20.02.1958
Neðri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (3020)

Landhelgismálið

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það þarf ekki að deila um þá staðreynd, hún liggur svo augljóslega fyrir, að þegar hæstv. ríkisstj. þóttist leita samstarfs við okkur sjálfstæðismenn um þetta mál, þá var búið að ákveða að aðhafast ekkert í málinu fyrr en eftir Genfarfundinn. Og það var einungis til þess að láta okkur sjálfstæðismenn taka ábyrgð á því aðgerðaleysi með hæstv. sjútvmrh. og ríkisstj. í heild, sem sá skrípaleikur var hafinn að leita samstarfs við okkur um mál, sem ríkisstj. hafði þá þegar ákveðið.

Við bentum á þessa staðreynd í okkar svarbréfi, en buðum engu að síður fram fullt samstarf um málið, þó að við teldum ekki ástæðu til að blanda okkur inn í þær ákvarðanir, sem þegar var búið að taka.

Nú segir hv. þm., sem hér talaði, að Morgunblaðið hafi notað þetta mál til árása á ríkisstj. Ég vil af því tilefni taka fram, að við sjálfstæðismenn höfum aldrei einu orði vikið að þessum bréfaskiptum eða neinu því, sem þar var sagt, fyrr en stjórnarliðar sjálfir nú taka málið upp og hefja umr. um þessi trúnaðarbréf. Því fer svo fjarri að við höfum nokkru sinni haft uppi ásakanir á hæstv. ríkisstj. fyrir aðgerðaleysi hennar í málinu, að það eina, sem við höfum gert, er að spyrjast fyrir um, þegar Þjóðviljinn hvað eftir annað hefur borið sakir á Guðmund Í. Guðmundsson utanrrh. eða ríkisstj. í heild, við hvað væri átt, Morgunblaðið hefur aldrei tekið þetta mál upp án beins gefins tilefnis í sjálfu málgagni sjútvmrh. Það eru því alger og ég vil segja vísvitandi ósannindi, þegar þessi hv. þm. nú heldur því fram, að við sjálfstæðismenn séum að hefja deilur um þetta mál. Við höfum manna bezt skilning á því, að þetta mál hentar ekki til innanlandstogstreitu. Þess vegna höfum við ekki hafið umr. um málið né fundið að því, þó að þessi dráttur yrði.

Hv. þm. bendir á fsp. í Morgunblaðinu. En það er rétt, sem Tíminn sagði í gær, að það, sem þarna er gert í Morgunblaðinu, er, að það er klippt út úr það, sem stendur í málgagni sjútvmrh., — og ætlast þessir menn til, þegar ráðherrarnir skjótast á skeytum, ekki lengur innan sjálfs stjórnarráðsins eða hér í baksölum Alþingis, heldur í sínum eigin málgögnum, að þá tökum við sjálfstæðismenn þátt í því þagnarsamsæri, sem þessi hv. þm. og sumir aðrir eru að reyna að koma á um raunverulegt framferði núverandi hæstv. ríkisstj.? Hv. þm. hefði verið maður að meiri, ef hann hefði haft manndóm í sér til þess að vita Þjóðviljann og hæstv. sjútvmrh. fyrir þeirra framkomu í málinu og fullkominn ódrengskap gagnvart hæstv. utanrrh. Hv. þm. skortir mannlund til þess að gera þetta, en hann er að reyna að breiða yfir þessa þjóðarskömm, hvernig þessir menn koma sér saman, þegar þeir vinna að höfuðmálum, að breiða yfir með því að ætla að telja mönnum trú um, að við sjálfstæðismenn séum að taka upp mál, sem stjórnarblöðin hafa hvað eftir annað skipzt á skeytum um innbyrðis og sérstaklega Þjóðviljinn nú frá áramótum æ ofan í æ.

Þetta vita allir þm., og það er að vísu skiljanlegt, að Alþfl. telji sig, sem að sögn Dags á Akureyri er á hröðu undanhaldi og niðurleið, að sá flokkur telji sig þurfa nokkurrar viðhressingar við. Og það er rétt hjá hv. þm., að hann sýnir dugnað í því að reyna nú að hlaupa fram fyrir skjöldu og hressa upp á flokk sinn, það verður að meta. En það er bezt fyrir hann sjálfan að átta sig nú þegar á því, að flokkurinn verður því aðeins hresstur við, að haldið sé við staðreyndirnar og ásökunum beint gegn þeim, sem ásakanir eiga skilið.

Hv. þm. segir í grein, sem hann skrifaði á sunnudaginn, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. hefur gert heiðarlegar tilraunir til að bjóða stjórnarandstöðunni eðlileg samráð um utanríkismál löngu áður en þau komu opinberlega á dagskrá, en þeir Bjarni og Ólafur hafa slegið á útrétta hönd. Þeir vilja heldur hafa frjálsar hendur til rógs og skemmdarstarfsemi í utanríkismálum, en taka upp ábyrga samvinnu um mál, þar sem slík samvinna mundi gera þjóðinni mikið gagn.“

Ja, ef þetta mál, sem hér er til umr., er dæmi um það, að við höfum slegið á útrétta hönd ríkisstj., þá sjá menn, hvers virði þessi ásökun hv. þm, er.

Að öðru leyti vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ríkisstj.: Hafa þeir, ráðh., í nokkru máli, sem þeir hafa leitað til sjálfstæðismanna um, mætt því, að við höfum svarað þeirra útréttu hönd með rógi og á þann veg, sem hv. þm. segir? Ég kannast að vísu ekki við, að eitt einasta mál hafi verið undir okkur sjálfstæðismenn borið af hæstv. utanrrh., ekki eitt einasta mál. Hins vegar man ég aðeins eftir einu máli, sem má telja til utanríkismála og hv. menntmrh. bar undir mig, og ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því: Er hann heimildarmaður að þeim sakaráburði, sem hv. 5. landsk. þm. ber nú fram? Hef ég tekið þannig undir það mál eða notað það til slíkra árása á hæstv. ráðh., að það gefi efni til þessarar ásökunar? Eða er hæstv. ríkisstj. kunnugt um, að samstarfs hafi verið leitað, ef á að kalla það því nafni, í öðru málum en þessum tveimur, sem sagt því, sem hér er til umr., og svo handritamálinu, sem hæstv. menntmrh. leitaði viðræðna við mig um?