10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

Bréfaskipti forsætisráðherra Sovétríkjanna og Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er alveg óhætt að gefa hv. 1. þm. Reykv. þau meðmæli, sem hann hefur almenna viðurkenningu fyrir hjá sínum andstæðingum, að honum er lagið að finna atriði, hvort sem þau eru í bréfum eða greinum, til þess að snúa út úr þeim og er líklega einhver fremsti maður á Íslandi í útúrsnúningum. Raunverulega þarf ég ekki öðru að svara en því, að það er ekki um auðugan garð að gresja í bréfinu, sem hér liggur fyrir til umr., þegar hv. 1. þm. Reykv. finnur ekki annað en það, sem hann benti á og ég ætla nú að undirstrika hvað er lítilfjörlegt. Það er það eina, sem hann finnur.

Hann endaði ræðu sína á því, að við vildum ekki ræða um utanríkismálin, vegna þess að við vildum dylja ósamkomulagið í utanríkismálunum. Hverjum dettur í hug, að hægt sé að dylja ósamkomulag í utanríkismálum? Það leynir sér ekki og hefur aldrei leynt sér, ekki við atkvgr. 28. marz og aldrei svo að segja fyrr, þegar atkvgr. hefur átt sér stað um utanríkismál hér í þinginu, og aldrei síðar og aldrei í blöðum. Það er vitað mál, að það hefur komið fram, að Sjálfstfl. vill hafa hér her og herstöðvar, jafnvel þó að það líti nokkuð friðsamlega út, metur það öðruvísi en Framsfl., eins og kom fram í atkvgr. 28. marz. Framsfl. vill standa við sína samninga, sem hann gerði ásamt öðrum, þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið, að hér sé her á friðartímum. Og þriðja stefnan er sú, sem er hjá Alþb., að það vill alls ekki hafa herinn hér undir neinum kringumstæðum og vill ekki hafa samstarf við NATO samkvæmt atkvgr. 28. marz. Þetta liggur ljóst fyrir. Þetta eru stefnurnar. Það er vitað mál, að þær eru ríkjandi í flokkunum, og er ekki verið nokkurn skapaðan hlut að fela.

Hann sagði, að ég hefði breytt um stefnu, frá því að ég greiddi atkv. um Atlantshafsbandalagið. Ég sagði frá því, af hvaða ástæðum það var, og það mun ekki leyna sér í þingskjölum, af hvaða ástæðum ég sat hjá við þá atkvgr. Það hefur verið tryggt með samningum eða milliríkjanótum, að herinn fer héðan, hvenær sem Íslendingar óska þess, og ég er ekki í neinum vafa um það, að við það verður staðið, hvenær sem Íslendingar sjá sér fært vegna ástandsins í alþjóðamálum að krefjast þess.

Þá gerði hann að umræðuefni tryggt hlutleysi Íslands. Ég held nú, að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, — hann sagði, að þessu hefði ekki verið svarað áður, — að við höfum ekki sjaldnar en þrisvar sinnum, tekið afstöðu til þess, að við erum ekki hlutlausir. Hann sagði, að það væri hlutleysi í annarri merkingu, en venjulega hefði verið talað um. En það fylgdi nú tilboðinu um þetta hlutleysi, að herinn átti að fara héðan og leggja niður stöðvarnar að öllu leyti og væntanlega þá að rjúfa samninga við NATO, því að við erum bundnir þar enn, að því er a. m. k. flestir munu álíta, um tiltekinn árafjölda samkvæmt samningum, sem Alþ. hefur gert. Ég bjóst nú satt að segja ekki við því, að þessi stefna væri uppi, og skal játa, að hún kemur mér algerlega á óvart. Og ég vil spyrja hv. 1. þm. Reykv.: Vill hann leggja það til, að við segjum okkur úr NATO, vísum hernum úr landi og leggjum niður stöðvarnar og tökum upp umr. við Rússland og fleiri um verndað hlutleysi? Það er svo mikið víst, að það hefur verið tekin afstaða til þess gagnstæða með því að ganga í hernaðarbandalag, þó að varnarbandalag sé, alveg tvímælalaus, og þess vegna er búið að taka afstöðu til þessa hér áður. Það er þá breytt viðhorf, sem er náttúrlega hverjum og einum í sjálfsvald sett að koma fram með.

