03.06.1958
Sameinað þing: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. 1. þm. Rang. hélt hér ræðu. Í þessari ræðu vottaði lítið fyrir rökum. Hann var enn að tala um, að hallað væri á landbúnaðinn í þessum efnahagsmálaráðstöfunum, og sagði, að landbúnaðurinn yrði fyrir sérstökum skakkaföllum. Þessu hefur nú raunar verið rækilega svarað, en ég vil bæta einu atriði við, sem eitt út af fyrir sig er alveg nóg svar við þessum áróðri hv. þm. og hans félaga úr Sjálfstfl. Ef það er rétt, að hallað væri á landbúnaðinn í þessum ráðstöfunum, hvers vegna hafa þá ekki þessir þm, flutt neinar till. á þingi um að bæta úr því? En það hafa þeir ekki gert af þeirri einföldu ástæðu, að þetta er allt glórulaust tal af þeirra hendi um, að það sé hallað á landbúnaðinn í þessum ráðstöfunum. Annars er þessi hv. þm. Rang. „frægastur“ í landbúnaðarmálum fyrir það, að hann snerist til fylgis við ofsóknarstefnu Jóns Pálmasonar í garð landbúnaðarins 1944–46, honum líkaði hún svo vel. Hann byrjaði með því að taka fyrirvara um þá stefnu, en snerist síðan til fylgis við hana. Fyrir það er hann „frægur“ í sögu landbúnaðarins.

Sannleikurinn er sá, að síðan framsóknarmenn komu í stjórn 1947, hefur verið rekin þróttmikil framfarastefna í landbúnaðarmálum í stað þeirrar ofsóknar, sem átti sér stað, á meðan hv. þm. A-Húnv. og hv. þm. Rang., Ingólfur Jónsson, réðu þar mestu fyrir innan stokk hjá Sjálfstfl. og í ríkisstj.

Hv. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, hélt ræðu rétt í þessu. Hann endurtók þá firru, að framsóknarmenn hefðu lofað því, að þeir hefðu örugg varanleg úrræði í efnahagsmálum, sem ekki þyrftu að valda neinni kjaraskerðingu, las upp ummæli eftir forsrh., þar sem hann komst þannig að orði, að ekki þyrfti að valda kjaraskerðingu, sem neinu næmi, þ. e. a. s. eftir íslenzkri málvenju ekki verulegri kjaraskerðingu, og það á einmitt við það mál, sem hér liggur fyrir. Hér er gert ráð fyrir úrlausn, sem ekki á að valda neinni verulegri kjaraskerðingu, en verða til þess að forða stórfelldri kjaraskerðingu, sem yrði, ef ekkert væri að gert.

Hv. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, fór að ræða hér nokkuð um Framsfl. og hvað væri örðugt að koma málum við hann, hann væri orðinn sérstakt vandamál í þjóðmálunum vegna þess, að það væri svo erfitt að hafa samvinnu við hann. Heldur stangast þetta illa við staðreyndirnar, því að Framsfl. hefur átt þátt í ríkisstj. í rúmlega 30 ár af 40 árum, sem flokkurinn hefur starfað. Og ég veit ekki betur en Sjálfstfl. hafi sótzt eftir samvinnu við Framsfl.

Í þessu sambandi talaði hann um samvinnufélögin og skattfríðindi, sem þau nytu. Á þessu þingi var sett ný löggjöf, þar sem samvinnufélög eru sett á nákvæmlega sama bekk og önnur félög um skattgreiðslu til ríkisins. En hatur sjálfstæðismanna er svo mikið á samvinnufélögunum, þessum höfuðfélagsskap alþýðunnar í landinu, að þeir vildu ekki fallast á að láta samvinnufélögin njóta jafnréttis í löggjöfinni, heldur vildu viðhalda sérstökum kvöðum á samvinnufélögin, sem hefðu gert það að verkum, að þau hefðu orðið að borga þyngri skatta en nokkrir aðrir, ef þeir hefðu fengið vilja sínum framgengt.

