20.02.1958
Neðri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (3027)

Landhelgismálið

Ólafur Thors:

Herra forseti, Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) hefur nú svarað því, sem gaf mér tilefni til að biðja um orðið, og get ég þess vegna mjög stytt mál mitt.

Ég ætla að víkja aðeins nokkrum orðum að því, sem hæstv. forsrh. sagði. Hann gerði það að meginkjarna síns máls, að þegar við vorum kvaddir til ráða fyrst í október, þá hafi það mál, sem þá var til umr., þ. e. a. s. sú hlið landhelgismálsins, verið á umræðugrundvelli. Það var kjarni hans máls. Þessi hlið málsins, sem þar var um að ræða, var, sem margtekið er fram, hvenær ætti að framkvæma þær ráðstafanir, sem menn á annað borð vildu framkvæma í landhelgismálinu.

Ég hef hér lesið upp úr bréfum hæstv. atvmrh. skýlausar yfirlýsingar, og ég skal enn endurtaka þær, af því að ég sé, að hæstv. forsrh. hefur áreiðanlega verið fjarverandi, þegar ég las þær upp, — ég hef lesið skýlausar yfirlýsingar um, að það var búið að taka ákvörðun um þessa hlið málsins, þegar við vorum kvaddir til ráða. Um það segir í skýrslunni frá hæstv. atvmrh. á þessa leið, enn einu sinni, og þetta er sérstaklega ætlað hæstv. forsrh.:

„Sjútvmrh. hafði gert ákveðnar till. um, að stækkun landhelginnar yrði látin koma til framkvæmda 1. okt. þ. á. Utanrrh. taldi hins vegar ekki rétt að ráðast í stækkunina fyrr en eftir Genfarfundinn.“

Hér er ágreiningur. Hvað verður svo um þennan ágreining, áður en við erum kvaddir á fundinn? Það, sem nú skal greina enn á ný. Um þetta segir í skýrslunni:

„Nú er ríkisstj. það ljóst, að mjög miklu máli skiptir um farsæla lausn þessa máls, að allir stjórnmálaflokkar landsins geti staðið saman um það, sem gert er í málinu.“

Og enn fremur og sem afleiðing af þessu hugarfari :

„Sjútvmrn. mun fallast á að ákveða framkvæmdartímann strax að Genfarfundinum loknum, ef það er nauðsynlegt til þess að skapa samstöðu allra flokkanna um málið.“

M. ö. o.: Innan ríkisstj, er ástandið þannig, að sjútvmrh. segir: Ég vil gera þetta 1. okt. –þ. e. a. s. áður en við erum kvaddir til ráða, — en utanrrh. segir: Ég vil ekki gera það 1. okt. og ekki fyrr en þessi ráðstefna í Genf er um garð gengin. Það verður í aprílmánuði n. k. sennilega. Ég vil ekki gera það fyrr. — Og sem afleiðing, þá segir sjútvmrh.: Af því að ég heimta, að allir séu sammála, þá fell ég frá mínu og gefst upp, því að fyrir mér er aðeins eitt aðalatriði í málinu, og það er að skapa samstöðu allra. — Það er þess vegna búið að skera úr um innan stjórnarinnar, að það er ekki hægt að skapa samstöðu allra, nema því aðeins að ákvörðun verði frestað, og sú ákvörðun um frestun er tekin. Þetta liggur fyrir, og það má sannarlega ekki fara fram hjá hæstv. forsrh. svo veigamikið atriði, að innan hans eigin ríkisstj. er búið að taka ákvörðun um mikilsvarðandi mál, án þess að hann geri sér það ljóst. Hæstv. ráðh, verður að láta sér skiljast, að það liggja fyrir skrifleg gögn um, að þetta er búið að ákveða, þegar við erum kvaddir til ráða. Þess vegna má segja, að hans ræða var byggð á fullkomnum misskilningi.

