18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

73. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Tveir hv. alþm., hv. 1. þm. Eyf. (BSt) og hv. 1. þm. N-M, (PZ), hafa talið brtt, mína, aðaltill. á þskj. 95, eiga fullkominn rétt á sér. En það má bara ómögulega lögfesta þetta réttlæti.

Hv. 1. þm, Eyf. segir, að Nd. muni hafa lokið störfum og því sé ekki hægt að afgreiða málið, ef við gerum þessa breytingu. Þetta veit hv, þm. að er ekki rétt. Það er að vísu, að hæstv. forseti Nd. kvaddi deildina í kvöld, en þó með þeim fyrirvara, að ef einhver breyting yrði gerð í Ed., þannig að mál þyrftu að koma, þá yrði deildin kölluð saman aftur. Þessi ástæða hæstv. forseta er því algerlega röng.

Mér þykir leitt, að hæstv. forseti er ekki hér í deildinni. Hann sagðist ekki vita, hvernig því var varið 1942, þegar ákveðnar voru tveir kjördagar í vetrarkosningum. Þetta var gert með ríkisstjórabréfi, sem gefið var út skv. hinni breyttu stjórnarskrá, sem samþykkt hafði verið á Alþingi. Þar segir svo:

„Samkvæmt stjórnarskipunarlögum 1. sept. 1942, um breytingu á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, 18. maí 1920, og stjórnarskipunarlögum, nr. 22 24. marz. 1934, ber að láta almennar alþingiskosningar fara fram. Því mæli ég svo fyrir, að almennar kosningar til Alþingis skuli fara fram sem hér segir: Í kjördeildum, sem eru að öllu leyti innan takmarka kaupstaðar eða kauptúns, sunnudaginn 18. okt. n.k. Annars staðar sunnudaginn 18. okt. og mánudaginn 19. okt. n.k.“ Það er í dreifbýlinu, sveitum landsins, þar voru fyrirskipaðir tveir kjördagar. Þessir tveir hv. þm., sem hér hafa mælt og eru fulltrúar dreifbýlisins, hv. 1. þm, Eyf. og 1, þm. N-M., telja þetta fullkomlega réttmætt, en þeir vilja ómögulega lögfesta þetta réttlæti.

Hv. þm. N-Ísf. varpaði þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort honum væri kunnugt um það, hvort nokkur áskorun eða erindi hefði borizt hingað til Alþingis um að samþykkja þetta frv., sem hér er á ferðinni. Mér fannst svar hæstv. forseta harla einkennilegt. Hann kvaðst ekki hafa kynnt sér þetta, því að hann hefði ekki lesið þau erindi, sem borizt höfðu Alþ. En hann bætir við: Mér er hins vegar kunnugt um það, að fjöldi erinda hefur borizt til Alþ. varðandi áfengismál, — og svo segir hæstv. forseti: Ég tel líklegt, ef ekki fulla vissu, að eitthvað hafi verið rætt um þetta mál í þessum erindum. — Finnst hæstv. forseta sér sæmandi að segja þetta? Hann veit vel, að það er ekki einn einasti stafur í þessum erindum um þetta mál. Hann veit það. Hins vegar minntist hæstv. forseti ekki á þær einu áskoranir, sem fram hafa komið, þ.e. frá fjölmennustu kaupstöðum landsins, Reykjavík og Akureyri. Báðir hafa á fundum bæjarstjórnar samþ. mótmæli gegn því, að þetta frv. yrði samþykkt. Þessa minntist forseti ekki. Ég tel þetta hlutdrægni af hæstv. forseta, að fara svona að. Það var alveg rétt, sem hv. þm. N-Ísf. sagði, það hefur enginn einasti fundur og engin samkoma úti um land eða hér í Reykjavík óskað eftir þessu máli, ekki einn einasti. Allt er þetta búið til á flokksskrifstofum eða stjórnarskrifstofum stjórnarflokkanna, en kjósendur, almenningur í landinu gefur ekkert fyrir það og fyrirlítur þessar aðferðir þeirra.