Það kom sem sé í ljós í þessu sambandi, að þeir þola ekki frjálsa samkeppni, en vildu viðhalda sérstökum kvöðum á samvinnufélögunum. Þetta er gott fyrir samvinnumenn um allt land að festa sér í huga um framkomu Sjálfstfl. Og á þessu sjáum við svona hér um bil, hversu mikið er að marka skraf Sjálfstfl. um það, að hann vilji byggja þjóðfélagið upp á frjálsri samkeppni.

Þá kom hv. þm. Gunnar Thoroddsen að kafla í ræðu sinni, sem voru frómar hugleiðingar og ýmsar ekki óskynsamlegar. En hann tók það greinilega fram, að þetta væri hans persónulega skoðun. Það var líka vissara. Það var líka vissara að hafa fyrirvara um, að þetta væri ekki talað fyrir flokkinn, og kom sér vitanlega vel, miðað við þann málflutning, sem við höfum heyrt hér í kvöld í þessu sambandi. Þá talaði hann m. a. um gengismálið á þann hátt, að allir skildu, hvað við var átt.

Þessi hv. þm. var að tala um sparnað í ríkisrekstrinum. Þessi hv. þm. er frægur fyrir óráðsíu í þeim rekstri, sem honum hefur verið falið að standa fyrir, og ætti að moka frá sínum eigin dyrum í því sambandi. En hv. þm. talaði ekkert um skattamál sjómanna, og þótti mörgum það einkennilegt, að hann skyldi ekki tala um það áhugamál Sjálfstfl., sem þó hefur borið mjög á góma í þessum umr. og á þann hátt, að það hefði verið full ástæða til þess fyrir hann að gera grein fyrir því í áheyrn alþjóðar.

Í þessum umr. hafa talsmenn Alþb. af og til vikið að því, að úrræðin í efnahagsmálunum væru málamiðlun. Það er raunar rétt. Þeir hafa í því sambandi m. a. sagt, að það hafi ekki orðið samkomulag um teljandi niðurfærslur á ríkisútgjöldum. Þetta gefur tilefni til, að menn spyrji, og margir hafa spurt mig, hvaða tillögur um niðurfærslur á ríkisútgjöldum það hafi verið, sem hafi náðst samkomulag um. Ég tel skylt að greina frá þessu í höfuðatriðum.

Frá Alþb. komu till. um nokkra niðurfærslu á ríkisútgjöldum, og voru þessi aðalatriðin:

1. Að lækka framlög til verklegra framkvæmda.

2. Að lækka jarðræktarframlag og framlag til tilrauna í jarðrækt.

3. Að fella niður framlag til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga.

4. Að draga stórlega úr löggæzlu. Um þetta varð ekki samkomulag.

Loks komu fram ábendingar um smærri liði, og eru þær í athugun.

Allt ber vitaskuld að gera, sem unnt er, til þess að auka ráðdeild í rekstri ríkisins. Ríkisstj. hefur beitt sér fyrir sérstakri löggjöf á þessu þingi til þess að sporna við útþenslu í embættiskerfinu, og ríkisstj. hefur að minni till. ákveðið að skipa nefnd til þess að endurskoða ríkisútgjöldin, og verður stjórnarandstæðingum gefinn kostur á þátttöku í þeirri nefnd.

Það hefur verið rætt um það talsvert undanfarið, hvort ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum mundu reynast gagnlegar til frambúðar. Með þessu eiga menn vafalaust við, hvort takast muni með þessum ráðstöfunum að skapa jafnvægi í þjóðarbúskapnum og stöðva verðlag, þegar verðhækkunaráhrif þessara nýju ráðstafana eru komin fram. Um þetta er vitanlega ómögulegt að fullyrða nokkuð. Tekjuöflunin getur reynzt of knöpp, og er meira að segja hætta á því, þar sem byggt er á mjög djarflegri innflutningsáætlun. Og þessi hætta á halla í uppbótakerfinu er ævinlega fyrir hendi, og hún er einmitt mjög alvarlegur galli á fyrirkomulaginu.

