá veit ég, að í honum eru margir menn, sem hafa margfalt meira vit á fjármálum. en sá fjmrh., sem nú er, auk þess sem meðal þeirra eru margir heiðvirðir menn. Ef ég mætti velja nýjan fjmrh. úr liði framsóknarmanna utanþings, þá gæti okkar fjármálaskútu fljótlega orðið stefnt í sólarátt. Hitt er augljóst, að öll heilabaktería núverandi fjármálastjórnar hrekur okkar fjárhag hröðum skrefum beint norður og niður.

Það vita flestir menn, að á öllum sviðum viðskipta, atvinnulífs og fjármála veltur á miklu, hvernig forustan er. Á henni getur oltið meira, en öllu öðru. Og það má nærri geta, hvort eigi veltur á mestu með fjármálaforustu þjóðarinnar í heild. Þó að núverandi ríkisstj. sé slæm, þá gæti hún lagazt til mikilla muna, ef hún fengi þróttmikinn, fyrirhyggjusaman og greindan fjmrh. í stað þess, sem nú er. Segi svo stjórnarflokkarnir, að sjálfstæðismenn gefi þeim engin ráð.