18.02.1958
Sameinað þing: 27. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

Fríverslunarmálið

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þá glöggu skýrslu, sem hann hefur flutt hér um fríverzlunarmálið. Vafalaust er þetta eitt hinna stærstu mála, sem við höfum nú til íhugunar og úrlausnar. Það er mjög fjölþætt og þörf á því, að það fái sem allra vandlegasta athugun.

Hvað vinnst fyrir Íslendinga með þátttöku í fríverzlunarsamtökunum, ef þau komast á fót, og hvernig er hins vegar aðstaða okkar, ef við verðum utan við samtökin? Þetta þarf að vega og meta, áður en ákvörðun er tekin. Það þarf m. a. að gera sér ljóst, á hvern hátt þetta snertir helztu atvinnuvegi okkar, landbúnað, sjávarútveg og iðnað, og hæstv. ráðh. ræddi allmikið um það í sinni skýrslu. Ég vil þó leyfa mér að fara um það atriði örfáum orðum til viðbótar.

Ég vil fyrst nefna okkar elzta bjargræðisveg, landbúnaðinn. Það eru miklu færri landsmenn tiltölulega, sem hafa sitt lífsframfæri af landbúnaði, heldur en áður var. Þrátt fyrir það hefur framleiðslan hjá landbúnaðinum aukizt mjög mikið, og stafar það af mjög aukinni ræktun og mikilli vélanotkun við landbúnaðinn nú síðustu áratugina. Það munu vera nálægt því 6.000 byggðar jarðir hér á landi, en bændurnir eru nokkru fleiri, vegna þess að á sumum jörðum eru tveir eða fleiri bændur. Hér er því um margt fólk að ræða, sem enn stundar þennan atvinnuveg, og þannig mun það verða framvegis. Á það er líka að líta, að það eru fleiri en bændur og fjölskyldur þeirra, sem hafa framfæri sitt af landbúnaði að meira eða minna leyti. Það er mikil vinna við ýmsar vinnslustöðvar fyrir landbúnaðarvörur og dreifingu þeirra vara, og það eru margir, sem hafa atvinnu við þessi störf.

Helztu framleiðsluvörur landbúnaðarins eru kjöt og aðrar sauðfjárafurðir og mjólk. Framleiðsla kindakjöts er nú meiri, en þörf er fyrir til innanlandsneyzlu, og hefur verið undanfarið flutt út töluvert af dilkakjöti. Íslenzka dilkakjötið er viðurkennd gæðavara hjá þeim, sem keypt hafa, og m. a. þess vegna vonir um, að hægt sé að hafa markað framvegis fyrir þá vöru utanlands og auka hann. Það er nú töluverður tollur á kindakjöti í ýmsum viðskiptalöndunum, t. d. í Svíþjóð mun tollur á kindakjöti vera rúmlega ein króna sænsk á kg. og í ýmsum öðrum löndum, sem eru á hinu fyrirhugaða fríverzlunarsvæði, er verulegur tollur á þessari vöru. Það mundi að sjálfsögðu bæta mjög skilyrði til útflutnings á kindakjöti héðan, ef tollarnir yrðu felldir niður. Hins vegar þarf tæplega að gera ráð fyrir innflutningi kindakjöts hingað til lands, þó að frjálst væri að flytja þá vöru inn í landið, en öðru máli gegnir með aðrar kjöttegundir, svo sem nautakjöt, a. m. k. meðan Íslendingar fást ekki við nautaeldi til kjötframleiðslu.

Um mjólkurframleiðslu er það að segja, að vegna fjarlægðar frá öðrum löndum mun ekki verða flutt hingað neyzlumjólk. Bændurnir hér munu því sitja einir að þeim markaði. En öðru máli gegnir með aðrar mjólkurvörur eða vörur unnar úr mjólk, svo sem smjör og osta. Þar stendur landbúnaður okkar mjög höllum fæti í samkeppni við aðrar þjóðir.