Enn fremur ber enn að leggja áherzlu á, að engin leið getur leitt til varanlegs jafnvægis í þjóðarbúskapnum og komið í veg fyrir nýjar og nýjar veltur, nema hætt sé að nota vísitöluna á sama hátt og verið hefur.

Þróunin í þessum málum veltur því mjög á, hvernig stéttasamtökin í landinu halda á kaupgjaldsmálunum á næstunni. Verður skrúfan notuð áfram eða ekki, eins og verið hefur?

En þá mundi ef til vill einhver segja: En var þá ekki bezt að aðhafast ekki neitt og láta öngþveitið koma, sem orðið hefði, ef ekkert hefði verið gert? Er þá nokkurt verulegt gagn að þessum ráðstöfunum?

Í fyrsta lagi tryggja þessar ráðstafanir öfluga framleiðslustarfsemi um næstu framtíð, og það er út af fyrir sig ekki neitt smámál. En það, sem gefur þessum nýju ráðstöfunum í efnahagsmálunum mest gildi og veldur því, að þær eru allt annars eðlis en það, sem staglað hefur verið í uppbótakerfið á síðari árum, er sú staðreynd, að nú hefur verið stigið stórt skref í áttina til samræmis á verðlaginu og stigið í raun og veru hálfa leið út úr uppbótakerfinu með hinu nýja yfirfærslugjaldi, sem gengur út og inn í kerfinu.

Hvað sem framtíðin ber í skauti sínu og þótt menn kjósi yfir sig nýjar veltur á verðbólguhjólinu, þá verður þetta skref til samræmis í þjóðarbúskapnum ekki stigið til baka. Þess vegna hafa þessar ráðstafanir verulegt gildi til frambúðar, hvernig sem fer að öðru leyti. Þess vegna er þetta mál þess vert að leggja mikið á sig fyrir það og þess vert að taka á sig óþægindi og rógburð til þess að koma því í lög.

Þetta munu allir viðurkenna inn á sér, a. m. k. þeir, sem ekki eru haldnir fullkomnu ofstæki, og þessi þáttur er svo sterkur í málinu, og á þessu er svo ríkur skilningur með þjóðinni þrátt fyrir allt moldviðrið, að þegar leit út fyrir það um daginn, að stjórnin færi frá án þess að koma efnahagsmálafrv. fram, varð meginþorri manna mjög áhyggjufullur út af því og það ekkert síður andstæðingar ríkisstj. en hinir. Menn fundu, að það var stórfelldur skaði skeður, ef málið næði ekki fram að ganga, jafnvel þeir, sem hafa látið sér sæma og munu því miður láta sér sæma á næstunni að spilla fyrir því í framkvæmd. Sjálfstæðismenn töluðu þá um frv. líkt og þann, sem þungt er haldinn, en stórfellt tjón að missa.

En einmitt þetta er að verða háskalegur löstur í fari margra, að þeir berjast á móti því, sem þeir í raun og veru eru með, ef þeir halda, að með því geti þeir unnið sér vinsældir hjá einhverjum þeim, sem nauðsynlegar ráðstafanir kunna að valda erfiðleikum hjá í bili. Þessi óheilindi hafa ef til vill aldrei komið betur fram, en í sambandi við þetta mál, ekki aðeins á þingi, heldur líka utan þings. Ef þjóðin verðlaunar slík óheilindi og snýst ekki gegn þeim, mun það koma illa í koll, en ef þjóðin refsar fyrir slík óheilindi og venur menn þannig af þeim, þá er henni borgið.

Þetta er ein meginástæðan fyrir því, að það er orðin þjóðarnauðsyn, að menn aðvari Sjálfstfl. á þann hátt, sem forustan skilur, með því að veita honum ekki brautargengi til niðurrifsins og láta hann vita það.