Hitt er svo auðvitað alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þegar mál eru á umræðustigi innan ríkisstjórnar, þá segja menn sínar skoðanir: Þetta er mín skoðun í málinu, en ef þú kemur með skynsamleg rök um annað, þá áskil ég mér auðvitað rétt til þess að taka þau rök til greina, — Hver heiðarlegur maður vill hlusta á þá, sem hann er að ræða við, þá, sem hann á að taka ákvörðun með, og taka fullt tillit til þeirra skoðana, eins og til þeirrar hliðar málsins, sem hann sjálfur og hjálparlaust kemst að niðurstöðu um. Ég tel mér þess vegna til sóma, að ég hafi oft lýst því yfir, að ég áskilji mér rétt til þess að skipta um skoðun, ef mínir samstarfsmenn færa fram rök, sem opna mér nýja innsýn í aðalhliðar málsins.

En ég endurtek: Það, sem hér er verið að ræða um, var afgr., og sjálfur forsrh. landsins verður að skilja, að það var afgr. innan hans eigin ríkisstj.

Hitt var gamanyrði, að hæstv. ráðh. sagðist oft hafa átt erfitt með að verja mínar skoðanir, enda hefði hann sjaldan gert það. Ég hef hins vegar oft mannskemmt mig á því að verja hans skoðanir, þegar við höfum verið saman í stjórn og niðurstaða stjórnarinnar hefur verið tekin á þá lund, sem mér hefur fallið miður. Þá hef ég oftast gert stjórnarinnar málstað að mínum málstað, og ég hef oft talið mig ábyrgan fyrir því, þegar ég er að tala á opinberum fundum, sem ég hefði sannast sagna kosið að hafa allt öðruvísi. En þannig hegða menn sér nú, a. m. k. sæmilegir menn, í samstarfi, og ég teldi, að núverandi hæstv. atvmrh. hefði gott af að leggja sér það á minnið, ekki sízt gagnvart sínum keppinaut í Suður-Múlasýslu, hæstv. fjmrh.

Hæstv, forsrh. sagði að lokum, að það hefðu verið mismunandi skoðanir í þessu máli, utanrrh. hefði verið á öðru máli og þar af leiðandi hefði verið tekin ákvörðun um frestun. Hann sagði, að það væri sanngjarnt í svo stóru máli, að þegar stjórnin næði ekki samstöðu, þá væri tekinn sá kostur að fresta ákvörðunum.

Það er einmitt það, sem ég er að segja, að þessa ákvörðun var búið að taka. Það var búið að taka ákvörðun um að fresta aðgerðum í málinu, þegar við vorum kvaddir á fundinn, og við vorum einvörðungu kallaðir á fundinn til þess að leggja blessun okkar yfir ákvörðun, sem búið var að taka. Þessum staðreyndum verður ekki haggað.

Hæstv. atvmrh. gerðist nú það göfugur allt í einu að segja frá því, að hæstv. utanrrh, hefði í raun og veru aldrei sagt neitt nei í þessu máli, það væru tóm ósannindi, helber ósannindi og óhróður, sem hans eigið blað æ ofan í æ hefur verið að bera á utanrrh., að aðgerðir hefðu stöðvazt vegna hnefans, sem hann hefði látið á borðið. Hæstv. ráðh. kom hér og sagði: Þetta er ósatt. Þjóðviljinn segir ósatt núna, eins og stundum áður. — Ég veit nú alls ekki, hvor er lygnari, ég bið afsökunar, hvor er ósannsögulli, Þjóðviljinn eða hæstv. ráðh., ég veit ekkert um það. En þeir segja a. m. k. nú hvor með sínum hætti frá málinu og alveg gagnstætt, — ráðh. gagnstætt því, sem Þjóðviljinn segir, af því að það hentaði honum nú, að utanrrh. hefði ekkert nei sagt. En ég spyr þá eins og hv. 1. þm. Reykv.: Ef það er satt, að þessi hæstv. ráðh., atvmrh., hafi endilega viljað færa út landhelgina 1. okt., og ef það er rétt, að utanrrh. hafi ekkert nei sagt í þessum efnum, hver var það þá, sem hindraði hann í að gera þetta, því að, að lögum hefur hann valdið?