Þó að sauðfjár- og nautgriparæktin sé yfirgnæfandi í landbúnaðinum hjá okkur, þá er þar um fleira að ræða, og þarf því að athuga aðstöðu hinna smærri búgreina í sambandi við hugsanlega þátttöku í fríverzlunarsamtökunum. Þar má nefna t. d. garðræktina: Á því sviði má búast við erfiðleikum, nema að því leyti sem sú sérstaða, er jarðhitinn veitir, gæti að gagni komið enn frekar en nú er orðið,

Það, virðist því liggja í augum uppi, að ef af þátttöku verður í þessum samtökum, þarf undanþágu viðkomandi ýmsum landbúnaðarvörum, svo að ekki valdi hér skjótri og mikilli röskun. En eins og hæstv. ráðh. gat um, þá er útlit fyrir, að fleiri væntanleg þátttökuríki muni fara fram á slíkt. Það er t. d. kunnugt, að Bretar leggja á það áherzlu vegna viðskipta við samveldislöndin, að einhverjar sérreglur gildi um vissar landbúnaðarvörur. Og fleiri þjóðir af þeim, sem þarna koma til greina, hafa tolla og innflutningshömlur á landbúnaðarvörum. Ætti því að vera auðveldara en ella fyrir Íslendinga að fá viðurkennda sérstöðu varðandi einstakar framleiðsluvörur landbúnaðarins, a. m. k. fyrst um sinn, þar til bændur gætu komið sér fyrir með framleiðslu á nýjum vörum, þar sem samkeppnisaðstaðan væri betri. Það er mál, sem bændum er vel ljóst, að þess er þörf að gera framleiðsluna fjölbreyttari, en hún nú er, og hefur það verið til meðferðar í félögum þeirra og mun verða einnig hér eftir.

Um sjávarútveginn er það að segja, að hann á að hafa góða aðstöðu til að keppa á frjálsum markaði, og það er vitanlega ákaflega þýðingarmikið fyrir hann að hafa sem frjálsastan gang að mörkuðum fyrir íslenzkan fisk og fiskafurðir í væntanlegum þátttökulöndum. En eins og á hefur verið bent, þá vantar þar skilyrði til geymslu og dreifingar á frystum fiski í ýmsum þeim löndum. Markaðurinn fyrir fisk utan þess svæðis, bæði í Bandaríkjunum og Austur-Evrópulöndunum, er okkur nú einnig mjög mikils virði, og þarf að vera unnt að halda áfram viðskiptum við vöruskiptalöndin, þegar þar er hagkvæmur markaður fyrir íslenzkar afurðir og góð viðskiptaskilyrði að öðru leyti.

Framleiðsla iðnaðarvarnings hefur farið mjög vaxandi hér síðustu áratugina, og alltaf fjölgar fólki, sem hefur framfæri sitt af störfum við þann atvinnuveg. Það þarf því vel að athuga aðstöðu iðnaðarins. En samkeppnisaðstaða hinna ýmsu iðngreina er mjög misjöfn. Sá iðnaður, sem vinnur útflutningsvörur úr innlendum hráefnum, svo sem fiskiðnaðurinn, ætti að geta þrifizt áfram án sérstakra ráðstafana, og það eru mjög margir, sem hafa atvinnu við þá framleiðslu. Er þar vitanlega mjög þýðingarmikið að tryggja markað í sem flestum viðskiptalöndum.

Fyrsta stóra iðnaðarfyrirtækið, sem hér hefur verið sett á fót, áburðarverksmiðjan, hefur bráðum starfað í fjögur ár, og reynslan af rekstri þess fyrirtækis er góð. Það hefur sýnt sig, að framleiðsla hennar er vel samkeppnisfær. Verksmiðjan hefur getað selt áburðinn fyrir verð, sem er sambærilegt við verð á innfluttum áburði, og er þó enginn tollur á þeirri vöru. Og verksmiðjan hefur ekki notið neinna opinberra styrkja til framleiðslunnar, en það er fátítt um framleiðslu nú hér hjá okkur.

