10.02.1958
Neðri deild: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

Bréfaskipti forsætisráðherra Sovétríkjanna og Íslands

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal leiða hjá mér allt karp við hæstv. forsrh. Hans málstaður og andlega sjónarsvið lýsir sér í því, að hann getur ekki talað um hin merkustu mál nema með karpi og persónulegum hnotabitum, sem að vísu engan saka, en eiga allra sízt við, þegar rædd eru mál eins og þessi.

Hæstv. ráðh. ber á móti því, að það sé verið að reyna að dylja ósamkomulag innan stjórnarinnar um utanríkismál, og segir: Það er vitað mál, að það er ósamkomulag um þessi mál. — En hvað segir málgagn hæstv. utanrrh. um þetta í gær, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðviljinn virðist ekki vera alls kostar ánægður með svarbréf Hermanns og lýsir yfir, að bréfið hafi ekki verið borið undir ríkisstj. alla og lýsi því aðeins einkaskoðun forsrh. Þetta er furðulegt, því að bréfið byggist efnislega á þeirri stefnu í utanríkismálum, sem ráðh. Alþb, undirrituðu í stjórnarsamningnum og fylgt hefur verið síðan. Stjórnarsamningurinn, sem Lúðvík Jósefsson og Hannibal Valdimarsson undirrituðu, er sannarlega ekki einkaskoðun forsrh.

Þetta stendur orðrétt í málgagni hæstv. utanrrh. um það, að kommúnistar til þess að geta verið í ríkisstj. hafi orðið að fallast á allt aðra skoðun í utanríkismálum, en þeir túlka í sínum blöðum. Og þó að ég geti fallizt á það, sem stendur í Þjóðviljanum í gær um siðleysi hæstv. forsrh., þá er það ekki síður siðleysi Þjóðviljans og kommúnista að ráðast þannig að sínum samstarfsmönnum fyrir þann verknað, sem þeir sjálfir bera ábyrgð á. Það hallast sem sagt ekki á hjá stjórnarliðinu, þegar um siðleysið er að ræða.

Hæstv. ráðh. segir, að ég hafi borið hér fram tillögu um það, að við gengjum úr Atlantshafslandalaginu. Ég vakti einungis athygli á því, að það fær ekki staðizt, sem hæstv. forsrh. heldur fram, og sannast sagt hlýtur maður nú að vorkenna manninum að lenda í slíkum rökþrotum sem hann gerði, þegar hann segir, að hér hafi ekki átt að taka afstöðu til neins nýs, þegar það liggur fyrir, að við höfum aldrei áður haft slíkt tilboð sem þetta, sem nú hefur verið hafnað af hæstv. ráðh.

Ég sagði í minni ræðu, að ég teldi það sennilega rétt ráðið að hafna tilboðinu. Það er mál fyrir sig. En það verður ekki umflúið, að það er alveg nýtt atriði, hvort við eigum að hafna slíku tilboði, vegna þess að það hefur aldrei fyrr komið fram. Það er alger nýjung í okkar stjórnmálum, og ég verð að segja það eins og er, að ég efast mjög um, þó að rétt kunni að vera að hafna tilboðinu og sennilega sé rétt að hafna tilboðinu, að rétt sé að gera það með þeim hætti, sem í þessu bréfi er gert. Það er áreiðanlega rangt að gera það að ekki viðhöfðum öðrum undirbúningi en átt hefur sér stað, þar sem lög hafa verið brotin af hæstv. ríkisstj. við meðferð málsins. En það er ákaflega vafasamt, hvort rétt er að hafna tilboðinu á þann veg, sem gert er, með því að taka einstakar setningar út úr bréfi hins rússneska forsætisráðherra, snúa sannast sagt út úr þeim, eftir því sem bréfsemjendunum þykir hlýða, og með því að segja svo meira og minna ósatt um höfuðatriði íslenzkra stjórnmála, þau sem mesta þýðingu hafa. Slík vinnubrögð verða okkur ekki til gagns né sæmdar gagnvart neinum þjóðum, og aðrir hættir eru vissulega betur lagaðir til þess að auka álit lítillar, fámennrar þjóðar heldur en slík vinnubrögð.