Ástæða er til þess að rifja upp í lokin, hvað fram hefur komið í umræðunum um störf núv. ríkisstj. Aldrei hefur verið öflugri framleiðslustarfsemi á Íslandi, en undanfarin tvö ár né stöðugri atvinna. Rekstraraðstaða sjávarútvegsins hefur verið bætt stórkostlega, og nú með síðustu löggjöf hefur togaraútgerðinni verið bjargað úr bráðum háska og bætt aðstaða síldarútvegsins. Kjör fiskimanna hafa verið bætt. Auknar hafa verið útflutningsuppbætur til landbúnaðarins og aðstaða hans að öðru leyti í verðlagsmálum bætt frá því, sem áður var. Ný löggjöf hefur verið sett um ræktun til þess að vinna að stækkun hinna smærri búa og ný löggjöf sett um nýbýlastofnun, sem eykur stuðning við nýbýlamenn, nýrri löggjöf komið á um íbúðalán og skyldusparnað, fengið erlendis óvenju mikið fjármagn til stórframkvæmda í landinu, en ekki til eyðslu, og með því tryggður framgangur Sogsvirkjunarinnar, sem er ein hinna stærstu framkvæmda, sem Íslendingar hafa ráðizt í. Með því hefur einnig verið tryggð bygging sementsverksmiðjunnar, sem áreiðanlega verður eitt hið mesta þjóðþrifafyrirtæki.

Framkvæmdir úti um land hafa verið stórfelldari, en nokkru sinni fyrr, bæði í sveit og við sjó, og efling atvinnulífsins víðs vegar um land orðin slík, að aldrei hefur í seinni tíð orðið minni fólksflutningar til þéttbýlisins við Faxaflóa. Ráðizt hefur verið í óvenjuleg skipakaup og undirbúnar frekari framkvæmdir í þeim málum, komið nýrri skipun á bankamál, sem vonir standa til að verði til að koma meiri festu í meðferð peningamála þjóðarinnar, sett löggjöf um aðhald varðandi kostnað við rekstur ríkisins, sett merk löggjöf um aukin réttindi verkafólks og löggjöf um lífeyrissjóð togarasjómanna, sem eru eitt hið merkasta mál fyrir sjómannastéttina og vafalaust upphaf að hliðstæðri löggjöf fyrir aðra, sem vinna erfið og þýðingarmikil störf í þágu þjóðarbúsins.

Lögfest hafa verið þýðingarmikil nýmæli í menningarmálum, t. d. með lögum um vísindasjóð. Skattalögunum hefur verið breytt á þann hátt, að vonir standa til að verði lyftistöng fyrir atvinnurekstur og framleiðslu í landinu, þar sem settar hafa verið nýjar reglur um skattgreiðslur félaga, en hinir gífurlega háu stighækkandi skattar á félög, sem lögfestir voru fyrir æði löngu undir fjármálaforustu sjálfstæðismanna og legið hafa eins og mara á öllum atvinnurekstri síðan, hafa þar með verið afnumdir, sett í skattalög ný ákvæði um skattgreiðslur hjóna, sem bæta úr því misrétti, sem þær konur hafa búið við, sem unnið hafa að öflun skattskyldra tekna, og skattfrádráttur fiskimanna stóraukinn. Þá ber að telja hina nýju löggjöf um efnahagsmál, þar sem stigið hefur verið stórt skref út úr því feni ósamræmis í verðlagi, sem hættulegast er heilbrigðu framleiðslustarfi, þegar til lengdar lætur.

Þá hefur ríkisstj. komið sér saman um leið í landhelgismálinu, og mun öll þjóðin fagna því. Útfærsla fiskveiðilandhelginnar er vitanlega eitt hið þýðingarmesta mál, sem íslenzk stjórnarvöld hafa nokkru sinni fjallað um. Viljum við mega vænta þess, að stjórnarandstæðingar, enda þótt þeir hafi ekki enn látið uppi álit sitt á tillögum stjórnarflokkanna í málinu, gangi til heillar samvinnu við stjórnina og stjórnarflokkana um landhelgismálið. Öll þjóðin þarf að standa saman sem einn maður um þetta mál, sem varðar meira en flest annað fyrir framtíð Íslands og velferð þeirra, sem eiga eftir að ala aldur sinn í landinu,

Þjóðin mun fagna því, að fullkomin samstaða myndist um þetta mál, og hún ætlast til þess. Framsfl. hefur miðað öll sín afskipti af landhelgismálinu við að tryggja samstöðu sem allra flestra um fullnægjandi lausn þess.