Hv. 1. þm. Reykv. getur vitanlega lagt hér fram tillögu og heimtað umræður um það, að við teljum okkur geta sagt upp samningum okkar við NATO, þó að það séu aðrar skoðanir uppi um það, hvað við séum þar bundin, og ég hef a. m. k, heyrt þær af hans eigin vörum áður, hvað samningurinn gilti til langs tíma að hans áliti, og yfirleitt sé ekki verulegur ágreiningur um það nú, og leggja þá þetta til, sem hann kom hér fram með. Það er aðeins skýrt frá því í bréfinu, að þetta er stefna ríkisstj. fram að þessum tíma. Við höfum tekið þessa afstöðu. Ef hann kemur með þetta í þinginu og fær það samþ., að það sé tekin upp önnur stefna, þá er það hægt hvenær sem er. Það er aðeins sagt, að Alþ. hafi tekið þessa afstöðu.

Ennþá lítilmótlegra verður þó það, sem hann gerði að ákaflega miklu atriði og — eins og oft vill verða — æsti sig upp, og það er furðulegt að geta æst sig upp út af atriði, sem er ekki stærra, en þetta. Hann segir, að það standi í bréfinu, að tillagan frá 28. marz hafi verið afturkölluð, en ég hafi sagt, að henni væri frestað, og las svo áfram: „Fresturinn verður stuttur eða langur eftir atvikum, eftir því, hvernig verður ástatt í alþjóðamálum.“ Þetta væri alveg ofboðslegt, að það skyldi ekki vera notað þarna orðið frestur, heldur afturköllun. Að vísu getur verið munur á þýðingu þessara orða, en ég býst við, að flestir sjái, að hann er ekki stór í þessu tilfelli. Að fresta um langan eða stuttan tíma var vitanlega ekki gert nema með samþykki okkar og eftir okkar ósk. Við vorum búin að biðja um annað. Það er því ekki frestað nema af því, að við óskum eftir frestinum, og hvort það er kallað frestur eða afturköllun, einkanlega þegar það er sagt, að fresturinn sé stuttur eða langur eftir því, hvernig ástandið verði í alþjóðamálum, þá sé ég nú satt að segja ekki, að það sé atriði til að gera að umræðuefni og sízt af öllu að æsa sig upp út af því, eins og það væri eitthvert stórt atriði, því að það munu flestir sjá, að svo er ekki.

Þá er um vaxandi ófriðarhættu. Jú, hann segir, að ég hafi notað þessi orð forsætisráðherrans rússneska. En sannleikurinn er sá, að ófriðarhættan er alltaf vaxandi eða minnkandi hjá hv. 1. þm. Reykv., nákvæmlega eftir því, sem hann þarf á að halda í hvert skipti, sem hann talar hér í þinginu. Þegar lítur friðsamlega út, þá er stundum allt logandi undir niðri, ólgandi undir niðri og getur blossað upp eldgosið hvenær sem er, þegar við erum að halda því fram, að það sé friðvænlegt. Aftur á móti ef við höldum því fram, að það sé ófriðvænlegt, þá verður það allt í einu friðvænlegt. Og nú er það þannig, að hann er ekki fyrr búinn að sleppa orðinu um, að það hafi þurft að athuga það, hvort við ættum ekki að losa okkur alveg úr NATO, segja upp samningum, sem kannske er ekki hægt að segja upp, losa okkur við herstöðvarnar og herinn, heldur en hann hefur það eftir Spaak framkvæmdastjóra, að hann segir, að friðarhorfurnar séu góðar og hann trúi ekki á heimsstyrjöld, og hann segir síðan: Vitanlega eru þessar friðarhorfur algerlega komnar undir því, hvort við m. a. viljum leggja það á okkur að hafa hér her og herstöðvar, þ. e. a. s. að hvergi verði slakað á. Þá er það allt í einu komið yfir í þann dúr, tillaga hans um tryggt hlutleysi, að hvergi megi slaka á, og á því byggist það, að friður haldist í heiminum.

Ég sagði í upphafi þessa máls, að hv. 1. þm. Reykv. er áreiðanlega allra manna fundvísastur á það, sem má snúa út úr. Þessi tvö atriði eru einu atriðin, sem hann hefur til þess að fetta fingur út í viðkomandi þessu bréfi, að það sé ekki í samræmi við það, sem er viðvíkjandi utanríkispólitík í okkar landi.