Vitanlega var það eina rétta að láta hafa samráð við utanrmn. um málið eða a. m. k. ræða það á lokuðum fundi Alþ. og knýja alþm. þannig til þess að taka afstöðu til málsins, gefa þeim færi á að bera ráð sín saman, hvort einhver ný atvik kynnu að gera það ráðlegt að íhuga málið nánar eða neita tilboðinu þegar í stað, eins og gert hefur verið. Það er algerlega rangt, að þó að málið hefði verið þannig tekið upp til þeirrar efnisathugunar, sem lög áskilja og velsæmi krefst, að ríkisstj. sýni, að af því hefði þurft að leiða, að við hefðum farið að brjóta samninga á Atlantshafsbandalaginu og annað slíkt. Það, sem til stendur með þeim fundi, sem nú á að fara að halda, hinna æðstu manna, er að semja um öll þessi mál á milli stórveldanna og allra aðila. Það er vegna þess, að það eru fyrirhugaðar breytingar á því valdafyrirkomulagi, sem verið hefur, og samningum, sem menn eru að tala um, að hinir æðstu menn þurfi að hittast, og vitanlega losum við okkur ekki við okkar skuldbindingar einhliða. En ef menn á annað borð telja, að slík hlutleysisyfirlýsing með tryggingu stórvelda komi til greina, þá var hún sjálfsagt umræðuefni í slíkum samningum.

En aðalatriðið er það, að ég gerist ekki talsmaður þess, að gengið sé að þessu tilboði, eins og ég veit að hæstv. forsrh, lætur nú fara að skrökva upp, heldur vek ég athygli á því, að hér er um algerlega nýtt atriði að ræða, og þess vegna, jafnvel miðað við rökstuðning hæstv, ráðh. sjálfs hér á Alþ. í dag og í Tímanum í gær, var sjálfsagt að bera málið undir utanrmn. og Alþingi, en það var vanrækt.

Varðandi hitt, hvort það skipti litlu máli, hvort viðræðum um endurskoðun varnarsamninganna hafi einungis verið frestað, eins og hæstv. ráðh. sagði í fyrra, eða beiðnin um endurskoðun hafi verið afturkölluð, eins og hann segir nú, þá spyr ég: Af hverju var þá lögð svo mikil áherzla á það í ræðu hans í fyrra og í frásögn Tímans, að það væri um frestun að ræða, en ekki afturköllun, ef það skipti engu máli? Var það ekki til þess að gera afturköllunarpilluna dálítið sætari, að þessu með frestunina var þá vafið utan um sem eins konar sykri? Og þá brugðust menn reiðir við, þegar ég og aðrir héldum því fram, að með þessu væri ályktunin frá 28. marz 1956 í raun og veru úr sögunni og efnislega afturkölluð. Þá var ráðizt á okkur fyrir að halda þessu fram. Nú er sagt, að hér sé bara um meinlausan orðaleik að ræða, sem enga þýðingu hafi. Nú er þetta orðaleikur, af því að það er búið að tryggja, að kommúnistar ætla að halda áfram að styðja hæstv. ráðherra, þennan siðlausa og fáfróða samningsrofa, sem þeir lýsa í blaði sínu í gær, hvað sem öllum ágreiningi í utanríkismálum líður. En þá vil ég leyfa mér að spyrja: Er enn búið að skipa þessa nefnd, var það ekki háttsettra manna, sem boðuð var í tilkynningunum í fyrra, og hverjir eru í þeirri n. og hversu marga fundi hefur sú n. haldið til þess að athuga heimsástandið síðan? Þá var okkur sagt, að hún ætti að vera vakandi, eins konar þriðja auga í þessum málum, sem ætti að tryggja hagsmuni Íslands. Það er þess vegna ekki alveg ófróðlegt að heyra, hverjir fengu þennan háttsetta stimpil á sig, hversu marga fundi þeir hafa haldið og önnur atriði varðandi það efni. Og það skyldi þó aldrei vera rétt, sem sagt er, að sá hernaðarsérfræðingur, sem Framsfl. hafi tilnefnt í n., sé Þórarinn Þórarinsson ritstjóri?