Nú er langt komið byggingu annars stórfyrirtækis, sementsverksmiðjunnar. Það er of snemmt að spá um árangur af því fyrirtæki, en menn vænta vitanlega góðs í því efni. Það er almennur áhugi fyrir stofnun fleiri stórfyrirtækja hér á landi til hagnýtingar á auðæfum landsins, eftir því sem rannsóknir sýna að hagkvæmt geti verið.

Í sambandi við umræður um fríverzlunina hefur m. a. verið rætt um stofnun, er veitt gæti þátttökuríkjunum fjárlagslega fyrirgreiðslu við uppbyggingu nýrra framleiðslufyrirtækja, og gætu þar skapazt möguleikar fyrir okkur.

Ýmiss konar iðnaðarstarfsemi önnur en sú, sem hér hefur verið nefnd, er þannig, að hún á ekki að þurfa að óttast útlenda samkeppni, þó að höft væru afnumin. Sem dæmi má nefna viðgerðarstarfsemi ýmiss konar, svo sem vélaviðgerðir, en það er ört vaxandi atvinna við slíkt hér vegna mjög aukinnar vélanotkunar á mörgum sviðum. Og sama máli gegnir eða svipuðu um ýmiss konar aðra þjónustu, sem alltaf hlýtur að verða hér og staðbundin hér. Svo er aftur á móti veruleg iðnaðarframleiðsla, sem nú nýtur verndar bæði í formi innflutningstakmarkana og verndartolla, og sú framleiðsla mundi ekki standast, ef verndin væri afnumin. Þarf að rannsaka, eins og þegar er byrjað á, þýðingu þess iðnaðar, hvað mörgum hann veitir atvinnu og annað því við komandi. Það virðist liggja í augum uppi, að það gildir sama um ýmsar iðngreinar og nokkuð af landbúnaðarframleiðslunni, að þar þurfum við að fá undanþágur, a. m. k. fyrst um sinn, á meðan verið er að byggja upp nýja framleiðslu í stað þeirrar, sem ekki getur staðizt í frjálsri samkeppni.

Utanríkisviðskipti okkar eru og hafa lengi verið tiltölulega mikil. Og hér er mikil framleiðsla miðað við fólksfjölda. Það er þýðingarmikið fyrir okkur að hafa sem frjálsasta markaði fyrir þessar framleiðsluvörur annars staðar. En vegna fámennis hér hjá okkur er ekki mikill neyzluvörumarkaður hér, sem aðrar þjóðir hafa hag af að selja vörur til, og ætti það nokkuð að bæta aðstöðu okkar í þessum efnum.

Eins og málið liggur nú fyrir, sýnist margt mæla með þátttöku Íslendinga í þessum væntanlegu samtökum. En þó þurfa viss skilyrði að vera fyrir hendi vegna sérstöðu okkar að ýmsu leyti. Málið mun skýrast betur og þarf að skýrast betur, áður en hægt er að taka fullnaðarákvörðun um það, hvort Íslendingar verða þar með eða ekki. En ég tel það gott og mikilsvert, að hæstv. ríkisstj. hefur gert sér far um að fylgjast sem bezt með málinu, og væntanlega verður þannig áfram haldið.

Umræður um þessa fríverzlun eru vitanlega sprottnar af því, að menn líta svo á, að með slíkum ráðstöfunum sé hægt að bæta efnahagslega afkomu viðkomandi þjóða. Það, sem þarna liggur til grundvallar, er það, að hvert land framleiði þær vörur, sem þar er hentugast að framleiða, og síðan verði sem frjálsust viðskipti milli þjóðanna með framleiðsluvörurnar. Þetta ætti, ef vel tekst til, að geta bætt lífskjörin í heild, og það er því allrar athygli vert fyrir okkur sem aðra. Það er sjálfsagt að hafa opin augu fyrir öllu því, sem getur orðið til að auka framleiðslutekjurnar, en jafnframt þarf að skipta þeim sem sanngjarnlegast milli landsmanna. Og það er einnig þýðingarmikið, að menn geti fengið lífsþörfum sínum fullnægt á sem hagfelldastan hátt. Að þessu virðist stefnt með hinum fyrirhuguðu samtökum.