18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

73. mál, kosningar til Alþingis

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. — Hv. 1, þm. Eyf. (BSt) ræddi hér áðan nokkuð um brtt. frá hv. þm. V-Sk. (JK). Hann fór viðurkenningarorðum um báðar till. og taldi þær að efni til sanngjarnar, en þó óþarfar vegna þess, að í kosningalögum væri ákvæði, sem tæki af allan vafa í þessu efni, sama árangri mætti því ná að óbreyttum kosningalögum. Ég hef kosningalögin að vísu ekki hér við höndina og get þess vegna ekki lesið upp úr þeim, en ég hermi það eftir minni, að í kosningalögunum sé orðað eitthvað á þá leið, að ef kosning ferst fyrir, þá sé heimilt að ákveða kosningu síðar, eins og hv. 1. þm. Eyf. gerði grein fyrir. Ég vil vekja athygli á því, að þetta er ekki það sama og greinir í varatill. frá hv, þm, V-Sk. Ég lít svo á, að þegar kosning ferst fyrir, þá sé átt við það, að kosning fari alls ekki fram, hefjist yfirleitt ekki sökum óveðurs eða einhverra annarra orsaka. En í varatill., sem hér liggur fyrir, er hins vegar átt við það, að verulega hafi dregið úr kjörsókn sökum óveðurs eða af öðrum orsökum. Þess vegna tel ég þessar till. alls ekki sama efnis.

Nú má vel vera, að það sé sanngjarnt að hafa kjördaga tvo. Þó tel ég það ekki vera nauðsynlegt í öllum tilfellum. Hins vegar finnst mér varatill. hv. þm. V-Sk. mjög sanngjörn, og þar sem ekki er að minni þekkingu neitt ákvæði í kosningalögunum hliðstætt henni, þá álit ég hana koma mjög vel til greina, og þar sem hún er auk þess sanngjörn, þá legg ég til, að hún verði samþykkt.