20.02.1958
Neðri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

Landhelgismálið

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Hv. þm. spurði enn einu sinni um það, hver það hefði raunverulega verið, sem hindrað hefði útfærslu landhelgislínunnar 1. okt. s. l., fyrst það hafi ekki verið utanrrh., sem stöðvaði málið.

Það hefur þegar verið upplýst hér, að ástæðan var sú, sem ég tók skýrt fram á þeim sameiginlega fundi, sem ríkisstj. hélt með fulltrúum sjálfstæðismanna, að mín afstaða var sú, að ég vildi freista þess að fá sem víðtækasta samstöðu. Það var ekki hægt að fá neina samstöðu af hálfu sjálfstæðismanna, og það hafði komið fram, bæði meðal ráðunauta ríkisstj. og innan ríkisstj., að skoðanir manna voru ekki á einn veg, og af þessari ástæðu einni saman var það mín ákvörðun auðvitað að bíða með framkvæmdina. Ég vildi ekki eiga á hættu að hefja framkvæmdir um þetta leyti, fyrst ekki var hægt að skapa samstöðu um málið.

En ég vildi spyrja þennan hv. þm.: Hver var það, sem hindraði það, að hann færði út landhelgina, allan þann tíma, sem hann gegndi ráðherrastarfi sjútvmrh.? Hver var það, sem hindraði hann í því, sem notar þau vinnubrögð, að hann spyr hvorki Pétur né Pál um það, sem hann vill gera? Hver var það, sem hindraði hann í því árið áður, en hann lét af störfum, að færa út landhelgislínuna? Var það kannske það, að hann vildi ekki færa hana út? Var það það? Hvað gat það verið, sem hindraði hann?

Nei, það var, eins og ég hef lýst hér áður yfir í umr., það var vegna þess, að það hefur verið skoðun hans, — ég vil ekki ætla honum þá skoðun, að hann sé á móti því, að landhelgin verði stækkuð, — heldur var það vegna þess, að skoðun hans var sú, eins og hún er í dag, að við ættum að bíða eftir alþjóðaráðstefnunum, og hann var að bíða eftir þeim. Það var ástæðan. En hann hefur ekki haft kjark í sér, a. m. k. síðan hann kom í stjórnarandstöðu, til þess að játa þessa staðreynd, (Grípið fram í.) Já, og hann telur sig þó sjálfan kjarkmann.

En það var aftur athyglisvert, að formaður Sjálfstfl., sem nú hefur haldið uppi deilum um það, hvernig staðið hefur verið að þessu máli, segir nú: Ef við færum að færa út landhelgislínuna nú, þá værum við álitnir fífl. — Það leynir sér þá ekki, að hann er á þeirri skoðun auðvitað, að við eigum að bíða fram yfir þessa landhelgismálaráðstefnu. (ÓTh: Sagði hann nokkuð meira?) Já, hann sagði sitt hvað meira. En sem sagt það, sem hann hefur yfirleitt sagt í þessu máli, eins og flokkur hans, síðan hann komst í stjórnarandstöðu, það er þetta, að hann segir: Þetta er vitlaust gert. Þetta er ómögulegt hjá stjórninni, vitlaus stefna í efnahagsmálunum, ómögulega unnið að landhelgismálunum, en það kemur ekki til mála, að við segjum, hver er stefna Sjálfstfl. Það kemur ekki til mála. Stefnu hefur flokkurinn enga. Hann veit ekkert, hvað hann vill, en hann skal deila á allt, hvað sem fram kemur. (Gripið fram í.) Ja, stefna stjórnarinnar er ákveðin, eins og hér hefur verið lýst, og hún hefur þegar komið sér saman um þann tíma, sem hún mun velja, jafnvel þó að Sjálfstfl. kjósi að reyna að verða þá á móti. Það er búið að freista þess, eins og hægt er, að hafa hann í samstarfi, en það verður þá að taka því, eins og það er, ef hann vill vera einn á móti.

Svo var hv. 1. þm. Reykv. að koma hér fram með fyrirspurn til mín um það, hvort ég vildi gefa hér einhverja yfirlýsingu um, hvernig ríkisstj. ætlaði að taka þeim ákvörðunum, sem kynnu að koma fram á landhelgismálaráðstefnunni, og hvort við ætluðum yfirleitt að fara eftir þeim að einhverju leyti eða engu leyti. Ég vænti nú, að það sjái allir og skilji, sem hugsa eitthvað út í þessi mál, að það væri í mesta máta óeðlilegt að fara að gefa nokkrar yfirlýsingar um afstöðu íslenzku ríkisstj. til ráðstefnunnar þannig fyrir fram. Hitt fer ekkert á milli mála og hefur ekki verið dregin nein dul á, ég hef sagt það sem mína skoðun, skrifað Sjálfstfl. bréf um það og lýst því yfir bæði hér á Alþingi og annars staðar, að mín skoðun hefur verið sú og er sú, að við höfum bæði rétt og aðstöðu til þess að stækka okkar friðunarsvæði í kringum landið, án þess að við þurfum að vera að bíða eftir alþjóðlegum ráðstefnum. En ég set það þó ekki fyrir mig að bíða í nokkra mánuði eftir slíkum ráðstefnum, ef það mætti skapa sterkari aðstöðu um framkvæmd málsins hér heima fyrir.

En það er svo auðvitað málefni út af fyrir sig, sem væri full ástæða til þess að ræða, en ekki rétt að gera það á þessu stigi, málflutningur sjálfstæðismanna, þegar þeir eru alltaf að tala um, að aðrir menn séu ósannsöglir, og þeir eru að tala um, að aðrir flokkar og menn sýni dónaskap. Ja, þeir geta djarft um talað, þeir, sem hafa haldið þannig á máli sínu eins og sannazt hefur nú í þessu máli. En ég ætla, að það þurfi í rauninni ekki að fara mörgum orðum um það, að í því hafa a. m. k. formaður Sjálfstfl. og 1. þm. Reykv. ekki af miklu að státa í samanburði við aðra.

Ég vil samt, eins og ég hef sagt hér áður, freista þess að hafa fulltrúa frá sjálfstæðismönnum með í ráðum. En það er mikill misskilningur hjá þeim, ef þeir halda, að þessi fjögurra manna nefnd, sem nú hefur verið rætt um að setja niður milli flokkanna, eigi að vinna eitthvert grundvallandi verk í sambandi við ákvörðun landhelgislínunnar. Þar er, eins og er skýrt fram tekið, ætlazt til þess fyrst og fremst að samræma sjónarmið þau, sem sannarlega hafa verið tekin til greina og liggja allskýrt fyrir. Aðalatriðin hafa verið unnin í þessum efnum, en vissulega er rétt að reyna að fá samkomulag og víkja þar nokkuð til hver fyrir öðrum í hinum smærri atriðum. En aðalatriðin hafa verið ákveðin, og ég trúi því varla, fyrr en á hólminn kemur a. m. k., að það geti verið verulegur ágreiningur um útfærsluna í hinum stóru atriðum.