Hvað sem deilum líður um önnur mál, eiga menn að standa saman um útfærslu fiskveiðilandhelginnar og eyða þeim ágreiningi um aðferðir og einstök atriði, sem ætíð koma að sjálfsögðu til, þegar slík stórmál eru til meðferðar.

Fordæmið er stofnun lýðveldisins, þegar allir stóðu saman að lokum, eftir að ágreiningurinn um aðferðir hafði verið jafnaður.

Framsfl. átti mikinn þátt í stofnun umbótabandalagsins og beitti sér mjög fyrir stjórnarsamstarfi því, sem nú hefur staðið frá 1956. Framsóknarmenn álíta, að með því, sem þegar hefur áunnizt í löggjöf og framkvæmd, hafi verið stigin þýðingarmikil spor, sem reynast muni þjóðinni giftudrjúg á margan veg til frambúðar.

Framsóknarmenn álíta varðandi efnahagsmálin, eins og glöggt hefur komið fram í þessum umræðum, að jafnvel þótt sjálfstæðismönnum og öðrum niðurrifsöflum, sem ganga í lið með þeim, kunni að takast að koma í veg fyrir full not löggjafarinnar, mun hún samt skilja eftir þýðingarmikil spor.

Að lokum vil ég segja þetta: Framsfl. hefur nú starfað í liðlega 40 ár. Þetta tímabil er glæsilegasta framfaratímabil í sögu íslenzku þjóðarinnar. Framsfl. hefur átt þátt í ríkisstj. í meira en 30 ár af þessum rúml. 40, mjög oft haft stjórnarforustu og mjög oft ýmsa þýðingarmestu þættina í stjórn landsins. Þeim mun sífellt fjölga, sem sjá, að Framsfl. hefur á margan hátt verið kjölfestan í þjóðmálum landsins á þessari för þjóðarinnar í framfaraátt. Enn fremur mun skilningur vaxandi á því, að aldrei hefur íslenzku þjóðinni verið meiri þörf á slíkum flokki sem Framsfl. er en einmitt nú, öflugum flokki, sem ekki miðar afstöðu sýna við þröngsýn stéttarsjónarmið eða miðar ákvarðanir sínar við pólitískan stundarhag, flokki, sem þorir að segja þjóðinni satt og gera rétt, jafnvel þótt það kosti óþægindi í bili, flokki, sem reyndur er að ábyrgðartilfinningu og ábyrgu starfi, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, því að það hefur verið eitt höfuðeinkenni á Framsfl., að þótt hann hafi verið í stjórnarandstöðu, hefur hann aldrei fallið fyrir þeirri freistingu að rífa einhliða niður.

Það er vitað mál, að þeir, sem til þess eru settir að finna úrlausnir í málefnum landsins, hljóta oft og tíðum að verða að taka vandasamar ákvarðanir, oft ákvarðanir, sem orka tvímælis, og oft ákvarðanir, sem eru ekki að öllu leyti vinsælar. Þegar þetta er haft í huga og þess jafnframt minnzt, að Framsfl. hefur átt þátt í ríkisstj. í meira en 30 ár af þeim liðlega 40, sem hann hefur starfað, þá er sannarlega ástæða að minnast þess með ánægju, að flokkurinn er í vexti og að hann á að fagna sífellt vaxandi skilningi á nauðsyn þess, að hann verði efldur til aukinnar forustu. Þetta eykur einnig þá trú, að það sé hægt að vinna traust með öðru, en því að rífa niður og vera á móti og reyna að notfæra sér það, sem miður tekst. Þetta sýnir, að það er einnig hægt að vinna traust og tiltrú með því að taka á sig vandann og ráða fram úr honum, jafnvel þótt það, sem gert er, kunni að valda óþægindum í bili. En það er einmitt trúin á hið jákvæða starf og kjarkurinn til þess að taka þátt í því, sem er grundvöllur þess, að frjálst þjóðskipulag geti staðizt. — Góða nótt.