Það eru óþægilegar spurningar, sem þessi hæstv. ráðh. fær. En hann getur ekki heldur búizt við neinu öðru, þegar málstaðurinn er sá, sem hann er, og ekki nein hreinskilni þá til að játa á sig sakirnar.

Hæstv. ráðh. spurði að lokum, hvort við vildum ekki skýra frá, hver væri okkar stefna í þessu máli. Varðandi tímann um að hefja aðgerðir, þá er það náttúrlega liðið hjá, einfaldlega vegna þess, að ef við nú, þegar ráðstefnan er byrjuð og við erum búin að senda okkar fulltrúa og ætlum að borga farareyri undir tvo ráðh. þangað, sem raunar fara til þess að passa hvor upp á annan, ef eitthvað skyldi takast okkur í vil á ráðstefnunni, — ef við nú, þegar við erum búin að senda fulltrúa á ráðstefnuna, hefjumst handa, þá gerum við okkur hlægilega. 1. okt. gátum við gert það, hefði stjórnin ekki verið búin að taka ákvörðun um, að það skyldi ekki gert, en í dag verðum við að fíflum, ef við gerum það.

En varðandi sjálfa efnishlið málsins, hvað við viljum, sjálfstæðismennirnir, í framtíðaraðgerðunum í landhelgismálinu, skal ég að lokum segja það, að í fyrsta lagi er nú búið að skipa nefnd allra flokka til að reyna að ná samstöðu um aðgerðirnar, og það væri þess vegna ekki hyggilegt af hæstv. ríkisstj., sem bæri þá að segja sinn vilja á undan okkur, að vera nú að tjá sig, þegar ráðstefnan er að byrja, sérstaklega ekki af því, að hún mun ekki vera búin að ná samkomulagi í málinu, og ég efast um, að hún hafi gefið sínum umboðsmönnum, sem á fundinn fara, nein fyrirmæli um, hvað þeir þar eigi að gera. Og ef ríkisstj, telur það málinu til miska að kveða upp úr um, hvað hún ætlar að gera, þá á hún ekki heldur að vera að heimta svör af öðrum, meðan svo stendur, enda sagði þessi ráðh. að lokum: Ég tel óheppilegt, að nú sé verið að ræða um þetta af Íslands hálfu. — M. ö. o.: í fyrstu skoraði hann á okkur, stærsta flokk landsins, að lýsa yfir okkar skoðunum, þegar ráðstefnan er að hefjast, en örfáum mínútum seinna lýsir hann því yfir, að ef við gerum þetta, sem hann er að biðja okkur um, þá séum við að skaða málið.

Þetta mál hefur verið borið fram til sigurs, mikils sigurs, árið 1952, og ég held ekki, að neinn hafi reynt að hafa af okkur sjálfstæðismönnum, að við áttum manna mest þátt í því, að málinu var fast fylgt eftir og árangur náðist. Þá var unninn sigur í málinu, sem er hinn veigamesti og ætti að auðvelda okkur stóra framtíðarsigra. Þá tókst með samstarfi þáverandi ríkisstj. og með heiðarlegum undirtektum annarra flokka eftir á að brjóta á bak aftur hina ensku biblíu, biblíu Englendinga og margra annarra um helgi þriggja mílna landhelginnar, að það væri heilagt boðorð, sem aldrei mætti brjóta. Það tókst að brjóta þessa skoðun á bak aftur. Það er miklu auðveldara, þegar nú er búið að fá viðurkenningu alheims fyrir að þessi regla sé hvorki heilög né algild, að sigla í kjölfarið. Það var með þögninni játað af umheiminum, að lítil þjóð ætti rétt til að lifa, líka Íslendingar. Það var með þögninni játað, að við Íslendingar gætum ekki lifað nema stækka landhelgina. Á grundvelli þessara játninga, að lítil þjóð megi lifa og að lítil þjóð, Íslendingar, geti ekki lifað nema stækka sína landhelgi, á ekki að vera annað eftir en að halda áfram að sanna, að sú friðun, sem við höfum, er of lítil. Að því viljum við sjálfstæðismenn vinna af heilum hug, líka með mönnum, sem við að öðru leyti ekki treystum. Þakka, herra forseti.